Ferill 415. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 415 . mál.


954. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gylfa Kristinsson deildarstjóra frá félagsmálaráðuneyti, Benedikt Davíðsson, Hervar Guðmundsson, Ingibjörgu Guðmundsdóttur, Ara Skúlason, Gylfa Arnbjörnsson og Ástráð Haraldsson frá Alþýðusambandi Íslands, Björn Grétar Sveinsson frá Verkamannasambandi Íslands, Magnús L. Sveinsson frá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur, Sævar Gunnarsson frá Sjómannasambandi Íslands, Þórunni Sveinbjörnsdóttur frá Sókn, Guðmund Þ Jónsson frá Landssambandi iðnverkafólks, Sigurð Guðmundsson frá Félagi starfsfólks í veitingahúsum, Grétar Þorsteinsson frá Samiðn, Jens Andrésson frá Starfsmannafélagi ríkisstofnana, Ragnhildi Guðmundsdóttur og Sjöfn Ingólfsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Mörthu Á. Hjálmarsdóttur, Birgi Björn Sigurjónsson og Gunnar Ármannsson frá Bandalagi háskólamanna, Friðbert Traustason frá Sambandi íslenskra bankamanna, Eirík Jónsson frá Kennarasambandi Íslands, Elnu Katrínu Jónsdóttur frá Hinu íslenska kennarafélagi, Halldór Björnsson og Atla Gíslason frá Dagsbrún, Guðjón A. Kristjánsson og Benedikt Valsson frá Farmanna- og fiskimannasambandinu, Sæmund Árnason frá Félagi bókagerðarmanna, Þóri Einarsson ríkissáttasemjara, Þórarin V. Þórarinsson, Hannes Sigurðsson og Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Árna Benediktsson og Jóngeir H. Hlinason frá Vinnumálasambandinu, Sigurð Snævarr frá Þjóðhagsstofnun og Helga Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands. Þá komu til fundar Tryggvi Gunnarsson hrl. og Páll Þórhallsson hdl.
    Eftirtaldir aðilar sendu nefndinni umsagnir um frumvarpið: Alþýðusamband Íslands, Vinnuveitendasamband íslands, Vinnumálasambandið, Verkamannasambandið, Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Sjómannafélag Reykjavíkur og Verkamannafélagið Dagsbrún, Útgerðarfélag Akureyringa, Starfsmannafélag Sauðárkróks, Sveinafélag járniðnaðarmanna, Félag járniðnaðarmanna, Verslunarmannafélag Húnvetninga, Alþýðusamband Austurlands, Vélstjórafélag Íslands, Trésmíðafélag Reykjavíkur, Samtök iðnaðarins, Félag íslenskra atvinnuflugmanna, Sveinafélag málmiðnaðarmanna, Starfsmannafélag Siglufjarðarkaupstaðar, Verslunarmannafélag Húnvetninga, Starfsmannafélag Kópavogs, Samband veitinga- og gistihúsa, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Iðjuþjálfafélag Íslands, Mjólkurfræðingafélag Íslands, Verslunarmannafélag Vestmannaeyja, Verkalýðsfélagið Samherjar, Bakarasveinafélag Íslands, Félag íslenskra kjötiðnaðarmanna, Félag framreiðslumanna, Verslunarmannafélag Rangárvallasýslu, Verkalýðs- og sjómannafélag Gerðahrepps, Starfsmannafélag Vestmannaeyjabæjar, Félag leiðsögumanna, Félag matreiðslumanna, Verkalýðsfélagið Baldur, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélagið Súgandi, Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga, Sveinafélag byggingamanna Ísafirði, Verklýðsfélagið Skjöldur, Verkalýðsfélagið Brynja, Vélstjórafélag Ísafjarðar, Sjómannafélag Ísfirðinga, Félag bókagerðarmanna, Trésmiðafélag Reykjavíkur, Sjómannasamband Íslands, Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur, Málarafélag Reykjavíkur, Iðnsveinafélag Fljótsdalshéraðs, Félag íslenskra náttúrufræðinga, Sjúkraliðafélag Íslands, Verslunarmannafélag Húsavíkur, Verkalýðsfélag Húsavíkur, Verkamannafélagið Fram, Verkalýðsfélag Fljótsdalshéraðs, Verslunarmannafélag Skagfirðinga, Verkalýðsfélag Þórshafnar, Verslunarmannafélag Suðurnesja, Íslenska álfélagið hf., Verslunarmannafélag Vestur-Húnavatnssýslu, Verslunarmannafélag Akraness, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis, Verkalýðs- og sjómannafélag Fáskrúðsfjarðar, Félag opinberra starfsmanna á Suðurlandi, Starfsmannafélag Akureyrarbæjar, Sjómannafélag Ólafsfjarðar, Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi, Sveinafélag járniðnaðarmanna á Húsavík, fjármálaráðuneytið, Starfsmannafélag Borgarbyggðar, Byggingamannafélagið Árvakur, Starfsmannafélag Dala- og Snæfellsnessýslu, Flugleiðir, Þjónustusamband Íslands, Félag hárgreiðslu- og hárskerasveina, Verkalýðsfélag Akraness, Stéttarfélag sjúkraþjálfara, Stéttarfélag lögfræðinga, Starfsmannafélag Selfosskaupstaðar, Verkalýðsfélagið Víkingur, Samband íslenskra bankamanna, Félag byggingariðnaðarmanna í Hafnarfirði, Samiðn, Meinatæknafélag Íslands, Bíliðnafélagið, Verkalýðsfélagið Fram, Verkalýðsfélag Borgarness, Verkalýðsfélag Reyðarfjarðar, Félag málmiðnaðarmanna Akureyri, Starfsmannafélag Mosfellsbæjar, Landssamband lögreglumanna, Tollvarðafélag Íslands, Félag flugmálastarfsmanna ríkisins, Landssamband íslenskra verslunarmanna, Verkalýðsfélag Skeggjastaðahrepps, Verkalýðsfélag Borgarfjarðar eystri, Verkalýðsfélag Norðfirðinga, Verkalýðs- og sjómannafélag Djúpavogs, Sjómannafélag Eyjafjarðar, Stéttarfélag sálfræðinga á Íslandi, Verkalýðs- og sjómannafélag Vopnafjarðar, Verkalýðsfélag Raufarhafnar, Verkalýðs- og sjómannafélag Breiðdælinga, Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, Ríkisútvarpið, Verslunarráð Íslands, verkalýðsfélögin Afturelding á Hellissandi, Jökull í Ólafsvík, Stjarnan í Grundarfirði og Verkalýðsfélag Stykkishólms, Iðnsveinafélag Suðurnesja, Verkalýðs- og sjómannafélagið Grettir, Félag íslenskra leikskólakennara, Kaupmannasamtök Íslands, Verkalýðsfélagið Boðinn, Verkamannafélagið Hlíf, Verkalýðsfélagið Báran, Verkalýðsfélagið Rangæingur, Verslunarmannafélag Árnessýslu, Verslunarmannafélag Ísafjarðar, Félag blikksmiða, Verkalýðsfélagið Jökull, Félag starfsmanna Stjórnarráðsins, Íslenska járnblendifélagið, Félag íslenskra símamanna, Verkalýðsfélagið Þór, Iðja, félag verksmiðjufólks á Akureyri, Verslunarmannafélag Austurlands, Verkalýðsfélagið Vaka, Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri, Verkalýðsfélagið Valur, Verkalýðsfélag Vestmannaeyja, Verkalýðsfélag Hólmavíkur, Félag byggingamanna Eyjafirði, Félag starfsfólks í veitingahúsum, Sunniðn, sunnlenska iðnfélagið, Starfsmannafélag Seltjarnarness, kjaradeild Félags íslenskra félagsvísindamanna, Starfsmannafélag Kópavogs, Félag fréttamanna, Póstmannafélag Íslands, Bifreiðastjórafélagið Sleipnir, Verkalýðsfélagið Hvöt, Verkalýðsfélag Austur-Húnvetninga, Flugvirkjafélag Íslands, Starfsmannafélag Húsavíkur, Félag opinberra starfsmanna Vestfjörðum, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Sjómannafélagið Jötunn, Starfsmannafélag Sjónvarpsins, Flugfreyjufélag Íslands, Verkalýðsfélagið Eining, Verkakvennafélagið Snót, fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Vestmannaeyjum, Iðja, félag verksmiðjufólks, Landssamband iðnverkafólks, Kennarafélag KHÍ, aðildarfélög BSRB í Skagafirði, Kennarar og trúnaðarmenn í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Starfsmannafélag Kvennaskólans í Reykjavík, Verkamannafélagið Árvakur, Rafiðnaðarsamband Íslands, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, Starfsmannafélagið Sókn, Starfsmannafélag ríkisstofnana, Eimskip, Lögmannafélag Íslands, Landssamband slökkviliðsmanna, Bílgreinasambandið, Félag íslenskra hljómlistarmanna, ríkissáttasemjari, Landssamband íslenskra rafverktaka, Múrarasamband Íslands, Múrarafélag Reykjavíkur, Félag háskólakennara, Blaðamannafélag Íslands, Verkakvennafélagið Aldan, Félag opinberra starfsmanna í Húnavatnssýslum, Helgi Tómasson dósent og Landssamband íslenskra útvegsmanna.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lagt er til að 1. gr. frumvarpsins, sem m.a. kveður á um heimild til stofnunar vinnustaðafélaga, verði felld brott. Fjöldi starfandi stéttarfélaga lýsti mikilli andstöðu við þetta ákvæði og taldi það til þess fallið að veikja skipulag verkalýðshreyfingarinnar. Í þessu samhengi er ákvæði 9. gr. fellt brott þar sem sú breyting tengist stofnun áðurnefndra félaga.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 2. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi er lagt til að orðin „sé ekki á annan veg samið“ verði flutt til í 1. málsl. 2. mgr. Við þá breytingu mun kjarasamningur, sem undirritaður hefur verið af til þess bærum fulltrúum samningsaðila, gilda frá undirskriftardegi sé ekki á annan veg samið. Hér er ekki um efnisbreytingu að ræða heldur er verið að taka af tvímæli um það að einungis sé átt við að hægt sé að semja um gildistökudaginn. Í öðru lagi er lagt til, í samræmi við framangreint, að niðurstaða leynilegrar póstatkvæðagreiðslu meðal félagsmanna um gerðan kjarasamning gildi óháð þátttöku. Í þriðja lagi er fellt brott ákvæði sem byggði á skilyrði um hærri hlutfallstölur þegar atkvæðagreiðslur um samninga eða vinnustöðvanir næðu til hluta af félagi. Það er gert til einföldunar og samræmingar vegna gagnrýni stéttarfélaga og fleiri á fjölbreyttar reglur um atkvæðagreiðslur sem fram koma í frumvarpinu. Þannig mun sama regla gilda um höfnun kjarasamninga og boðun vinnustöðvana, sbr. 4. gr. Í fjórða lagi hefur orðalag 3. málsl. 2. mgr. verið gagnrýnt. Þess vegna er lagt til að orðalag ákvæðisins verði gert skýrara og með því tekin af tvímæli um þá heimild aðila að kveða á um í nýjum kjarasamningi að þeir einir séu atkvæðisbærir sem samningurinn tekur til. Í fimmta lagi er svo að finna ákvæði um vinnustaðarsamninga og er það nýmæli. Þetta form tíðkast nú þegar á ýmsum vinnustöðum. Hins vegar hefur verið bent á þann ókost sem felst í rétti einstakra félaga til að fella slíkan samning, enda þótt mikill meiri hluti starfsmanna sé hlynntur samningsniðurstöðu. Því er kveðið á um að slíkur samningur skuli borinn sameiginlega undir atkvæði allra félagsmanna sem hann tekur til og ráði meiri hluti niðurstöðu.
    Þá eru lagðar til breytingar á 4. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi er lagt til að sé vinnustöðvun einungis ætlað að taka til ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilgreindum vinnustað þurfi einungis fimmtungur atkvæðisbærra að taka þátt í atkvæðagreiðslu í stað helmings áður. Breytingar þessar eru gerðar til samræmis og einföldunar, sbr. umfjöllun í 2. lið hér að framan. Í öðru lagi er í fyrri málslið 3. mgr. bætt við orðinu „einkum“. Með breytingunni er textinn færður til samræmis við ákvæði 16. gr. gildandi laga, nr. 80/1938, þar sem notað er orðið „aðallega“. Einnig er verið að koma til móts við gagnrýni sem hefur beinst að því að of strangar kröfur séu gerðar um skilgreiningu á því til hverra vinnustöðvun sé ætlað að taka. Í þriðja lagi eru síðan lagðar til nokkrar breytingar á 4. mgr. Fyrst skal líta til ákvæðis um frestun boðaðrar vinnustöðvunar. Sérstök ástæða er til að leggja áherslu á að heimildin til að fresta boðaðri vinnustöðvun án samþykkis gagnaðila tekur eingöngu til vinnustöðvunar sem ekki er hafin. Hún tekur þannig ekki til yfirstandandi vinnustöðvunar. Í þessu felst að einungis er heimilt að fresta vinnustöðvun áður en hún hefst og þá með þeim fyrirvara sem kveðið er á um í 4. mgr. Meiri hlutinn leggur til að frestunarheimildin verði rýmkuð þannig að heimilt verði að fresta boðaðri vinnustöðvun, einu sinni eða oftar, um allt að 28 sólarhringa í stað 14 áður. Það felur í sér t.d. að hafi vinnustöðvun verið boðuð 1. janúar er heimilt að fresta henni til 29. janúar. Þann dag tekur vinnustöðvunin gildi hafi samningar ekki tekist en fellur að öðrum kosti niður. Heimild til frestunar í 28 sólarhringa miðast þannig við upphafsdag boðaðs verkfalls. Þá er lagt til að komið verði til móts við þá gagnrýni að tjóni af völdum boðaðrar vinnustöðvunar verði yfirleitt ekki afstýrt með minna en þriggja sólarhringa fyrirvara og því sé óæskilegt að fresta megi verkfalli án samþykkis gagnaðila með minni fyrirvara. Loks er lagt til að bætt verði við nýju ákvæði þannig að ljóst verði að aðilum sé sameiginlega ávallt heimilt að fresta boðaðri eða yfirstandandi vinnustöðvun. Hér er verið að festa í sessi verklagsreglur sem í raun hafa gilt við lok kjaradeilu.
    Lögð er til sú breyting á 5. gr. frumvarpsins að felld verði brott tilvísun til fjöldauppsagna. Hér er þó ekki lagt til að fjöldauppsögnum verði aldrei unnt að jafna til vinnustöðvunar, enda geta slíkar uppsagnir fallið undir aðrar sambærilegar aðgerðir af hálfu atvinnurekenda eða launamanna sem jafna má til vinnustöðvunar.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á einstökum stafliðum 6. gr. frumvarpsins. Fyrst er að nefna ákvæði a-liðar (20. gr.) um skipun ríkissáttasemjara. Í gildandi lögum og frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkissáttasemjari skuli skipaður til fjögurra ára í senn. Samkvæmt frumvarpi til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er gert ráð fyrir breytingum á skipunartíma ýmissa opinberra starfsmanna og er þar kveðið á um fimm ára skipunartíma. Því er lagt til að sú regla verði tekin upp hér til samræmis. Í annan stað er lagt til að í stað inngangs 1. málsl. i-liðar (28. gr.) komi efni gildandi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum. Samkvæmt þeirri grein hefur ríkissáttasemjari heimildir til að leggja fram miðlunartillögur. Hann getur lagt fram eina eða fleiri tillögur í deilum félaga sem saman eiga í kjaradeilum og jafnframt ákveðið sameiginlega atkvæðagreiðslu um slíka tillögu. Áður en til þess kemur ber honum þó að hafa samráð við hlutaðeigandi samninganefndir. Rétt þykir hins vegar að halda inni skilyrðum frumvarpsins, sem eru nýmæli, fyrir framlagningu miðlunartillögu samkvæmt framanskráðu, en þau koma fram í a–e-liðum í i-lið (28. gr.). Þá er loks lögð til breyting á reglu l-liðar (31. gr.) um atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu en sú regla hefur sætt gagnrýni. Á það má minna að miðlunartillaga er neyðarúrræði til lausnar kjaradeilu. Þess vegna er eðlilegt að gera nokkrar kröfur um lágmarkshlutfall mótatkvæða. Lagt er til að dregið verði verulegu úr kröfum frumvarpsins um hlutfall mótatkvæða og miðað verði við að fjórðungur samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá þurfi að vera andvígur miðlunartillögu til þess að hún teljist felld í stað þriðjungs áður.
    Loks er lögð til sú breyting á 8. gr. að við bætist tilvísun í 66. gr. laganna og orðinu „atvinnumálaráðherra“ breytt einnig þar í félagsmálaráðherra.
    Vegna athugasemda frá Lagastofnun Háskóla Íslands var sérstaklega rætt um samúðarverkföll. Rétt þykir að fram komi að ekki er verið að breyta neinu um þann skilning Félagsdóms sem lagður er til grundvallar nú um slík verkföll. Þá er og rétt að geta þess vegna athugasemda frá Sambandi íslenskra bankamanna, en sérstök lög eru í gildi um kjarasamninga starfsmanna banka í eigu ríkisins, nr. 34/1977, að ekki er ætlunin með þessu frumvarpi að fella brott eða breyta ákvæðum þeirra laga. Í greinargerð með frumvarpinu er sérstaklega tekið fram að reglum þess er ekki ætlað að hafa áhrif á stöðu og valdsvið ríkissáttasemjara eða starfsmanna hans samkvæmt öðrum lögum og eru fyrrnefnd lög nefnd þar sem dæmi. Því má ljóst vera að lögin gilda áfram sem hingað til og ekki er verið að breyta réttarstöðu þeirra sem gert hafa samkomulag á grundvelli þeirra laga.

Alþingi, 13. maí 1996.



Siv Friðleifsdóttir,

Einar K. Guðfinnsson.

Magnús Stefánsson.


frsm.



Arnbjörg Sveinsdóttir.

Kristján Pálsson.

Pétur H. Blöndal.