Ferill 428. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 428 . mál.


758. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum.

Flm.: Jón Baldvin Hannibalsson, Margrét Frímannsdóttir,


Jóhanna Sigurðardóttir.



1. gr.

    2. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
    Til tekna sem vextir, sbr. 1. mgr., af kröfum eða inneignum manna, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, teljast gjaldfallnir vextir og gjaldfallnar verðbætur og gengishagnaður á afborganir og vexti, svo og gengishækkun hlutdeildarskírteina. Til tekna sem vextir hjá þessum aðilum teljast enn fremur afföll af keyptum verðbréfum, víxlum og sérhverjum öðrum kröfum. Vextir af reikningum í innlánsstofnunum skulu teljast til tekna á því ári þegar þeir eru færðir manni til eignar á reikningi. Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um útreikning vaxtatekna samkvæmt þessari málsgrein.

2. gr.

    1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    62. gr. laganna orðast svo:
    Tekjuskattsstofn er nú fjárhæð sem skattur er reiknaður af og ákvarðast þannig:
    Tekjuskattsstofn manna, sem ekki hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, er þessi:
         
    
    Tekjur samkvæmt II. kafla, eftir því sem við á, aðrar en vaxtatekjur, sbr. 3 tölul. c-liðar 7. gr., að teknu tilliti til þess frádráttar sem heimilaður er frá þeim tekjum, sbr. 30. gr.
         
    
    60% af tekjum skv. 3. tölul. c-liðar 7. gr. að því marki sem þær eru umfram 40.000 kr. hjá einstaklingi og 80.000 kr. hjá hjónum.
    Tekjuskattsstofn lögaðila, sbr. 2. gr., telst tekjur samkvæmt II. kafla, að teknu tilliti til þess frádráttar sem þessum aðilum er heimilaður skv. 31. gr.
    Tekjuskattsstofn manna, sem hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, er þessi:
         
    
    Tekjur samkvæmt II. kafla, aðrar en vaxtatekjur, sbr. 3. tölul. c-liðar 7. gr., enda séu þær ekki tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, að teknu tilliti til þess frádráttar sem heimilaður er frá þeim tekjum, sbr. 30. gr.
         
    
    60% af tekjum skv. 3. tölul. c-liðar 7. gr. að því marki sem þær eru umfram 40.000 kr. hjá einstaklingi og 80.000 kr. hjá hjónum.
         
    
    Tekjur samkvæmt II. kafla, sem tengdar eru atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, að teknu tilliti til þess frádráttar sem heimilaður er frá þeim tekjum, sbr. 31. gr.
    Samanlagðar tekjur ákveðnar eftir a-, b- og c-liðum mynda tekjuskattsstofn aðila samkvæmt þessum tölulið. Sé tap á atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, þannig að c-liður verður neikvæður, telst tekjuskattsstofn einungis tekjur skv. a- og b-lið.
    Tap af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi er aldrei heimilt að draga frá tekjum sem ekki eru tengdar slíkri starfsemi, en heimilt er að yfirfæra það skv. 7. tölul. 1. mgr. 31. gr. og draga það frá hagnaði sem síðar kann að myndast í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi aðila.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á C-lið 69. gr. laganna:
    3. málsl. 3. mgr. fellur brott.
    1. og 2. málsl. 4. mgr. orðast svo: Vaxtabætur skal ákvarða þannig að frá vaxtagjöldum, eins og þau eru skilgreind í 3. mgr., skal draga fjárhæð er svarar til 6% af tekjuskattsstofni. Frá tekjuskattsstofni í þessu sambandi er eigi heimilt að draga tekjur skv. 2. og 3. tölul. A-liðar og 2., 3. og 4. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu gjalda gjaldaárið 1998 vegna vaxtatekna á árinu 1997.

Ákvæði til bráðabirgða.


Vextir af bréfum og kröfum hjá aðilum utan rekstrar


sem stofnað var til fyrir 1. janúar 1997.


    Vaxtatekjur, eins og þær eru skilgreindar í 8. gr., af bréfum og kröfum, sem gefin voru út eða til var stofnað fyrir 1. janúar 1997, teljast eigi til skattskyldra vaxtatekna manna að því leyti sem þær voru áfallnar 1. janúar 1997.

Greinargerð.


    Skattlagning vaxtatekna hefur verið á dagskrá um nokkurra ára skeið. Eftir að verðbólgan tók að hægja á sér og fjármálakerfi þjóðarinnar komst í betra jafnvægi urðu kröfur um skattlagningu vaxtatekna æ háværari. Áður var það viðtekin skoðun og réttmæt að sparifjáreigendur greiddu skatt sinn til samfélagsins með rýrnun innstæðna sinna á báli verðbólgunnar. Það var að vísu skattur sem enginn vissi nákvæmlega hve hár var, hvað þá hverjir voru raunverulegir greiðendur. Á þessum árum rýrnuðu innstæður landsmanna mjög mikið. Var að lokum svo komið að fjölmargir sjóðir voru að tæmast. Eftir setningu svokallaðra Ólafslaga árið 1979 var tekin upp verðtrygging á fjárskuldbindingum en það tók fjármálakerfi þjóðarinnar langan tíma að endurheimta sama fjárstyrk og áður.
    Nú, 16 árum eftir gildistöku Ólafslaga, má segja að jafnvægi ríki á íslenskum fjármálamarkaði og sé hann farinn að starfa á eðlilegum forsendum. Í Vestur-Evrópu er vaxtaskattur frekar regla en hitt. Það þarf því sterk rök gegn því að sambærilegt skattafyrirkomulag sé hér á landi og víðast hvar í Evrópu.
    Megintillögur þessa frumvarps eru þessar:
    Vaxtatekjur verði skattlagðar innan núverandi skattkerfis, þ.e. þær myndi sameiginlegan skattstofn með öðrum tekjum.
    Vaxtatekjur, hverju nafni sem þær nefnast, skulu teljast til skattskyldra tekna. Frá vaxtatekjum skal draga 40.000 kr. hjá einstaklingi en 80.000 kr. hjá hjónum. Af því sem eftir stendur skulu 60/100 leggjast við skattstofn sem skattskyldar tekjur.
    Greidd verði staðgreiðsla af vaxtatekjum fjármálastofnana sem ganga upp í álagðan skatt við álagningu. Staðgreiðsluhlutfallið verði 25% af vaxtagreiðslum til einstaklinga hjá hverri fjármálastofnun. Frítekjumark verði 40.000 kr. á ári hjá einstaklingi. Hægt verði að fá undanþágu frá staðgreiðslu allt að þessari upphæð samkvæmt ósk einstaklings, enda heimili hann fjármálastofnun að senda skattyfirvöldum upplýsingar um greidda vexti.
    Upplýsingaskyldu fjármálastofnana verði ekki breytt. Skil á staðgreiðslu verði ekki sundurliðuð á einstaklinga. Engar sjálfvirkar kvaðir verði settar á fjármálastofnanir um greidda vexti.
    Ekki verði breytt skattlagningu á arð, söluhagnað og fleira frá því sem nú er.
    Hér verður gerð grein fyrir þessum fimm meginatriðum frumvarpsins:

1. Vaxtatekjur verði skattlagðar innan núverandi skattkerfis, þ.e. myndi sameiginlegan skattstofn með öðrum tekjum samkvæmt þeim sérreglum sem fram koma í öðrum liðum tillögunnar.
1.1.     Helsta ágreiningsefni þeirra sem fjallað hafa um tillögugerð í skattlagningu vaxtatekna snýst um það hvort þessi skattur eigi að vera hluti af tekjuskattskerfinu eða standa utan þess. Fram til þessa hefur enginn ágreiningur verið um tekjuhugtak skattalaga.
    Um langt skeið hafa heildartekjur verið notaðar sem grunnur tekjuskatts hér á landi og er það reyndar einnig meginreglan í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Allt álagningarkerfi skatta, bætur og ívilnanir miðast við þess konar kerfi og er hvorki ráðlegt né æskilegt að víkja frá því. Það hlýtur óhjákvæmilega að flækja skattkerfið ef sumar tekjutegundir eru teknar út og meðhöndlaðar á allt annan hátt en aðrar tekjur. Slík kerfi bjóða undantekningarlítið upp á möguleika til skattundanskots. Því þarf sterk rök til að undanskilja vaxtatekjur tekjuskattsgrunninum. Í nefndaráliti nefndar um fjármagnstekjuskatt er lagt til að sú grundvallarbreyting verði gerð á núverandi skattkerfi að fjármagnstekjur verði meðhöndlaðar utan tekjuskattskerfisins með það að markmiði að lækka skattlagningu þeirra. Þetta hlýtur óhjákvæmilega að þýða að þeir sem nú greiða hæsta skatta, t.d. af arði, fái ívilnun og þurfi ekki að greiða jafnháan skatt af arði, söluhagnaði, vöxtum og afföllum og launamaður greiðir af tekjum sínum. Ef þessi breyting verður samþykkt stöndum við uppi með skattkerfi sem gerir launamanninum að greiða hærra skatthlutfall af launatekjum sínum en fjármagnseigandanum af fjármagnstekjum sínum. Augljóst er í hverra þágu þessar öfugmælavísur eru ortar.
    Þá eru þessar tillögur nefndarinnar ekki heildstæðar þar sem ekki er gert ráð fyrir að þessi sérsköttun nái til rekstarhagnaðar einstaklinga og sameignarfélaga. Hvort tveggja er fjármagnstekjur. Í tillögunum felst því ekki aðeins mismunun milli einstaklinga eftir því hvaða nafn tekjur þeirra bera heldur einnig eftir því formi atvinnurekstrar sem þeir velja sér.

1.2. Meginsjónarmið við tekjuskattsálagningu í flestum löndum er að jafna skatti niður á borgarana eftir greiðslugetu þeirra, eða eins og sagt var áður: eftir efnum og ástæðum. Það er sú skattlagningaraðferð sem jafnaðarmenn hafa löngum aðhyllst. Hvergi á hún frekar rétt á sér en við skattlagningu vaxtatekna. Skattlagning eftir greiðslugetu verður marklaus ef ekki er miðað við heildartekjur.
    Sé farið að eins og lagt er til í tillögum nefndar um fjármagnstekjuskatt og þær tekjutegundir, sem fyrst og fremst er að finna hjá hátekjufólki, tíndar út úr skattkerfinu og skattlagðar bæði sérstaklega og lágt er beinlínis verið að snúa við þeirri reglu að skattleggja eftir greiðslugetu og í reynd verið að skattleggja menn minna eftir því sem greiðslugeta er meiri.
    Flatur skattur á tekjur eins og vaxtatekjur, sem er mjög misskipt, dregur úr stíganda skattlagningarinnar en hún er minni hér er í flestum löndum sem við berum okkur saman við. Flatur skattur líkist fremur nefskatti sem kemur hlutfallslega þyngst niður á þeim sem minnstar tekjur hafa. Því er um að ræða afturhvarf frá þessari sjálfsögðu meginstefnu verkalýðshreyfingarinnar sem er að skattlagning lágtekjufólks verði sem minnst en þeir betur settu greiði hlutfallslega meira.
    Skattkerfi sem heldur vöxtum inni í skattkerfinu viðheldur þannig mörgum mikilvægum þáttum skattkerfisins sem ella mundu glatast. Auk þess að tryggja þannig skattlagningu samkvæmt greiðslugetu tryggir það að skattleysismörk verði áfram virk eins og rakið er hér að framan.

1.3. Séu vaxtatekjur felldar inn í skattkerfið, eins og hér er gert ráð fyrir, nær skattlagningin eingöngu til þeirra sem eru skattskyldir vegna tekna sinna samkvæmt skilgreiningu skattalaganna. Koma verður í veg fyrir tilviljanankennda skattlagningu fjölmargra óskyldra aðila sem ekki eiga að vera skattskyldir og eru ekki skattskyldir af öðrum tekjum sínum. Má þar nefna félagasamtök, líknarstofnanir, sjálfseignarstofnanir, styrktarsjóði og opinberar stofnanir. Tekjum þessara aðila er oft varið að stórum hluta til að greiða einstaklingum laun eða önnur skattskyld framlög þannig að um tvísköttun yrði að ræða ef vaxtatekjur þeirra eru skattlagðar.

1.4. Skattstofn tekjuskatts og útsvars til sveitarfélaga er nú sameiginlegur til mikils hagræðis fyrir báða aðila í framkvæmd. Engin rök eru fyrir að víkja frá því hvað einstakar tekjutegundir varðar.
    Með því að halda vaxtatekjum utan skattkerfisins, eins og yrði með því að leggja á sérstakan vaxtaskatt, hefðu sveitarfélög engar tekjur af vaxtatekjum einum skattskyldra tekna. Í ljósi tekjustöðu sveitarfélaga og fyrirætlana um að auka tekjur þeirra vegna flutnings verkefna til þeirra frá ríkinu eru engin rök til að undanskilja vaxtatekjur úr skattstofni sveitarfélaga. Með því að fella vaxtatekjur inn í skattkerfið með þeim hætti sem tillagan gerir ráð fyrir eru sveitarfélögum tryggðar tekjur af þessum hluta tekjuskattsstofnsins með sama hætti og af öðrum tekjum.
    Með sérsköttun vaxtatekna utan hins almenna skattkerfis eru sveitarfélög ekki aðeins sniðgengin hvað tekjur varðar heldur munu þau og stofnanir þeirra þurfa að greiða verulega skatta af tekjum sínum. Óhjákvæmilegt er að sveitarfélög og stofnanir þeirra, sem selja vöru og þjónustu, veitustofnanir o.s.frv., hafi veltufé sem ber einhverja ávöxtun. Sérgreindur vaxtaskattur mundi leggjast á þessa ávöxtun og yrði velt út í verðlagið eða kæmi niður á tekjum sveitarfélaga.
    Samkvæmt upplýsingum, sem lagðar voru fram í nefnd um fjármagnstekjuskatt, má áætla að vaxtatekjur sveitarfélaga og stofnana þeirra séu um 750 millj. kr. þannig að skattur á þau yrði um 75 millj. kr. á ári.
    Auk þess að leggja þannig skatt á sveitarfélögin felur sú tillaga að gera skatt á fjármagnstekjur að sérskatti til ríkisins það í sér að sveitarfélögin eru svipt verulegum tekjum sem þau hafa nú. Arðstekjur, tekjur af söluhagnaði og tekjur af fasteignum (húsaleiga hjá einstaklingum) eru áætlaðar um 2.600 millj. kr. Með því að færa þær tekjur út úr skattkerfinu lækka tekjur sveitarfélaga um nálægt 230 millj. kr. Þær tillögur að færa fjármagnstekjur út úr skattkerfinu leiða því til þess að tekjur sveitarfélaga verða rýrðar um a.m.k. 300 millj. kr. frá því sem nú er. Þær tillögur sem í þessu frumvarpi eru mundu hins vegar styrkj a tekjugrunn sveitarfélaga og auka þær um nokkur hundruð milljónir króna.

1.5. Með því að hafa vaxtatekjur inni í skattkerfinu, eins og tillagan gerir ráð fyrir, nýtist persónuafslátturinn eðlilega, þ.e. hann nýtist fyrst á móti sköttum, þ.e. tekjuskatti til ríkisins, þá útsvari, síðan á móti eignarskatti og loks til millifærslu til maka. Auk þess að vera einfaldara í framkvæmd skiptir það máli að nýting persónuafsláttar á móti útsvari hefur engin áhrif á heildarskatta einstaklingsins en nýting persónuafsláttar á móti eignarskatti eða millifærsla til maka felur í sér ívilnun.
    Nýting ónýtts persónuafsláttar á móti vaxtaskatti, sem ákveðinn er utan skattkerfisins, hefur mjög óeðlileg áhrif og er auk þess mjög flókinn og erfiður í framkvæmd, einkum með tilliti til millifærslu á persónuafslætti milli maka. Fylgifiskur skattleysis vaxta hefur verið að í ýmsum tilvikum hefur ríkið greitt útsvar til sveitarfélaga og eignarskatta fyrir skattborgara með lágar heildartekjur. Við álagningu á árinu 1995 greiddi ríkið sveitarfélögum rúmlega 100 millj. kr. í útsvör fyrir hjón með 4 millj. kr. í árstekjur og eignarskattar þeirra lækkuðu um nálægt 75 millj. kr. vegna tekjuskorts þeirra. Með því að halda skattlagningu vaxta utan skattkerfisins, og eins þó að sá persónuafsláttur sem ekki nýtist af almenna skattkerfinu verði nýttur á móti vaxtaskatti, verður þessu óeðlilega ástandi viðhaldið.
    Það er afar athyglisvert að skoða áhrif skattalegra ívilnana í þessu samhengi. Í núverandi skattkerfi fá þeir tekjulægstu mestu ívilnanir í hlutfalli við tekjur eða 11,4% af framtöldum tekjum sem samsvarar á milli 80 og 90 þús. kr. á hjón. Næsthæstar hlutfallslegar ívilnanir fá þau hjón sem hafa yfir 8,0 millj. kr. (meðallaun þeirra eru um 5,5 millj. kr.) en þau fá ívilnanir sem svara til 6,9% af framtöldum tekjum. Í þessu efsta tekjuþrepi nema þessar ívilnanir 700–800 þús. kr. á hjón. Þetta skýrist fyrst og fremst vegna skattfrelsis vaxtatekna.
    Ef athugað er hvernig mismunandi aðferðir við skattlagningu vaxtatekna hafa áhrif á þetta ívilnunarhlutfall er það óbreytt með báðum aðferðum þegar lægsta tekjubilið er skoðað. Munur þessara tveggja aðferða kemur betur í ljós þegar hæsta tekjubilið er skoðað.
    Sú leið, sem þetta frumvarp byggist á, minnkar þessi forréttindi þeirra tekjuhæstu úr 6,9% í 2,7%, eða þrefalt hærri en hjá tekjulægsta hópnum, sem segir okkur að ívilnanirnar verða áfram um 300 þús. kr. á hjón, eða þrefalt hærri en hjá tekjulægsta hópnum. Hin aðferðin, sem gerir ráð fyrir flatri skattprósentu utan við tekjuskattskerfið, viðheldur þessu misrétti að mestu leyti. Það lækkar ívilnanir úr fyrrnefndum 6,9% í 5,5% sem samsvarar tæplega 600 þús. kr. á hjón. Er þá eingöngu höfð hliðsjón af vaxtatekjum. Með þeirri tillögu að lækka skatta á aðrar fjármagnstekjur hækkar þessi ívilnun í fyrra horf.

1.6. Þær lagabreytingar, sem gera þarf til að koma tillögu þessari í framkvæmd, eru einfaldar. Á tekjuskattslögunum þarf einungis að fella brott ákvæði um skattfrelsi vaxtatekna og kveða á um 40.000 kr. frádráttinn og að 60% þess sem eftir stendur skuli telja til skattstofnsins. Þá er og rétt að breyta núverandi ákvæðum um skerðingu vaxtabóta vegna vaxtatekna. Allar skilgreiningar og framkvæmdareglur mundu þannig falla að almennum ákvæðum skattalaganna og eru því til staðar. Sama er að segja um málsmeðferðarreglur, kæruleiðir, úrskurði í ágreiningsmálum o.s.frv.
    Á lögum um staðgreiðslu þarf að gera breytingar sem einnig eru tiltölulega einfaldar. Kveða þarf á um skilaskyldu fjármálastofnana og rétt til að undanskilja lágar vaxtagreiðslur staðgreiðslu. Þar sem staðgreiðslan er ekki endanleg skattákvörðun en einungis innheimta upp í endanlega skattlagningu við álagningu er óþarfi að skilgreina skattstofn og setja nákvæmar framkvæmdareglur og málsmeðferðarreglur eins og annars er óhjákvæmilegt að gera. Jafnhliða þessu frumvarpi því er lagt fram sérstakt frumvarp um staðgreiðslu skatts af vaxtatekjum.
    Skattlagning vaxtatekna inni í skattkerfinu fellur í öllum aðalatriðum að uppbyggingu þess kerfis og kallar því á óverulega breytingu á framkvæmd og framkvæmdakostnaði. Innheimta í staðgreiðslu upp í álagningu er þegar til staðar vegna launatekna en er hvað aðrar tekjur varðar nýjung sem krefst nokkurra breytinga. Framkvæmdin getur þó verið einfaldari en ella þegar ekki er um að ræða endanlega skattákvörðun. Með því að takmarka staðgreiðslu skatts af vaxtatekjum við fjármálastofnanir og með þeim reglum tillagnanna sem undanskilja mjög stóran hluta skattborgara staðgreiðsluskilum verður mjög dregið úr umfangi hennar.
    Þá er rétt að geta þess hér að með þeim tillögum að heimila frádrátt á móti vaxtatekjum ásamt því að nýta persónuafslátt skattkerfisins, sem nánar verður gert grein fyrir í næsta lið, verður mikill fjöldi skattborgara, þ.e. þeir sem hafa lágar vaxtatekjur eða lágar tekjur almennt, undanþeginn skatti af vaxtatekjum sem gerir það að verkum að hægt verður að koma við einfaldara og umfangsminna staðgreiðslukerfi en ella væri.

2. Vaxtatekjur (vextir, verðbætur, afföll af skuldabréfum, söluhagnaður skuldabréfa o.s.frv.) teljist til skattskyldra tekna eftir því sem hér segir:
    Frá vaxtatekjum skal draga 40.000 kr. hjá einstaklingi og 80.000 kr. hjá hjónum.
    Af því sem þá stendur eftir skulu 60/100 leggjast við aðrar tekjur og myndi skattstofn ásamt þeim.


2.1. Hér er lagt til að einungis 60% vaxtatekna séu reiknuð til skattstofnsins. Með því að fara þá leið er komið til móts við þau sjónarmið að ekki skuli skattleggja nema raunvaxtahluta tekna. Rökin fyrir þessu eru þau að verulegur hluti fjáreignarstofnsins er uppsöfnuð verðbólguáhrif sem ekki þykir rétt að skattleggja.
    Í þessu sambandi er einnig rétt að benda á að með breytingum á lögum um almannatryggingar, sem samþykktar voru á Alþingi skömmu fyrir jól, var ákveðið að skilgreina tekjuhugtak það sem notað yrði við ákvörðun tekjutengdra bóta. Þar segir að tekjur samkvæmt ákveðnum liðum laga um tekju- og eignarskatt skuli „metnar að 50% hundraðshlutum“.
    Það er því rökrétt framhald af þeirri lagasetningu að meðhöndla vaxtatekjur við skattlagningu með hliðstæðum hætti og er ekki óeðlilegt að við skerðingu bóta sé notað lægra hlutfall en við skattlagningu.
    Þó að dregið sé úr uppsöfnuðum verðbólguáhrifum með því að telja einungis ákveðið hlutfall vaxtatekna til skattstofns dugir það ekki til þegar um er að ræða lágvaxtareikninga eins og almenna launareikninga og fleiri veltureikninga sem oft eru með mjög lágri eða jafnvel neikvæðri ávöxtun. Því er gerð tillaga um sérstakt frítekjumark eins og að framan segir.
    Tilgangurinn með því að hafa sérstakan frádrátt frá vaxtatekjum, 40.000 kr. á einstaklinga og tvöfalda þá fjárhæð á hjón, er m.a. að ná því markmiði að koma sem mest í veg fyrir skattlagningu neikvæðra vaxta og koma til móts við þau sjónarmið að skattlagningin geri ávöxtun sparifjár neikvæða.

2.2. Með því að hafa skattlagningu vaxta inni í skattkerfinu er áfram hægt að nýta eftir því sem við á hinn almenna persónufrádrátt. Um leið og skattlagningu er hagað eins og tillagan gerir ráð fyrir leiðir það til þess að hinir tekjulægstu verða áfram skattfrjálsir. Jafnframt verða vextir af smásparnaði skattfrjálsir og lágt skattaðir. Skattlagning hárra vaxtatekna verður meiri þótt hún verði áfram með svolítið öðrum hætti og lægri en gerist um aðrar tekjur.
    Hér er rétt að hafa í huga að eins og komið var inn á hér að framan, þegar dæmin um ívilnanirnar voru tekin, er fróðlegt að hafa skattbyrðina í huga þegar þessi mál eru skoðuð. Meðalskattbyrðin nú að frádregnum bótum er 10% hjá þeim sem hafa minna en 1,25 millj. kr. í árstekjur. Þetta hlutfall breytist nánast ekkert þótt mismunandi aðferðir við skattlagningu vaxtatekna séu notaðar. Aðeins efsti hópurinn, þ.e. 514 hjón að viðbættum einstaklingum, fær þyngri byrðar. Nú er skatthlutfall þeirra 29,8% og nánast hið sama og í næsta tekjubili fyrir neðan þrátt fyrir svokallaðan hátekjuskatt. Þetta hlutfall verður 34,0% samkvæmt þeim tillögum sem hér eru gerðar en hækkar ekki nema í 31,2% í samræmi við tillögur um flatan skatt á vexti utan tekjuskattskerfisins. Með því að taka aðrar fjármagnstekjur út úr skattkerfinu hækkar það ekkert.

2.3. Með tillögum þessum er komið til móts við sjónarmið þeirra sem telja rétt að skattur á vexti sé lægri en skattur á aðrar tekjur og ekki hærri en svo að engin veruleg hætta sé talin á að hann leiði til vaxtahækkunar eða fjárflótta. Skattur á vaxtatekjur yrði frá 0 og upp í sem svarar rúmlega 25% hjá flestum og upp í rúmlega 28% hjá þeim sem greiða hátekjuskatt, þ.e. þeim sem greiða tæp 47% af öðrum tekjum. Samkvæmt þessum tillögum mega hjón fá um 137.000 kr. í vaxtatekjur án þess að greiða af þeim neinn skatt. Einstaklingur má fá helmingi lægri upphæð án þess að greiða af henni skatt. Þetta jafngildir því að hjón eigi um 2,4 millj. kr. innstæðu með 5,5% ársvöxtum án þess að greiða af þeim tekjum vaxtaskatt. Þá er nauðsynlegt að benda á að með þessu frumvarpi verður skattbyrði vaxtaskatts með allt öðrum hætti en samkvæmt tillögum nefndarinnar.
    Þótt Þjóðhagsstofnun hafi ekki treyst sér til að meta dreifingu skattbyrði eftir tekjum, sbr. fylgiskjal, þá hafa verið lögð fram gögn sem renna sterkum rökum undir þá skoðun að helmingur skatttekna komi frá tveimur efstu tekjubilunum. Þetta fæst með því að bera saman tekjudreifingu hérlendis og erlendis samkvæmt OECD-skýrslum. Við þann samanburð kemur í ljós að tekjudreifing hér er svipuð og í samanburðarlöndunum. Þessi samanburður segir að 60,98% teknanna séu í tveimur efstu tekjubilunum en í samanburðarlöndum er þessi tala 50,26%. Þetta bendir jafnvel til enn frekari samþjöppunar vaxtatekna í efstu tekjubilin hérlendis en erlendis.

Tafla 1.

Skattskyldar tekjur: vaxtatekjur.




Tekjutíund (1–8 er sleppt)

9

10

         

Ástralía      10
,48
25 ,97
Bandaríkin      14
,80
36 ,26
Belgía      9
,30
53 ,74
Bretland      15
,84
28 ,95
Danmörk      11
,03
41 ,14
Finnland      13
,04
29 ,57
Frakkland      13
,95
23 ,92
Holland      13
,38
52 ,53
Írland           11
,83
49 ,13
Kanada      12
,18
28 ,65
Noregur      14
,47
33 ,82
Spánn      11
,71
48 ,65
Svíþjóð      9
,04
39 ,92
Meðaltal      12
,39
37 ,87

Ísland (hjón)      8
,70
52 ,28

    Tafla 1 sýnir tvær efstu tekjutíundir framtaldra vaxtatekna en alls eru þær tíu þar sem lægstu tekjubilin eru neðst (1–4) en efstu bilin (9–10) sýna hæstu tekjubilin.
    Þar sem skattur þessi er ekki hærri en hér er lagt til, og í reynd verður aðeins hluti sparnaðar að skattstofni, er ekki ástæða til að ætla að skattlagningin leiði til umtalsverðrar hækkunar á vöxtum eða til minni sparifjármyndunar. Þá ber að líta til þess að samkvæmt þessum tillögum verður meiri hluti sparenda (smásparendur, lífeyrissjóðir o.fl.) ekki skattlagður og hefur enga ástæðu til að breyta ávöxtunarkröfu sinni. Í alþjóðlegum samanburði er hér þó um tiltölulega lágan skatt að ræða og undanskot ættu því að vera í lágmarki.
    Ekki er ólíklegt að skattlagning vaxtatekna jafnt sem annarra tekna muni leiða til þess að reynt verði að sniðganga skattlagninguna í einhverjum mæli. Þetta verður reynt óháð því hvað skatturinn er hár. Því hærri skattur þeim mun meiri hætta á undankomu og undanskoti.
    Rannsóknir sýna að áhrif skattlagningar vaxtatekna á þjóðhagslegan sparnað eru óljós. Hann getur vissulega flust til, frá einstaklingum til hins opinbera, úr frjálsum sparnaði í kerfisbundinn sparnað. Auðvelt er að benda á dæmi sem sýna að jafnhliða minni sparnaði heimilanna komi aukinn sparnaður hins opinbera.
    Þótt tölfræðilegir útreikningar sýni jákvætt samband á milli raunvaxta og fjársparnaðar er það staðreynd að þjóðhagslegur sparnaður hefur farið minnkandi undanfarin ár hérlendis á sama tíma og raunvextir hafa hækkað.
    Skattur þessi yrði lágur í alþjóðlegum samanburði, t.d. lægri en í flestum ríkjum í OECD. Fjárflótti mundi því ólíklega leiða til minni skattlagningar erlendis, nema ólöglegt undanskot komi einnig til.
    Tafla 2 hér á eftir sýnir samanburð á venjulegum tekjusköttum og sköttum af bankavöxtum í OECD-ríkjunum. Þær sýna að víðast falla vaxtatekjur að venjulegum launatekjum og eru skattlagðar með sama hætti. Það frumvarp, sem hér er lagt fram, er því í fyllsta samræmi við það sem þar er. Eins og taflan sýnir verða fá lönd í OECD með lægri vaxtaskatt en Ísland verði þetta frumvarp að lögum. Meðalskattur á vexti verður í upphafi kringum 11% en fer í liðlega 18% þegar hann er að fullu kominn til framkvæmda. Tafla 2.

Samanburður á jaðarvaxtasköttum og jafnaðarlaunasköttum


í OECD-ríkjum miðað við janúar 1993 og án


verðbólguleiðréttingar.





Jaðarskattar

Jaðarskattar

    

á bankavexti

á almennar tekjur

    

Almennt

Hæsta

Almennt

Hæsta


Land

skattþrep

skattþrep

skattþrep

skattþrep




Austurríki.      22
,0 22 ,0 32 ,0
50 ,0
Ástralía      40
,5 49 ,5 39 ,4
  48 ,4
Belgía      10
,0 10 ,0 45 ,0
55 ,0
Bandaríkin      22
,5 45 ,9 22 ,5
45 ,9
Bretland      25
,0 40 ,0 25 ,0
40 ,0
Danmörk      52
,2 78 ,2 52 ,1
58 ,1
Finnland²      20
,0 20 ,0 49 ,0
60 ,0
Frakkland      27
,1 68 ,1 27 ,1
59 ,9
Grikkland      15
,0 15 ,0 15 ,0
40 ,0
Holland      38
,4 76 ,0 38 ,4
60 ,0
Írland           27
,0 48 ,0 27 ,0
48 ,0
Ísland           0
,0 0 ,0 41 ,34
46 ,34
Ítalía           30
,0 30 ,0 34 ,0
51 ,0
Japan           20
,0 20 ,0 20 ,0
50 ,0
Kanada      41
,5 49 ,8 41 ,5
49 ,8
Lúxemborg      0
,0 62 ,5 30 ,0
52 ,5
Noregur      28
,0 54 ,0 44 ,0
43 ,5
Nýja-Sjáland      24
,0 33 ,0 24 ,0
33 ,0
Portúgal      20
,0 20 ,0 25 ,0
40 ,0
Spánn      24
,5 61 ,0 24 ,5
56 ,0
Sviss           21
,7 45 ,0 21 ,7
43 ,0
Svíþjóð      30
,0 80 ,0 34 ,3
51 ,0
Tyrkland      10
,5 10 ,5 25 ,0
50 ,0
Þýskaland      29
,1 63 ,0 29 ,1
53 ,0

. Ákveðið hefur verið að hækka almennt skattþrep vaxtaskatts í Austurríki úr 22% í 25%.
² Vaxtaskattur var kominn í 25% 1995 og hækkaði aftur í 28% í Finnlandi frá 1. janúar 1996.

3. Tekin verði staðgreiðsla af vaxtagreiðslum fjármálastofnana sem gangi upp í álagðan skatt við álagningu. Hlutfall staðgreiðslu verði 25% af vaxtagreiðslum til einstaklinga hjá hverri fjármálastofnun að frátöldum vaxtagreiðslum að fjárhæð 40.000 kr. á ári eða minna hjá einstaklingi sem óskar eftir undanþágu og því að fjármálastofnunin sendi skattyfirvöldum upplýsingar um greidda vexti.

3.1. Með þessum lið tillagnanna er gert ráð fyrir að fjármálastofnanir skili staðgreiðslu af vaxtagreiðslum til einstaklinga til skattyfirvalda. Með þeim hætti á að vera hægt að tryggja sem best að ekki verður hægt að komast hjá skattlagningu með því að telja ekki fram vaxtatekjur eins og talið er að mikil brögð séu að. Þó að ekki sé gert ráð fyrir að fjármálastofnanir sundurliði skilin á einstaklinga á að vera unnt að hafa eftirlit með því á grundvelli bókhaldsgagna þeirra að staðin séu skil á skatti af öllum skilaskyldum vaxtagreiðslum.

3.2. Tillagan felur enn fremur í sér að heimilt verði að undanþiggja frá staðgreiðslu vaxtagreiðslur til þeirra sem hafa lágar vaxtatekjur og óska eftir slíkri undanþágu ásamt því að skattyfirvöldum verði veittar upplýsingar um vaxtagreiðslurnar. Skattlagning skilar sér þá eftir atvikum við álagningu. Með þessu má ætla að þeim sem sæta afdrætti vegna staðgreiðslu fækki verulega.

4. Upplýsingaskyldu fjármálastofnana verður ekki breytt. Staðgreiðsluskil verði ekki sundurliðuð á einstaklinga og engin kvöð verði um sjálfvirka upplýsingagjöf fjármálastofnana um greidda vexti.
    Samkvæmt lögum hvílir nú ekki sú skylda á fjármálastofnunum að veita skattyfirvöldum upplýsingar um eignir eða vaxtatekjur einstaklinga. Þeim ber hins vegar að láta slíkar upplýsingar í té sé eftir þeim leitað í einstökum tilvikum. Þessi takmarkaða upplýsingaskylda er af ýmsum talin hafa nokkurt gildi fyrir samband fjármálastofnana og viðskiptavina þeirra og leggja áherslu á að ekki verði við því hróflað. Í tillögum þessum er ekki gert ráð fyrir að breyta til í þessu efni.

5. Ekki verði breytt skattlagningu á arð, söluhagnað og fleira.

5.1. Í tillögum nefndar þeirrar sem á vegum ríkisstjórnarinnar hefur fjallað um skattlagningu vaxtatekna er gert ráð fyrir að láta þær sértæku tillögur, sem til umræðu hafa verið vegna vaxtatekna, einnig taka til arðs, söluhagnaðar o.fl. án þess þó að það hafi verið innifalið í því verkefni sem nefndinni var fengið í upphafi. Þótt vera kunni að æskilegt sé að reglur um skattlagningu þessara tekna séu teknar til endurskoðunar er hér lagt til að það verði ekki gert í tengslum við það að taka upp skattlagningu vaxtatekna enda eru þau sjónarmið, sem gera slíka endurskoðun æskilega, af allt öðrum toga en þau sjónarmið sem að baki skattlagningu liggja. Þar að auki eru veigamikil rök andstæð þeim hugmyndum sem koma frá nefndinni. Í þessu sambandi skal bent á eftirfarandi.

5.2. Með þeim sérreglum við skattlagningu á arði o.fl., sem nefndin gerir að tillögu sinni, er horfið frá þeirri meginreglu íslenskra skattalaga að leggja heildartekjur til grundvallar við ákvörðun tekjuskatts. Slík grundvallarbreyting er varhugaverð og óforsvaranlegt að gera hana að svo lítt athuguðu máli. Hún felur í sér aðgreiningu skattskyldra tekna í launa- og lífeyristekjur annars vegar og tekjur af eignum hins vegar, eins og áður hefur verið drepið á og sem ekki er ásættanleg frá sjónarmiði jafnræðis og þess hlutverks sem skattlagning gegnir við jöfnun lífskjara.

5.3. Eins og gerð er grein fyrir með fyrsta lið þessara tillagna samrýmist sérsköttun einstakra tekjutegunda og skipting skattstofnsins með þeim hætti sem ræddur hefur verið ekki því sjónarmiði að sköttum sé jafnað niður á borgarana með tilliti til greiðslugetu. Þetta verður bersýnilegt þegar fyrirliggjandi tillögur eru skoðaðar nánar. Fyrir liggja upplýsingar um það að um helmingur eða meira af nær öllum tegundum eignatekna, vöxtum, arði, söluhagnaði o.s.frv. fellur til þeirra 10% framteljenda sem hæstar tekjur hafa.
    Lækkun skatta á þessar tekjutegundir koma því nær eingöngu þeim tekjuhæstu til góða og létta skattbyrði þeirra og mundi hafa í för með sér verulegan tilflutning á skattlagningu sem gengi þvert á sjónarmið greiðslugetu, jafnræðis og tekjujöfnunar.




5.4.  Sérsköttun á arði mundi einnig leiða til misræmis við skattlagningu á tekjum af atvinnurekstri þar sem verulegur hluti slíkra tekna rennur til einstaklinga sem hagnaður af rekstri sameignarfélaga eða af einstaklingsrekstri sem lýtur hinum almennu skattlagningarreglum.

5.5.  Allt misræmi í skattlagningu, ekki síst misjöfn skatthlutföll, opna leiðir til skattahagræðingar og skattsvika. Á það ekki síst við í þeim tilvikum sem hér um ræðir þar sem skil á milli tekjutegunda geta verið óljós og auðvelt að færa tekjur úr því formi sem meira er skattlagt í það minna skattlagða. Samkvæmt tillögum nefndarinnar um skattlagningu fjármagnstekna eru tvö atriði sem kunna að hafa veruleg áhrif á skattlagninguna ef tillögur hennar ná fram að ganga.
    Annars vegar það misræmi sem þessi skattlagningaraðferð hefur í för með sér um skattlagningu rekstrarhagnaðar einstaklinga og sameignarfélaga.
    Hins vegar eru þær tillögur um að skattfrjáls arður verði miðaður við uppfært verð hlutabréfa.
    Afleiðingar þessara tillagna, ef þær verða að lögum, eru umtalsverðar fyrir ríkissjóð. Um þetta er nánar fjallað í 6. lið hér á eftir.

5.6. Þörf er á breytingum á skattlagningu arðs hér á landi frá öðrum sjónarmiðum en þeim sem lagt er upp með við skattlagningu vaxtatekna. Þau sjónarmið tengjast m.a. afnámi innlendrar tvísköttunar á rekstrarhagnað hlutafélaga og grundvelli tvísköttunarsamninga við erlend ríki. Rétt er að bíða með breytingu á skattlagningu arðs eftir endurskoðun á heildstæðum grundvelli.

6. Áhrif á tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga.
    Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun (sjá fylgiskjal) er áætlað að endanlegar tekjur ríkis og sveitarfélaga af skattlagningu vaxtatekna samkvæmt frumvarpinu geti numið um 1,7 milljarði kr. eða um 18% af vaxtatekjum. Hér er um að ræða heildartekjur af skattinum þegar skattlagningin er að fullu komin til framkvæmda. Að óbreyttu kæmu 75–80% (1.275–1.360 millj. kr.) í hlut ríkisins en 20–25% (340–425 millj. kr.) í hlut sveitarfélaganna.
    Jafnframt segir að skatturinn verði 600–700 millj. kr. lægri fyrsta árið (þ.e. skili 1.000–1.100 millj. kr.) en fari síðan smám saman hækkandi.

Tafla 4.

Lágmarksskatttekjur ríkissjóðs samkvæmt frumvarpinu miðað við framtaldar


vaxtatekjur árið 1994 og hámarksnýtingu sérstaks frítekjumarks.



Lágmarks-


Fjöldi með

Vaxtatekjur,

Meðaltekjur,

Meðalskattur,

skattur,


Heildartekjur

vaxtatekjur

millj. kr.

þús. kr.

þús. kr.

millj. kr.




Einhleypir
<625     
3.230
65 20 0 0
625–1.250     
5.890
313 53 3 19
1.250–2.000     
2.840
245 86 12 33
2.000–3.000     
1.115
155 139 25 28
3.000–4.000     
325
92 283 68 22
>4.000     
200
187 935 252 50
Samtals     
13.600
1.057 78 153

Hjón
<1.250     
930
48 52 0 0
1.250–2.000     
3.210
255 79 0 0
2.000–3.000     
3.830
334 87 2 7
3.000–4.000     
2.770
271 98 4 12
4.000–5.000     
1.600
206 129 12 20
>5.000     
1.770
1.050 593 145 256
Samtals     
14.110
2.164 153 295
ALLS
448


    Flytjendur frumvarpsins gerðu einnig athugun á þessum þætti miðað við þau gögn sem lögð voru fram í nefnd um skattlagningu fjármagnstekna, svo og samkvæmt upplýsingum sem birtast í nefndarálitinu sjálfu.
    Samkvæmt framtölum fyrir árið 1994, sem fram koma í skýrslu nefndar um fjármagnstekjuskatta, eru vaxtatekjur einhleypinga 1.041 millj. kr. og hjóna 2.151 millj. kr. Þar af eru 815 millj. kr. hjá 2.133 einstaklingum með yfir 100 þús. kr. á ári í vaxtatekjur og 1.902 millj. kr. hjá 3.293 hjónum með yfir 100 þús. kr. hvert. Reikna má með að flestir þeir sem svo háar vaxtatekjur hafa séu yfir skattleysismörkunum. Sé svo má áætla skatt af þessum vaxtatekjum um 620 millj. kr. þegar tekið hefur verið tillit til hins sérstaka frítekjumarks.

Vaxtatekjur alls

Vaxtatekjur yfir 100.000 kr.

Áætluð staða


    Fjöldi

millj. kr.

    Fjöldi     millj. kr.

millj. kr.


Einst.
13.625
1.041 2.133 815 185
Hjón
14.114
2.151 3.293 1.902 435

Samtals
620

    Á grundvelli upplýsinga, sem fram voru lagðar á fundum nefndarinnar um dreifingu vaxtatekna með tilliti til heildartekna, var unnt að áætla hver skatturinn yrði að lágmarki. Reyndist það vera um 450 millj. kr. Af þessu má áætla að skattur af þeim vaxtatekjum, sem fram eru taldar, verði um 500 millj. kr.
    Í skýrslunni kemur fram að vaxtatekjur séu í reynd þrefalt hærri en framtöl greina frá. Líklegt er að þar sé nokkuð ofáætlað og verður að telja líklegra að hjá einstaklingum séu vaxtatekjur tvöfalt hærri en fram er talið. Ekki er ástæða til að ætla að dreifing þeirra sé verulega frábrugðin því sem fram kemur í framtölum. Má því tvöfalda framangreinda áætlun um skatta og gera ráð fyrir að þeir verði um 1.000 millj. kr. Þar af færu rúmlega 200 millj. kr. til sveitarfélaga en um 800 millj. kr. til ríkisins. Þessum útreikningi ber því saman við upplýsingar Þjóðhagsstofnunar um sama efni
    Í skýrslu nefndar um fjármagnsskatta eru tekjur ríkissjóðs, með þeirri skattlagningaraðferð sem þar er lögð til, taldar vera um 1.000 millj. kr. Virðist þar augljóslega um ofáætlun að ræða. Samkvæmt skýrslunni eru þær vaxtatekjur sem skattlagningin á að ná til um 11.000 millj. kr. og skatturinn því um 1.100 millj. kr. þegar hann er að fullu kominn til framkvæmda. Frá honum dregst lækkun skatts á arð, söluhagnað og leigu. Áætla má að skattur af arði og söluhagnaði sé nú a.m.k. 400 millj. kr. sem samkvæmt tillögum nefndarinnar mundi lækka í rúmlega 100 millj. kr. Þrátt fyrir hina ríflegu áætlun um vaxtatekjur er því ljóst að tekjur af tillögum nefndarinnar yrðu í besta falli 800 millj. kr. og í upphafi varla meira en 3–400 millj. kr. Þá er ekki í skýrslunni neitt mat lagt á áhrif á tekjur ríkissjóðs af líklegum breytingum sem fylgja kunna í kjölfar lagabreytinganna. Þar virðast tvö atriði vega þungt.
    Annars vegar er ljóst að þeir sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur í eigin nafni eða í formi sameignarfélaga geta framvegis án mikilla breytinga að öðru leyti sett reksturinn í form einkahlutafélags. Með því móti gætu þeir tekið verulegan hluta þess fjár, sem nú er skattlagt hjá þeim sem reiknað endurgjald eða rekstrarhagnaður, sem arð sem samkvæmt frumvarpinu á að bera 10% skatt í stað rúmlega 40% nú. Reiknað endurgjald er samkvæmt framtölum um 15 milljarðar kr. og rekstrarhagnaður einstaklinga um 6 milljarðar kr. Ekki þarf nema tiltekna tilflutninga á þessum tekjum yfir í arð til að eyða öllum áætluðum skatti af vaxtatekjum og skaða ríkissjóð og sveitarfélög um hundruð milljóna króna til viðbótar.
    Hins vegar má reikna með lækkun á tekjuskatti lögaðila vegna þeirra breytinga sem lagt er til að gerðar verði á frádrætti útborgaðs arðs með því að skattfrjáls arður verði miðaður við uppfært nafnverð hlutabréfa. Tekjuskattur lögaðila gæti af þessum sökum lækkað um hundruð milljóna króna.
    Samanburður á þessum tillögum leiðir því í ljós að gera má ráð fyrir því að tekjur af frumvarpi þessu verði um 1.000 millj. kr. á næsta ári. Þegar á næstu árum hækkar þessi tekjustofn í 1.700 millj. kr. Færa má gild rök fyrir því að 50% af skattinum myndist á tveimur efstu tekjubilum framteljenda eða þeirra sem mesta greiðslugetu hafa og eru í stakk búnir til að bera gjöld í samræmi við það.
     Þær tillögur sem fram koma í skýrslu nefndar um fjármagnstekjuskatt fela hins vegar í sér tekjutap sem numið gæti mörgum hundruðum milljóna króna. Þeim sköttum yrði létt af þeim sem mesta greiðslugetu hafa og ættu að hafa getu til að leggja meira en ekki minna til samfélagslegra þarfa.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 8. gr. tekjuskattslaganna er nú að finna skilgreiningu á vaxtatekjum. Í 2. mgr. hennar, sem hér er lögð til orðalagsbreyting á, er kveðið á um hvenær vextir teljist til tekna hjá einstaklingum. Tillagan breytir ekki núverandi meginreglu þess efnis að hjá einstaklingum eru vextir, verðbætur og gengishagnaður þá fyrst taldir til tekna að þeir eru gjaldfallnir eða eru eiganda til ráðstöfunar. Tillagan felur í sér skýrara orðalag þessa efnis og heimild til að kveða í reglugerð á um framkvæmdaatriði.
    Með hliðsjón af almennri skilgreiningu tekna hefði verið eðlilegra að telja vexti til tekna þegar þeir falla á, óháð því hvort þeir eru þá til ráðstöfunar eða ekki. Sú leið hefur hins vegar þá annmarka annars vegar að eigendur vaxtaberandi eigna kunna að eiga í örðugleikum með að inna skatta af hendi nema með því að raungera tekjurnar með sölu eignanna og hins vegar að sú framkvæmd er á ýmsan hátt flóknari þegar um er að ræða aðila sem aðila sem ekki eru bókhaldsskyldir. Þá má telja það fyrri leiðinni til kosta að hún felur í sér nokkru léttari skattlagningu vaxta af fé sem bundið er ásamt vöxtum af því til lengri tíma en af skammtímasparnaði.

Um 2. gr.

    Ákvæði það, sem með þessu er fellt úr gildi, kveður á um að vaxtatekjur séu frádráttarbærar frá skattskyldum tekjum enda séu þær ekki tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.

Um 3. gr.

    Með grein þessari er gerð tillaga um breytta 62. gr. Eina efnisbreytingin er sú að gert er ráð fyrir að vaxtatekjur teljist til skattstofns með sérstökum hætti. Er miðað við að til skattstofnsins teljist aðeins 60% vaxtateknanna eftir að frá þeim hafa verið dregnar 40.000 kr. vegna einstaklings og 80.000 kr. vegna hjóna. Kemur þetta fram í a- og b-liðum 1. tölul. og 2. tölul. 1. mgr. sem eiga annars vegar við einstaklinga sem ekki hafa rekstrartekjur og hins vegar við einstaklinga sem hafa með höndum atvinnurekstur. Að öðru leyti er greinin óbreytt.
    Framangreint ákvæði felur í sér að skattlagning vaxtatekna verður önnur og léttari en annarra tekna. Í fyrsta lagi verða vaxtatekjur sem eru lægri en 40.000 kr. hjá einstaklingi og 80.000 kr. hjá hjónum að fullu skattfrjálsar. Í öðru lagi verða aðeins 60% af vaxtatekjum ofan þessara fjárhæða að skattstofni. Í reynd þýðir það að skatthlutfall fyrir vaxtatekjur verður rúmlega 25% nema hjá þeim sem eru með skattskyldar tekjur yfir hátekjuskattsmörkunum. Ofan þeirra verður skatthlutfallið rúmlega 28%. Með frítekjumarkinu sem að framan greinir verða vextir af eignum allt að 570.000 kr. hjá einstaklingi og 1.140.000 kr. hjá hjónum skattfrjálsir ef vextir af eigninni eru 7% og af eign allt að 1.000.000 kr. hjá einstaklingi og 2.000.000 kr. hjá hjónum ef vextir eru 4%.
    Sem dæmi má taka að hjón sem hafa 80.000 kr. í vaxtatekjur eða minna greiða ekki af þeim neinn skatt. Séu vaxtatekjur hjóna 120.000 kr. verður skattstofninn 24.000 kr. og skatturinn rúmar 10.000 kr. eða rúmlega 8% vaxtateknanna. Hjón sem hafa 1.000.000 kr. í vaxtatekjur mun greiða rúmlega 230.000 kr. í skatt. Er í þessum dæmum miðað við að viðkomandi sé ekki með hátekjuskatt.
    Rökin fyrir þessu fyrirkomulagi eru m.a. þau að þar sem vextir samkvæmt skilgreiningu skattalaganna fela í sér verðbótaþátt, hvort sem hann er sérgreindur eða ekki, fæst með því að telja einungis 60% vaxtatekna til skattstofnsins nálgun við það að skattleggja aðeins raunverulegar tekjur en ekki þann hluta vaxta sem gengur til þess að viðhalda höfuðstól peningalegrar eignar. Þrátt fyrir að telja ekki til skattstofnsins nema hluta vaxtanna kann það að vera ófullnægjandi í framangreindum tilgangi ef vextir eru mjög lágir, raunvextir jafnvel neikvæðir, eins og þekkist á veltureikningum einstaklinga, launareikningum o.s.frv. Í þeim tilvikum tryggir hið sérstaka frítekjumark að ekki kemur til skattlagningar nema eignir á slíkum reikningum séu mjög miklar.
    Með þessu fyrirkomulagi má gera ráð fyrir að stór hluti fólks greiði ekki skatt af vaxtatekjum sínum sökum þess hve lágar þær eru. Venjulegt launafólk sem ekki hefur að jafnaði annað sparifé en lágar innstæður á launareikningum og e.t.v. það sem lagt hefur verið til hliðar fyrir sumarleyfi á orlofsreikningum eða með öðrum hætti, efnalitlir ellilífeyrisþegar og skólafólk sem geymir sumarhýruna til vetrarins í banka mun ekki lenda með vaxtatekjur sínar í skattlagningu. Samkvæmt skattframtölum falla rúmlega 52% allra vaxtatekna hjóna til þeirra 10% hjóna sem hæstar heildartekjur hafa og rúmlega 60% vaxtateknanna til 20% tekjuhæstu hjónanna. Í öðrum löndum hafa vaxtatekjur svipaða misdreifingu. Samkvæmt því má ætla að a.m.k. 80% hjóna hafi vaxtatekjur neðan þeirra marka sem þarf til skattlagningar og verði því ekki fyrir henni.

Um 4. gr.


    Með grein þessari er lögð til lagfæring á ákvæðum um vaxtabætur. Með a-lið er fellt brott það ákvæði sem nú hefur þau áhrif að vaxtagjöld, sem geta orðið stofn vaxtabóta, lækka um allar vaxtatekjur. Í stað þess kemur ákvæðið í b-lið, sem kveður á um að vaxtagjöld sem bætt verða skuli lækkuð um 6% af tekjuskattsstofni. Þar sem áður hefur verið gerð tillaga um þá breytingu að vaxtatekjur teljist til tekjuskattsstofns með sérstökum hætti, sbr. 3. gr. frumvarpsins, leiðir þetta til þess að vaxtatekjur munu hafa áhrif á vaxtabætur með sama hætti og þær mynda skattstofn, þ.e. að 60% þeirra valda skerðingu á stofni til vaxtabóta.

Um 5. gr.


    Samkvæmt ákvæði þessarar greinar hefst skattlagning vaxtatekna í ársbyrjun 1997 og koma þær fyrst til álagningar á árinu 1998. Í frumvarpi, sem lagt er fram samhliða þessu, er gert ráð fyrir að tekin verði staðgreiðsla sem bráðabirgðagreiðsla skatts af vaxtatekjum þannig að skatturinn mun að hluta til skila sér í ríkissjóð á árinu 1997.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Samkvæmt ákvæðinu verða vextir, sem fallnir eru til fyrir gildistöku laganna, ekki skattskyldir þótt þeir komi til greiðslu eftir þann tíma.



Fylgiskjal.


Þórður Friðjónsson,
Þjóðhagsstofnun:

Mat á tillögu um fjármagnstekjuskatt.


(19. mars 1996.)