Ferill 449. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 449 . mál.


781. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Kristín Ástgeirsdóttir,


Bryndís Hlöðversdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir.



I. KAFLI

Breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt,

með síðari breytingum.

1. gr.

    Á eftir 2. mgr. A-liðar 68. gr. laganna kemur ný málsgrein er orðast svo:
    Nú heldur maður heimili með og framfærir barn sitt á aldrinum 16–19 ára, að báðum árum meðtöldum, og á ekki rétt á millifæranlegum persónuafslætti skv. 2. mgr., skal honum þá heimil nýting 80% óráðstafaðs persónuafsláttar barnsins og skulu ákvæði 2. mgr. gilda um ráðstöfun persónuafsláttarins hjá framfæranda. Sækja ber um slíka meðferð til ríkisskattstjóra.
    

II. KAFLI

Breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda,

með síðari breytingum.

2. gr.

    5. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Ef launamaður eða maki hans hefur eigi nýtt allan persónuafslátt launamannsins og ekki haft tekjur sem undanþegnar eru staðgreiðslu sem honum samsvarar er launamanni heimilt að sækja um útgáfu skattkorts sem hefur uppsafnaðan persónuafslátt frá ársbyrjun staðgreiðsluárs til næsta mánaðar á undan útgáfudegi. Ríkisskattstjóri annast útgáfu skattkorts með uppsöfnuðum persónuafslætti. Falla má frá skilyrðum um útgáfu skattkortsins ef óyggjandi upplýsingar liggja fyrir um uppsöfnun hans, t.d. skráning fyrri launagreiðanda á kortið um nýtingu afsláttarins.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
    Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ákvæði þessarar greinar skulu gilda um meðferð og millifærslu á persónuafslætti barna á aldrinum 16–19 ára, að báðum árum meðtöldum, sem eru á framfæri foreldra sinna.
    Fyrirsögn greinarinnar verður: Skattkort maka og barna.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við staðgreiðslu á árinu 1996 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts árið 1997 á tekjur á árinu 1996 og eignir í lok þess árs.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var flutt á 118. löggjafarþingi en náði þá ekki fram að ganga. Með því eru lagðar til tvær meginbreytingar á reglum skattalaga um persónuafslátt. Í fyrsta lagi er lagt til að þeim sem hafa á framfæri sínu barn á aldrinum 16–19 ára sé heimilt að nýta 80% óráðstafaðs persónuafsláttar barnsins og í öðru lagi að skattþegn verði heimilað að nýta uppsafnaðan persónuafslátt sinn, hversu lítill sem hann er, um leið og hann hefur störf að loknu tímabundnu hléi eða þegar farið er af lægri launum yfir á laun sem fullnýta persónuafslátt.
    Í núgildandi lögum um tekjuskatt og eignarskatt eru ákvæði sem heimila hjónum eða sambýlisfólki að nýta 80% af óráðstöfuðum persónuafslætti þess sem lægri tekjur hefur. Engar slíkar heimildir eru fyrir hendi um nýtingu óráðstafaðs persónuafsláttar barna. Verður að telja að í því felist mikið óréttlæti, einkum þegar í hlut eiga einstæðir foreldrar. Framfærslukostnaður vegna barna 16 ára og eldri er mjög mikill og ljóst að þau afla sér aðeins tekna fyrir litlum hluta þess kostnaðar sem hlýst af framfærslu þeirra og skólagöngu. Samkvæmt könnun sem Félag einstæðra foreldra gerði árið 1991 á framfærslukostnaði barna á aldrinum 13–15 ára var hann áætlaður um 500 þús. kr. árlega. Hér er um mjög mikil útgjöld að ræða, ekki síst í ljósi þess að ætla má að stór hluti einstæðra foreldra þurfi að framfleyta sér á lágmarkslaunum og þeir þurfi að verulegu leyti einnig að sjá um kostnað af menntun og uppeldi barna. Búast má við að hjá mörgum foreldrum sé framfærslukostnaður barna á aldrinum 16–19 ára jafnvel meiri en þetta.
    Samkvæmt upplýsingum úr álagningargögnum fyrir árið 1994 vegna tekna á árinu 1993 er ónýttur skattafsláttur þeirra sem eru fæddir á árunum 1973–77, að báðum árum meðtöldum, um 2,5 milljarðar króna og fjöldi þeirra er 16.704. Aðeins um 30% barna 16–19 ára hafa verið á vinnumarkaði undanfarin ár. Mikill meiri hluti barna á þessum aldri, eða um 70%, hefur hins vegar farið í framhaldsskóla. Ljóst er að þau börn, sem eru í skóla, afla sér það lítilla tekna að skattafslátturinn er langt frá því að nýtast að fullu. Öll sanngirni mælir því með því að foreldrum sé heimilt að nýta ónýttan persónuafslátt barna með sama hætti og nú er mögulegt milli hjóna og sambýlisfólks.
    Hitt efnisatriði þessa frumvarps felur í sér að skattþegn geti nýtt sér uppsafnaðan persónuafslátt sinn um leið og hann hefur störf að loknu tímabundnu hléi, svo sem vegna atvinnuleysis eða þegar farið er af lægri launum yfir á laun sem fullnýta persónuafslátt. Gildandi lög gera kröfu um að 50% persónuafsláttar séu vannýtt til að heimilt sé að sækja um útgáfu skattkorts með uppsöfnuðum persónuafslætti og jafnframt gildir sú regla að ekki er unnt að sækja um uppsafnaðan persónuafslátt fyrr en eftir 1. júlí ár hvert. Þessi skilyrði eru mjög þröng og óeðlileg. Ljóst er að það getur komið sér afar illa fyrir fólk sem t.d. hefur búið við atvinnuleysi eða veikindi að geta ekki nýtt ónýttan persónuafslátt þegar það hefur vinnu að nýju, nema 50% persónuafsláttar séu vannýtt. Auk þess verður að telja það eðlilegt réttlætismál að hægt sé að sækja um að fullnýta persónuafslátt þegar þörf er fyrir hann en að umsókn sé ekki bundin við að sótt sé um eftir 1. júlí ár hvert.
    Frumvarp um þetta efni kom einnig til kasta Alþingis árið 1989 og 1990, en þá fluttu þingmenn Kvennalistans frumvarp um málið. Alþingi samþykkti að vísa frumvarpinu til ríkisstjórnarinnar 28. mars 1990.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Ákvæðið gerir ráð fyrir að þeir foreldrar, sem ekki eiga rétt á millifæranlegum persónuafslætti milli hjóna eða sambúðaraðila, skv. 2. mgr. A-liðar 68. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, geti sótt um að fá að nýta 80% af óráðstöfuðum persónuafslætti barna sinna á aldrinum 16–19 ára. Það er þó skilyrði að barnið búi á heimili foreldra sinna og sé á framfæri þeirra. Gera má ráð fyrir að það verði helst einstæðir foreldrar sem geti nýtt sér þennan rétt.

Um 2. gr.

    Greinin gerir ráð fyrir nokkrum breytingum á ákvæði staðgreiðslulaga um nýtingu uppsafnaðs persónuafsláttar. Þar ber fyrst að nefna að hægt verði að nýta sér ónotaðan persónuafslátt á árinu hversu lítill sem hann er en núverandi regla gerir ráð fyrir að rétturinn falli niður ef launamaður hefur nýtt meira en 50% af persónuafslætti sínum þegar komið er fram yfir mitt staðgreiðsluár eða flutt hann til maka. Þá er fellt niður skilyrðið um að komið þurfi að vera fram yfir mitt staðgreiðsluár. Þannig getur t.d. launþegi sem hefur starf 1. apríl á staðgreiðsluári farið fram á að fá að nýta sér uppsafnaðan afslátt fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins. Loks er gert ráð fyrir tæknilegri breytingu á staðgreiðslulögunum þannig að falla megi frá því skilyrði að sækja þurfi um útgáfu sérstaks skattkorts ef óyggjandi upplýsingar eru fyrir hendi um uppsöfnun afsláttarins.

Um 3. gr.

    Nauðsynlegt er að laga ákvæði staðgreiðslulaganna um skattkort til samræmis við I. kafla frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.