Ferill 366. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 366 . mál.


642. Frumvarp til laga



um náttúruvernd.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



Markmið náttúruverndar.


1. gr.


    Tilgangur þessara laga er að stuðla að samskiptum manns og náttúru, þannig að ekki spillist að óþörfu líf eða land, né mengist sjór, vatn eða andrúmsloft.
    Lögin eiga að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru eftir eigin lögmálum, en verndun þess sem þar er sérstætt eða sögulegt.
    Lögin eiga að auðvelda þjóðinni umgengni við náttúru landsins og auka kynni af henni.

2. gr.


    Með náttúruverndarsvæðum er í lögum þessum átt við friðlýst svæði, þ.e. náttúruvætti, friðlönd, þjóðgarða og fólkvanga, svo og svæði sem eru á náttúruminjaskrá. Til náttúruverndarsvæða teljast einnig afmörkuð svæði á landi og sjó sem njóta verndar samkvæmt öðrum lögum vegna náttúru eða landslags.
    Með náttúruminjum er átt við náttúruverndarsvæði, náttúruvætti, lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi sem friðlýst hafa verið eða ástæða er til að friðlýsa.

Stjórn náttúruverndarmála.


3. gr.


    Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn náttúruverndarmála.
    Við mótun stefnu í náttúruvernd og framkvæmdir og fræðslu á því sviði skal ráðherra hafa samráð við Náttúruvernd ríkisins, Náttúruverndarráð, Náttúrufræðistofnun Íslands, bændur og aðra landnotendur, sveitarstjórnir og samtök áhugamanna um náttúruvernd eftir því sem við á hverju sinni.

4. gr.


    Náttúruvernd ríkisins er ríkisstofnun undir yfirstjórn umhverfisráðherra.
    Umhverfisráðherra skipar að loknum alþingiskosningum Náttúruvernd ríkisins fimm manna stjórn. Þrír skulu skipaðir án tilnefningar, þar af formaður sérstaklega, einn samkvæmt tilnefningu Náttúruverndarráðs og einn samkvæmt tilnefningu samgönguráðherra. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Stjórnin fer með yfirstjórn Náttúruverndar ríkisins. Hún fjallar um starfs- og fjárhagsáætlanir hennar og hefur eftirlit með fjárreiðum og ráðstöfun fjár.
    Umhverfisráðherra skipar forstjóra Náttúruverndar ríkisins til fimm ára í senn að fengnum tillögum stjórnar. Hann skal hafa sérþekkingu sem nýtist honum í starfi. Forstjóri fer í umboði stjórnar Náttúruverndar ríkisins með daglega stjórn stofnunarinnar og hefur yfirumsjón með rekstri hennar. Forstjóri ræður aðra starfsmenn í samráði við stjórn stofnunarinnar.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um hlutverk og starfsskyldur forstjóra og stjórnar, svo og um innra skipulag stofnunarinnar.

5. gr.


    Hlutverk Náttúruverndar ríkisins er:
    umsjón, rekstur og eftirlit með náttúruverndarsvæðum í samræmi við lög,
    eftirlit með því að náttúru landsins sé ekki spillt með athöfnum, framkvæmdum eða rekstri, að svo miklu leyti sem slíkt eftirlit er ekki falið öðrum með sérstökum lögum; ráðherra skal, að höfðu samráði við aðrar stofnanir og aðila sem fara með eftirlit samkvæmt sérstökum lögum, setja í reglugerð nánari ákvæði um eftirlit stofnunarinnar,
    eftirlit með umferð og umgengni á svæðum í óbyggðum,
    undirbúningur að friðlýsingu svæða, umsjón með gerð verndaráætlana fyrir náttúruverndarsvæði og skráning náttúruminja,
    umsjón með gerð skipulagsáætlana fyrir náttúruverndarsvæði í hennar umsjá í samráði við skipulagsstjóra ríkisins,
    fræðsla á náttúruverndarsvæðum og almenn fræðsla um náttúruvernd, m.a. í fjölmiðlum,
    rekstur gestastofa á náttúruverndarsvæðum,
    álitsgerð vegna meiri háttar framkvæmda og rekstrar,
    friðunar- og uppgræðsluaðgerðir á sviði gróður- og skógverndar, sbr. 18. gr.,
    skýrslugerð til umhverfisráðherra um ástand náttúruverndarsvæða í umsjá stofnunarinnar, framkvæmdir á þeim o.fl. sem máli skiptir og varðar vörslu svæðanna,
    önnur störf að náttúruvernd samkvæmt ákvörðun ráðherra.

Umsjón og rekstur friðlýstra svæða.


6. gr.


    Náttúruvernd ríkisins hefur umsjón með náttúruverndarsvæðum. Ráðherra getur falið stofnuninni umsjón með öðrum svæðum sem sérstök þykja sakir landslags, gróðurfars eða dýralífs.
    Á náttúruverndarsvæðum starfa landverðir og aðrir starfsmenn. Hlutverk landvarða er m.a. að sjá um eftirlit og fræðslu. Umhverfisráðherra setur í reglugerð, að fengnum tillögum Náttúruverndar ríkisins, fyrirmæli um menntun og starfsskyldur þeirra sem starfa á náttúruverndarsvæðum.
    Náttúruvernd ríkisins getur falið einstaklingum eða lögaðilum umsjón og rekstur náttúruverndarsvæða að þjóðgörðum undanskildum. Gera skal sérstakan samning um umsjón og rekstur svæðanna sem ráðherra staðfestir. Í samningnum skal kveða á um réttindi og skyldur samningsaðila, mannvirkjagerð á svæðunum og aðrar framkvæmdir, landvörslu, menntun starfsmanna, móttöku ferðamanna, fræðslu og þjónustugjöld. Um ráðstöfun þjónustugjalda fer skv. 35. gr. Náttúruvernd ríkisins hefur eftirlit með því að umsjónar- og rekstraraðili uppfylli samningsskuldbindingar.

Rekstur þjóðgarða.


7. gr.


    Í hverjum þjóðgarði starfar þjóðgarðsvörður sem stjórn Náttúruverndar ríkisins ræður til fimm ára í senn að fengnum tillögum forstjóra stofnunarinnar. Þjóðgarðsverðir skulu hafa sérþekkingu á náttúrufræðum og reynslu sem nýtist þeim í starfi.
    Þjóðgarðsverðir annast daglegan rekstur þjóðgarða í umboði Náttúruverndar ríkisins. Þeir gera tillögur til stjórnar stofnunarinnar um rekstur og fyrirkomulag þjóðgarða. Náttúruvernd ríkisins getur falið þjóðgarðsvörðum eftirlit og umsjón á öðrum svæðum sem stofnunin ber ábyrgð á.

Gestastofur.


8. gr.


    Náttúruvernd ríkisins er heimilt að stofna og reka gestastofur á náttúruverndarsvæðum eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni. Hafa skal samstarf við náttúrustofur sveitarfélaga, sbr. lög nr. 60/1992, um rekstur gestastofa þegar við á. Gera skal sérstakan samning um samstarfið sem umhverfisráðherra staðfestir.
    Náttúruvernd ríkisins getur falið sveitarfélögum eða héraðsnefndum umsjón og rekstur gestastofa. Um slíkt skal gera sérstakan samning sem umhverfisráðherra staðfestir.

Framkvæmd eftirlits.


9. gr.


    Náttúruvernd ríkisins er heimilt að fela náttúrustofum og náttúruverndarnefndum, sbr. 10. gr., að annast almennt eftirlit með náttúru landsins. Um slíkt skal gera samning sem umhverfisráðherra staðfestir. Í samningnum skal m.a. kveðið á um greiðslur fyrir eftirlitið, menntun eftirlitsmanna, skýrslugerð o.fl. sem máli skiptir.
    Nú telur Náttúruvernd ríkisins eða annar eftirlitsaðili skv. 1. mgr. nauðsynlegt að haldið verði uppi sérstöku eftirliti með framkvæmdum og skal þá gera um það samkomulag við framkvæmanda. Í samkomulaginu skal áætla kostnaðarliði eins og mögulegt er hverju sinni. Framkvæmanda ber að endurgreiða Náttúruvernd ríkisins eða öðrum eftirlitsaðila útlagðan kostnað vegna eftirlitsins. Rísi ágreiningur milli eftirlitsaðila og framkvæmanda um efni samkomulagsins eða greiðslur fyrir eftirlitið sker umhverfisráðherra úr.
    Að fengnum tillögum Náttúruverndar ríkisins setur ráðherra gjaldskrá um kostnað vegna eftirlits með mannvirkjagerð. Heimilt er Náttúruvernd ríkisins að innheimta útlagðan kostnað með fjárnámi.

Náttúruverndarnefndir.


10. gr.


    Á vegum hvers sveitarfélags eða héraðsnefndar skal starfa þriggja til sjö manna náttúruverndarnefnd. Sveitarstjórnir og héraðsnefndir ákveða fjölda nefndarmanna, kjósa þá til fjögurra ára, ákveða formann og setja nefndinni erindisbréf. Varamenn skulu kosnir með sama hætti. Sveitarstjórnir greiða þann kostnað sem hlýst af störfum náttúruverndarnefnda.
    Hlutverk náttúruverndarnefnda er að stuðla að náttúruvernd hver á sínu svæði, m.a. með fræðslu, umfjöllun um framkvæmdir og starfsemi sem líkleg er til þess að hafa áhrif á náttúruna og að gera tillögur um úrbætur til sveitarstjórna og Náttúruverndar ríkisins.
    Náttúruvernd ríkisins og fulltrúar náttúruverndarnefnda skulu halda a.m.k. einn sameiginlegan fund á ári.

Náttúruverndarráð.


11. gr.


    Náttúruverndarráð skal skipað níu mönnum. Umhverfisráðherra skipar sex þeirra í upphafi náttúruverndarþings, fimm að fengnum tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands, Háskóla Íslands, Bændasamtaka Íslands, Ferðamálaráðs og skipulagsstjóra ríkisins og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður ráðsins. Þrír skulu kosnir á náttúruverndarþingi, sbr. 13. gr. Varamenn skulu skipaðir og kosnir með sama hætti.
    Framlag, sbr. 3. gr. laga nr. 52/1989, rennur til rekstrar Náttúruverndarráðs. Annan kostnað, sem leiðir af starfsemi ráðsins, skal greiða úr ríkissjóði.

Hlutverk Náttúruverndarráðs.


12. gr.


    Náttúruverndarráð skal stuðla að almennri náttúruvernd og fjalla um hvaðeina sem lýtur að náttúruvernd á Íslandi. Náttúruverndarráð er umhverfisráðherra til ráðgjafar um náttúruverndarmál. Ráðið gerir tillögur til ráðherra um friðlýsingar og aðrar verndunaraðgerðir, svo og um svæði á náttúruminjaskrá og skal fjalla um skrána áður en hún er gefin út.
    Náttúruverndarráð skal gangast fyrir ráðstefnum og opinni umræðu um náttúruverndarmál. Ráðið tekur í störfum sínum mið af þróun náttúruverndar á alþjóðavettvangi.
    Náttúruverndarráð fer með vörslur Friðlýsingarsjóðs og er jafnframt stjórn sjóðsins. Að fenginni tillögu Náttúruverndarráðs setur ráðherra reglugerð um starfsemi Friðlýsingarsjóðs, úthlutanir úr honum o.fl.

Náttúruverndarþing.


13. gr.


    Umhverfisráðherra skal boða til náttúruverndarþings tvisvar á kjörtímabili, í fyrra skiptið að loknum alþingiskosningum og síðan tveimur árum síðar.
    Náttúruverndarþing er vettvangur þeirra sem fjalla um náttúruverndarmál. Á náttúruverndarþingi skulu eiga sæti, auk Náttúruverndarráðs, fulltrúar setra Náttúrufræðistofnunar Íslands, náttúrustofa, náttúruverndarnefnda, hagsmunaaðila, félagasamtaka og stofnana sem vinna að náttúruvernd, svo og aðrir sem ráðið telur rétt að eigi seturétt hverju sinni. Jafnframt skulu fulltrúar ráðuneyta og þingflokka á Alþingi, forstjórar Náttúruverndar ríkisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands, svo og þjóðgarðsverðir, eiga rétt til setu á þinginu með málfrelsi og tillögurétt.
    Hlutverk náttúruverndarþings er að fjalla um náttúruvernd og kjósa fulltrúa í Náttúruverndarráð. Ráðið skal undirbúa þingið og leggja fyrir það skýrslu um störf sín.
    Formaður Náttúruverndarráðs setur þingið og stýrir því uns það hefur kosið forseta. Þingið setur sér þingsköp. Náttúruverndarráð skal semja reglur fyrir hvert náttúruverndarþing þar sem kveðið er á um seturétt á þinginu, kjörgengi og kosningarrétt þingfulltrúa. Reglurnar skal auglýsa með fullnægjandi hætti fjórum vikum fyrir upphaf náttúruverndarþings. Verði ágreiningur um kjörgengi og kosningarrétt þingfulltrúa skal málum vísað til úrskurðar á þinginu sjálfu.
    Seta á náttúruverndarþingi er ólaunuð, en hlutaðeigandi aðilar greiða kostnað fulltrúa. Annar nauðsynlegur kostnaður af þinghaldinu greiðist úr ríkissjóði samkvæmt úrskurði umhverfisráðherra.

Aðgangur almennings að náttúru landsins,


umgengni, framkvæmdir o.fl.


14. gr.


    Almenningi er heimil för um landsvæði utan landareigna lögbýla, svo og dvöl á þessum svæðum í lögmætum tilgangi.
    Gangandi fólki er því aðeins heimil för um eignarlönd manna að þau séu óræktuð og ógirt og að dvöl manna þar hafi ekki í för með sér ónæði fyrir búpening né óhagræði fyrir rétthafa að landinu. Sé land girt þarf leyfi landeigenda til að ferðast um það eða dveljast á því. Sama gildir um ræktuð landsvæði.

15. gr.


    Almenningi er heimilt að lesa ber, sem vaxa villt, á óræktuðu landi, til neyslu á vettvangi.
    Öllum er heimil berjatínsla á landsvæðum utan landareigna lögbýla.
    Umhverfisráðherra er heimilt að leggja bann við notkun tækja eða verkfæra við berjatínslu ef uggvænt þykir að af þeim hljótist spjöll á gróðri.

16. gr.


    Öllum er skylt að sýna varúð svo að náttúru landsins sé ekki spillt að þarflausu. Spjöll á náttúru landsins, sem framin eru með ólögmætum hætti af ásetningi eða gáleysi, varða refsingu.
    Að fenginni tillögu Náttúruverndar ríkisins setur umhverfisráðherra reglugerð um akstur utan vega, umferð hesta, umgengni í óbyggðum, merkingu bílslóða og vega og leyfilegan öxulþunga vélknúinna ökutækja sem fara um óbyggð svæði. Þar sem hætta er á náttúruspjöllum er akstur utan vega og merktra slóða óheimill.
    Náttúruvernd ríkisins getur í verndarskyni tímabundið takmarkað umferð eða lokað svæðum í óbyggðum. Slíkar ákvarðanir skal umhverfisráðherra staðfesta og birta í Stjórnartíðindum.
    Á víðavangi er bannað að fleygja frá sér eða skilja eftir rusl sem er til hættu eða óprýði, svo og að bera rusl eða sorp í sjó, í fjörur eða á sjávarbakka, í ár eða árbakka, í læki eða á lækjarbakka. Skylt skal að ganga frá áningarstað og tjaldsvæði er menn hafa tekið sér úti í náttúrunni þannig að ekkert sé þar eftir skilið sem lýti umhverfið.
    Bannað er að safna rusli í hauga á almannafæri eða við alfaraleiðir. Skylt er að ganga svo frá sorphaugum að hvorki fjúki úr þeim né fljóti. Hreinsa má rusl á kostnað þess er sannur er að broti á þessum fyrirmælum.

17. gr.


    Ekki skal að óþörfu eyða eða spilla gróðri með mosa-, lyng- eða hrísrifi eða á annan hátt eða saurga vatnsból eða spilla vatni, hvort heldur er rennandi vatn í ám og lækjum eða í stöðuvötnum og brunnum. Nánari ákvæði um þetta skal umhverfisráðherra setja í reglugerð.

18. gr.


    Umhverfisráðherra getur í samráði við landbúnaðarráðherra ákveðið friðunar- og uppgræðsluaðgerðir á sviði gróður- og skógverndar.
    Náttúruvernd ríkisins skal ásamt Landgræðslu ríkisins vinna að gróðurvernd og hafa eftirlit með ástandi gróðurs. Slíkt eftirlit má þó fela gróðurverndarnefndum að fengnu samþykki umhverfisráðherra og landbúnaðarráðherra.
    Náttúruvernd ríkisins skal ásamt Skógrækt ríkisins vinna að verndun og eftirliti með náttúrulegum birkiskógum og skógum til útivistar.

19. gr.


    Hafi byggingar, skip í fjöru, bifreiðir eða áhöld eða mannvirki, þar á meðal girðingar, verið skilin eftir í hirðuleysi og grotni þar niður svo að telja verði til lýta eða spjalla á náttúru er eiganda skylt að fjarlægja það.
    Fari jörð í eyði er landeigenda skylt að ganga svo frá jarðarhúsum, girðingum, brunnum og öðrum mannvirkjum að ekki valdi hættu fyrir fólk og skepnur né valdi náttúruspjöllum eða sé til lýta.
    Sveitarstjórn skal annast framkvæmdir þær, sem nauðsynlegar eru samkvæmt fyrirmælum þessum, á kostnað þess er skylt var að annast þær en hefur látið það ógert.

20. gr.


    Við samkomustaði úti í náttúrunni, skemmtisvæði, garðlönd almennings og aðra þvílíka staði, sem almenningi er ætlað að safnast á, skal jafnan komið fyrir nauðsynlegum hreinlætistækjum áður en staðurinn er tekinn til afnota.

21. gr.


    Malarnám, sandnám, grjótnám, gjallnám og vikurnám er hverjum manni heimilt í landi sínu ef ekki gengur í berhögg við 22.–30. gr. Sveitarstjórn getur, að fenginni umsögn náttúruverndarnefndar, bannað jarðrask af þessum sökum ef hún telur hættu á að með því verði sérkennilegu landslagi eða merkum náttúruminjum raskað. Skjóta má ákvörðun sveitarstjórnar til umhverfisráðherra sem úrskurðar um málið að fenginni umsögn Náttúruverndar ríkisins.
    Í almenningum er bannað allt nám jarðefna er um getur í 1. mgr., nema til komi samþykki umhverfisráðherra eftir að hann hefur leitað umsagnar Náttúruverndar ríkisins.
    Um jarðefni til vega fer eftir vegalögum.

22. gr.


    Hafi jarðrask orðið við mannvirkjagerð, malarnám, sandnám, grjótnám, gjallnám, eða á annan hátt af mannavöldum, skal þeim er valdið hefur skylt að ganga frá því á snyrtilegan hátt. Náttúruvernd ríkisins getur sett fyrirmæli um hvernig við skal skilið og m.a. sett mönnum ákveðinn frest til að ljúka frágangi.

23. gr.


    Valdi fyrirhuguð mannvirkjagerð eða jarðrask hættu á því að landið breyti varanlega um svip eða að merkum náttúruminjum verði spillt er skylt að leita álits Náttúruverndar ríkisins áður en framkvæmdir hefjast.
    Ef það er vanrækt getur Náttúruvernd ríkisins krafist atbeina lögreglustjóra til varna því að verk verði hafið eða því fram haldið.
    Virkjanir, verksmiðjur og önnur stór mannvirki skulu hönnuð í samráði við Náttúruvernd ríkisins. Sama gildir um vegalagningu til slíkra mannvirkja.
    Nánari fyrirmæli samkvæmt þessari grein setur umhverfisráðherra í reglugerð.

24. gr.


    Óheimilt er að setja upp auglýsingar meðfram vegum eða annars staðar utan þéttbýlis. Þó er heimilt að setja upp látlausar auglýsingar um atvinnurekstur eða þjónustu eða vörur á eign þar sem slík starfsemi eða framleiðsla fer fram.
    Hvers konar áletranir á náttúrumyndanir eru óheimilar. Spjöld með leiðbeiningum fyrir vegfarendur, svo sem um leiðir, nöfn bæja, áningarstaði, þjóðgarða og friðunarsvæði, falla ekki undir ákvæði þessi.
    Umhverfisráðherra setur reglur um auglýsingar og leiðbeiningar samkvæmt þessari grein og úrskurðar um vafaatriði.

25. gr.


    Eigi má setja byggingar, girðingar né önnur mannvirki á sjávarströnd né á vatnsbakka og árbakka þannig að hindri frjálsa umferð fótgangandi manna. Ákvæði þessarar greinar eiga þó ekki við um þær byggingar eða þau mannvirki sem nauðsynleg eru vegna atvinnurekstrar, þar með talin íbúðarhús bænda, né þau sem reist eru með leyfi réttra yfirvalda á skipulögðum svæðum eða mannvirki sem reist hafa verið fyrir samþykkt þessara laga.

Friðlýsing náttúrumyndana.


26. gr.


    Umhverfisráðherra getur, að fengnum tillögum eða áliti Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndarráðs, friðlýst sérstæðar náttúrumyndanir, svo sem fossa, eldstöðvar, hella og dranga, svo og fundarstaði steingervinga og sjaldgæfra steintegunda, ef telja verður mikilvægt að varðveita þær sakir fræðilegs gildis þeirra, fegurðar eða sérkenna. Náttúrumyndanir, sem friðlýstar eru samkvæmt þessu ákvæði, nefnast náttúruvætti.
    Friðlýsa skal svæði í kringum náttúruvætti, svo sem nauðsynlegt er, til þess að þau fái notið sín, og skal þess greinilega getið í friðlýsingu og markað á staðnum.
    Friðlýstum náttúruvættum má enginn granda, spilla né breyta.

Friðlýsing lífvera, búsvæða þeirra og vistkerfa.


27. gr.


    Umhverfisráðherra getur, að fengnum tillögum eða áliti Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndarráðs, friðlýst lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi sem miklu skiptir frá náttúrufræðilegu eða öðru menningarlegu sjónarmiði að ekki sé raskað, fækkað eða útrýmt.
    Friðun getur ýmist verið staðbundin eða tekið til landsins alls.
    Ef ætla má að fyrirhugaðar framkvæmdir raski svo náttúrulegu umhverfi að hætta sé á að ákveðnar lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi eyðist eða verði fyrir verulegum skaða getur umhverfisráðherra látið friðlýsingu sína taka til banns við slíkum framkvæmdum, enda sé áður fengin umsögn Náttúruverndar ríkisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Friðlýsing landsvæða.


28. gr.


    Umhverfisráðherra getur, að fengnum tillögum eða áliti Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndarráðs, friðað í heild landsvæði sem mikilvægt er að varðveita sakir sérstaks landslags, gróðurfars eða dýralífs, og nefnast þau landsvæði friðlönd. Má þar ekki raska náttúrufari né gera mannvirki sem spilla svip landsins. Í friðlýsingu skal nánar kveðið á um hversu víðtæk friðunin er, að hve miklu leyti framkvæmdir á landinu eru takmarkaðar umferð og umferðarrétt almennings og notkun veiðiréttar. Þá mega og fylgja friðlýsingu fyrirmæli um nauðsynlegar aðgerðir til þess að almenningur njóti svæðisins, svo sem um lagningu göngustíga, girðingar og þess háttar.
    Friðlöndum má enginn, hvorki landeigendur, ábúendur né aðrir, raska að því leyti sem fyrirmæli friðlýsingarinnar taka til.
    Umhverfisráðherra getur veitt undanþágu frá settum fyrirmælum í friðlýsingu ef ástæður eru fyrir hendi.

Stofnun þjóðgarða.


29. gr.


    Umhverfisráðherra getur, að fengnum tillögum eða áliti Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndarráðs, lýst landsvæði þjóðgarð, enda sé það sérstætt um landslag, gróðurfar eða dýralíf eða á því hvílir söguleg helgi þannig að ástæða sé til að varðveita það með náttúrufari sínu og leyfa almenningi aðgang að því eftir tilteknum reglum.
    Landsvæði þjóðgarða skulu vera í ríkiseign nema sérstakar ástæður mæli með öðru og um það náist samkomulag milli umhverfisráðherra og landeigenda.
    Ráðherra er heimilt að stofna ráðgjafarnefnd með þátttöku hlutaðeigandi sveitarstjórna til að fjalla um rekstur og skipulag þjóðgarða.
    Umhverfisráðherra setur, að fenginni tillögu Náttúruverndar ríkisins, reglugerð um meðferð og rekstur þjóðgarða og umgengni almennings.

Stofnun og rekstur fólkvanga.


30. gr.


    Nú óskar eitt sveitarfélag eða fleiri að tiltekið svæði verði lýst fólkvangur, og skal það eða þau þá bera fram ósk til Náttúruverndar ríkisins um slíkt. Skal gerð grein fyrir mörkum fólkvangsins og hvaða takmarkanir ákvörðun um fólkvang kunni að setja umráðarétti eigenda lands sem um er að ræða og annað er máli skiptir.
    Ef Náttúruvernd ríkisins getur á tillöguna fallist skal það tilkynnt í Lögbirtingablaði, svo og með þeim hætti sem venja er að birta stjórnvaldaauglýsingar á viðkomandi stað, að fyrirhuguð sé stofnun fólkvangs með tilteknum mörkum. Þar skal og nánar gerð grein fyrir hugsanlegum takmörkunum á umráðarétti landeigenda. Jafnframt skal tekið fram að þeir sem geri ekki athugasemdir við stofnun fólkvangs innan tiltekins frests, sem má ekki vera skemmri en átta vikur, teljist samþykkja þá ákvörðun og fyrirgeri þar með hugsanlegum rétti til bóta.
    Þegar frestur skv. 2. mgr. er liðinn skal Náttúruvernd ríkisins ákveða hvort athugasemdir, er kunna að hafa borist, séu svo veigamiklar að ástæða sé til að breyta upphaflegri fyrirætlun eða hverfa frá henni. Gefa skal fulltrúum sveitarfélaga, sem um ræðir í 1. mgr., kost á að vera viðstaddir þegar um þessi mál verður fjallað.
    Ef Náttúruvernd ríkisins og fulltrúar sveitarfélaga, sem í hlut eiga, verða sammála um að haldið verði fast við ákvörðun um stofnun fólkvangs, breytta eða óbreytta, skal umhverfisráðherra hlutast til um að dómkvaddir verði matsmenn til meta bætur fyrir tjón er aðilar, sem athugasemdir gera, sbr. 2. mgr., kunna að verða fyrir við stofnun fólkvangs. Um framkvæmd mats fer samkvæmt lögum nr. 11/1973.
    Þegar endanlegt mat liggur fyrir skal kannað hvort hlutaðeigandi sveitarfélög óska eftir að formleg ákvörðun verði tekin um stofnun fólkvangs. Ef þau óska slíks og umhverfisráðherra samþykkir skal hann birta ákvörðun um stofnun fólkvangsins í Stjórnartíðindum.
    Sveitarfélög, sem hlut eiga að máli, bera allan kostnað sem beinlínis leiðir af stofnun og rekstri fólkvangs að því leyti sem ekki koma til framlög úr ríkissjóði, og skal þeim kostnaði skipt í hlutfalli við íbúatölu sveitarfélaganna næsta ár á undan. Ef sveitarfélag hættir þátttöku í undirbúningi að stofnun fólkvangs er því skylt að greiða áfallinn kostnað hlutfallslega.
    Sveitarfélög, sem standa að rekstri fólkvangs, stofna með sér samvinnunefnd er starfar í samráði við Náttúruvernd ríkisins. Í samvinnusamningi skal kveðið á um fjölda nefndarmanna og starfshætti nefndarinnar. Ef ekki er öðruvísi ákveðið ræður afl atkvæða. Þegar um er að ræða atriði sem hafa sérstakan kostnað í för með sér fer þó um atkvæðisrétt eftir greiðsluhlutföllum aðila.
    Nú rís ágreiningur um skilning á grein þessari eða upp koma sérstök vafaatriði sem snerta rekstur fólkvangs, og sker þá umhverfisráðherra úr.

Önnur útivistarsvæði.


31. gr.


    Til stuðnings við útivist getur Náttúruvernd ríkisins eða náttúruverndarnefndir gengist fyrir að halda opnum göngustígum, strandsvæðum til sjóbaða, vatnsbökkum og öðrum stígum og svæðum sem ástæða er til að halda opnum til að greiða fyrir því að almenningur fái notið náttúrunnar; enn fremur sett upp göngubrýr og girðingarstiga og afmarkað tjaldsvæði og gert annað það er þurfa þykir í þessu skyni.
    Framkvæmdir samkvæmt þessari grein skulu einungis gerðar með samþykki landeigenda.

Náttúruminjaskrá.


32. gr.


    Umhverfisráðherra gefur út náttúruminjaskrá fjórða hvert ár og auglýsir hana í Stjórnartíðindum.
    Náttúruvernd ríkisins skal í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands sjá um öflun gagna og skráningu í náttúruminjaskrá og undirbúa útgáfu hennar. Í skránni skulu vera upplýsingar um öll náttúruverndarsvæði landsins, náttúrumyndanir, lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi sem friðlýst hafa verið samkvæmt lögum þessum. Jafnframt skal skrá náttúrumyndanir, lönd og lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi sem æskilegt er að friðlýsa.
    Umhverfisráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um skráningu náttúruminja.

Framkvæmd friðlýsingar.


33. gr.


    Ef umhverfisráðherra telur ástæðu til friðlýsingar eða annarra náttúruverndaraðgerða samkvæmt lögum þessum skal hann fela Náttúruvernd ríkisins að freista þess að komast að samkomulagi við landeigendur, sveitarstjórnir og aðra er hagsmuna eiga að gæta. Verði samkomulag skal það fært til bókar og staðfest af hlutaðeigandi aðilum.
    Ákveði umhverfisráðherra friðlýsingu og liggi ekki þegar fyrir samþykki eigenda eða annarra rétthafa eða sveitarfélags þess er hlut á að máli skal Náttúruvernd ríkisins semja tillögu að friðlýsingunni.
    Tillagan skal send landeigendum, ábúendum og öðrum rétthöfum er friðlýsing snertir, svo og sveitarfélögum. Skal þeim gefinn kostur á að gera athugasemdir við friðlýsinguna, koma að mótmælum eða gera bótakröfur til umhverfisráðherra innan fjögurrra mánaða. Jafnframt skal í tillögunni tekið fram að berist kröfur ekki innan þess tíma verði þær ekki teknar til greina í friðlýsingunni.
    Berist mótmæli gegn friðlýsingu eða bótakröfur vegna hennar getur umhverfisráðherra reynt samninga á ný um bótakröfurnar og breytt friðlýsingunni í samræmi við mótmælin, enda skerði breytingin í engu rétt annarra.
    Þegar tekin hefur verið fullnaðarákvörðun um friðlýsingar og friðunarákvæði birtir umhverfisráðherra þau í Stjórnartíðindum og taka þau gildi frá þeim degi sem þau eru birt. Þau skulu og fest upp á staðnum eftir því sem við verður komið og nauðsynlegt er að mati Náttúruverndar ríkisins.

Ýmis ákvæði.


34. gr.


    Kostnaður við framkvæmd laga þessara skal greiddur úr ríkissjóði eftir því sem fé er til þess veitt á fjárlögum.

35. gr.


    Náttúruvernd ríkisins getur ákveðið gjald fyrir veitta þjónustu stofnunarinnar. Þá getur Náttúruvernd ríkisins enn fremur ákveðið gjald fyrir aðgang að náttúruverndarsvæðum þar sem spjöll hafa orðið af völdum ferðamanna eða hætta er á slíkum spjöllum.
    Tekjum skv. 1. mgr. skal varið til eftirlits, lagfæringar eða uppbyggingar á sama svæði og þeirra var aflað.

36. gr.


    Um sölu jarðar, sem öll eða að hluta hefur verið sett á náttúruminjaskrá skv. 32. gr., fer eftir ákvæðum laga nr. 65/1976 en þó þannig að ríkissjóður skal hafa forkaupsrétt að þeim aðilum frágengnum sem hann er veittur með þeim lögum.

37. gr.


    Umhverfisráðherra er heimilt að taka eignarnámi lönd, mannvirki og réttindi til þess að framkvæma friðlýsingu er í lögum þessum greinir.

38. gr.


    Hver sá er fyrir fjártjóni verður vegna framkvæmdar á framangreindum ákvæðum á rétt til skaðabóta úr ríkissjóði. Ef samkomulag næst ekki um bætur skulu þær ákveðnar í samræmi við ákvæði laga nr. 11/1973.

39. gr.


    Brot gegn lögum þessum og reglum, er settar eru samkvæmt þeim, varða sektum eða varðhaldi. Sektir renna í ríkissjóð.
    Beita má dagsektum er renna í ríkissjóð til að knýja menn til framkvæmda á ráðstöfunum sem þeim er skylt að hlutast til um samkvæmt lögunum eða til þess að láta af atferli sem er ólögmætt. Hámark dagsekta skal ákveða í reglugerð.
    Umhverfisráðherra skal setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.

40. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 47/1971, um náttúruvernd.
    Lög nr. 59/1928, um friðun Þingvalla, halda gildi sínu þrátt fyrir gildistöku laga þessara.

Breyting á öðrum lögum.


41. gr.


    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     Lög um bann gegn jarðraski, nr. 123/1940, ásamt síðari breytingum: Í stað orðsins „náttúruverndarráðs“ í 2. gr. laganna kemur: Náttúruverndar ríkisins.
     Lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 36/1974, með síðari breytingum:
         
    
    Í stað orðsins „Náttúruverndarráðs“ í 1., 2. og 3. mgr. 3. gr. laganna kemur: Náttúruverndar ríkisins.
         
    
    4. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
                            Þá eru heimilar án sérstaks leyfis Náttúruverndar ríkisins byggingar samkvæmt staðfestu skipulagi, enda hafi stofnunin fallist á skipulagsáætlun þá sem um er að ræða.
         
    
    2. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Umhverfisráðherra skipar stjórn stöðvarinnar samkvæmt tilnefningum Náttúrufræðistofnunar Íslands, raunvísindadeildar Háskóla Íslands, hreppsnefndar Skútustaðahrepps, Landeigendafélags Laxár og Mývatns og Náttúruverndar ríkisins og skal fulltrúi hennar vera formaður stjórnar.
         
    
    Í stað orðanna „umhverfisráðuneytið setur, að fengnum tillögum Náttúruverndarráðs“ í 3. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna kemur: umhverfisráðherra setur, að fengnum tillögum stjórnar náttúrurannsóknastöðvarinnar.
         
    
    Í stað orðanna „Umhverfisráðuneytið setur, að fengnum tillögum heilbrigðisráðuneytisins og Náttúruverndarráðs“ í 1. málsl. 5. gr. laganna kemur: Umhverfisráðherra setur, að fengnum tillögum Hollustuverndar ríkisins og Náttúruverndar ríkisins.
         
    
    Í stað orðsins „Náttúruverndarráð“ í 6. gr. laganna kemur: Náttúruvernd ríkisins.
     Lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992: Í stað orðsins „Náttúruverndarráð“ í 5. mgr. 3. gr. laganna kemur: Náttúruvernd ríkisins.
     Lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994:
         
    
    Í stað orðsins „Náttúruverndarráði“ í 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: Náttúruvernd ríkisins.
         
    
    Í stað orðsins „Náttúruverndarráðs“ í 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: Náttúruverndar ríkisins.
     Lög um skipulag ferðamála, nr. 117/1994:
         
    
    Í stað orðsins „Náttúruverndarráð“ í 9. tölul. 7. gr. laganna kemur: Náttúruvernd ríkisins.
         
    
    Í stað orðanna „Náttúruverndarráðs nema samþykki þess komi til“ í 2. mgr. 30. gr. laganna kemur: Náttúruverndar ríkisins nema samþykki hennar komi til.
     Lög um vernd Breiðafjarðar, nr. 54/1995: Í stað orðsins „Náttúruverndarráð“ í 3. mgr. 4. gr. laganna kemur: Náttúruvernd ríkisins.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 40. gr. skal umhverfisráðherra þegar skipa stjórn Náttúruverndar ríkisins og skal hún undirbúa starfsemi stofnunarinnar.
    Reglugerð skv. b-lið 5. gr. skal öðlast gildi um leið og lög þessi.
    Ráðherra skal boða til fyrsta náttúruverndarþings, sbr. 13. gr., í janúar 1997. Náttúruverndarráð það sem lætur af störfum við gildistöku laga þessara skal undirbúa þingið.
    Lög þessi skal endurskoða í heild sinni innan tveggja ára frá gildistöku.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið af starfshópi sem umhverfisráðherra fól að endurskoða stjórnskipan náttúruverndarmála. Í starfshópnum áttu sæti Guðjón Ólafur Jónsson, aðstoðarmaður umhverfisráðherra, formaður, Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, og alþingismennirnir Árni M. Mathiesen og Valgerður Sverrisdóttir. Við vinnu sína studdist hópurinn m.a. við fyrri frumvörp um sama efni sem lögð voru fram á 117. og 118. löggjafarþingi og þær athugasemdir sem við þau voru gerðar.
    Lengi hefur verið talið brýnt að endurskoða lög um náttúruvernd. Umhverfisráðherra ákvað að skipta endurskoðuninni í tvennt, þ.e. að endurskoða annars vegar eingöngu stjórnskipulag náttúruverndarmála og hins vegar í síðari áfanga lögin í heild sinni og þar með efnisatriði þeirra.
    Frumvarp þetta felur í sér verulegar breytingar á stjórn náttúruverndarmála og örfáar efnisbreytingar á lögum um náttúruvernd. Þar sem um mjög viðamiklar breytingar er að ræða, sem snerta flestar greinar gildandi laga, þykir horfa til skilningsauka og einföldunar að leggja fram heildstætt frumvarp til nýrra náttúruverndarlaga.
    Allt frá stofnun umhverfisráðuneytis, sbr. lög nr. 3/1990, um breytingu á lögum nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, hefur verið ljóst að nauðsynlegt væri að breyta stjórnunarþætti laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, og aðlaga yfirstjórn og frumkvæði mála sem tilheyra málaflokknum að hlutverki umhverfisráðuneytis.
    Gildandi lög um náttúruvernd, nr. 47/1971, eru að stofni til frá árinu 1956, sbr. lög nr. 48/1956, um náttúruvernd, en það voru fyrstu almennu lögin um náttúruvernd hér á landi. Samkvæmt þeim var hlutverk Náttúruverndarráðs að mörgu leyti sambærilegt við hlutverk ráðsins samkvæmt núgildandi lögum þótt skipan þess væri með öðrum hætti. Hins vegar var hlutverk náttúruverndarnefnda töluvert annað og meira en lög nr. 47/1971 gera ráð fyrir og var nefndunum m.a. ætlað að undirbúa friðlýsingu landsvæða, hafa eftirlit með framkvæmdum o.fl.
    Stærsta breytingin á stjórn náttúruverndarmála með gildistöku laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, var stofnun náttúruverndarþings, en með því var tryggður umræðu- og samstarfsvettvangur áhugamanna um náttúruvernd og sérfræðinga á því sviði. Í ljósi þeirrar reynslu, sem þá var fengin af lögum nr. 48/1956, var dregið úr frumkvæðishlutverki náttúruverndarnefnda og það ýmist fengið sveitarstjórnum eða Náttúruverndarráði.
    Unnið hefur verið að endurskoðun laga um náttúruvernd um langt skeið. Menntamálaráðherra lagði t.d. fram á Alþingi á 107. löggjafarþingi 1984–85 frumvarp til laga um náttúruvernd sem samið var að tilstuðlan náttúruverndarþings og Náttúruverndarráðs. Það frumvarp varð ekki útrætt á því þingi og var ekki endurflutt. Náttúruverndarráð fjallaði á næstu árum þar á eftir ítarlega um framtíðarskipan náttúruverndarmála og varð sammála um að breytingar væru óumflýjanlegar í ljósi þeirrar þróunar sem átt hafði sér stað frá því að náttúruverndarlögin voru samþykkt árið 1971. Elín Pálmadóttir, þáverandi varaformaður Náttúruverndarráðs, kynnti tillögur ráðsins um breytingar á 6. náttúruverndarþingi 1987 fyrir hönd ráðsins og sagði þá m.a.:
    „Miðað við þau verkefni sem Náttúruverndarráð hefur lögum samkvæmt, sýnist tilurð þess orðin óeðlileg, þ.e. þetta blandaða kjör þar sem ráðherra skipar formann og varaformann og frjáls félög, sín úr hverri áttinni, auk náttúruverndarnefndanna, kjósa sex fulltrúa sína. Þegar til daglegra vinnubragða kemur er ráðinu svo ætlað að starfa á ábyrgð ráðherra. Það hefur vissa ábyrgð gagnvart stefnu ríkisstjórnarinnar og framkvæmd hennar, eins og hún er hjá ríkisstjórn hverju sinni. Náttúruverndarráð er rekið í umboði ráðherra og fyrir fé úr ríkissjóði. Það getur ekki eðli sínu samkvæmt starfað sem frjálst félag þótt meiri hluti ráðsmanna taki umboð sitt úr þeirri átt og við höfum orðið vör við þennan tvískinnung, t.d. í hvalamálinu. Stjórnskipulega er Náttúruverndarráð því hálfgerður bastarður. Raunar voru strax skiptar skoðanir um þetta fyrirkomulag 1971, enda hvergi verið tekið upp síðan. Við teljum farsælla að greina þarna á milli. Rekstur verði skilvirkari með því að vera ráðuneytisdeild er veiti um leið meira svigrúm fyrir frjálsu félögin sem eðlilega hafa tilhneigingu til að telja málin alfarið í verkahring Náttúruverndarráðs og það dregið kraftinn úr þeim. Auk þess sem sífellt er verið að rugla þessum aðilum og störfum þeirra saman. Uppstokkun á verktilhögun og vinnubrögðum er því að okkar dómi löngu tímabær.“
    Á tímabilinu 1988–90 var lítið rætt um endurskoðun náttúruverndarlaga vegna umræðu um stofnun umhverfisráðuneytis. Eftir stofnun þess var þráðurinn tekinn upp að nýju og snemma árs 1991 ákvað Náttúruverndarráð að endurskoða verksvið sitt í ljósi breyttra aðstæðna og semja tillögu um nýja náttúruverndarstefnu. Í framhaldi af því kynnti Náttúruverndarráð drög að stefnu í náttúruvernd á 8. náttúruverndarþingi í október 1993 ásamt ítarlegri greinargerð.
    Á 117. löggjafarþingi 1993–94 var lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 47/1971, með síðari breytingum. Samkvæmt frumvarpinu var yfirstjórn náttúruverndarmála löguð að stofnun umhverfisráðuneytis og frumkvæði ýmissa verkefna færð frá Náttúruverndarráði til ráðuneytisins. Einnig voru nokkrar breytingar gerðar á hinum eiginlegu náttúruverndarreglum. Í frumvarpinu var lagt til að sérstök stofnun, Landvarsla ríkisins, yrði sett á laggirnar og átti hún að taka við rekstrarhlutverki Náttúruverndarráðs. Helsta hlutverk stofnarinnar samkvæmt frumvarpinu var að sjá um þjóðgarða og önnur friðlýst svæði og náttúruminjar, almennt eftirlit með náttúru landsins, svo og að hafa forgöngu um fræðslu. Náttúruverndarþing skyldi haldið annað hvert ár og átti það að kjósa fulltrúa í Náttúruverndarráð. Ráðið átti m.a. að vera stefnumarkandi í náttúruverndarmálum, stuðla að almennri náttúruvernd í landinu og vera stjórnvöldum til ráðgjafar um þau mál. Jafnframt skyldi Náttúruverndarráð hafa eftirlitshlutverki að gegna. Ekki voru lagðar til breytingar á hlutverki náttúruverndarnefnda. Frumvarp þetta varð ekki að lögum.
    Á 118. löggjafarþingi 1994 var framangreint frumvarp lagt fram að nýju að mestu óbreytt. Þó voru gerðar veigamiklar breytingar á hlutverki Náttúruverndarráðs og m.a. byggt á þeirri forsendu að Náttúruverndarráð sinnti ekki stjórnsýslu á vegum ríkisins þótt það yrði áfram á fjárlögum. Frumvarp þetta hlaut sömu örlög og það sem lagt var fram á 117. löggjafarþingi.
    Eins og fyrr greinir þykir löngu tímabært að endurskoða núgildandi lög vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á skipan náttúruverndarmála í stjórnkerfinu. Enn fremur hafa orðið verulegar breytingar á viðhorfi fólks til náttúruverndar og ný löggjöf verið sett á undanförnum árum sem áhrif hefur á framkvæmd náttúruverndarmála. Má þar t.d. nefna lög nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, lög nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, lög nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, lög nr. 21/1993, um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál, lög nr. 63/1993, um mat á um hverfisáhrifum, og lög nr. 54/1995, um vernd Breiðafjarðar.
    Í því frumvarpi, sem hér er lagt fram, er lögð áhersla á að laga stjórn náttúruverndarmála að stofnun umhverfisráðuneytisins. Kveðið er skýrt á um yfirstjórn umhverfisráðherra og stofnun Náttúruverndar ríkisins sem verður undir yfirstjórn hans. Verkefni Náttúruverndarráðs færast til ráðherra og Náttúruverndar ríkisins, en ráðið verður til ráðgjafar og mun fjalla um hvaðeina er lýtur að náttúruvernd hér á landi.
    Umhverfisráðherra mun eins og áður sagði fara með yfirstjórn málaflokksins. Náttúruvernd ríkisins mun starfa undir yfirstjórn hans. Ráðherra mun skipa stofnuninni fimm manna stjórn, svo og forstjóra hennar til fimm ára í senn. Þá mun umhverfisráðherra skipa sex af níu mönnum í Náttúruverndarráð. Hann mun og boða til náttúruverndarþings í stað Náttúruverndarráðs eins og nú er. Í samræmi við eðlilega stjórnsýslu verður heimild til setningar reglugerða færð frá Náttúruverndarráði til ráðherra. Þá er enn fremur í frumvarpinu kveðið á um staðfestingu ráðherra á ýmiss konar samningum á sviði náttúruverndar. Heimild til friðlýsingar flyst frá Náttúruverndarráði til umhverfisráðherra. Þá mun ráðherra og gefa út náttúruminjaskrá fjórða hvert ár. Fullnaðarákvörðun um stofnun fólkvangs verður og á hendi ráðherra.
    Samkvæmt frumvarpinu verður sett á fót ný ríkisstofnun, Náttúruvernd ríkisins, sem mun að öðru leyti taka við daglegum rekstri og verkefnum Náttúruvermdarráðs. Náttúruvernd ríkisins verður þó byggð á gömlum grunni þar sem í raun er um að ræða skrifstofu Náttúruverndarráðs, sem nú er kostuð af ríkissjóði en verður nú aðskilin frá ráðinu og fær betur skilgreinda stöðu innan ríkiskerfisins. Stofnunin mun lúta stjórn fimm manna sem umhverfisráðherra skipar, þar af tilnefna Náttúruverndarráð og samgönguráðherra hvort sinn. Í frumvarpinu eru hlutverk stofnunarinnar og verkefni skilgreind rækilega. Náttúruvernd ríkisins mun hafa eftirlit með að náttúru landsins verði ekki spillt, taka við rekstri og eftirliti með friðlýstum svæðum, sjá um undirbúning friðlýsingar, gera verndaráætlanir fyrir náttúruverndarsvæði og skrá náttúruminjar. Þá mun stofnunin enn fremur sjá um að gerðar verði skipulagsáætlanir fyrir náttúruverndarsvæði og annast fræðslu um náttúruvernd, rekstur gestastofa á náttúruverndarsvæðum og álitsgerð um meiri háttar framkvæmdir eða rekstur. Náttúruvernd ríkisins mun og vinna að gróðurvernd og hafa eftirlit með ástandi gróðurs og náttúrulegum birkiskógum og skógum til útivistar. Loks mun stofnunin annast skýrslugerð til ráðherra um ástand náttúruverndarsvæða.
    Hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands er nú allt annað en var við setningu laga um náttúruvernd, nr. 47/1971, sbr. lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992. Því þykir rétt að stofnunin taki meiri þátt í undirbúningi friðlýsingar og geti gert tillögur til ráðherra og veiti umsagnir um friðlýsingu. Þá skal gætt samráðs við stofnunina við öflun gagna og skráningu á náttúruminjaskrá.
    Með frumvarpinu breytist hlutverk Náttúruverndarráðs. Ráðið verður skipað níu mönnum, sex skipuðum af ráðherra í upphafi hvers náttúruverndarþings, þar af fimm samkvæmt tilnefningu fag- og hagsmunaaðila, og þremur kosnum á náttúruverndarþingi. Ráðið verður því bæði skipað sérfræðingum og áhugamönnum um náttúruvernd. Náttúruverndarráð mun ekki annast stjórnsýslu á vegum ríkisins eða bera ábyrgð á ríkisrekstri. Meginhlutverk ráðsins er að stuðla að almennri náttúruvernd með ráðgjöf og stefnumótun. Ráðið skal vera ráðherra til ráðgjafar um náttúruverndarmál. Því er falið að gangast fyrir ráðstefnum og opinni umræðu um náttúruverndarmál og getur gert tillögur til ráðherra um friðlýsingar og aðrar verndunaraðgerðir. Náttúruverndarráð skal fjalla um náttúruminjaskrá áður en hún er gefin út. Þá fer ráðið enn fremur með vörslur og úthlutanir úr Friðlýsingarsjóði eins og verið hefur.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að náttúruverndarþing sé haldið tvisvar á kjörtímabili, að loknum alþingiskosningum og aftur tveimur árum síðar. Náttúruverndarráð situr því milli náttúruverndarþinga og fylgir skipunartíma ráðherra.
    Í samræmi við stefnu umhverfisráðherra um að flytja ábyrgð á náttúruverndarmálum í auknum mæli heim í hérað er í frumvarpinu m.a. kveðið á um heimild til að fela náttúrustofum og náttúruverndarnefndum sveitarfélaga almennt eftirlit með náttúru landsins. Þá er enn fremur heimilt að fela einstaklingum eða lögaðilum umsjón og rekstur annarra náttúruverndarsvæða en þjóðgarða og sveitarfélögum eða héraðsnefndum umsjón og rekstur gestastofa.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 2. gr.

    Í greininni er að finna skilgreiningar á náttúruverndarsvæðum og náttúruminjum. Með náttúruverndarsvæðum er átt við friðlýst svæði, þ.e. náttúruvætti, friðlönd, þjóðgarða og fólkvanga, auk svæða á náttúruminjaskrá og afmarkaðra svæða sem njóta verndar samkvæmt öðrum lögum. Til náttúruminja teljast náttúruverndarsvæði, lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi sem hafa verið friðlýst eða ástæða er til að friðlýsa.

Um 3. gr.

    Í greininni er kveðið á um yfirstjórn umhverfisráðherra í náttúruverndarmálum. Kveðið er á um samráð ráðherra við Náttúruvernd ríkisins, Náttúruverndarráð, Náttúrufræðistofnun Íslands, bændur og aðra landnotendur, sveitarstjórnir og samtök áhugamanna, allt eftir því sem við á hverju sinni.

Um 4. gr.

    Gert er ráð fyrir að sett verði á fót sérstök ríkisstofnun undir yfirstjórn umhverfisráðherra sem beri heitið Náttúruvernd ríkisins. Að loknum hverjum alþingiskosningum skal ráðherra skipa stofnuninni fimm manna stjórn sem fer með yfirstjórn hennar. Þrír skulu skipaðir án tilnefningar, þar af formaður sérstaklega, einn samkvæmt tilnefningu Náttúruverndarráðs og einn samkvæmt tilnefningu samgönguráðherra, en undir hann heyra öll samgöngumál, m.a. öll vegagerð, auk ferðamála. Er því eðlilegt að hann tilnefni einn stjórnarmann stofnunarinnar. Þá er mælt fyrir um að ráðherra skipi forstjóra Náttúruverndar ríkisins til fimm ára að fengnum tillögum stjórnar. Hann skal fara með daglegan rekstur stofnunarinnar í umboði stjórnar og ráða til hennar starfsmenn í samráði við stjórn.
    Starfshópur sá, er samdi frumvarpið, ákvað að velja Náttúruvernd ríkisins sem heiti á þá ríkisstofnun er hér um ræðir. Áður höfðu komið upp hugmyndir, m.a. um Friðlönd ríkisins og Landvörslu ríkisins, sem notaðar voru í frumvarpi því er lagt var fyrir 118. löggjafarþing. Náttúruvernd ríkisins þykir hins vegar lýsa best starfsemi stofnunarinnar og þeim verkefnum sem henni er ætlað að taka við af Náttúruverndarráði. Með því er og gætt samræmis í heitum undirstofnana umhverfisráðuneytisins, sbr. Hollustuvernd ríkisins.

Um 5. gr.

    Í greininni er ítarlega kveðið á um hlutverk Náttúruverndar ríkisins, m.a á náttúruverndarsvæðum og svæðum í óbyggðum, við eftirlit, friðlýsingar, skráningu náttúruminja, skipulagsáætlanir, fræðslu, álitsgerð í sérstökum tilvikum, gróðurvernd og skýrslugerð til ráðherra.
    Það verður eitt aðalhlutverk Náttúruverndar ríkisins að annast eftirlit með því að náttúru landsins sé ekki spillt með athöfnum, framkvæmdum eða rekstri, að svo miklu leyti sem slíkt eftirlit er falið öðrum með sérstökum lögum. Sérstök lög um eftirlit eru lög nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum, þar sem kveðið er á um heilbrigðiseftirlit og mengunareftirlit og hlutverk heilbrigðisnefnda sveitarfélaga og Hollustuverndar ríkisins, lög nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, með síðari breytingum, þar sem m.a. er kveðið á um hlutverk Hollustuverndar ríkisins varðandi eftirlitið, lög nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, þar sem m.a. er að finna ákvæði um matsskyldar framkvæmdir og hlutverk Skipulags ríkisins varðandi framkvæmd laganna, lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, þar sem m.a. er kveðið á um eftirlit með vinnustöðum og hlutverk Vinnueftirlits ríkisins, skipulagslög, nr. 19/1964, með síðari breytingum, þar sem m.a. er kveðið á um að landið allt sé skipulagsskylt og um hlutverk skipulagsstjórnar ríkisins og skipulagsstjóra ríkisins, og byggingarlög, nr. 54/1978, með síðari breytingum, sem hafa m.a. að geyma ákvæði um byggingar og önnur mannvirki er hafa áhrif á útlit umhverfisins og eftirlit byggingarnefnda sveitarfélaganna og skipulagsstjórnar ríkisins.
    Að svo miklu leyti sem eftirlit með því að náttúru landsins sé ekki spillt er ekki í höndum framangreindra aðila félli það í hlut Náttúruverndar ríkisins þannig að öllum eftirlitsþáttum ætti að vera sinnt. Til þess að ekkert fari milli mála er gert ráð fyrir að umhverfisráðherra setji, að höfðu samráði við framangreinda aðila, reglugerð um eftirlit Náttúruverndar ríkisins. Í ákvæðum til bráðabirgða er að finna fyrirmæli um að reglugerðin öðlist gildi um leið og lögin, þ.e. 1. janúar 1997. Það yrði m.a. hlutverk stjórnar stofnunarinnar, sem ætlunin er samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða að skipa þegar frá og með samþykkt laganna, að vinna drög að slíkri reglugerð.

Um 6. gr.

    Samkvæmt greininni er Náttúruvernd ríkisins falin umsjón með náttúruverndarsvæðum. Jafnframt er kveðið á um störf landvarða og annara starfsmanna, en gert er ráð fyrir að ráðherra setji í reglugerð fyrirmæli um menntun og starfsskyldur þeirra.
    Í 3. mgr. er ákvæði þess efnis að Náttúruvernd ríkisins geti falið einstaklingum eða lögaðilum umsjón og rekstur náttúruverndarsvæða ef frá eru taldir þjóðgarðar. Í slíkum tilvikum skal gera sérstakan samning sem háður er staðfestingu ráðherra.

Um 7. gr.

    Í greininni er fjallað um rekstur þjóðgarða. Í hverjum þjóðgarði skal starfa þjóðgarðsvörður sem stjórn Náttúruverndar ríkisins ræður til fimm ára í senn. Hann skal hafa sérþekkingu á náttúrufræðum. Þjóðgarðsverðir sjá um daglegan rekstur þjóðgarða, en hægt er að fela þeim eftirlit og umsjón með öðrum svæðum á vegum Náttúruverndar ríkisins.

Um 8. gr.

    Náttúruvernd ríkisins er með greininni veitt heimild til að reka gestastofur á náttúruverndarsvæðum. Í slíkum stofum er einkum ætlunin að veita gestum upplýsingar um náttúru staðarins, jarðmyndanir og lífríki, reglur sem gilda á svæðinu, náttúruvernd, sögu byggðar og landnýtingu. Ákvæðið er nýmæli og tekur mið af þeirri þróun sem orðið hefur og stefnumörkun Náttúruverndarráðs um þjónustu við ferðamenn á friðlýstum svæðum. Nú þegar eru reknar gestastofur við Gullfoss og Mývatn og gerðar hafa verið áætlanir um gestastofur í þjóðgörðunum í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum. Gert er ráð fyrir að Náttúruvernd ríkisins geti rekið gestastofu í samstarfi við náttúrustofur sveitarfélaga samkvæmt samningi þar um sem umhverfisráðherra skal staðfesta. Þá er enn fremur gert ráð fyrir að stofnunin geti falið sveitarfélögum eða héraðsnefndum umsjón og rekstur gestastofa.

Um 9. gr.

    Samkvæmt frumvarpinu er Náttúruvernd ríkisins falið almennt eftirlit með náttúru landsins. Stofnunin getur þó með samningi, sem ráðherra skal staðfesta, falið náttúrustofum eða náttúruverndarnefndum sveitarfélaga eða héraðsnefnda að annast slíkt eftirlit. Með þessu er leitað leiða til að færa náttúruvernd í auknum mæli til heimamanna sjálfra og efla þar með ábyrgð og vitund þeirra manna sem gerst þekkja til og mest eiga undir öflugri náttúruvernd.
    Í 2. mgr. er nánar kveðið á um sérstakt eftirlit með framkvæmdum. Ef nauðsynlegt er að mati Náttúruverndar ríkisins eða annars eftirlitsaðila að halda uppi sérstöku eftirliti skal gera samkomulag þar um við framkvæmanda og ber honum að endurgreiða útlagðan kostnað stofnunarinnar eða eftirlitsaðila vegna eftirlitsins.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að ráðherra skuli setja gjaldskrá vegna eftirlits með mannvirkjagerð og fjárnámsheimild Náttúruverndar ríksins vegna útlagðs kostnaðar.

Um 10. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 3. gr. gildandi laga að því viðbættu að kveðið er á um að Náttúruvernd ríkisins og náttúruverndarnefndir haldi sameiginlegan fund að minnsta kosti einu sinni á ári.

Um 11. gr.

    Í greininni er kveðið á um nýja skipan Náttúruverndarráðs. Í því skulu eiga sæti níu manns í stað sjö eins og nú er. Umhverfisráðherra skal skipa sex þeirra í upphafi náttúruverndarþings, fimm samkvæmt tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands, Háskóla Íslands, Bændasamtaka Íslands, Ferðamálaráðs og skipulagsstjóra ríkisins og þann sjötta án tilnefningar og skal hann vera formaður ráðsins. Þrír skulu kosnir á náttúruverndarþingi. Gert er ráð fyrir að varamenn verði tilnefndir og kosnir á sama hátt.
    Samkvæmt 4. mgr. 3. gr. laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989, renna 5% af árlegum tekjuafgangi Endurvinnslunnar hf. til Náttúruverndarráðs. Rétt þykir að árétta það í frumvarpi þessu. Annar kostnaður af starfsemi ráðsins greiðist úr ríkissjóði.

Um 12. gr.

    Í greininni er kveðið á um hlutverk Náttúruverndarráðs. Ráðið skal stuðla að almennri náttúruvernd og fjalla um hvaðeina sem að henni lýtur. Þá er gert ráð fyrir að Náttúruverndarráð verði umhverfisráðherra til ráðgjafar og geri jafnframt tillögur til ráðherra um friðlýsingar og aðrar verndunaraðgerðir. Þá skal ráðið fjalla um náttúruminjaskrá áður en hún er gefin út.
    Í 3. mgr. er kveðið á um Náttúruverndarráð skuli fara með vörslur Friðlýsingarsjóðs og jafnframt vera stjórn sjóðsins. Er það í samræmi við ákvæði 3. gr. skipulagsskrár fyrir Þjóðhátíðarsjóð, nr. 361/1977. Ráðherra skal samkvæmt frumvarpinu setja reglugerð um starfsemi sjóðsins og úthlutanir úr honum.

Um 13. gr.

    Í greininni er fjallað um náttúruverndarþing sem umhverfisráðherra skal boða til tvisvar á kjörtímabili, fyrst að loknum alþingiskosningum og síðan tveimur árum síðar. Þingið er vettvangur þeirra er fjalla um náttúruverndarmál og er nánar kveðið á um í greininni hverjir eigi rétt til setu á því, hlutverk þingsins og annað er máli skiptir. Seta á náttúruverndarþingi er ólaunuð en annan kostnaður skal greiðast úr ríkissjóði.

Um 14. gr.

    Greinin er samhljóða 11. gr. gildandi laga.

Um 15. gr.

    Greinin er samhljóða 12. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að umhverfisráðherra er í 3. mgr. veitt heimild til að leggja bann við notkun tækja og verkfæra við berjatínslu í stað Náttúruverndarráðs.

Um 16. gr.

    Greinin er efnislega svo til samhljóða 13. gr. gildandi laga. Gert er ráð fyrir í 2. mgr. að umhverfisráðherra setji, að fenginni tillögu Náttúruverndar ríkisins, reglugerð um akstur utan vega, umferð hesta, umgengni í óbyggðum, merkingu bílslóða og vega og leyfilegan öxulþunga vélknúinna ökutækja sem fara um óbyggð svæði.
    Í 3. mgr. er mælt svo fyrir að Náttúruvernd ríkisins geti í verndarskyni tímabundið takmarkað umferð eða lokað svæðum í óbyggðum. Umhverfisráðherra verður þó að staðfesta þær ákvarðanir og birta í Stjórnartíðindum.

Um 17. gr.

    Greinin er efnislega óbreytt frá 14. gr. gildandi laga.

Um 18. gr.

    Grein þessi kemur í stað 5.–7. mgr. 7. gr. gildandi laga og er efnislega í samræmi við þær að breyttu breytanda.

Um 19. gr.

    Greinin er samhljóða 15. gr. gildandi laga.

Um 20. gr.

    Greinin er samhljóða 16. gr. gildandi laga.

Um 21. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 17. gr. gildandi laga. Gert er ráð fyrir að ráðherra leiti umsagnar Náttúruverndar ríkisins, sbr. 1. og 2. mgr., í stað Náttúruverndarráðs eins og nú er.

Um 22. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 18. gr. gildandi laga. Gert er ráð fyrir að Náttúruvernd ríkisins geti sett fyrirmæli um frágang vegna jarðrasks í stað Náttúruverndarráðs eins og nú er.

Um 23. gr.

    Grein þessi er efnislega samhljóða 29. gr. gildandi laga. Náttúruvernd ríkisins tekur við hlutverki Náttúruverndarráðs samkvæmt greininni.

Um 24. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 19. gr. gildandi laga. Heimild til setningar reglna skv. 3. mgr. verður hjá umhverfisráðherra í stað Náttúruverndarráðs.

Um 25. gr.

    Greinin er samhljóða 20. gr. gildandi laga.

Um 26. gr.

    Greinin fjallar um friðlýsingar sérstæðra náttúrumyndana, sbr. 22. gr. gildandi laga. Í greininni er kveðið á um að umhverfisráðherra geti friðlýst sérstæðar náttúrumyndanir sem þá nefnast náttúruvætti. Samkvæmt gildandi lögum hefur Náttúruverndarráð þessa heimild. Eðlilegt þykir eftir stofnun ráðuneytis umhverfismála að umhverfisráðherra fari með heimildina. Ráðherra skal leita tillagna eða álits Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndarráðs áður en ákvörðun um friðlýsingu er tekin.
    Þá er felld niður heimild Náttúruverndarráðs skv. 3. mgr. til að gefa fyrirmæli um að breyta, spilla eða eyða friðlýstum náttúruvættum, enda verður að telja þá heimild óeðlilega.

Um 27. gr.

    Greinin fjallar um sama efni og 23. gr. gildandi laga. Í 1. mgr. er kveðið á um heimild umhverfisráðherra til að friðlýsa, að fengnum tillögum eða áliti Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndarráðs, lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi, enda skipti miklu út frá náttúrufræðilegu eða öðru menningarlegu sjónarmiði að þeim sé ekki raskað, fækkað eða útrýmt.

Um 28. gr.

    Í greininni er kveðið á um að umhverfisráðherra geti, að fengnum tillögum eða áliti Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndarráðs, friðlýst sérstök landsvæði, en samkvæmt gildandi lögum er sú heimild á hendi Náttúruverndarráðs. Ráðherra fær að sama skapi heimild til að veita undanþágu frá settum fyrirmælum í friðlýsingu í stað Náttúruverndarráðs.

Um 29. gr.

    Á sama hátt og áður greinir þykir rétt að umhverfisráðherra hafi heimild til að lýsa landsvæði þjóðgarð í stað Náttúruverndarráðs eins og nú er. Áður skal ráðherra leita tillagna eða álits Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndarráðs. Samkvæmt gildandi lögum er það skilyrði að umrætt landsvæði sé í ríkiseign. Áfram þykir eðlilegt að það sé meginreglan, en í 2. mgr. er heimilað í undartekningartilvikum að landsvæði þjóðgarða sé í eigu annarra, enda náist samkomulag þar að lútandi milli umhverfisráðherra og landeigenda.
    Í 3. mgr. er ráðherra veitt heimild til að stofna ráðgjafarnefnd með þátttöku hlutaðeigandi sveitarstjórna um rekstur og skipulag þjóðgarða. Um rekstur þjóðgarða er nánar fjallað í 7. gr.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir að umhverfisráðherra setji reglugerð um meðferð og rekstur þjóðgarða og umgengni almennings.

Um 30. gr.

    Í grein þessari er rætt um stofnun fólkvanga, sbr. 26. gr. gildandi laga. Lagt er til að Náttúruvernd ríkisins taki við verkefnum Náttúruverndarráðs á þessu sviði, þó þannig að umhverfisráðherra tekur ákvörðun um stofnun fólkvangs og birtir hana í Stjórnartíðindum, sbr. 6. mgr. Þá þykir enn fremur rétt að hann hafi einn úrskurðarvald það sem kveðið er á um í 8. mgr. Að öðru leyti er ekki um breytingar að ræða á efni greinarinnar.

Um 31. gr.

    Greinin er samhljóða 27. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að Náttúruvernd ríkisins tekur við hlutverki Náttúruverndarráðs.

Um 32. gr.

    Í greininni er að finna skýrari ákvæði um náttúruminjaskrá en í gildandi lögum. Umhverfisráðherra skal samkvæmt greininni gefa skrána út fjórða hvert ár og auglýsa í Stjórnartíðindum. Náttúruvernd ríkisins skal í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands sjá um öflun gagna og skráningu í náttúruminjaskrá og annast útgáfu hennar.

Um 33. gr.

    Greinin kemur í stað 30.–33. gr. gildandi laga og fjallar um framkvæmd friðlýsingar. Rétt þykir til einföldunar og samræmis að hafa ákvæði þessi í einni lagagrein.
    Telji umhverfisráðherra ástæðu til friðlýsingar eða annarra náttúruverndaraðgerða á að hann að fela Náttúruvernd ríkisins að ná samkomulagi við landeigendur, sveitarstjórnir og aðra hagsmunaaðila. Liggi ekki fyrir samkomulag um friðlýsingu skal ráðherra fela Náttúruvernd ríkisins að semja tillögu að friðlýsingu og skal hún send hlutaðeigandi aðilum. Mótmælum og bótakröfum á samkvæmt greininni að koma á framfæri við ráðherra. Hann birtir og fullnaðarákvörðun um friðlýsingar og friðunarákvæði í Stjórnartíðindum.

Um 34. gr.

    Grein þessi er samhljóða 10. gr. gildandi laga.

Um 35. gr.

    Hér er um nýmæli að ræða og varðar heimild Náttúruverndar ríkisins til gjaldtöku fyrir veitta þjónustu og aðgang að náttúruverndarsvæðum. Nauðsynlegt þykir að lögfesta heimild til slíkrar gjaldtöku. Tekjum, sem þannig aflast, skal Náttúruvernd ríkisins verja til eftirlits, lagfæringar eða uppbyggingar á sama svæði og þeirra er aflað.

Um 36. gr.

    Grein þessi er samhljóða 34. gr. gildandi laga, þó þannig að nú er vísað til gildandi jarðalaga, nr. 65/1976.

Um 37. gr.

    Greinin svarar til 35. gr. gildandi laga.

Um 38. gr.

    Grein þessi er samhljóða 36. gr. gildandi laga, þó þannig að nú er vísað til gildandi laga um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973.

Um 39. gr.

    Greinin svarar til 37. gr. gildandi laga.

Um 40. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um að lög þessi skuli öðlast gildi 1. janúar 1997. Frá sama tíma falli niður gildandi lög um náttúruvernd, nr. 47/1971. Lög nr. 59/1928, um friðun Þingvalla, halda eftir sem áður gildi sínu.

Um 41. gr.


    Samfara breytingum á stjórnskipan náttúruverndarmála er nauðsynlegt að leggja til breytingar á öðrum lögum sem tengjast málaflokknum.
    Í greininni eru lagðar til breytingar á lögum um bann gegn jarðraski, nr. 123/1940, lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 36/1974, lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, lögum um skipulag ferðamála, nr. 117/1994, og lögum um vernd Breiðafjarðar, nr. 54/1995.
    Við samþykkt frumvarpsins færast daglegur rekstur og verkefni Náttúruverndarráðs í öllum meginatriðum til nýrrar ríkisstofnunar, Náttúruverndar ríkisins. Í samræmi við þær breytingar þykir einnig rétt að Náttúruvernd ríkisins taki við hlutverki Náttúruverndarráðs samkvæmt lögum um bann gegn jarðraski, lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu og lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, svo og, eðli máls samkvæmt, að stofnunin sé samstarfs- og samráðsaðili samkvæmt öðrum lögum þar sem mælt er fyrir um samstarf eða samráð við Náttúruverndarráð. Með þessu er gætt samræmis við þá meginstefnu sem frumvarp þetta byggist á.
     Um a-lið:
    Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. laga um bann gegn jarðraski, nr. 123/1940, er samþykki Náttúruverndarráðs áskilið til efnistöku, þ.e. í fjörum kaupstaða, kauptúna og sjávarþorpa, og má skjóta ákvörðun ráðsins til ráðherra. Í samræmi við stofnun Náttúruverndar ríkisins og breytt hlutverk Náttúruverndarráðs þykir rétt að Náttúruvernd ríkisins taki við þessu verkefni ráðsins.
     Um b-lið:
    Með þeim rökum er fyrr greinir er gert ráð fyrir að Náttúruvernd ríkisins veiti leyfi og taki við hlutverki Náttúruverndarráðs samkvæmt lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.
    Verði frumvarpið samþykkt mun Náttúruvernd ríkisins tilnefna mann í stjórn náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn í stað Náttúruverndarráðs og skal hann vera formaður stjórnarinnar, sbr. 4. gr. laganna. Verkfræði- og raunvísindadeild Háskóla Íslands hefur verið skipt í tvær deildir og er orðalag greinarinnar lagfært til samræmis við það.
    Lögð er til lítils háttar breyting á 1. málsl. 5. gr. laganna í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa eða ráðgerðar eru á skipan mála og mælt svo fyrir að ráðherra skuli fyrir útgáfu reglugerðar um mengun á svæði því, sem lögin taka til, afla tillagna Náttúruverndar ríkisins og Hollustuverndar ríkisins sem er sú ríkisstofnun sem fer með mengunarmál.
     Um d-lið:
    Lagt er til að Náttúruvernd ríkisins taki við hlutverki Náttúruverndarráðs samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Annars vegar er um að ræða að Náttúruvernd ríkisins tilnefni mann til setu í ráðgjafarnefnd um villt dýr, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna, og hins vegar að stofnunin veiti samþykki fyrir því að friðun sé aflétt eða rift á svæðum sem friðlýst eru vegna dýralífs, sbr. 1. mgr. 10. gr.
     Um e-lið:
    Gert er ráð fyrir að sú breyting verði á lögum um skipulag ferðamála að Náttúruvernd ríkisins komi í stað Náttúruverndarráðs, enda verða þjóðgarðar og önnur náttúruverndarsvæði, sem minnst er á í 2. mgr. 30. gr. laganna, í umsjá stofnunarinnar verði frumvarpið samþykkt.

Um ákvæði til bráðabirgða

    Í ákvæðinu er kveðið á um að umhverfisráðherra skuli, þrátt fyrir ákvæði um að lögin taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 1997, þegar skipa stjórn Náttúruverndar ríkisins. Eðlilegt þykir að stjórninni gefist nokkurt ráðrúm til að undirbúa starfsemi stofnunarinnar. Þá er ráðherra og falið að boða til náttúruverndarþings í janúar 1997. Undirbúningur þess yrði í höndum þess Náttúruverndarráðs sem láta mundi af störfum við gildistöku laga þessara.
    Varðandi setningu og gildistöku reglugerðar skv. b-lið 5. gr. vísast til athugasemda með 5. gr.
    Í samræmi við stefnu umhverfisráðherra um heildarendurskoðun laga um náttúruvernd á kjörtímabilinu er mælt fyrir um að hún skuli fara fram innan tveggja ára frá gildistöku laganna.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um náttúruvernd.

    Frumvarp þetta er samið af starfshópi sem umhverfisráðherra fól að endurskoða stjórnskipan náttúruverndarmála og eru lagðar til verulegar breytingar á stjórn þessa málaflokks. Að auki eru gerðar breytingar á ýmsum lögum á þann veg að þar sem vísað er til Náttúruverndarráðs verði framvegis vísað til Náttúruverndar ríkisins.
    Umsögn þessi hefur verið unnin í samráði við umhverfisráðuneyti en að mati fjármálaráðuneytis munu eftirfarandi þættir helst hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs:
1.    Náttúruvernd ríkisins (NVRR) er ný stofnun sem tekur að mestu yfir hlutverk Náttúruverndarráðs eins og það er skilgreint í núgildandi lögum. Að auki eru lögfest ákvæði um framkvæmd ýmissa þátta í starfsemi Náttúruverndarráðs eins og hún er nú. NVRR verður skipuð fimm manna stjórn og áætlað er að árlegur kostnaður við hana geti numið 1-1,5 m.kr. Ekki liggur fyrir starfs- og rekstraráætlun fyrir hina nýju stofnun þar sem fjallað er um deildarskipulag, fjölda starfsmanna o.s.frv. en að mati fjármálaráðuneytis hefði gerð slíkrar áætlunar verið nauðsynlegur þáttur í undirbúningi lagasetningarinnar. Það er markmið umhverfisráðuneytisins að heildarkostnaður við stjórn og rekstur NVRR rúmist innan núverandi fjárhagsramma Náttúruverndarráðs. Hægt er að nýta núverandi húsnæði Náttúruverndarráðs á Hlemmi fyrir stofnunina og á ekki að þurfa að koma til útgjaldaauka vegna stofnkostnaðar eða tækja- og húsbúnaðarkaupa.
2.    Starfsemi og hlutverk Náttúruverndarráðs breytist. Heildarframlag til ráðsins er 61,2 m.kr. í fjárlögum 1996 og verði frumvarpið óbreytt að lögum flyst fjárveitingin til NVRR að frátöldum kostnaði við Náttúruverndarráð, sbr. b-lið hér á eftir.
    a.    Einungis er gert ráð fyrir kostnaði af Náttúruverndarráði sjálfu sem verður ráðgefandi aðili. Hjá Náttúruverndarráði starfa nú 12 fastir starfsmenn að framkvæmdastjóra meðtöldum, en í greinargerð með frumvarpinu kemur ekki fram hvort gert er ráð fyrir að núverandi starfsmenn flytjist allir til NVRR eða hvort breytt skipulag leiði til biðlaunaréttinda einhverra starfsmanna. Því er ekki hægt að áætla hugsanleg útgjöld við þennan þátt en ef margir starfsmenn öðlast rétt á biðlaunum getur verið um verulegan kostnaðarauka að ræða.
    b.    Samkvæmt núgildandi lögum er Náttúruverndarráð skipað sjö mönnum og hittist ráðið 11-13 sinnum á ári. Það hafa yfirleitt verið tveggja daga fundir og að auki verið unnið að undirbúningi þessara funda í undirnefndum. Kostnaður af starfi ráðsins var um 3 m.kr. á síðasta ári en gert er ráð fyrir að hann lækki. Hið nýja Náttúruverndarráð verður samkvæmt frumvarpinu skipað níu mönnum en hlutverk þess breytist og talið er að ráðið muni hittast mun sjaldnar, fundir verði styttri og ekki sé þörf á vinnu undirbúningsnefnda. Ætla má að kostnaður verði 1,5-2 m.kr. og að þannig sparist um 1-1,5 m.kr. Rétt er að benda á að skv. 3. gr. laga nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, fær Náttúruverndarráð ákveðið framlag af skilagjaldi einnota umbúða og er gert ráð fyrir að svo verði áfram. Fjárhæð þessi hefur verið tiltölulega lág en á síðasta ári var hún rúmlega 0,5 m.kr. og er talið að hún muni hækka á þessu ári. Dregur þetta úr kostnaði ríkissjóðs við ráðið.
3.    Náttúruverndarþing skal halda þriðja hvert ár samkvæmt núgildandi lögum en í frumvarpinu er lagt til að þau verði haldin annað hvert ár. Á móti er gert ráð fyrir að þingin verði styttri og umfangsminni og er því ekki áætlaður kostnaðarauki af þessu fyrir ríkissjóð. Geta má þess að síðasta náttúruverndarþing kostaði um 0,7 m.kr.
4.    Ákvæði frumvarpsins um umsjón og rekstur friðlýstra svæða (6. gr.) eru sambærileg við núgildandi lög og framkvæmd. Gert er ráð fyrir að heimilt sé að fela einstaklingum eða lögaðilum umsjón og rekstur náttúruverndarsvæða að frátöldum þjóðgörðum. Miðað er við þá meginreglu að svæðin standi undir sér en rétt er að benda á að á undanförnum árum hafa nokkur svæði verið rekin í samvinnu Náttúruverndarráðs og annarra, svo sem ferðafélaganna. Á fjárlagalið Náttúruverndarráðs í fjárlögum 1996 eru ætlaðar 23,7 m.kr. til reksturs þjóðgarða og friðlýstra svæða og er þessi kostnaður greiddur af þeim lið. Frumvarpið leiðir ekki til breytinga á því fyrirkomulagi.
5.    Ákvæði um gestastofur (fræðslustofur) í 8. gr. frumvarpsins er nýtt og tekur mið af þróun undanfarinna ára. Ríkissjóður ber nú kostnað af rekstri tveggja gestastofa við Gullfoss og Mývatn. Umsýsla er höfð í lágmarki en rekstrarkostnaður beggja stofa nam u.b.þ. 0,5 m.kr. á síðasta ári. Lögfesting ákvæðis um gestastofur getur leitt til aukins þrýstings á rekstur fleiri stofa og umfangsmeiri en ákvörðun um hugsanlega fjölgun þeirra verður væntanlega tekin í ljósi fjárhagssvigrúms NVRR.
6.    Í 9. gr. er kveðið á um framkvæmd eftirlits með náttúru landsins og er það tvískipt. Annars vegar er um að ræða almennt eftirlit og hefur því verið sinnt af Náttúruverndarráði eftir því sem fjárveitingar hafa leyft. Telja verður eðlilegt að almennt eftirlit greiðist úr ríkissjóði og tekur NVRR við þessu hlutverki en að öðru leyti verður ekki breyting á þessu fyrirkomulagi. Hins vegar er um að ræða eftirlit með framkvæmdum og hafa framkvæmdaraðilar borið kostnað af því. Gert er ráð fyrir að svo verði áfram en til að taka af allan vafa um heimild til þess er hér lagt til nýtt ákvæði þar að lútandi. Einnig er kveðið á um heimild til fjárnáms og ætla má að skýrari heimildir til aðgerða leiði til betri skila á útlögðum kostnaði. Ekki er lagt talnalegt mat á hugsanleg áhrif þess.
7.    Í ákvæðum núgildandi laga um stofnun þjóðgarða er kveðið á um að landsvæði skuli skilyrðislaust vera í ríkiseign. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þetta verði almenna reglan en að heimilt verði að víkja frá henni náist um það samkomulag milli umhverfisráðherra og landeiganda. Hér gæti t.d. verið um að ræða leigugreiðslur eða bætur vegna skerðingar á landnotum.
8.    Í 35. gr. frumvarpsins er kveðið á um heimild til handa Náttúruvernd ríkisins til gjaldtöku og er heimild þessi tvíþætt. Annars vegar er stofnuninni heimilt að taka ákveðið gjald fyrir veitta þjónustu og er þetta ákvæði staðfesting á núverandi framkvæmd. Hins vegar er heimild til gjaldtöku á náttúruverndarsvæðum þar sem spjöll hafa orðið af völdum ferðamanna eða hætta er á slíkum spjöllum. Tekjunum skal varið til eftirlits, lagfæringar eða uppbyggingar á því svæði.
    Erfitt er að leggja mat á áhrif frumvarpsins á útgjöld ríkissjóðs þar sem ekki liggur fyrir starfs- og rekstraráætlun fyrir hina nýju stofnun, Náttúruvernd ríkisins. Í ljósi stefnu umhverfisráðuneytis að heildarkostnaður við Náttúruvernd ríkisins eigi að rúmast innan fjárhagsramma Náttúruverndarráðs, sbr. umfjöllun í 1. og 2. lið umsagnarinnar, er það mat fjármálaráðuneytis að frumvarp þetta þurfi ekki að leiða til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, verði það óbreytt að lögum. Hér verður þó að leggja áherslu á óvissu varðandi hugsanleg biðlaunaréttindi starfsmanna Náttúruverndarráðs, sbr. umfjöllun í lið 2.a. Að öðru leyti felur frumvarpið í sér skýrari ákvæði um náttúruvernd en núgildandi lög og er að miklu leyti staðfesting á núverandi framkvæmd eins og hún hefur þróast frá setningu laganna.