Ferill 358. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 358 . mál.


864. Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um gjaldtöku ríkisins af skemmtiferðaskipum.

    Hve mörg skemmtiferðaskip komu til landsins árin 1994 og 1995?
    Árið 1994 voru komur skemmtiferðaskipa til landsins alls 97, sum skipanna komu oftar en einu sinni, alls 26 skip.
    Árið 1995 voru komur skemmtiferðaskipa til landsins alls 133, sum skipanna komu oftar en einu sinni, alls 30 skip.

    Hvaða gjöld þurfa eigendur skemmtiferðaskipa að greiða við komu til íslenskra hafna?
    Skemmtiferðaskip þurfa að greiða eftirtalin gjöld við komu til íslenskra hafna: Vitagjald, afgreiðslugjald, lestargjald og bryggjugjald ef lagst er að bryggju. Síðan þarf að greiða eftir atvikum vatnsgjöld, festargjöld og hafnsögugjöld (fyrir þjónustu hafnsögubáts ef á þarf að halda).
    Vitagjald er 57,80 kr. af hverju brúttótonni skips. Erlend skip greiða fjórðung gjaldsins við fjórar fyrstu komur til landsins. Gjaldið er innheimt í fyrstu höfn sem skipið tekur hér á landi. Gjaldið er tekið samkvæmt lögum um vitamál, nr. 56/1981, með síðari breytingum, og reglugerð um vitagjald, nr. 188/1995. Gjaldið rennur í ríkissjóð sem markaður tekjustofn Vitastofnunar.
    Afgreiðslugjald er greitt við tollafgreiðslu skips. Gjaldið er nú 5 kr. á nettótonn eða burðargetu skips en var 15 kr. árin 1994 og 1995 fyrir skemmtiferðaskip. Heimild til töku gjaldsins er í lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum, og rennur það í ríkissjóð.
    Lestargjald er 4,50 kr. á hvert brúttótonn skips.
    Bryggjugjald er 2,20 kr. á hvert brúttótonn.

    Hvernig er gjaldtöku háttað ef komið er í tvær eða fleiri hafnir?
    Vitagjald er einungis greitt í fyrstu viðkomuhöfn en önnur gjöld eru tekin af skemmtiferðaskipum í hverri höfn eftir því sem við á og eftir því hvaða þjónusta er veitt.

    Hver var meðaltalsupphæð heildargreiðslu skemmtiferðaskipa árin 1994 og 1995?
    Meðaltalsupphæð heildargreiðslu skemmtiferðaskipa var 427.239 kr. árið 1994 og 333.510 kr. árið 1995.

    Hverjar voru heildartekjur ríkissjóðs af komu skemmtiferðaskipa sömu ár og hverjar voru tekjur einstakra hafna?
    Tekjur ríkisins vegna vitagjalds og afgreiðslugjalds miðað við stærð skemmtiferðaskipa voru eftirfarandi (upphæðir í krónum):

Árið 1994  

Árið 1995  




Vitagjald     
12.350.646
15.052.059
Tollafgreiðslugjald     
5.286.315
6.249.120
Samtals     
17.636.961
21.301.179

    Tekjur einstakra hafna voru eftirfarandi (upphæðir í krónum):

Hafnir

Árið 1994  

Árið 1995  



Akureyri     
4.547.370
6.006.906
Húsavík     
147.760
117.221
Stykkishólmur     
280.573
205.358
Ísafjörður     
517.418
430.562
Seyðisfjörður     
0
126.529
Vestmannaeyjar     
1.955.091
1.435.568
Reykjavík     
16.357.044
14.733.623
Samtals     
23.805.256
23.055.767


    Hver eru sambærileg gjöld skemmtiferðaskipa, við komu til hafna, annars staðar á Norðurlöndum?
    Reynt var að afla upplýsinga annars staðar á Norðurlöndunum með takmörkuðum árangri. Eftirfarandi upplýsingar fengust:
     Danmörk: Höfnum í Danmörku er heimilt að ákveða sjálfar gjöld fyrir þjónustu sína en hafnir í Danmörku eru margar einkareknar. Gjaldtaka er því mismunandi eftir höfnum þar sem hún er ekki samræmd eins og hér á landi. Í Danmörku er ekki greitt sérstakt vitagjald.
    Eftirfarandi upplýsingar fengust frá höfninni í Esbjerg um gjaldtöku af skemmtiferðaskipum: Af öllum skemmtiferðaskipum er tekið svokallað skipagjald sem er 1,90 dkr. á brúttótonn. Auk þess eru teknar 2 dkr. í farþegagjald á hvern farþega.
     Svíþjóð: Höfnum í Svíþjóð er líkt og í Danmörku heimilt að ákveða sjálfar gjöld fyrir þjónustu sína. Í Svíþjóð er vitagjaldið 4,25 skr. á brúttótonn.
     Noregur: Í Noregi er um tvenns konar gjöld að ræða. Annars vegar almennt vitagjald sem ætlað er að greiða 20% af kostnaði ríkisins vegna vita og dufla. Kostnaður norska ríkisins vegna vita var 200 millj. nkr. árið 1994 og greiddi útgerðin 20% eða um 40 millj. nkr. Hins vegar er um að ræða sérstakt gjald sem lagt er á til að greiða kostnað við lóðsþjónustu. Gjaldið er 0,17 nkr. á hvert brúttótonn en fiskiskip, herskip og lysti- og skemmtibátar eru undanþegin því gjaldi.