Ferill 488. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 488 . mál.


915. Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Þórunnar Sveinbjarnardóttur um aðstoð við Bosníu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Til hvaða verkefna hyggst ríkisstjórnin verja þeim 110 millj. kr. sem ákveðið hefur verið að veita til uppbyggingar í Bosníu?

    Hinn 19. mars sl. tók ríkisstjórnin ákvörðun um að verja alls 110 millj. kr. til endurreisnarstarfsins í Bosníu og Hersegóvínu. Tekur framlag Íslands mið af fjögurra ára uppbyggingaráætlun Alþjóðabankans og Evrópusambandsins sem er lögð til grundvallar endurreisnarstarfinu. Gert er ráð fyrir að til þess þurfi 5,1 milljarð Bandaríkjadala á næstu fjórum árum, þar af 1,8 milljarða á þessu ári.
    Hluti framlags Íslands, eða 10 millj. kr., verður lagður í sérstakan sjóð í umsjón Alþjóðabankans sem hefur það markmið að koma allra brýnustu efnahagsstarfsemi af stað í Bosníu og Hersegóvínu á fyrri hluta þessa árs. Síðan verður 100 millj. kr. veitt til afmarkaðs og vel skilgreinds verkefnis í landinu, þótt til greina komi að skipta fjármununum að einhverju leyti á milli verkefna. Nefnd á vegum utanríkisráðuneytis, með fulltrúum forsætis- og fjármálaráðuneytis, vinnur um þessar mundir að því að finna framlaginu farveg. Hefur athyglin einkum beinst að verkefnum á sviði heilbrigðis- eða menntamála sem unnið yrði að í samvinnu við Alþjóðabankann. Stefnt er að því að finna verkefni þar sem íslensk sérþekking eða framleiðsla kemur að sem bestum notum.