Ferill 305. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 305 . mál.


643. Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Ragnars Arnalds um óbyggt skólahúsnæði.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hve mikið er óbyggt af skólahúsnæði svo að fullnægt verði ákvæðum grunnskólalaga um samfelldan skóladag og einsetinn skóla? Óskað er eftir sundurliðuðu svari þar sem gerð er grein fyrir þörf á almennum skólastofum, mötuneytum, félagsaðstöðu nemenda, vinnuaðstöðu kennara, sérgreinastofum og skólasöfnum.

    Bygging grunnskólahúsnæðis er á verksviði sveitarfélaga og því leitaði menntamálaráðuneytið eftir upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga (sjá fylgiskjal) um áætlaða þörf fyrir byggingu grunnskólahúsnæðis vegna ákvæða grunnskólalaga um einsetningu og samfelldan skóladag.
    Nú eru 128 grunnskólar einsetnir eða tæp 65% skóla. Áætlað er að 376 bekkjardeildir séu eftir hádegi í tvísetnum skólum og þarf því að byggja 376 skólastofur til að einsetja skólana ef sú forsenda er notuð. Samband íslenskra sveitarfélaga kannaði á síðasta ári hversu margar skólastofur þyrfti að mati sveitarstjórna að byggja til að einsetja alla skóla. Samkvæmt svörum sveitarstjórna þarf að byggja 537 kennslustofur til að einsetningaráform nái fram að ganga. Þar af yrðu um 2 / 3 í Reykjavík og á Reykjanesi. Samkvæmt framansögðu má ætla að byggja þurfi 376 til 537 almennar kennslustofur til að einsetja alla grunnskóla landsins.
    Ekki liggur fyrir nægjanleg sundurliðun á þörf á öðru rými í grunnskólum en kennslurými, en könnun Sambands íslenskra sveitarfélaga hjá grunnskólum utan Reykjavíkur gefur vísbendingu um að í 54% þeirra vanti aukið stjórnunarrými, í 43% vanti aukið félags- og samkomurými og í 27% aukið íþróttarými. Ekki fengust upplýsingar um þörf fyrir mötuneytisrými.



Fylgiskjal.

Könnun Sambands íslenskra sveitarfélaga


á húsnæði grunnskóla.


(19. febrúar 1996.)



    Sumarið 1995 sendi Samband íslenskra sveitarfélaga könnunarblað til sveitarfélaga þar sem eru starfræktir grunnskólar með fyrirspurn um húsrými í skólunum. Könnunin beindist aðallega að því hversu margar almennar kennslustofur vantaði til að einsetja skólana og hvort aðstaða væri fyrir nemendur til að neyta matar. Einnig var spurt um annað rými í skólunum. Sama sumar lét byggingarnefnd skóla í Reykjavík hefja úttekt á rými í skólum borgarinnar, svo og gera heildarmat á húsnæðisþörf þeirra. Stefnt er að því að kynna niðurstöður þessarar vinnu eftir 4 til 6 vikur. Beðið er eftir niðurstöðum úttektarinnar á stöðu grunnskóla í Reykjavík og hefur sambandið ekki metið húsrými í skólum í Reykjavík. Upplýsingar um þörf á kennslustofum í borginni eru því frá skólaskrifstofu Reykjavíkurborgar.
    Úr öðrum landshlutum bárust upplýsingar um húsnæðisþörf í 108 grunnskólum.
    Í eftirfarandi töflu er yfirlit unnið úr svörum sem bárust. Í fremsta dálki er sýndur fjöldi ríkisrekinna grunnskóla í viðkomandi landshluta og í öðrum dálki kemur fram fjöldi tvísetinna skóla. Þriðji dálkur sýnir hversu mörg svör bárust úr viðkomandi landshluta og sá fjórði hve margar kennslustofur vantar miðað við svörin sem bárust. Í fimmta dálki er gefinn upp fjöldi bekkjardeilda sem mæta í skólann eftir hádegi samkvæmt upplýsingum frá tvísetnum skólum.

Tvísetnir

Fjöldi

Kennslustofur

Bekkjardeildir


Grunnskólar

skólar

svara

sem vantar

eftir hádegi



Reykjavík     
29
19 190 105
Reykjanes     
30
19 26 144 142
Vesturland     
15
3 13 41 15
Vestfirðir     
19
6 10 27 25
Norðurland vestra     
17
5 10 13 22
Norðurland eystra     
30
7 13 23 29
Austurland     
27
6 13 37 22
Suðurland     
31
5 23 62 16
Samtals     
198
70 125 537 376

    Í könnuninni var gefin upp skipting rýmis í skólanum samkvæmt tillögum að normum frá árinu 1982. Var beðið um mat viðkomandi á því hvort nægilegt rými væri í skólanum eða ekki. Niðurstöður svara, sem bárust frá grunnskólum utan Reykjavíkur, eru eftirfarandi:

Nægilegt

Ekki nægilegt


rými

rými



Stjórnun     
46%
54%
Kennslurými     
32%
68%
Félags- og samkomurými     
57%
43%
Ýmislegt     
54%
46%
Íþróttarými     
73%
27%

    Athygli vekur að í um helmingi skólanna er nægjanleg stjórnunar-, félags- og samkomuaðstaða, svo og sú aðstaða sem fellur undir ýmislegt. Hins vegar er það mat manna að kennslurými vanti í tæp 70% skóla sem könnunin nær til. Einnig er athyglisvert að íþróttarými vantar í aðeins tæp 30% þeirra.