Ferill 519. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 519 . mál.


1086. Nefndarálit



við frv. til laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

Frá minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Frumvarpið var flutt af sjávarútvegsráðherra í framhaldi af störfum sérstakrar nefndar sem skipuð var árið 1993 til þess að fjalla um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Ekki náðist samkomulag í nefndinni og var ágreiningur bæði um meginefni frumvarpsins og um einstakar greinar þess. Engu að síður lagði sjávarútvegsráðherra frumvarpið fram nú undir lok vorþings og er af hálfu stjórnarmeirihlutans lögð áhersla á afgreiðslu þess þótt ágreiningur um það hafi ekki verið jafnaður og aðeins hafi gefist örskammur tími til þess að fjalla um þetta viðamikla mál.
    Minni hluti nefndarinnar telur ekki rétt að afgreiða frumvarpið nú heldur leggur til að meiri tími verði notaður til þess að vanda betur til verksins. Rökin fyrir því eru eftirfarandi:
    Látið er í veðri vaka að niðurstaða úthafsveiðiráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem lauk með samkomulagi um nýjan alþjóðlegan samning í ágúst sl., kalli á skjóta lagasetningu. Það er ekki rétt. Engin þjóð hefur enn fullgilt hinn nýja sáttmála, ekki einu sinni Íslendingar, og mun því verða talsvert löng bið eftir því að hann öðlist gildi sem alþjóðalög. Verði frumvarpið samþykkt verða Íslendingar þjóða fyrstir til þess að setja stórfelldar takmarkanir á úthafsveiðiflota sinn, löngu áður en nokkur önnur fiskveiðiþjóð grípur hugsanlega til sambærilegra ráðstafana. Enginn veit hvenær úthafsveiðisáttmálinn tekur gildi né hvernig aðrar fiskveiðiþjóðir munu haga framkvæmdum á veiðistjórnun í samræmi við hann. Því er eðlilegt að doka við og hafa samráð við aðrar þjóðir um framkvæmd sáttmálans þannig að framkvæmdin sé samræmd í stað þess að rjúka nú til að þarflausu og setja stórfelldar veiðitakmarkanir á úthafsflotann á sama tíma og aðrar þjóðir leyfa frjálsar úthafsveiðar í samræmi við hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.
    Núgildandi lög um veiðar íslenskra skipa utan fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 34/1976, veita sjávarútvegsráðherra allar nauðsynlegar heimildir til þess að stjórna veiðum í samræmi við alþjóðlegar eða fjölþjóðlegar samþykktir. Síldveiðisamningur Íslendinga, Færeyinga, Rússa og Norðmanna frá því í vor kallar því ekki á neina nýja lagasetningu.
    Með frumvarpinu er athafnafrelsi íslenskra skipa á úthöfunum skert miklum mun meira en þörf er á samkvæmt úthafsveiðisáttmálanum og samningum sem Ísland er aðili að. 87. gr. hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna gerir ráð fyrir að frelsi til veiða á úthöfunum sé meginreglan. Á grundvelli ákvæðisins um frjálsar veiðar á úthöfum hafa Íslendingar á síðustu fáum árum verið að afla sér ómetanlegrar veiðireynslu á nýjum miðum. Í úthafsútgerðinni er nú vaxtarbroddurinn í sjávarútveginum og hefur hún skilað bróðurpartinum af þeirri tekjuaukningu sem orðið hefur í þjóðarbúskapnum. Verði frumvarpið samþykkt vegur það að rótum þessarar útgerðar og gæti orðið til þess að hún legðist að verulegu leyti niður, sem yrði áfall fyrir þjóðarbúið. Eðlilegra og æskilegra væri að næstu mánuðir yrðu notaðir til þess að afla íslenskum útgerðum meiri veiðireynslu á úthöfunum sem yrði þjóðinni mikill fengur þegar fiskveiðiþjóðir heims setja samræmdar reglur um veiðistjórnun á grundvelli úthafsveiðisáttmálans.
    Þá gerir frumvarpið ráð fyrir mjög víðtæku valdi sjávarútvegsráðherra til þess að stjórna veiðum íslenskra skipa á fjarlægum miðum nánast eftir geðþótta. Engar fjölþjóðlegar eða alþjóðlegar samþykktir krefjast þess að ráðherra verði fengið slíkt geðþóttavald til þess að stjórna veiðum íslenskra skipa jafnvel í lögsögu annarra þjóða víðs fjarri íslenskum miðum. Minni hlutinn er andvígur því að svo mikið vald sé fengið ráðherra.
    Þá eru ákvæði í frumvarpinu um mikla gjaldtöku vegna eftirlits með veiðum íslenskra fiskiskipa á úthafinu. Nýgerður samningur um veiðar á rækju á Flæmingjagrunni er sagður kalla á slík lagaákvæði. Lagaákvæðin eru hins vegar almenn og án takmörkunar og miklu víðtækari en samningurinn krefst auk þess sem hann er út af fyrir sig ekki rökstuðningur fyrir þeim víðtæku valdheimildum til sjávarútvegsráðherra og miklu veiðitakmörkunum sem frumvarpið gerir að öðru leyti ráð fyrir. Sé nauðsyn talin á að afla lagaheimilda fyrir greiðslu kostnaðar við eftirlit samkvæmt samningnum um rækjuveiðar á Flæmingjagrunni er eðlilegra að það verði gert með sérstakri sjálfstæðri lagaheimild í samræmi við efnisatriði samkomulagsins auk þess sem eðlilegt er að skoða það mál mun betur en gert hefur verið, m.a. í því skyni að gjaldtakan komi ekki í veg fyrir að skip geti stundað veiðarnar með eðlilegri afkomu.
    Þessi rök og önnur valda því að minni hlutinn telur ekki ráðlegt að afgreiða málið nú og leggur því til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Guðný Guðbjörnsdóttir, sem er áheyrnarfulltrúi í sjávarútvegsnefnd, er samþykk afstöðu minni hlutans og styður frávísunartillöguna.

Alþingi, 27. maí 1996.



Sighvatur Björgvinsson,

Svanfríður Jónasdóttir.


frsm.