Ferill 396. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 396 . mál.


807. Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar um þorskeldi.

    Hvaða skilyrði af hálfu hins opinbera þarf að uppfylla til að heimilt sé að stunda þorskeldi í sjókvíum?
    Þorskeldi er ekki háð sérstöku leyfi ráðuneytisins og þær reglur sem ráðuneytið hefur sett því lúta fyrst og fremst að eftirliti samkvæmt reglum um stjórn fiskveiða og vigtun sjávarafla.

    Hversu umfangsmikið var þorskeldi í sjókvíum árin 1991–1995?
         
    
    Hversu mörg fyrirtæki eða einstaklingar stunduðu eldið?
         
    
    Hversu miklu var slátrað?
         
    
    Hvert var heildarverðmætið?
    Svör óskast sundurliðuð eftir árum.

    Ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um þorskeldi fyrr en á árinu 1993. Upplýsingar eru fengnar frá Hafrannsóknastofnun sem hefur fylgst með þorskeldinu.
    Fjöldi einstaklinga sem stunduðu þorskeldi á árunum 1993–1995 var eftirfarandi:
    1993     1
    1994     7
    1995     5
    Á árunum 1993–1995 var eftirfarandi magni slátrað:
    1993
0,7 tonnum

    1994
44,9 tonnum

    1995
33,3 tonnum

    Ekki er vitað um heildarverðmæti en verð á þorski úr eldi hefur verið svipað og á villtum þorski.

    Hver er afstaða sjávarútvegsráðuneytisins til þorskeldis í sjókvíum?
    Ráðuneytið telur að hér sé um athyglisverðar tilraunir að ræða sem mikilsvert er að halda áfram. Hins vegar þarf að efla frekari tilraunir á þessu sviði, einkum rannsóknir á áhrifum fóðrunar á vaxtarhraða og gæði fiskholds. Í þessu sambandi er bent á að á vegum Hafrannsóknastofnunar fara fram í Stöðvarfirði umfangsmiklar rannsóknir á vaxtarhraða þorsks við fóðrun. Hefur sú tilraun verið gerð í samvinnu við heimamenn og hafa almennar veiðar á Stöðvarfirði verið bannaðar til að tryggja árangur tilraunarinnar.

    Hefur ráðuneytið veitt aðstoð til þorskeldis í sjókvíum? Ef svo er, í hverju er hún fólgin?
    Aðstoð ráðuneytisins hefur fyrst og fremst verið fólgin í því að heimilt hefur verið að sleppa tilteknu magni í kvíarnar án þess að það reiknaðist til kvóta þess skips er þorskinn veiddi. Ákvörðun um þetta hefur verið tekin að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunar og með vísan til 15. gr. laga nr. 81/1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Á þessu og síðasta ári var hverjum aðila sem kvíaeldi stundaði gefinn kostur á fimm lestum með þessu móti. Jafnframt hefur ráðuneytið stuðlað að því að Hafrannsóknastofnun fylgist með þorskeldinu og leiðbeini að þörfum.

    Hvaða skilyrði þarf bátur að uppfylla með tilliti til laga um stjórn fiskveiða þannig að honum sé heimilt að flytja þorsk af veiðislóð í varið hafrými?
    Eins og áður er rakið þarf ekki sérstakt leyfi ráðuneytisins til þess að ala þorsk í kvíum og sá aðili sem flytur í kvíar fisk af kvóta báts síns getur gert það án afskipta þess. Fái hann hins vegar heimild til þess að setja fimm lestir af þorski í kvíar án þess að það reiknist til kvóta gilda um það eftirfarandi reglur:
    Við útreikning sé miðað við þyngd þegar fiskurinn er settur í kvíarnar.
    Haldin sé nákvæm dagbók um eldið. Fiskistofa leggur til dagbókina.
    Eftirlitsmaður Fiskistofu fylgist með þegar fiski er slátrað og hann veginn.
    Tilraunirnar fari fram í samvinnu við Hafrannsóknastofnun sem jafnframt hafi aðgang að öllum upplýsingum um framgang eldisins.

    Hvaða reglur gilda um vigtun þorsks úr sjókvíaeldi með tilliti til laga um stjórn fiskveiða:
         
    
    er varðar afla reiknaðan til kvóta,
         
    
    er varðar útreikning á sóknardegi krókabáts?

    Fyrri hluta spurningarinnar hefur þegar verið svarað. Varðandi nýtingu sóknardaga krókabáta er þeim heimilt að sleppa fiski sem þeir afla á sóknardögum í kvíar. Hins vegar er þeim ekki heimilt að stunda veiðar í kvíaeldi utan sóknardaga eða á banndögum.

    Svo virðist sem nokkuð hafi dregið úr áhuga manna til þessara hluta og má telja að fyrst og fremst sé um að kenna kostnaði við fóðrun og því að menn hafa misst niður fisk þegar kvíar hafa gefið sig í slæmum veðrum.