Ferill 389. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 389 . mál.


684. Frumvarp til laga



um breytingu á ýmsum lögum vegna sameiningar Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda í Bændasamtök Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.


Breyting á lögum nr. 56 19. júní 1933, um viðauka við


og breyting á lögum nr. 68/1917, um áveitu á Flóann.


    Í stað orðanna „Búnaðarfélagi Íslands“ í 11. gr. laganna kemur: Bændasamtökum Íslands.

2. gr.


Breyting á lögum nr. 117 30. desember 1943, um viðauka við lög nr. 56/1933,


um viðauka við og breyting á lögum nr. 68/1917, um áveitu á Flóann.


    Í stað orðanna „Búnaðarfélag Íslands“ í 1. gr. laganna og „Búnaðarfélags Íslands“ í 2. gr. kemur: Bændasamtök Íslands og Bændasamtaka Íslands.

3. gr.


Breyting á lögum nr. 77 23. júní 1936, um viðauka við og breyting á lögum


nr. 43 19. maí 1930, um greiðslu kostnaðar af Skeiðaáveitunni o.fl.


    Í stað orðanna „Búnaðarfélagi Íslands“ í 11. gr. laganna kemur: Bændasamtökum Íslands.

4. gr.


Breyting á lögum um eignarnámsheimild á nokkrum löndum og á afnotarétti


landsvæða í Hafnarfirði, Garðahreppi og Grindavíkurhreppi og um


stækkun lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðarkaupstaðar, nr. 11/1936.


    2. málsl. 2. mgr. 2. gr. laganna fellur brott.
    Í stað orðanna „Búnaðarfélag Íslands“ í 3. gr. laganna kemur: Bændasamtök Íslands.

5. gr.


Breyting á lögum nr. 101/1940, um breyting á lögum nr. 11/1936


(Eignarnámsheimild á nokkrum löndum o.fl.).


    Í stað orðanna „Búnaðarfélags Íslands“ í 2. mgr. 1. gr. laganna kemur: Bændasamtaka Íslands.

6. gr.


Breyting á landskiptalögum, nr. 46/1941, með síðari breytingum.


    Í stað orðanna „Búnaðarfélags Íslands“ í 2. mgr. 11. gr. og í 2. málsl. 1. mgr. 16. gr. laganna kemur: Bændasamtaka Íslands.

7. gr.


Breyting á lögum um skógrækt, nr. 3/1955, með síðari breytingum.


    Í stað orðanna „Búnaðarfélags Íslands“ í b-lið 28. gr. laganna kemur: Bændasamtaka Íslands.


8. gr.


Breyting á girðingarlögum, nr. 10/1965, með síðari breytingum.


    Í stað orðanna „stjórn Búnaðarfélags Íslands tilnefnir einn af jarðræktarráðunautum félagsins“ í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: stjórn Bændasamtaka Íslands tilnefnir einn mann.

9. gr.


Breyting á lögum um landgræðslu, nr. 17/1965, með síðari breytingum.


    Síðari málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.
    Í stað orðanna „Búnaðarfélags Íslands“ í 2. tölul. 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: Bændasamtaka Íslands.
    Orðin „í samvinnu við landnýtingarráðunaut Búnaðarfélags Íslands“ í 1. mgr. 20. gr. laganna falla brott.

10. gr.


Breyting á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna,


nr. 64/1965, með síðari breytingum.


    Í stað orðanna „Búnaðarfélags Íslands“ í 30. gr. laganna kemur: Bændasamtaka Íslands.
    Í stað 4.–8. málsl. 1. mgr. 34. gr. laganna koma fjórir málsliðir, svohljóðandi: Bændasamtök Íslands tvo menn og sé annar þeirra ráðunautur í jarðrækt en hinn í búfjárrækt. Framleiðsluráð landbúnaðarins einn mann. Bændaskólarnir tvo menn. Garðyrkjuskóli ríkisins einn mann.


11. gr.

Breyting á lögum um Framleiðnisjóð landbúnaðarins,


nr. 89/1966, með síðari breytingum.


    2. gr. laganna orðast svo:
                  Stjórn Framleiðnisjóðs skal skipuð fimm mönnum sem landbúnaðarráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Tveir skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Bændasamtaka Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Rannsóknarráðs Íslands og tveir án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður stjórnarinnar. Varamenn skal skipa með sama hætti.
    5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laganna falla brott.

12. gr.


Breyting á lögum um gæðamat á æðardún,


nr. 39/1970, með síðari breytingu.


    Í stað orðanna „Búnaðarfélags Íslands“ í 5. gr. laganna kemur: Bændasamtaka Íslands.

13. gr.


Breyting á lögum um lax- og silungsveiði,


nr. 76/1970, með síðari breytingum.


    Í stað orðanna „Búnaðarfélags Íslands“ í 1. mgr. 88. gr. laganna kemur: Bændasamtaka Íslands.
    2. málsl. 3. mgr. 95. gr. laganna orðast svo: Í yfirmati eiga sæti þrír menn sem ráðherra skipar, þar af einn samkvæmt tilnefningu veiðimálanefndar.

14. gr.


Breyting á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám,


ræktun og byggingar í sveitum, nr. 45/1971, með síðari breytingum.


    Í stað orðanna „skulu fulltrúi frá stéttarsambandi bænda og fulltrúi frá Búnaðarfélagi Íslands“ í 2. gr. laganna kemur: skulu tveir fulltrúar frá Bændasamtökum Íslands.


15. gr.


Breyting á lögum um náttúruvernd, nr. 47/1971, með síðari breytingum.


    Í stað orðanna „Búnaðarfélag Íslands“ í 2. tölul. 2. mgr. 4. gr. laganna kemur: Bændasamtök Íslands. Orðin „Stéttarsamband bænda“ í sama tölulið falla brott.

16. gr.


Breyting á lögum um heftingu landbrots og varnir gegn ágangi vatna,


nr. 43/1975, með síðari breytingum.


    Í stað orðanna „Búnaðarfélags Íslands“ í 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: Bændasamtaka Íslands.

17. gr.


Breyting á ábúðarlögum, nr. 64/1976, með síðari breytingum.


    Í stað orðanna „Búnaðarfélags Íslands“ í 4. mgr. 11. gr., 2. mgr. 17. gr. og 3. mgr. 24. gr. laganna kemur: Bændasamtaka Íslands.

18. gr.


Breyting á jarðalögum, nr. 65/1976, með síðari breytingum.


    Í stað orðanna „Búnaðarfélags Íslands“ í 3. mgr. 6. gr. laganna og í stað sömu orða í 1. og 3. mgr. 12. gr., 13.–15. gr., 3. mgr. 22. gr., 3. mgr. 29. gr., 2. mgr. 38. gr., a-lið 1. mgr. 47. gr., 2., 4. og 5. mgr. 49. gr. og 69. gr. kemur (í viðeigandi beygingarföllum): Bændasamtök Íslands.
    Í stað orðanna „Búnaðarfélagið lætur“ í 3. mgr. 22. gr. laganna kemur: Bændasamtök Íslands láta.
    Í stað orðsins „sýslunefnd“ í 69. gr. laganna kemur: héraðsnefnd.

19. gr.


Breyting á lögum um tekju- og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum.


    Orðin „og Búnaðarfélag Íslands“ í 2. tölul. 4. gr. laganna falla brott.

20. gr.


Breyting á lögum um Lífeyrissjóð bænda, nr. 50/1984, með síðari breytingum.


    4. málsl. 3. gr. laganna orðast svo: Tveir skulu tilnefndir af stjórn Bændasamtaka Íslands en einn skipaður án tilnefningar.
    4. gr. laganna orðast svo:
                  Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af löggildum endurskoðanda er sjóðstjórn ræður og að auki af tveimur endurskoðendum sem skipaðir eru til fjögurra ára í senn af ráðherra sem fer með lífeyrismál. Skulu þeir tilnefndir af stjórn Bændasamtaka Íslands.

21. gr.


Breyting á jarðræktarlögum, nr. 56/1987, með síðari breytingum.


    2. gr. laganna orðast svo:
                  Bændasamtök Íslands hafa á hendi umsjón með framkvæmd ræktunarmála og jarðabóta samkvæmt lögum þessum, enda sé skipulag þeirra og starfsreglur í samræmi við ákvæði laganna.
    Í stað orðanna „Búnaðarfélag Íslands“ í 3.–7. gr. laganna og í stað sömu orða í 10.–19. gr. og orðanna „Stéttarsambands bænda“ í 11. gr. kemur (í viðeigandi beygingarföllum): Bændasamtök Íslands.

22. gr.


Breyting á lögum um Hagþjónustu landbúnaðarins, nr. 63/1989.


    Í stað orðanna „Búnaðarfélags Íslands“ í 3. gr. laganna og í stað sömu orða í ákvæði til bráðabirgða kemur í (viðeigandi beygingarföllum): Bændasamtök Íslands.

23. gr.


Breyting á lögum um búfjárrækt, nr. 84/1989, með síðari breytingu.


    Í stað orðanna „Búnaðarfélag Íslands“ í 4. gr. laganna og í stað sömu orða í 5., 8., 9. og 11.–17. gr. kemur (í viðeigandi beygingarföllum): Bændasamtök Íslands.

24. gr.


Breyting á lögum um Búnaðarmálasjóð, nr. 41/1990, með síðari breytingum.


    Í stað orðanna „Stéttarsambands bænda“ í 3. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna og í stað sömu orða í 2. mgr. 4. gr. og 5. og 6. gr. kemur (í viðeigandi beygingarföllum): Bændasamtök Íslands.
    1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
                  Tekjum af búnaðarmálasjóðsgjaldi, sem innheimt er skv. 1. gr. og A- og B-liðum 2. gr., skal skipt þannig:
    Greiðsla     Greiðsla
    af A-flokki     af B-flokki
    skv. 2. gr.     skv. 2. gr.
    Til Bændasamtaka Íslands     0,125%     0,325%
    Til búnaðarsambanda     0,250%     0,500%
    Til búgreinafélaga     0,075%     0,075%
    Til Stofnlánadeildar landbúnaðarins     0,100%     0,200%
    Í stað orðanna „Stéttarsambands bænda, Búnaðarfélags Íslands“ í 7. gr. laganna kemur: Bændasamtaka Íslands.

25. gr.


Breyting á lögum um flokkun og mat á gærum og ull,


nr. 57/1990, með síðari breytingum.


    Í stað orðanna „Stéttarsambandi bænda“ í 2. mgr. 6. gr. laganna kemur: Bændasamtökum Íslands.
    

26. gr.


Breyting á lögum um búfjárhald, nr. 46/1991, með síðari breytingum.


    Í stað orðanna „Búnaðarfélags Íslands“ í 3. gr. laganna og í stað sömu orða í fyrri málslið 8. gr. og 3. mgr. 10. gr. kemur (í viðeigandi beygingarföllum): Bændasamtök Íslands.

27. gr.


Breyting á lögum um Jarðasjóð, nr. 34/1992, með síðari breytingu.


    Í stað orðanna „stjórnum Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda“ í 2. mgr. 1. gr. laganna kemur: stjórnar Bændasamtaka Íslands.

28. gr.


Breyting á lögum um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi, nr. 61/1992.


    Í stað orðanna „Búnaðarfélags Íslands“ í 4. gr. laganna kemur: Bændasamtaka Íslands.

29. gr.


Breyting á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim,


nr. 25/1993, með síðari breytingum.


    
Í stað orðanna „Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda tilnefna sinn manninn hvor“ í 27. gr. laganna kemur: Bændasamtök Íslands tilnefna tvo menn.

30. gr.


Breyting á lögum um dýravernd, nr. 15/1994.


    
Í stað orðanna „Einn tilnefndur af Búnaðarfélagi Íslands“ í 2. mgr. 17. gr. laganna kemur: Einn tilnefndur af Bændasamtökum Íslands.

31. gr.


Breyting á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994.


    Í stað orðanna „einum tilnefndum af Búnaðarfélagi Íslands“ í 1. og 2. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: einum tilnefndum af Bændasamtökum Íslands.
    Í stað orðanna „Búnaðarfélags Íslands“ í 2. mgr. 5. gr. laganna kemur: Bændasamtaka Íslands.

32. gr.


Breyting á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum


og villtum spendýrum, nr. 64/1994.


    Í stað orðanna „einum af Búnaðarfélagi Íslands“ í 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: einum af Bændasamtökum Íslands.

33. gr.


Breyting á lögum um útflutning hrossa, nr. 161/1994.


    Í stað orðanna „Búnaðarfélagi Íslands“ í 1. mgr. 4. gr. laganna og í stað sömu orða í 6. gr. kemur (í viðeigandi beygingarföllum): Bændasamtök Íslands.
    Í stað orðanna „Búnaðarfélag Íslands getur“ í 2. mgr. 4. gr. laganna kemur: Bændasamtök Íslands geta.

34. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi eftirtalin lög og lagaákvæði:
    Lög um mótak, nr. 16/1940.
    Lög nr. 7/1945, um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum.
    II. kafli laga nr. 45/1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum.
    2. mgr. 2. gr. laga nr. 40/1972, um sameiningu Borgarfjarðarhrepps og Loðmundarfjarðarhrepps í Norður-Múlasýslu í einn hrepp.
    Lög nr. 12/1984, um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 130 20. desember 1994 voru Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda sameinuð í ein heildarsamtök bænda og tóku hin nýju samtök við réttindum og skyldum Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda.
    Í 4. gr. laga nr. 130/1994 segir m.a. að tekin skuli til endurskoðunar öll þau lagaákvæði þar sem vísað er til Búnaðarfélags Íslands eða Stéttarsambands bænda. Frumvarp þetta er samið á grundvelli þeirra fyrirmæla. Hin nýju samtök hafa kosið sér stjórn, sett sér samþykktir og gefið samtökunum nafnið Bændasamtök Íslands.
    Í samræmi við þetta eru í frumvarpinu talin upp lög þar sem Búnaðarfélagi Íslands eða Stéttarsambandi bænda eru ætluð tiltekin hlutverk og lagt til að þau hlutverk verði falin Bændasamtökunum. Að öðru leyti er vísað til einstakra greina og skýringa með þeim.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 11. gr. laga nr. 56/1933 er Búnaðarfélagi Íslands falið að annast framkvæmd laga um áveitu á Flóann. Lögin geyma ákvæði um ráðstafanir á löndum sem tekin hafa verið upp í áveitukostnað, bæði leigu og sölu. Lagt er til að Bændasamtök Íslands taki við þessu verkefni Búnaðarfélags Íslands.

Um 2. gr.


    Lög nr. 117/1943 heimila sölu landspildna sem teknar hafa verið upp í áveitukostnað á Flóaáveitusvæðinu. Lagt er til að Bændasamtök Íslands taki við hlutverki Búnaðarfélags Íslands samkvæmt lögunum.

Um 3. gr.


    Búnaðarfélagi Íslands er í 11. gr. laga nr. 77/1936 falið að annast framkvæmd laganna, m.a. ráðstöfun lands sem ríkisjóður hefur eignast samkvæmt lögunum. Lagt er til að Bændasamtök Íslands taki við þessu hlutverki Búnaðarfélags Íslands.

Um 4. gr.


    Í 3. gr. laga um eignarnámsheimild á nokkrum löndum og á afnotarétti landsvæða í Hafnarfirði, Garðahreppi og Grindavíkurhreppi og um stækkun lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðarkaupstaðar, nr. 11/1936, er gert ráð fyrir að lönd þau sem Hafnarfjörður kann að eignast eða fá á leigu samkvæmt lögunum sé skylt að leigja bæjarmönnum eða ráðstafa á annan hátt til ræktunar í samráði við Búnaðarfélag Íslands. Hér er lagt til að samráð verði haft við Bændasamtök Íslands. Þá er lagt til að 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. falli brott, en þar er kveðið á um að búnaðarmálastjóri, einn fulltrúi Hæstaréttar Íslands og einn fulltrúi atvinnumálaráðherra eigi sæti í sérstökum gerðardómi er hafi það hlutverk að meta bætur fyrir þau lönd sem tekin eru eignarnámi á grundvelli laganna.

Um 5. gr.


    Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 101/1940 er kveðið á um að Hafnafjarðarkaupstað sé skylt að haga ræktun og úthlutun lands jarðanna samkvæmt fyrirmælum Búnaðarfélags Íslands. Hér er lagt til að Bændasamtök Íslands taki við hlutverki Búnaðarfélags Íslands í þessu efni.

Um 6. gr.


    Í 2. mgr. 11. gr. landskiptalaga, nr. 46/1941, er kveðið á um að þegar ágreiningur verður um samanburð ræktunarlanda úr óskiptri sameign eða hvar land skuli ræktað til endurgreiðslu, eftir að landskiptum er lokið, skuli hlíta úrskurði viðkomandi trúnaðarmanns Búnaðarfélags Íslands. Hér er lagt til að Bændasamtök Íslands taki við hlutverki Búnaðarfélags Íslands í þessu efni.
    Í 16. gr. landskiptalaga, nr. 46/1941, er kveðið á um að landeigendum sé rétt að skipta sjálfir landi á milli sín ef samkomulag er um það. Hins vegar er landeigendum skylt, ef skiptin eru sérstaklega vandasöm, að fá hreppstjóra, úttektarmann eða trúnaðarmann Búnaðarfélags Íslands til aðstoðar. Hér er lagt til að Bændasamtök Íslands taki við hlutverki Búnaðarfélags Íslands í þessu efni.

Um 7. gr.


    Í 28. gr. laga um skógrækt, nr. 3/1955, með síðari breytingum, er kveðið á um heimildir Skógræktar ríkisins ef ítrekaðar vanefndir eru af hálfu landeigenda eða ábúanda á samningi um ræktun nytjaskóga á bújörðum. Þar er gert ráð fyrir að þegar átta ár líða frá því að landið er tekið í vörslu Skógræktar ríkisins, án þess að landeigandi eða ábúandi hafi bætt úr vanefndum, sé Skógrækt ríkisins heimilt að leysa til sín skógræktarlandið, m.a. að fengnum meðmælum viðkomandi sveitarstjórnar, jarðanefndar og stjórnar Búnaðarfélags Íslands. Hér er lagt til að stjórn Bændasamtaka Íslands taki við hlutverki stjórnar Búnaðarfélags Íslands í þessu efni.

Um 8. gr.


    Í 6. gr. girðingalaga, nr. 10/1965, með síðari breytingum, er kveðið á um að þegar eigendur eða ábúendur jarða verða ekki sammála um hvers konar girðingu skuli setja milli jarða sem eru á mörkum lögsagnarumdæma skuli hluteigandi lögreglustjórar eða sýslumenn tilnefna sinn manninn hvor, en stjórn Búnaðarfélags Íslands tilnefna einn af jarðræktarráðunautum félagsins. Hér er lagt til að stjórn Bændasamtaka Íslands taki við hlutverki stjórnar Búnaðarfélags Íslands í þessu efni og að stjórnin sé frjáls að því hvern hún velur.

Um 9. gr.


    Búnaðarfélag Íslands hefur um langt árabil ekki haft umsjón með landgræðslumálum fyrir hönd ráðherra eins og þó er mælt fyrir um í lögum nr. 17/1965. Yfirstjórn Landgræðslu ríkisins hefur á þessum tíma unnið í beinu og nánu samráði við landbúnaðarráðherra og landbúnaðarráðuneyti. Við breytingar á skipan yfirstjórnar hagsmunasamtaka bænda er því gerð tillaga um að fella ákvæðið úr lögum. Í 7. gr. landgræðslulaga segir að Landgræðsla ríkisins skuli afla sér fullkomins umráðaréttar yfir því landi sem hún tekur til heftingar á jarð- og sandfoki eða endurgræðslu. Slíks umráðaréttar skal aflað með samningi eða eignarnámi ef umráðaréttur fæst ekki á annnan hátt. Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 7. gr. skal þó ekki framkvæma eignarnám nema Rannsóknastofnun landbúnaðarins sýni að þess sé þörf og að fengnu áliti stjórnar Búnaðarfélags Íslands. Lagt er til að stjórn Bændasamtaka Íslands taki við því hlutverki Búnaðarfélags Íslands.
    Í 1. mgr. 20. gr. laganna er kveðið á um að gróðurverndarnefndir skuli í samvinnu við landnýtingarráðunaut Búnaðarfélags Íslands fylgjast með notkun afrétta og heimalanda í sýslum landsins og vera ráðgefandi fyrir stjórnendur fjallskilamála í umdæminu um notkun og meðferð beitilanda og aðstoða Landgræðslu ríkisins við verndun og eflingu gróðurs. Eftir að framangreind ákvæði voru lögfest hafa Landgræðslu ríkisins bæst sérfræðingar um landnýtingu sem m.a. vinna í samvinnu við gróðurverndarnefndir og þykir því ekki ástæða til að kveða lengur á um samvinnu við landnýtingarráðunaut Búnaðarfélags Íslands.

Um 10. gr.


    Í 30. gr. laga um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965, með síðari breytingum, er kveðið á um að í stjórn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins skuli vera þrír menn skipaðir af landbúnaðarráðherra til fjögurra ára í senn. Einn skal skipaður án tilnefningar, einn tilnefndur af stjórn Búnaðarfélags Íslands og einn tilnefndur af tilraunaráði stofnunarinnar. Hér er lagt til að stjórn Bændasamtaka Íslands taki við hlutverki stjórnar Búnaðarfélags Íslands í þessu efni.
    Í 34. gr. laganna er kveðið á um skipan tilraunaráðs Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Tilraunaráðið á að vera tengiliður milli stofnunarinnar og hinna ýmsu greina landbúnaðarins. Það er forstjóra og stjórn til ráðuneytis og gerir tillögur um starfsáætlun stofnunarinnar. Meðal þeirra sem tilnefna eiga í ráðið eru Stéttarsamband bænda sem á að tilnefna tvo menn og jafnframt Búnaðarfélag Íslands og skal annar vera ráðunautur í jarðrækt og hinn í búfjárrækt. Hér er lagt til að Bændasamtök Íslands taki við þessu hlutverki Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda og tilnefni tvo menn í tilraunaráði í stað fjögurra áður.

Um 11. gr.


    Samkvæmt 2. gr. laga nr. 89/1966 er stjórn Framleiðnisjóðs skipuð fimm mönnum. Búnaðarfélag Íslands, Stéttarsamband bænda, stjórn Búnaðarbanka Íslands og stjórn Framkvæmdastofnunar eiga að tilnefna hver sinn mann. Formaður skal skipaður án tilnefningar. Eftir að Framkvæmdastofnun var lögð niður hefur forsætisráðherra tilnefnt einn mann í stjórnina. Rétt þykir við sameiningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda að ætla hinum nýju samtökum að tilnefna tvo menn. Þá þykir ekki ástæða til að stjórn Búnaðarbanka Íslands tilnefni áfram mann í stjórn Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Undanfarin ár hefur einn af bankastjórum bankans setið í stjórninni. Ekki er talið rétt að fulltrúar annarra fjármálastofnana sitji í stjórn Framleiðnisjóðs. Slíkt er til þess fallið að valda hagsmunaárekstrum. Því er lagt til að Rannsóknarráð Íslands tilnefni einn mann í stjórn Framleiðnisjóðs, en það samræmist vel lögmæltu hlutverki sjóðsins. Þá er lagt til að ráðherra skipi tvo menn í stjórn sjóðsins án tilnefningar.
    Samkvæmt þeirri breytingu á skipan stjórnar Framleiðnisjóðs sem lögð er til með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að 5. gr. laganna svo og 1. mgr. 6. gr. verði felldar brott, en þau ákvæði gera ráð fyrir að Búnaðarbanki Íslands hafi umsjón með Framleiðnisjóði gegn þóknun og að um endurskoðun og bókhald sjóðsins fari eftir lögum nr. 115/1941, um Búnaðarbanka Íslands (nú lögum nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði).

Um 12. gr.


    Í 5. gr. laga um gæðamat á æðardún, nr. 39/1970, er gert ráð fyrir að lögreglustjóri skipi dúnmatsmenn á þeim stöðum sem landbúnaðarráðuneytið telur þörf á, að fengnum tillögum Búnaðarfélags Íslands. Hér er lagt til að Bændasamtök Íslands taki við hlutverki Búnaðarfélags Íslands í þessu efni.

Um 13. gr.


    Í 88. gr. laganna er kveðið á um skipun stjórnar Veiðimálastofnunar. Í henni eiga sæti fimm menn. Stjórn Veiðimálastofnunar hefur á hendi yfirstjórn stofnunarinnar og deilda hennar og markar meginatriði um stefnu og starf hennar. Stjórnin gerir tillögur til ráðherra um starfs- og fjárhagsáætlun og staðfestir reikninga stofnunarinnar að loknu ársuppgjöri. Einn stjórnarmanna skal skipaður samkvæmt tilnefningu Búnaðarfélags Íslands. Hér er lagt til að Bændasamtök Íslands tilnefni einn mann í stað Búnaðarfélags Íslands.
    Samkvæmt 3. mgr. 95. gr. laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, er kveðið á um að einn nefndarmanna í yfirnefnd skuli vera „meðal dómara Hæstaréttar“. Hér er lagt til að sú skylda ráðherra að skipa hæstaréttardómara í yfirnefnd verði felld brott, enda verður að telja óeðlilegt að dómarar Hæstaréttar sinni slíkum matsstörfum.

Um 14. gr.


    Í 2. gr. laga um Stofnlánadeild landbúnaðarins o.fl. er gert ráð fyrir að þegar bankaráð Búnaðarbanka Íslands tekur til meðferðar og ákvörðunar málefni Stofnlánadeildar eða Byggingarstofnunar landbúnaðarins skuli fulltrúi frá Stéttarsambandi bænda og fulltrúi frá Búnaðarfélagi Íslands taka sæti í bankaráði Búnaðarbanka Íslands sem fullgildir bankaráðsmenn. Hér er lagt til að Bændasamtök Íslands taki við þessu hlutverki Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda.

Um 15. gr.


    Í 2. tölul. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, kemur fram að fulltrúi frá Búnaðarfélagi Íslands og frá Stéttarsambandi bænda eigi sæti á náttúruverndarþingi. Hér er lagt til að Bændasamtök Íslands eigi einn fulltrúa á náttúruverndarþingi.

Um 16. gr.


    Hér er lagt til að Bændasamtök Íslands taki við hlutverki Búnaðarfélags Íslands í matsnefndum samkvæmt lögum nr. 43/1975, um heftingu landbrots og varnir gegn ágangi vatns.

Um 17. gr.


    Í 4. mgr. 11. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1976, er kveðið á um undanþágu frá þeim ákvæðum 1. mgr. 11. gr. laganna sem kveða á um að þegar jörð er byggð til ákveðins árabils sé landsdrottni skylt að láta íbúðarhús og peningshús í nothæfu ástandi fylgja jörðinni. Undanþágan tekur til þeirra jarða sem ekki eru taldar búhæfar að mati jarðanefndar vegna kostarýrðar, skorts á ræktunarskilyrðum eða annarri aðstöðu til búrekstrar. Jafnframt tekur undanþágan til jarða innan takmarka kaupstaða og sjávar- og sveitaþorpa er rétt þykir að dómi landbúnaðarráðuneytisins, að fengnum tillögum Búnaðarfélags Íslands, að skipta í ræktunarlóðir. Hér er lagt til að Bændasamtök Íslands taki við hlutverki Búnaðarfélags Íslands í þessu efni.
    Í 2. mgr. 17. gr. ábúðarlaga segir að landbúnaðarráðherra setji reglur um viðhald húsa á leigujörðum að fengnum tillögum Búnaðarfélags Íslands og Byggingarstofnunar landbúnaðarins. Hér er lagt til að Bændasamtök Íslands taki við hlutverki Búnaðarfélags Íslands í þessu efni.
    Í 3. mgr. 24. gr. ábúðarlaga er fjallað um heimildir leiguliða til að nýta hlunnindi jarðarinnar. Þar er kveðið á um að leiguliði skuli hafa not hlunninda það vor sem hann flytur á jörð, nema um annað sé samið. Hins vegar er í greininni byggt á því að landsdrottinn megi leigja lóðir undir hús eða land til uppsáturs og fiskverkunarreita og spildur til ræktunar í óyrktu landi leigujarðar ef hlutaðeigandi héraðsráðunautur eða trúnaðarmaður Búnaðarfélags Íslands telur það ekki valda leiguliða verulegum skaða eða að það takmarki ekki aðstöðu hans til ræktunar á jörðinni. Hér er lagt til að Bændasamtök Íslands taki við hlutverki Búnaðarfélags Íslands í þessu efni.

Um 18. gr.


    Hér er lagt til að Bændasamtök Íslands taki við verkefnum Búnaðarfélags Íslands sem því eru fengin í jarðalögum, nr. 65/1976, með síðari breytingum. Meðal þeirra verkefna eru:
    Að veita umsögn til landbúnaðarráðherra vegna úrskurðar hans í tilefni af því að sveitarstjórn og jarðanefnd eru ekki sammála varðandi ráðstöfun fasteignar í sveitarfélaginu, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna.
    Ef ekki er heimild í lögum til að taka land til annarra nota en landbúnaðarnota þarf samþykki ráðherra, enda hafi það áður verið samþykkt af viðkomandi jarðanefnd og sveitarstjórn og fyrir liggi umsögn Skipulags ríkisins og Búnaðarfélags Íslands, sbr. 1. mgr. 12. gr. laganna. Þá er Búnaðarfélagi Íslands ætlað að gefa umsögn um fyrirhuguð landskipti áður en landbúnaðarráðherra staðfestir þau, sbr. 3. mgr. 12. gr.
    Ráðherra getur, ef hagsmunir sveitarfélags krefjast, leyft sameiganda sem rekur bú á jörð og hefur þar fasta búsetu að leysa til sín eignarhluta sameigenda sinna, enda hafi jarðanefnd og stjórn Búnaðarfélags Íslands mælt með því, sbr. 14. gr. laganna.
    Landbúnaðarráðherra getur heimilað sveitarstjórnum eignarnám á jörðum ef meðferð þeirra, lands eða landsnytja er ekki í samræmi við ákvæði jarða- eða ábúðarlaga og þörf er á landinu til bættrar aðstöðu viðkomandi byggðarlags, enda hafi jarðanefnd og stjórn Búnaðarfélags Íslands mælt með eignarnámi, sbr. 15. gr. laganna.
    Þegar landbúnaðarráðuneytið heimilar stofnun nýs býlis til búvöruframleiðslu á það að leita umsagnar Búnaðarfélags Íslands og Framleiðsluráðs landbúnaðarins, enda hafi viðkomandi sveitarstjórn og jarðanefnd samþykkt stofnun býlisins, sbr. 22. gr. laganna.
    Eitt skilyrða fyrir því að jarðeiganda sé heimilt að gera jörð sína að ættaróðali er að jörðin sé svo stór eða svo gæðarík að afraksturinn af búi, er jörðin getur borið með hlunnindum er henni fylgja, geti framfært að minnsta kosti meðalfjölskyldu að dómi Búnaðarfélags Íslands og viðkomandi jarðanefndar, sbr. 47. gr. laganna.
    Sýslumaður skal senda Búnaðarfélagi Íslands um hver áramót skýrslu um þær jarðir sem gerðar hafa verið að ættaróðali á árinu í hans umdæmi, sbr. 2. mgr. 49. gr. laganna.
    Búnaðarfélag Íslands skal gera fyrirmynd að mati á hugsanlegum afrakstri jarðarinnar sem gerð hefur verið að ættaróðali og krefjast tilskilinna gagna í því efni, sbr. 4. og 5. mgr. 49. gr. laganna.

Um 19. gr.


    Hér er lagt til að felld verði niður tilvísun í Búnaðarfélag Íslands í lögum um tekjuskatt og eignarskatt og því gert ráð fyrir að Bændasamtök Íslands njóti ekki sömu stöðu og Búnaðarfélag Íslands um að greiða hvorki tekju- né eignarskatt.

Um 20. gr.


    Í 3. gr. laga um Lífeyrissjóð bænda er kveðið á um skipun stjórnar sjóðsins. Hún er skipuð fimm mönnum. Þar af skal einn tilnefndur af Búnaðarfélagi Íslands og einn af Stéttarsambandi bænda. Hér er lagt til að Bændasamtök Íslands taki við hlutverki Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda í þessu efni jafnframt því að skipa endurskoðendur sjóðsins samkvæmt 4. gr. laganna.

Um 21. gr.


    Hér er lagt til að Bændasamtök Íslands taki við verkefnum Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda sem þeim eru fengin í jarðaræktarlögum, nr. 56/1987, með síðari breytingum.

Um 22. gr.


    Hér er lagt til að Bændasamtök Íslands taki við verkefnum Búnaðarfélags Íslands sem því eru fengin í lögum um Hagþjónustu landbúnaðarins, nr. 63/1989. Þau verkefni eru:
    Búnaðarfélag Íslands tilnefnir einn mann og varamann í stjórn Hagþjónustu landbúnaðarins en landbúnaðarráðherra skipar fjóra menn í stjórnina eftir tilnefningu Þjóðhagsstofnunar, búsvísindardeildar Bændaskólans á Hvanneyri, Hagstofu Íslands og Búnaðarfélags Íslands, sbr. 3. gr. laganna.
    Búnaðarfélagi Íslands er ætlað að gegna ákveðnu hlutverki til bráðabirgða þar til bókhaldsstofur bænda og Hagþjónusta landbúnaðarins geta sinnt hlutverki sínu samkvæmt lögunum, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögunum.

Um 23. gr.


    Lagt er til að Bændasamtök Íslands taki við verkefnum Búnaðarfélags Íslands sem því eru fengin í lögum um búfjárrækt, nr. 84/1989.

Um 24. gr.


    Hér er lagt til að Bændasamtök Íslands taki við verkefnum, réttindum og skyldum Búnaðarfélags Íslands sem því eru fengin í lögum um Búnaðarmálasjóð, nr. 41/1990, með síðari breytingum.

Um 25. gr.


    Hér er lagt til að í stað Stéttarsambands bænda tilnefni Bændasamtök Íslands mann í ullarmatsnefnd samkvæmt lögum, nr. 57/1990.

Um 26. gr.


    Samkvæmt 3. gr. laga um búfjárhald, nr. 46/1991, er sveitarstjórn heimilt að setja samþykkt um búfjárhald. Landbúnaðarráðherra staðfestir slíka samþykkt að fenginni umsögn Búnaðarfélags Íslands. Hér er miðað við að staðfesting landbúnaðarráðherra fari fram að undangenginni umsögn Bændasamtaka Íslands.
    Í 8. gr. laganna er kveðið á um að landbúnaðrráðuneytið skulu beita sér fyrir því, m.a. í samvinnu við Búnaðarfélag Íslands, að gefa út leiðbeinandi reglur um sem flesta þætti er lúta að fóðrun, aðbúnaði, meðferð og heilbrigði búfjár af viðkomandi tegund. Hér er gert ráð fyrir að ráðuneytið leiti samvinnu við Bændasamtök Íslands um þessi mál.
    Í 10. gr. laganna er kveðið á um hlutverk Búnaðarfélags Íslands við forðagæslu, þ.e. að láta búfjáreftirlitsmönnum í té eyðublöð um framkvæmd forðagæslu, vinna úr gögnum og hafa yfirstjórn með framkvæmd forðagæslu. Hér er miðað við að Bændasamtök Íslands hafi þetta verkefni með höndum.

Um 27. gr.


    Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga um Jarðasjóð, nr. 34/1992, ber að senda erindi sem Jarðasjóði berast um kaup og sölu jarða til umsagnar stjórna Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda áður en þau eru afgreidd. Hér er gert ráð fyrir að slík erindi verði send stjórn Bændasamtaka Íslands til umsagnar.

Um 28. gr.


    Samkvæmt 4. gr. laga um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi, nr. 61/1992, ber umhverfisráðherra að fá umsögn Búnaðarfélags Íslands áður en hann setur reglugerð á grundvelli laganna. Hér er miðað að umhverfisráðherra fái umsögn Bændasamtaka Íslands.

Um 29. gr.


    Samkvæmt 27. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, skipar landbúnaðarráðherra þriggja manna dýrasjúkdómanefnd til að vera ráðgefandi um aðgerðir til útrýmingar dýrasjúkdómum og hvers konar sóttvarnir sem hefta útbreiðslu þeirra. Þá skal hún hlutast til um stofnun svæðisnefnda og hafa eftirlit með starfrækslu varnarlína og viðhaldi þeirra. Einn nefndarmanna skal tilnefndur af Búnaðarfélagi Íslands og annar af Stéttarsambandi bænda. Í frumvarpi þessu er miðað við að Bændasamtök Íslands tilnefni tvo menn í umrædda nefnd.

Um 30. gr.


    Samkvæmt 17. gr. laga um dýravernd, nr. 15/1994, skipar umhverfisráðherra fimm manna dýraverndarráð til að hafa með höndum eftirlit með framkvæmd laganna. Einn nefndarmanna skal tilnefndur af Búnaðarfélagi Íslands. Hér er miðað við að Bændasamtök Íslands tilnefni í stað Búnaðarfélags Íslands einn fulltrúa í dýraverndarráð.

Um 31. gr.


    Samkvæmt 3. gr. laga um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994, skipar landbúnaðarráðherra annars vegar þriggja manna fóðurnefnd og hins vegar þriggja manna sáðvöru- og áburðarnefnd. Þeim er ætlað að vera ráðgefandi um framkvæmd eftirlits með fóðri, áburði og sáðvöru og vera til aðstoðar aðfangaeftirliti. Einn nefndarmanna í hvorri nefnd skal tilnefndur af Búnaðarfélagi Íslands. Hér er miðað við að Bændasamtök Íslands tilnefni í stað Búnaðarfélags Íslands einn fulltrúa í hvora nefnd.
    Í 2. mgr. 5. gr. laganna er miðað við að landbúnaðarráðherra ákveði með reglugerð, að höfðu samráði við sérfræðinga Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og ráðunauta Búnaðarfélags Íslands, hvaða upplýsingar skylt er að láta fylgja vörum sem lögin ná yfir. Hér er miðað við að haft verði samráð við ráðunauta Bændasamtaka Íslands.

Um 32. gr.


    Samkvæmt 3. gr. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, skipar umhverfisráðherra sjö manna ráðgjafarnefnd um villt dýr og skal einn tilnefndur af Búnaðarfélagi Íslands. Hér er miðað við að Bændasamtök Íslands tilnefni í stað Búnaðarfélags Íslands einn fulltrúa í umrædda nefnd.

Um 33. gr.


    Hér er lagt til að Bændasamtök Íslands taki við verkefnum Búnaðarfélags Íslands sem því eru fengin í lögum um útflutning hrossa, nr. 161/1994.
    Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga um útflutning hrossa skal vegna útflutnings hrossa fylgja vottorð Búnaðarfélags Íslands um uppruna og ætterni hrossins. Skv. 2. mgr. 4. gr. laganna eiga innlendir hrossaræktendur og samtök þeirra forkaupsrétt að úrvalskynbótagripum sem áformað er að flytja úr landi. Búnaðarfélag Íslands getur óskað eftir því við landbúnaðarráðherra að það fresti útflutningi á þeim í allt að tvær vikur á meðan forkaupsréttur er boðinn. Skv. 6. gr. á Búnaðarfélag Íslands einn fulltrúa í fimm manna útflutnings- og markaðsnefnd sem á að vera ráðgefandi um málefni er snerta útflutning á hrossum og gera tillögur um ráðstöfun á eftirstöðvum útflutningsgjalds.

Um 34. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna sameiningar


Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda í Bændasamtök Íslands.


    Í frumvarpinu eru tekin til endurskoðunar öll lagaákvæði sem vísa til Búnaðarfélags Íslands eða Stéttarsambands bænda sem sameinuð voru með lögum nr. 130/1994. Er þetta gert í samræmi við 4. gr. nefndra laga. Aðallega er um nafnabreytingar að ræða þar sem í stað Búnaðarfélags Íslands eða Stéttarsambands bænda kemur Bændasamtök Íslands sem er nafn hinna sameinuðu heildarsamtaka. Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.