Ferill 480. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 480 . mál.


1187. Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar um störf tannsmiða.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hyggst ráðherra beita sér fyrir lagabreytingum til að taka af tvímæli um að tannsmiðir hafi rétt til að starfa sjálfstætt?

    Ýmsar stoðstéttir, svo sem tannsmiðir, tannfræðingar og sjóntækjafræðingar, hafa sótt á með lagabreytingar til að fá rétt til að starfa sjálfstætt á starfssviði sínu. Eins og nú háttar eru þessar stéttir háðar forsögn annars vegar tannlækna og hins vegar augnlækna til að geta unnið við starf sitt.
    Þegar rætt er um tannsmiði sérstaklega er augljóst að nám í tannsmíði hér á landi hefur ekki verið skipulagt á þann hátt að þeim sé ætlað að starfa sjálfstætt í þessum skilningi þar sem hlutur klínískrar kennslu er mun minni en aðrar þjóðir hafa gert að skilyrði til að tannsmiðir fái rétt til að starfa sjálfstætt. Tannsmíðaskóli Íslands útskrifar nemendur sína með nauðsynlegri færni til smíði á gervitönnum en í svipuðum skóla í Danmörku þarf að bæta við tveimur árum í læknisfræðilegum greinum áður en tannsmiðir fá réttindi til að starfa sjálfstætt án umsjónar og eftirlits tannlækna með sjúklingnum. Að líkindum hafa einungis þrír til fjórir tannsmiðir á Íslandi þessa menntun eins og sakir standa.
    Áður en hugað er að því að veita stoðstéttum sjálfstæði í starfi sínu er nauðsynlegt að undirbúa vel menntunarkröfur sem gera verður til þeirra. Öll lönd sem veitt hafa tannsmiðum rétt til sjálfstæðrar starfsemi gera klínískt nám að skyldu þannig að heildarnámstími getur farið upp í fimm ár í sumum löndum áður en þeir fá tilskilin leyfi.
    Ef heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið undirbýr lagabreytingar í þessa veru verður því að fara mjög gaumgæfilega ofan í saumana á því hvaða menntunarkröfur umsækjendur um sjálfstæðan atvinnurekstur á þessum sviðum þurfa að uppfylla.
    Tryggingastofnun ríkisins hefur gert samninga við nokkra tannsmiði um kaup á vinnu þeirra í smíði heilgóma. Verð fyrir þessa vinnu er mun lægra en tannlæknar hafa boðið.
    Eins og að framan greinir er mál þetta flóknara en svo að hér sé einungis um að ræða að breyta einni lítilli lagagrein og það er langt frá því að tannsmiðir séu einir á ferð þegar rætt er um sjálfstæði stoðstétta. Verður því að skoða mál þetta í víðara samhengi með hliðsjón af starfsréttindum heilbrigðisstétta og stoðstétta í heilbrigðisþjónustu.
    Verið er að vinna að heildarendurskoðun á réttindamálum heilbrigðisstétta og verða réttindamál stoðstétta eins og tannsmiða skoðuð í þeirri vinnu. Á þessu stigi er hins vegar ekki tímabært að segja til um niðurstöður þess eða hvort heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra muni beita sér fyrir lagabreytingum í þá veru sem fyrirspurnin lýtur að.