Ferill 524. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 524 . mál.


974. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.

    3. mgr. 24. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra skipar sjö manna svæðisráð sjúkrahúsanna í Reykjavík og á Reykjanesi; Ríkisspítala, Sjúkrahúss Reykjavíkur, Sjúkrahúss Suðurnesja, Reykjanesbæ, og St. Jósefsspítala, Hafnarfirði. Í ráðinu eiga sæti formenn stjórna fyrrgreindra fjögurra sjúkrahúsa og tveir fulltrúar, auk formanns sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipar, án tilnefningar, til jafnlengdar starfstíma ráðherra. Hlutverk ráðsins er að gera tillögur um mótun framtíðarstefnu áðurnefndra sjúkrahúsa, flokkun þeirra og starfssvið og þróunar- og fjárfestingaráætlanir og stuðla þannig að sem hagkvæmastri verkaskiptingu þeirra, m.a. með auknu samstarfi. Ráðherra getur falið ráðinu framkvæmd einstakra verkefna á sviði öldrunar og endurhæfingar, samninga við starfsfólk og samræmingu starfsmannastefnu. Jafnframt getur ráðherra falið ráðinu rekstur þjónustukjarna sérfræðinga á einstökum lækningasviðum. Svæðisráð skal fylgjast með að gætt sé fyllstu hagkvæmni í rekstri sjúkrahúsanna og að þau starfi í samræmi við fjárveitingar og þær áætlanir sem gerðar hafa verið. Svæðisráðið skal taka við þeim verkefnum sem heilbrigðismálaráð Reykjavíkurlæknishéraðs og Reykjaneslæknishéraðs hafa haft með höndum og snerta þessi sjúkrahús, sbr. 7. gr. Ráðið ræður sér framkvæmdastjóra.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samstarfsráð sjúkrahúsanna í Reykjavík var stofnað með lögum nr. 128/1990, um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990. Í því eiga m.a. sæti fulltrúar tilnefndir af Borgarspítala og St. Jósefsspítala, Landakoti. Nú hafa þessir spítalar verið sameinaðir undir heitinu Sjúkrahús Reykjavíkur og er því óhjákvæmilegt að breyta núgildandi ákvæði um samstarfsráð sjúkrahúsa í Reykjavík. Þá skilaði nefnd sem skipuð var af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um aukna samvinnu og verkaskiptingu sjúkrahúsanna í Reykjavík og á Reykjanesi áliti sínu 18. mars 1996. Þar koma fram ýmsar tillögur sem gera ráð fyrir aukinni samvinnu sjúkrahúsanna í Reykjavík og á Reykjanesi, þ.e. Ríkisspítala, Sjúkrahúss Reykjavíkur, Sjúkrahúss Suðurnesja, Reykjanesbæ, og St. Jósefsspítala, Hafnarfirði. M.a. er gert ráð fyrir nánu samstarfi í ákveðnum verkefnum, t.d. á sviði öldrunar- og endurhæfingarlækninga, og jafnvel tilfærslu verkefna milli sjúkrahúsa. Þá er lagt til að stofnaðir verði svonefndir þjónustukjarnar eða kjarnahópar sérgreinalækna er starfi að sínum sérgreinum án tillits til sjúkrahússveggja. Þeir vinni t.d. að bæklunarlækningum á því sjúkrahúsi sem hagkvæmast er og auki þannig sérhæfingu og hagræðingu og tryggi betri nýtingu á skurðstofuaðstöðu og mannafla.
    Mikilvægt er að koma á mjög nánu samstarfi stjórnenda áðurnefndra sjúkrahúsa til að unnt verði að hrinda fyrrgreindum tillögum í framkvæmd.
    Því er lagt til að í stað samstarfsráðs sjúkrahúsanna í Reykjavík komi svæðisráð sjúkrahúsanna í Reykjavík og á Reykjanesi. Gert er ráð fyrir að formenn stjórna Sjúkrahúss Suðurnesja og formaður stjórnar St. Jósefsspítala, Hafnarfirði, taki sæti í ráðinu, auk fomanns stjórnarnefndar Ríkisspítala. Vegna sameiningar Borgarspítala og St. Jósefsspítala, Landakoti, er gert ráð fyrir að formaður stjórnar Sjúkrahúss Reykjavíkur komi í stað fomanna stjórna fyrrgreindra sjúkrahúsa. Í stað þess að ráðherra skipi fjóra fulltrúa, einn samkvæmt tilnefningu stjórnarnefndar Ríkisspítala, einn samkvæmt tilnefningu borgarstjórnar Reykjavíkur og tvo án tilnefningar er nú gert ráð fyrir að ráðherra skipi þrjá fulltrúa án tilnefningar og sé einn þeirra formaður ráðsins. Þannig verða fulltrúar sjúkrahúsanna fjórir, en gert er ráð fyrir að þrír verði skipaðir af ráðherra án tilnefningar. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra skipi formann í stað þess að hann sé kosinn af ráðinu eins og nú er. Í samræmi við tillögur nefndarinnar er gert ráð fyrir að ráðherra sé heimilt að fela ráðinu framkvæmd einstakra verkefna, svo sem á sviði öldrunar og endurhæfingar, og starfrækslu svonefndra þjónustukjarna. Loks er gert ráð fyrir að ráðinn verði framkvæmdastjóri ráðsins, enda er hér um mjög viðamikil og mikilvæg verkefni að ræða sem ekki er hægt að gera ráð fyrir að ráðsmenn geti annað samhliða öðrum störfum sínum.