Ferill 429. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 429 . mál.


759. Frumvarp til laga



um staðgreiðslu skatts af vaxtatekjum.

Flm.: Jón Baldvin Hannibalsson, Margrét Frímannsdóttir,


Jóhanna Sigurðardóttir.



Upphafsákvæði.


1. gr.

    Staðgreiðsla samkvæmt lögum þessum er bráðabirgðagreiðsla tekjuskatts og útsvars af vaxtatekjum á tekjuári.

Staðgreiðsluskylda.


2. gr.

    Skyldir til að sæta innheimtu á staðgreiðslu skattsins eru allir þeir sem fá vaxtatekjur, sbr. þó 2. mgr.
    Undanþegnir skyldu skv. 1. mgr. eru:
    Lögaðilar sem skattskyldir eru samkvæmt lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
    Einstaklingar sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi en eingöngu vegna þeirra vaxtatekna sem tilheyra atvinnurekstrinum eða hinni sjálfstæðu starfsemi. Einstaklingar með atvinnurekstur geta óskað eftir því við skilaskyldan aðila að ekki verði innheimt staðgreiðsla af vöxtum á skilgreindum reikningum sem einvörðungu eru í þágu atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi eða vegna annarra viðskipta á fjármagnsmarkaði. Skal skilaskyldur aðili tilkynna skattyfirvöldum um númer reikningsins, eiganda hans og að ekki verði tekinn skattur af honum eða að um viðskipti hafi verið að ræða á undanþágusviði.
    Lögaðilar sem undanþegnir eru skattskyldu skv. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Skilaskylda.


3. gr.

    Skylda til að draga af staðgreiðslu samkvæmt lögum þessum og skila í ríkissjóð hvílir á innlánsstofnunum, verðbréfafyrirtækjum, verðbréfamiðlurum, eignaleigufyrirtækjum og öðrum fjármálastofnunum, lögmönnum, löggiltum endurskoðendum og öðrum fjárvörsluaðilum, svo og öðrum aðilum sem hafa með höndum milligöngu eða umsýslu í verðbréfaviðskiptum eða annast innheimtu fyrir aðra.

Staðgreiðslustofn.


4. gr.

    Stofn til staðgreiðslu samkvæmt lögum þessum teljast vaxtatekjur, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
    Sé kröfu skuldbreytt þannig að áföllnum vöxtum og verðbótum sé bætt við höfuðstól skulu vextir og verðbætur sem voru áfallnar þegar skuldbreytingin var gerð vera staðgreiðslustofn.
    Ef einungis er borgaður hluti af áskilinni afborgun kröfu skal við það miðað að vextir séu fyrst greiddir.

Afdráttur staðgreiðslu.


5. gr.

    Afdráttur staðgreiðslu skal fara fram eins og hér segir:
    Staðgreiðsla af vöxtum skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skal fara fram þegar vextir eru greiddir út eða færðir rétthafa til tekna og þar með lausir til ráðstöfunar. Með greiðslu er átt við greiðslu í hvaða formi sem er, hvort heldur greiðslu á peningum, kröfum eða öðru því sem hefur peningalegt verðgildi og látið er af hendi í stað peninga.
    Staðgreiðslu af afföllum, söluhagnaði og gengishagnaði skv. 4. og 5. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skal fara fram þegar krafa er seld eða innleyst. Sé krafa innleyst að hluta reiknast söluhagnaður og afföll hlutfallslega.

6. gr.

    Innheimtuhlutfall í staðgreiðslu samkvæmt lögum þessum er 25% af staðgreiðslustofni skv. 4. gr.

7. gr.

    Einstaklingar sem á næstliðnu ári höfðu vaxtatekjur lægri en 60.000 kr. geta óskað eftir því við skilaskyldan aðila að ekki verði innheimt staðgreiðsla af vaxtagreiðslum til hans. Skal hinn skilaskyldi aðili verða við slíkri ósk að því marki sem þessar vaxtagreiðslur á staðgreiðsluárinu eru undir framangreindum mörkum. Með sama hætti skal heimilt að undanskilja frá staðgreiðslu vaxtagreiðslur allt að 40.000 kr. á ári til einstaklings frá sama skilaskyldum aðila.
    Séu heimildir til undanþágu frá staðgreiðslu skv. 1. mgr. nýttar skal skilaskyldur aðili við lok tekjuárs senda skattyfirvöldum upplýsingar um greidda vexti sem undanþegnir voru staðgreiðslu og handhafa þeirra.

Skilagreinar og upplýsingar.


8. gr.

    Skilaskildur aðili skv. 3. gr. skal ávallt geta um staðgreiðslu vaxtaskatts á kvittun til rétthafa vaxta og annarra tekna sem teljast til staðgreiðslustofns skv. 4. gr. Að tekjuári liðnu og eigi síðar en 1. febrúar ár hvert skulu skilaskyldir aðilar, sbr. 3. gr., láta þeim sem skattur var dreginn af samkvæmt lögum þessum í té heildaryfirlit þar sem fram komi höfuðstóll inneignar eða kröfu í árslok, vextir ársins og afdregin staðgreiðsla á þá vexti.

9. gr.

    Með skilum á staðgreiðslu skal fylgja skilagrein á þar til gerðu eyðublaði eða í öðru því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Aðilar skv. 3. gr. skulu skila skilagrein, enda þótt enginn staðgreiðslustofn sé fyrir hendi á einstökum tímabilum. Þeir geta þó sótt um undanþágu frá þessari skyldu til ríkisskattstjóra, enda hafi þeir þá ekki innheimtu á eða milligöngu með peningalegar eignir.
    Skattstjóri skal yfirfara skilagreinar og gera á þeim leiðréttingar ef þörf krefur.
    Ef aðili framvísar ekki fullnægjandi skilagrein innan tilskilinna tímamarka skal skattstjóri áætla skilaskylda fjárhæð hans.
    Skattstjóri skal tilkynna aðila um áætlun eða leiðréttingu skv. 2. og 3. mgr.
    Nú verður greiðslubrestur vegna kröfu en skatti hefur þó verið skilað af vöxtum samkvæmt kröfunni og er þá skilaskyldum aðila heimilt að senda til innheimtumanns leiðrétta skilagrein fyrir viðkomandi tímabil.

10. gr.

    Að loknu tekjuári skulu skilaskyldir aðilar senda skattyfirvöldum á því formi, sem ríkisskattstjóri ákveður, ársyfirlit yfir staðgreiðsluskyldar vaxtatekjur og innheimta staðgreiðslu ásamt sundurliðaðri skilagrein um vaxtagreiðslur til þeirra sem fengið hafa undanþágu frá innheimtu staðgreiðslu samkvæmt ákvæðum 7. gr.

11. gr.

    Einstaklingar sem sætt hafa staðgreiðslu samkvæmt lögum þessum skulu á skattframtali, sbr. lög um tekjuskatt og eignarskatt, gera grein fyrir afdreginni staðgreiðslu af vaxtatekjum í samræmi við þær upplýsingar sem þeir hafa fengið frá skilaskyldum aðilum, sbr. 8. gr.

Ýmis ákvæði.


12. gr.

    Að því leyti sem ekki er sérstaklega kveðið á um í lögum þessum skulu ákvæði laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, gilda eftir því sem við getur átt.

13. gr.

    Fjármálaráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara.

Gildistaka.


14. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 1997.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Vaxtatekjur af bréfum og kröfum, sem gefin voru út eða stofnað til fyrir 1. janúar 1997, teljast ekki til staðgreiðslustofns skv. 4. gr. þessara laga að því leyti sem þær voru áfallnar fyrir 1. janúr 1997.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er lagt fram sem fylgifrumvarp með frumvarpi til breytinga á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem lagt hefur verið fram. Í því frumvarpi er lagt til að vaxtatekjur verði skattlagðar innan hins almenna skattkerfis, þó með sérstökum hætti sé. Í þessu frumvarpi er lagt til að bráðabirgðagreiðsla skatts af vaxtatekjum verði innheimt með staðgreiðslu með svipuðum hætti og nú er gert þegar um er að ræða launatekjur. Í frumvarpinu er að breyttu breytanda farið að þeirri fyrirmynd sem staðgreiðsla af launatekjum er og til þeirra laga er vísað að því er varðar almennar reglur sem lúta að framkvæmd, málsmeðferð o.fl. Rétt þykir í upphafi að hafa staðgreiðslu af vaxtatekjum í sérlögum en eðlilegt er að síðar og að fenginni reynslu verði þessi lög felld inn í hin almennu staðgreiðslulög.
    Ekki er ástæða til að rökstyðja sérstaklega það fyrirkomulag að innheimta skatta í staðgreiðslu að því marki sem unnt er. Í því efni á hið sama við um vaxtatekjur og aðrar tekjur. Því til viðbótar má benda á að þar sem ekki er fyrir hendi kvöð um sjálfvirka upplýsingagjöf um vaxtagreiðslur er líklegt að staðgreiðsla skatts af vöxtum verði til að styrkja skattaframkvæmd og tryggja innheimtu í þeim tilvikum að handhafar vaxtatekna sinna ekki framtalsskyldu sinni.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er kveðið á um að staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum sé bráðabirgðagreiðsla. Endanleg ákvörðun skattsins fer fram við álagningu og kemur þá til viðbótarkröfu eða endurgreiðslu eftir því sem efni standa til.

Um 2. gr.


    Hér er kveðið á um hverjum er skylt að sæta því að haldið sé eftir staðgreiðslu af vaxtatekjum þeirra. Nær sú skylda til allra einstaklinga sem skattskyldir eru að því leyti sem vaxtatekjur þeirra tilheyra ekki atvinnurekstri þeirra. Skyldan nær því hvorki til vaxtatekna lögaðila né vaxtatekna þeirra sem ekki eru skattskyldir, svo sem félagasamtaka o.fl.

Um 3. gr.


    Greinin kveður á um hverjum sé skylt að draga staðgreiðslu af vaxtagreiðslum sem þeir inna af hendi til viðskiptavina sinna eða annast greiðslu á í umboði annarra. Eru það allir þeir sem annast vörslu og ávöxtun fjár, milligöngu og umsýslu í verðbréfaviðskiptum og annast innheimtu í atvinnuskyni. Skylda til afdráttar á staðgreiðslu hvílir ekki á einstaklingum í viðskiptum þeirra á milli.

Um 4. gr.


    Grein þessi kveður á um að staðgreiðslustofn skuli hverju sinni vera þær vaxtatekjur sem skattskyldar eru samkvæmt tekjuskattslögunum, auk þess sem kveðið er á um hvernig afdrætti skuli hagað við skuldbreytingu eða þegar krafa er greidd að hluta.

Um 5. gr.


    Með greininni er ákveðið að við ákvörðun staðgreiðslu verði miðað við vexti þegar þeir raungerast við greiðslu eða innlausn eða eru færðir rétthafa til tekna og eru lausir til ráðstöfunar. Er þar um að ræða sömu meginreglu og gildir við skattákvörðun samkvæmt tekjuskattslögunum.

Um 6. gr.


    Samkvæmt greininni verður innheimtuhlutfall í staðgreiðslu 25%. Er það hlutfall ákveðið með tilliti til þess staðgreiðslan víki ekki verulega frá þeim skatti sem ákveðinn verður við álagningu. Mismunur á staðgreiðslu og álagningu verður innheimtur eða endurgreiddur með sama hætti og þegar mismunur verður á staðgreiðslu og endanlegum skatti af launatekjum.

Um 7. gr.


    Gefinn er kostur á því að þeir einstaklingar sem ekki eiga í vændum neina skattlagningu vaxtatekna, sökum þess að þær eru lágar, geti losnað undan staðgreiðslu með einföldum hætti. Þannig getur hann óskað eftir að verða leystur undan staðgreiðslu ef vaxtatekjur hans næstliðið ár voru lægri en 60.000 kr. eða eru undir 40.000 kr. hjá sama aðila. Slíkri ósk fylgi að skattayfirvöldum verði tilkynnt um vaxtagreiðslur viðkomandi og mun hann þurfa að sæta álagningu ef í ljós kemur að hann hafi vaxtatekjur ofan skattleysismarkanna.

Um 8. gr.


    Með ákvæðinu er vaxtagreiðandi skyldaður til að gefa rétthafa vaxtanna kvittun fyrir þeirri staðgreiðslu sem dregin hefur verið af vaxtagreiðslum til hans. Enn fremur er honum gert að veita vaxtaþegum ársyfirlit að loknu ári sem nýtist honum við gerð framtals á peningalegum eignum og vaxtatekjum. Nær algilt er að fjármálastofnanir sendi viðskiptavinum sínum ársyfirlit þannig að ekki er um viðbótarskil að ræða.

Um 9. gr.


    Með greininni er kveðið á um hvernig staðið skuli að skilum á staðgreiðslu. Skilaskyldum aðila er gert að senda skattyfirvöldum skilagrein um leið og afdreginni staðgreiðslu er skilað. Ekki er gerð krafa um að skilagreinin sé sundurliðuð eins og þegar um laun er að ræða. Fjármálastofnunum er því ekki gert að veita skattyfirvöldum uppýsingar um vaxtatekjur einstaklinga með þeim hætti.

Um 10. gr.


    Skilaskyldum aðilum er gert að senda skattyfirvöldum ársyfirlit yfir afdregna staðgreiðslu og staðgreiðsluskyldar vaxtatekjur. Er ekki gert ráð fyrir að þær séu sundurliðaðar eftir einstaklingum nema að því leyti sem viðkomandi aðilar hafa óskað að vera undanþegnir staðgreiðslu.

Um 11. gr.


    Í greininni er kveðið á um að þeir sem sætt hafa afdrætti staðgreiðslu skuli gera grein fyrir henni á framtali sínu í samræmi við þær upplýsingar sem þeir hafa fengið frá þeim sem afdráttinn annaðist, sbr. skyldu hans skv. 8. gr. til að gera grein fyrir því með ársyfirliti. Með þessu og framtali vaxtateknanna sem eru framtalsskyldar samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt verður unnt að tryggja að viðkomandi njóti hins sérstaka frádráttar frá vaxtatekjum.

Um 12. gr.


    Í greininni er vísað til almennu staðgreiðslulaganna um þau atriði sem ekki er sérstaklega kveðið á um í lögum þessum. Þannig mun framkvæmd að öðru leyti en lög þessi kveða á um hana og málsmeðferð fara eftir staðgreiðslulögunum.

Um 13. gr.


    Í greininni er fjármálaráðherra gert að kveða nánar á um framkvæmd laganna.

Um 14. gr.


    Í gildistökuákvæðinu er gert ráð fyrir að staðgreiðsla verði hafin í ársbyrjun 1997 eða um leið og skattskylda vaxtatekna hefst samkvæmt frumvarpi þar um.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Kveðið er á um að vaxtatekjur, sem áfallnar eru fyrir 1. janúar 1997 en greiðast síðar, myndi ekki staðgreiðslustofn, enda verða þær ekki skattskyldar samkvæmt bráðabirgðaákvæði í frumvarpi um skattskyldu vaxtatekna.