Ferill 400. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 400 . mál.


967. Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Péturs H. Blöndal um lífeyrisrétt öryrkja.

    Fyrirspurninni var vísað til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og í svari þess koma fram eftirfarandi upplýsingar frá Tryggingastofnun ríkisins og tryggingayfirlækni. Þar er tekið fram að annmarkar séu á því að þeir aðilar geti veitt fullnaðarsvör við öllum liðum fyrirspurnarinnar.

    Hvaða bætur fær 25 ára gamall einhleypur maður sem hafði 80 þús. kr. í tekjur á mánuði og verður 80% öryrki vegna slyss sem annar aðili ber skaðabótaábyrgð á? Átt er við allar hugsanlegar bætur og réttindi frá Tryggingastofnun ríkisins, lífeyrissjóði, tryggingafélagi og öðrum aðilum eftir atvikum vegna slyssins og að
         
    
    hann hafi ekki greitt í lífeyrissjóð; örorka sé ekki bótaskyld annars staðar;
         
    
    hann eigi rétt á örorkulífeyri frá lífeyrissjóði vegna iðgjaldagreiðslu síðustu fimm árin (t.d. samkvæmt samræmdri reglugerð SAL) af launum sem höfðu hækkað hlutfallslega eins og grundvallarlaun sjóðsins og nemi nú 80 þús. kr. á mánuði; örorka sé ekki bótaskyld annars staðar;
         
    
    sama og í b-lið nema örorkan stafi af slysi (ekki bílslysi) á vinnustað sem atvinnurekandi ber ábyrgð á; þess er óskað að fjárhæð hugsanlegra eingreiðslubóta verði jafnframt tilgreind sem ígildi mánaðarlegra tekna samkvæmt viðurkenndum viðmiðunartölum um lífslíkur og raunvexti;
         
    
    sama og í c-lið nema örorkan stafi af ábyrgðarskyldu bílslysi utan vinnustaðar.

    a. Örorkulífeyrir er 13.373 kr., tekjutrygging 25.294 kr., heimilisuppbót 8.634 kr., sérstök heimilisuppbót 5.754 kr. Samtals 53.055 kr.
    Sé um verulegan aukakostnað vegna örorkunnar að ræða, svo sem lyfja- og sjúkrakostnað eða húsaleigu í sveitarfélagi sem ekki greiðir húsaleigubætur, er greidd uppbót að hámarki 4.681 kr. Sé viðkomandi hreyfihamlaður og á bifreið fær hann bensínstyrk 4.317 kr. Hámarksgreiðsla frá Tryggingastofnun ríkisins á mánuði er því 62.053 kr.
    b. Örorkulífeyrir er 13.373 kr., tekjutrygging 1.333 kr., heimilisuppbót 375 kr. Samtals 14.881 kr.
    Sé um verulegan aukakostnað að ræða vegna örorkunnar, svo sem lyfja- og sjúkrakostnað eða húsaleigu í sveitarfélagi sem ekki greiðir húsaleigubætur, er greidd uppbót að hámarki 4.681 kr. Sé viðkomandi hreyfihamlaður og á bifreið fær hann bensínstyrk 4.317 kr. Hámarksgreiðsla frá Tryggingastofnun ríkisins á mánuði er því 23.879 kr.
    c. Greiðslur eru þær sömu og í b-lið.
    d. Greiðslur eru þær sömu og í b-lið.

    Hversu hátt orkutap mundi tryggingayfirlæknir meta vegna slíkrar örorku fyrir Tryggingastofnun ríkisins, lífeyrissjóði og hugsanlega tryggingafélag?
    Í fyrsta lið fyrirspurnarinnar er gengið út frá því að viðkomandi sé 80% öryrki vegna slyss þannig að þar hefur örorka þegar verið ákveðin. Mat fyrir Tryggingastofnun ríkisins mundi eingöngu miðast við læknisfræðilega örorku. Mat fyrir lífeyrissjóð mundi hins vegar miðast við orkutap og ekki væri hægt að ákvarða það fyrir lífeyrissjóðinn án þess að fyrir lægju nánari upplýsingar um viðkomandi. Tryggingastofnun ríkisins metur hins vegar ekki örorku fyrir tryggingafélög. (Vegna reynslu af slíkum málum er tekið fram að þar gæti annars vegar verið óskað eftir mati á læknisfræðilegri örorku, sem þegar hefur verið ákveðin 80% í þessu dæmi, og hins vegar mati á fjárhagslegri örorku. Ekki væri hægt að meta varanlega fjárhagslega örorku án þess að hafa meiri upplýsingar en fram hafa komið í þessu dæmi.)

    Hverjar eru heildarmánaðartekjur mannsins sem öryrkja skv. a-, b-, c- og d-lið ef hann getur unnið 20% starf og hlýtur fyrir það 20% af 80 þús. kr. eða 16 þús. kr.? Hvað eru mánaðartekjur mannsins sem öryrkja hátt hlutfall af tekjum hans fyrir slysið?
    Eingöngu fellur niður réttur til sérstakrar heimilisuppbótar. Hámarksgreiðslur væru þá 56.299 kr.
    Að gefnum þeim forsendum að lífeyrissjóður sé óbreyttur er aðeins réttur til örorkulífeyris og eftir atvikum bensínstyrks. Bætast því 16.000 kr. laun á mánuði við b-, c- og d-liði. Hámarksgreiðslur væru þá 17.690 kr.

    Hvernig breytist svarið ef tekjur mannsins eru 120 þús. kr. á mánuði eða 160 þús. kr. á mánuði?
    Séu laun 120.000 kr. á mánuði er örorkulífeyrir 856 kr. skv. a- og b-liðum og eftir atvikum gæti verið réttur til bensínstyrks. Hámarksgreiðslur væru þá 5.173 kr.
    Séu laun 160.000 kr. á mánuði fellur réttur til örorkulífeyris niður. Varðandi c-lið má vænta að gert yrði slysamat en greiðslur slysalífeyris eru óháðar tekjum.

    Hvernig breytist svarið ef maðurinn er 55 ára á slysdegi?
    Svarið breytist ekki.

    Að auki skal tekið fram að hreyfihamlaðir öryrkjar geta átt rétt á bifreiðaláni 180.000 kr. eða 340.000 kr. og styrk til bifreiðakaupa 235.000 kr. eða 700.000 kr.