Ferill 254. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 254 . mál.


830. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34 25. mars 1991, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Efnahags- og viðskiptanefnd fjallaði um þrjú þingmál í tengslum við breytingar á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Í fyrsta lagi var fjallað um 242. mál, flutt af Ágústi Einarssyni og Svanfríði Jónasdóttur, sem er frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Það fjallar um að heimila erlendum aðilum að eiga allt að 20% hlut í fyrirtækjum sem vinna sjávarafurðir hér á landi og/eða stunda fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.
    Annað málið var 307. mál sem er frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri flutt af Kristjáni Pálssyni, Pétri H. Blöndal, Vilhjálmi Egilssyni og Guðjóni Guðmundssyni. Það frumvarp fjallar um að heimila erlendum aðilum að eiga allt að 49% hlut í fyrirtækjum sem vinna sjávarafurðir hér á landi og/eða stunda fiskveiðar.
    Þriðja málið, þ.e. frumvarp það sem nefndarálitið fjallar um, er stjórnarfrumvarp, 254. mál, um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, en þar er gert ráð fyrir að heimiluð sé óbein eignaraðild útlendinga í íslenskum sjávarútvegi auk annarra ákvæða.
    Nefndin fjallaði ítarlega um þessi mál og hélt sérstaka ráðstefnu með sjávarútvegsnefnd um þau, svo og um þingsályktunartillögu um veiðileyfagjald. Auk þess voru frumvörpin send fjölmörgum aðilum til umsagnar, og koma nöfn þeirra fram í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar.

Kostir og gallar fjárfestinga útlendinga í sjávarútvegi.
    Í umræðum á Alþingi, svo og í nefndarstarfinu, var ítarlega rætt um hvort heimila ætti erlendum aðilum að fjárfesta beint í íslenskum sjávarútvegi og þá í hve miklum mæli. Rökin fyrir fjárfestingum útlendinga í íslenskum sjávarútvegi eru m.a. eftirfarandi:
—    Fyrirtæki geta sótt sér áhættufé og eru þá ekki eins háð erlendu lánsfé.
—    Eignatengsl Íslendinga og útlendinga í sjávarútvegsfyrirtækjum geta örvað markaðssamstarf en slíkt er mjög algengt erlendis.
—    Fjárfestingar milli landa í einstökum atvinnugreinum eru mjög umfangsmiklar og mjög sjaldgæft að settar séu takmarkanir á slíkt.
—    Íslendingar hafa fjárfest mikið í sjávarútvegsfyrirtækjum erlendis og óeðlilegt er að við höfum aðra stefnu þegar við fjárfestum erlendis en við heimilum hérlendis.
—    Óbein eignaraðild útlendinga felur ekkert annað í sér en staðfestingu á óbreyttu ástandi og því fylgja engin sóknarfæri.
—    Fjölmörg dæmi eru um fjárfestingar útlendinga í íslenskum atvinnurekstri, svo sem hjá olíufyrirtækjum, í verktakaiðnaði, sjónvarpsrekstri, ferðaþjónustu, fiskeldi, skiparekstri og tölvuþjónustu, og öll slík eignaraðild hefur orðið íslensku atvinnulífi til styrktar.
—    Óeðlilegt er að mismuna fyrirtækjum hérlendis með því að hafa sérstakar reglur fyrir sjávarútveginn.
—    Stefna stjórnvalda hefur lengi verið að fá erlenda aðila til fjárfestinga hérlendis en það hefur ekki tekist í neinum mæli nema í áliðnaði.
—    Sú þróun er mjög sterk að fyrirtæki renni meira og minna saman fjárhagslega þvert á landamæri ríkja ef atvinnurekstur og þjóðfélag hefur hag af. Þannig hafa orðið til hliðarfyrirtæki vegna fjárfestinga nýrra aðila.
—    Heimild útlendinga til fjárfestinga í sjávarútvegi getur verið lykill að frekari fjárfestingum í öðrum greinum þar sem okkur er mikið kappsmál að fá erlenda aðila til samstarfs.
    Rökin gegn beinni eignaraðild útlendinga í sjávarútvegi eru einkum þau að varhugavert sé að útlendingar komist með beinum hætti inn í fiskveiðar í íslenskri lögsögu. Hins vegar hefur verið bent á að fyrirtækin, sem hér um ræðir, eru alíslensk og lúta íslenskri stjórn og forræði þótt útlendingar séu með takmarkaða eignaraðild.
    Ljóst er að meginandstaðan gegn fjárfestingum útlendinga í sjávarútvegi snýr fyrst og fremst að möguleikum þeirra til fjárfestinga við fiskveiðar. Það kom mjög skýrt fram í starfi nefndarinnar og í umsögnum sem henni bárust að margir töldu hagkvæmt að útlendingar fjárfestu í fiskvinnslu þó svo að þeim væri ekki heimilt að fjárfesta í fyrirtækjum sem stunda útgerð.
    Flest ríki reyna nú að breyta löggjöf landa sinna í átt til frjálsræðis og hafa Íslendingar tekið þátt í þeirri þróun, m.a. með EES- og GATT-samningunum, þannig að rýmkun á þessu sviði er eðlilegt framhald af alþjóðlegri þróun.
    Einnig ber að hafa í huga að þótt útlendingar væru eignaraðilar í fiskvinnslu þýddi það ekki aukinn útflutningi á óunnum fiski. Útlendingum er þegar heimilt að kaupa fisk á innlendum mörkuðum kjósi þeir svo, en um slík kaup hefur ekki verið að ræða. Hins vegar mundi þátttaka erlendra aðila í íslenskum fiskvinnslufyrirtækjum, sem hefðu markaðssamstarf að leiðarljósi, styrkja íslenska fiskvinnslu í samkeppni við erlenda aðila á heimsmörkuðum.

Greinarmunur milli veiða og vinnslu.
    Oft hefur verið litið á það sem rök gegn því að gera greinarmun á fiskvinnslu og útgerð í þessu sambandi að fjölmörg fyrirtæki hérlendis reka bæði útgerð og fiskvinnslu. Hefði erlend eignaraðild kosti í för með sér mundu menn stofna sérstök fyrirtæki um vinnsluþáttinn. Auk þess reka fjölmörg fyrirtæki hérlendis eingöngu fiskvinnslu og hefur þeim fjölgað með tilkomu fiskmarkaða.
    Þess ber að geta að þó nokkrir aðilar studdu fyrrgreind þingmannafrumvörp og má þar nefna Samtök iðnaðarins, Verslunarráð og Alþýðusamband Íslands, en andstaðan var einkum hjá hagsmunaaðilum í sjávarútvegi, svo sem Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum fiskvinnslustöðva og sjómannasamtökum. Nokkrir umsagnaraðilar tóku ekki skýra afstöðu. Andstaðan var fyrst og fremst gegn þátttöku útlendinga í fiskveiðum.
    Minni hlutinn reyndi ítrekað að fá meiri hlutann til þess að skoða málið út frá þeirri hugsun að heimila erlendar fjárfestingar einungis í vinnsluþættinum. Meiri hlutinn féllst ekki á þá ósk minni hlutans og því mun minni hlutinn flytja breytingartillögu við 2. umræðu um frumvarpið um að heimila erlendum aðilum að fjárfesta í fiskvinnslu hér á landi. Það er ákveðin málamiðlun sem horfir til framfara í greininni.
    Stjórnarfrumvarpið þýðir að útlendingar geta átt allt að 62% í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Þetta gerist þannig að erlendur aðili á 25% í hlutafélagi sem á sjávarútvegsfyrirtæki. Íslenskur lögaðili á þá 75% hlut en það félag gæti verið í eigu erlendra aðila að 49%.
    Það er því er hægur vandi fyrir erlenda aðila að vera með full yfirráð yfir sjávarútvegsfyrirtækjum bæði í veiðum og vinnslu samkvæmt stjórnarfrumvarpinu. Þessi aðferðafræði um óbeina fjárfestingu er markleysa ein og í reynd miklu hættulegri en að leyfa beina eignaraðild. Hin óbeina eignaraðild leiðir til þess að menn fara krókaleiðir til að ná yfirráðum yfir fiskvinnslu og veiðum hérlendis ef menn kæra sig um. Mikill ókostur við óbeina fjárfestingu er að eftirlit með henni er nær útilokað. Heimild beinnar eignaraðildar leiðir hins vegar til þess að þessi mál eru miklu skýrari á yfirborðinu í stað þess að vera falin í eignatengslum fyrirtækjakeðju.
    Einnig kom fram í umfjöllun nefndarinnar að erlendir hlutabréfasjóðir geta eignast meiri hluta í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum á tiltölulega einfaldan hátt.

Tillögur minni hlutans.
    Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar telur ástæðulaust að óttast neikvæð áhrif útlendinga þótt þeim yrði heimilað að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi að takmörkuðu leyti. Þó telur minni hlutinn rétt að stíga þessi skref varlega og heimila fjárfestingar erlendra aðila einungis í fiskvinnslu.
    Minni hlutinn flytur því breytingartillögu við stjórnarfrumvarpið um að ekki verði lagðar hömlur á fjárfestingar erlendra aðila í fiskvinnslu hérlendis. Meiri hlutinn féllst ekki á röksemdir minni hlutans þó að ábendingar hefðu komið frá fjölmörgum hagsmunaaðilum um slíka útfærslu, svo og reyndar einstökum nefndarmönnum meiri hlutans. Meiri hlutinn neitaði einnig að skoða þessi mál betur innan nefndarinnar og leita samstöðu um þau á breiðum grundvelli.
    Meiri hlutinn gerir eingöngu tillögur um smávægilegar breytingar á frumvarpinu, um að reyking, súrsun, niðursuða og niðurlagning teljist ekki til fiskvinnslu. Að öðru leyti er frumvarp ríkisstjórnarinnar láta standa nær óbreytt. Þetta er þeim mun einkennilegra þegar horft er til þess að fjórir stjórnarþingmenn fluttu frumvarp á þingskjali 547, 307. mál, um að heimila erlenda fjárfestingu allt að 49% án tillits til þess hvort um fiskveiðar eða fiskvinnslu er að ræða. Þessir þingmenn, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hurfu algjörlega frá því frumvarpi. Það er með ólíkindum að stjórnarþingmenn skuli standa að stjórnarfrumvarpi, leggja því næst fram þingmannafrumvarp sem gengur þvert á stefnu stjórnarfrumvarpsins en snúa svo gjörsamlega frá því, sínu eigin frumvarpi, og ná ekki fram neinum breytingum á stjórnarfrumvarpinu í átt að því.
    Minni hlutinn styður ákvæði stjórnarfrumvarpsins sem kveða á um rýmkun á eignaraðild útlendinga í flugrekstri, í bankarekstri, í virkjunum og við orkudreifingu.
    Minni hlutinn gerir hins vegar athugasemd við breytingartillögu meiri hlutans um ákvæði til bráðabirgða eða svokallað „Olísákvæði“. Stjórnarfrumvarpið ylli því að óheimilt yrði fyrir Olíuverslun Íslands að eiga hlut í sjávarútvegsfyrirtækjum þar sem erlendur aðili á meira en 33% hlut í Olís. Útfærsla meiri hlutans til lausnar þessu vandamáli er að heimila þessa eignaraðild til bráðbirgða. Olíuverslun Íslands hf. verður að stofna sérstakt hliðarfyrirtæki ef hún ætlar að halda erlendum eignaraðila sínum. Miklu einfaldara hefði verið að hækka viðmiðunarmörk frumvarpsins en að hafa íþyngjandi ákvæði sem tekur einungis til eins félags í atvinnurekstri hérlendis. Minni hlutinn telur að hér sé um óeðlilega mismunun að ræða.

Alþingi, 16. apríl 1996.



Ágúst Einarsson,

Jón Baldvin Hannibalsson.


frsm.