Ferill 109. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 109 . mál.


1127. Nefndarálit



um till. til þál. um rannsókn á launa- og starfskjörum landsmanna.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna og fengið umsagnir um hana frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, kjararannsóknarnefnd, Jafnréttisráði, Kennarasambandi Íslands, Alþýðusambandi Íslands og félagsmálaráðuneyti.
    Tillagan miðar að því að gerð verði rækileg og víðtæk rannsókn á launa- og starfskjörum landsmanna og að úttektin taki bæði til opinberra starfsmanna og launafólks á almennum vinnumarkaði. Auk þess verði hugað að samanburði á milli einstakra hópa og samspili samningsbundinna launataxta og yfirborgana eða hins opna og dulda hluta launakerfisins. Í umsögn kjararannsóknarnefndar kemur fram að nefndin og Hagstofa Íslands hafa þegar tekið upp samstarf um framkvæmd reglubundinna launakannana sem eiga að ná til allra höfuðatvinnugreina og starfsgreina á vinnumarkaði. Þessar nýju og breyttu kannanir munu hefjast á þessu ári og búist er við fyrstu niðurstöðum í ársbyrjun 1997. Kannanirnar munu í höfuðatriðum ná yfir þau atriði sem tillagan byggist á. Með hliðsjón af efni tillögunnar þykir rétt að beina því til kjararannsóknarnefndar og Hagstofu Íslands að unnið verði á þeim forsendum sem tillagan gerir ráð fyrir þannig að tryggt sé að árangurinn verði ítarlegt yfirlit yfir launa- og starfskjör landsmanna.
    Nefndin leggur til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Kristján Pálsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 29. maí 1996.



Kristín Ástgeirsdóttir,

Pétur H. Blöndal.

Magnús Stefánsson.


form., frsm.



Arnbjörg Sveinsdóttir.

Einar K. Guðfinnsson.

Arnþrúður Karlsdóttir.



Rannveig Guðmundsdóttir.

Bryndís Hlöðversdóttir.