Ferill 536. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 536 . mál.


1077. Frumvarp til laga



um breyting á byggingarlögum, nr. 54/1978, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.

    Við lögin bætist svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða:
    Einstaklingar, sem lokið hafa námi á rafsviði, og störfuðu þann 1. janúar 1996 við raflagnahönnun eða höfðu á næstliðnum 3 árum fengið samþykki opinberra aðila fyrir raflagnateikningum, eiga, þrátt fyrir ákvæði 12. gr., rétt á fullu eða takmörkuðu starfsleyfi sem raflagnahönnuðir, enda sæki þeir um slíkt leyfi til umhverfisráðherra fyrir 1. janúar 1997.
    Ráðherra setur nánari ákvæði um framkvæmd greinar þessarar í reglugerð.
    

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í 12. gr. byggingarlaga nr. 54/1978, sem tóku gildi 1. janúar 1979, segir að rétt til að gera séruppdrætti af húsum og öðrum mannvirkjum hafi arkitektar, byggingarfræðingar, tæknifræðingar, verkfræðingar, hver á sínu sviði, svo og búfræðikandídatar úr tæknideildum búnaðarháskóla. Ofangreindur réttur er háður löggildingu sem umhverfisráðherra veitir að fenginni umsögn hlutaðeigandi stéttarfélags og skipulagsstjórnar ríkisins. Þeir, sem gerðu uppdrætti í einstökum byggingarnefndarumdæmum fyrir gildistöku laganna héldu staðbundnum réttindum, auk þess sem ráðherra getur veitt öðrum en þeim sem áður voru upp taldir, staðbundin réttindi, að fengnum meðmælum viðkomandi byggingarnefndar.
    Þrátt fyrir að ákvæði byggingarlaga og byggingarreglugerðar beri með sér að séruppdrættir séu háðir eftirliti og samþykki byggingarfulltrúa hefur framkvæmdin lengst af verið eins og fyrir gildistöku laganna þegar um hönnun raflagna hefur verið að ræða, þ.e. að eftirlit með séruppdráttum af raflögn væri í höndum rafveitna. Af hálfu þeirra virðist sem gæði hönnunar hafi ráðið mestu við eftirlitið en ekki menntun eða löggilding hönnuðarins. Hafa rafveitur því ekki gert þá kröfu til hönnuða raflagnateikninga að þeir uppfylli skilyrði 12. gr. byggingarlaga.
    Fram hafa komið athugasemdir frá löggiltum hönnuðum um hvers vegna lögunum sé ekki framfylgt varðandi raflagnateikningar, en eftirlit með því að raflagnahönnuðir hafi löggildingu eða rétt til þess svæðisbundið að leggja fram raflagnateikningar hefur verið ófullnægjandi.
    Fjöldi manna, einkum rafverktakar og rafiðnfræðingar, hafa fengið samþykktar raflagnateikningar án þess að hafa til þess löggildingu og hefur svo verið allt frá 1979. Þetta hefur eðli máls samkvæmt valdið óánægju löggiltra raflagnahönnuða enda framkvæmdin ekki lögum samkvæmt. Frumvarp þetta er lagt fram til að tryggja rétt þeirra, sem til þessa hafa athugasemdalaust lagt fram og fengið samþykktar raflagnateikningar, án þess að hafa hlotið löggildingu. Nauðsynlegt þykir að taka af allan vafa í þessum efnum. Það verður aðeins gert með breytingu á byggingarlögum vegna hinnar ótvíræðu skyldu í 12. gr. um viðurkenningu ráðherra. Samþykkt frumvarpsins er því forsenda fyrir því að þeir einstaklingar sem undir það falla geti starfað áfram að þessum málum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er kveðið á um að þeir einstaklingar, sem lokið hafa námi á rafsviði og störfuðu við raflagnahönnun þann 1. janúar 1996 eða höfðu á næstliðnum þremur árum fengið samþykki opinberra aðila fyrir raflagnateikningum eigi rétt á starfsleyfi sem raflagnahönnuðir þrátt fyrir ákvæði 12. gr. laganna. Það skilyrði er þó sett að um leyfið verði sótt til umhverfisráðherra fyrir 1. janúar 1997. Leyfin geta verið mismunandi allt eftir því hvers konar raflagnahönnun viðkomandi hefur sinnt.
    

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

    
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
    

Umsögn um frumvarp til laga um breyting


byggingarlögum, nr. 54/1978, með síðari breytingum.


    Í frumvarpi þessu er kveðið á um að þeir einstaklingar sem lokið hafa námi á rafsviði og störfuðu við raflagnahönnun þann 1. janúar 1996, eða höfðu á síðustu þremur árum áður fengið samþykki opinberra aðila fyrir raflagnateikningum, eigi rétt á starfsleyfi sem raflagnahönnuðir þrátt fyrir ákvæði 12. gr. laganna. Að mati fjármálaráðuneytis mun kostnaðarauki vegna þessa verða óverulegur og munu leyfisgjöld mæta þeim kostnaði.