Ferill 385. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 385 . mál.


1008. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 18. maí.)



1. gr.


    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 2. mgr. og orðast svo:
    Lögin gilda einnig um starfsemi íslenskra skipa utan íslenskrar efnahagslögsögu eftir því sem Ísland hefur skuldbundið sig til í alþjóðasamningum.

2. gr.


    Í stað orðanna „Siglingamálastofnunar ríkisins“ í 3. mgr. 10. gr., 1. mgr. 14. gr., 22. gr. og 24. gr. laganna kemur: Hollustuverndar ríkisins.

3. gr.


    13. gr. laganna orðast svo:
    Allt úrkast efna og hluta í hafið er óheimilt, sbr. þó 2. mgr. þessarar greinar.
    Hollustuvernd ríkisins getur heimilað að eftirtöldum efnum og hlutum sé varpað í hafið:
    dýpkunarefnum;
    náttúrulegum, óvirkum efnum, þ.e. föstum jarðefnum sem ekki hafa hlotið efnafræðilega vinnslu og samsett eru úr efnum sem ólíklegt er að losni út í hafsvæðið;
    fiskúrgangi frá fiskverkunarstöðvum.
    Við veitingu leyfis skv. 2. mgr. skal taka mið af eðli efnanna og hlutanna, magni þeirra og aðstöðu á losunarstað.
    Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um úrkast dýpkunarefna að fengnum tillögum Hollustuverndar ríkisins og Siglingastofnunar Íslands. Þar skal sérstaklega kveðið á um magn þeirra mengunarefna sem vísað er til í fylgiskjali 2.
    Kostnaður við eftirlit með úrkasti í hafið greiðist af leyfishafa.

4. gr.


    17. gr. laganna orðast svo:
    Nú er sýnt að mengunarvaldi takist ekki að koma í veg fyrir fyrirsjáanlegan skaða af völdum mengunarinnar og skulu þá hafnaryfirvöld tafarlaust hefja aðgerðir til að koma í veg fyrir eða draga úr mengun á viðkomandi hafnarsvæði og Hollustuvernd ríkisins, í samvinnu við Landhelgisgæslu Íslands og Siglingastofnun Íslands, utan hafnarsvæða.

5. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
    Í stað orðanna „Siglingamálastofnun ríkisins“ kemur: Hollustuvernd ríkisins.
    Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
                  Ráðherra er heimilt að fenginni tillögu Hollustuverndar ríkisins og að höfðu samráði við sveitarstjórnir að setja nánari reglur um framkvæmd þessara mála, svo sem um skiptingu landsins í svæði, skipan í svæðisráð, notkun mengunarvarnabúnaðar og stjórn á mengunarstað.
                  Ráðherra getur að fenginni tillögu Hollustuverndar ríkisins og að höfðu samráði við sveitarstjórnir sett samræmda gjaldskrá vegna notkunar mengunarvarnabúnaðar.

6. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
    Í stað orðanna „Siglingamálastofnun ríkisins“ kemur: Hollustuvernd ríkisins.
    Í stað orðanna „Hollustuverndar ríkisins“ kemur: Siglingastofnunar Íslands.

7. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
    2. mgr. fellur brott.
    Orðin „að höfðu samráði við heilbrigðismálaráðherra og menntamálaráðherra“ í 3. mgr. falla brott.
    Orðin „að höfðu samráði við heilbrigðismálaráðherra“ í 4. mgr. falla brott.

8. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, ásamt síðari breytingum, og gefa þau út svo breytt.