Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 15:12:21 (103)

1996-10-08 15:12:21# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[15:12]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Eins og gefur að skilja mun ekki gefast svigrúm til þess hér við 1. umr. að fara djúpt ofan í einstaka þætti frv. enda stutt síðan það var lagt fram. Ég mun hins vegar taka á nokkrum atriðum en fara frekar í einstaka þætti síðar í umræðum.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. er fullyrt að framfarasókn þjóðarinnar sé að hefjast. Undirstöður velferðar verði styrktar, áhersla verði nú lögð á samheldni þjóðarinnar, aukna samvinnu vinnuveitenda og launþega, aukna samvinnu dreifbýlis og þéttbýlis. Þar er því líka lofað að vegur menntunar og rannsókna verði aukinn enda séu það forsendur nýsköpunar í atvinnulífi. Við munum að ríkisstjórnin ætlaði að sjá til þess að landsmenn geti gengið bjartsýnir og með reisn yfir í 21. öldina.

Meginmarkmiðin í stefnu ríkisstjórnarinnar eru svo talin upp í 23 punktum í stefnuyfirlýsingunni. Sum þeirra hafa reyndar verið efnd en önnur ekki. Þannig hefur hæstv. ríkisstjórn t.d. efnt það loforð að endurskoða vinnulöggjöfina, sællar minningar, að breyta lánstíma húsnæðislána og tekið hefur verið upp samstarf við aðila vinnumarkaðarins um endurskoðun á skattkerfinu með það í huga að lækka jaðarskatta þótt tímaáætlanir virðist ekki ætla að standast í þeim efnum og árangur þar með ófyrirséður. En það er líka fjölmargt sem hefur ekki verið efnt í loforðaflaumi ríkisstjórnarinnar og ýmislegt sem beinlínis hefur verið unnið gegn. Þar get ég nefnt sem dæmi ný lög um almannatryggingar, það að endurskoða kosningalöggjöfina með það í huga að hún verði einfaldari og tryggi jafnara vægi atkvæða milli kjördæma, að ekki sé minnst á hina metnaðarfullu áætlun um að vinna í samstarfi við þjóðkirkjuna og aðra kristna söfnuði að því að efla jákvæð áhrif trúarlífs með þjóðinni. Það hefur lítið farið fyrir því.

Það fór líklega ekki fram hjá neinum að á þingsetningardaginn afhentu fulltrúar ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna formönnum flokkanna erindi þar sem krafist var endurskoðunar á kosningalöggjöfinni með jöfnun atkvæðisréttar í huga. Það væri áhugavert að vita hvort ríkisstjórnin hefur lagt drög að þessari vinnu og þá hvernig meiningin sé að haga undirbúninginum.

Það gefur að skilja að það er mikilvægt að haft sé víðtækt samráð um slíka breytingu og þá á ég ekki aðeins við á meðal stjórnmálaflokka heldur einnig sé haft samráð t.d. við óháð félagasamtök og aðra sem vilja stuðla að virkara og betra lýðræði.

En áfram með stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og það sem ekki hefur verið efnt. Þar er stærsti bletturinn líklega stefna stjórnarinnar í menntamálum. Í stefnuyfirlýsingunni gefur að líta göfug fyrirheit um að tryggja öllum jafnt tækifæri til náms án tillits til efnahags og búsetu. Þar segir, með leyfi forseta, að ríkisstjórnin stefni að því ,,að tryggja öllum tækifæri til náms án tillits til búsetu og efnahags. Þörfum einstaklinga fyrir endurmenntun og fullorðinsfræðslu verður sinnt.``

Síðar segir:

,,Framhaldsskólar verða efldir, ekki síst starfsnám og verkmenntun. Unnið verður áfram að uppbyggingu og þróun Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og listnáms á háskólstigi. Öflugt rannsókna- og þróunarstarf er forsenda framfarasóknar í íslensku atvinnulífi. Nýta verður sem best fjármagn sem varið er í því skyni og tryggja að bæði nýjar og hefðbundnar atvinnugreinar eigi jafnan aðgang að rannsóknafé. Lög og reglur um Lánasjóð íslenskra námsmanna verða endurskoðuð.``

En hvað hefur ríkisstjórnin svo gert til að tryggja öllum tækifæri til náms án tillits til efnahags og búsetu? Hvað hefur hún gert til að efla framhaldsskólana eða til að efla rannsókna- og þróunarstarf?

Jú, hún hefur lagt síauknar fjárhagslegar byrðar á nemendur í skólunum. Væntanlega í því skyni að tryggja öllum tækifæri til náms án tillits til efnahags. Hún hefur lagt á álögur í formi innritunargjalda og efnisgjalda. Nú á að bæta enn við gjaldið vegna endurtekningar prófa í framhaldsskólum. Samkvæmt frv. er þetta gert, ég vitna beint í það eins og þetta er orðað í frv.: ,,Er þetta gert í þeirri von að gjaldtakan leiði til markvissari innritunar og auðveldi skipulagningu á kennslu fremur en til útgjalda nemenda``.

Ég get ekki skilið það öðruvísi en svo að þetta gjald muni leiða til útgjaldaaukningar fyrir nemendur enda virðist ekki gert ráð fyrir öðru en að nemendur greiði þetta gjald sjálfir. Það er ótrúleg trú sem ríkisstjórnin hefur á mætti peningastjórnunarinnar í þessum efnum. Gjaldið á að leiða til markvissari innritunar en ekki útgjaldaaukningar nemenda. Líklega hefur ekki verið gerð könnun á því hvers vegna nemendur þurfa að endurtaka próf. Það er að mínu mati ólíklegt að slík gjaldtaka mundi leiða til þess að nemendur mundu síður innritast í skólana. Auk þess sem hver maður sér að hún bitnar verst á þeim sem þurfa á aðstoð að halda til að komast í gegnum námið. Það er undarlegt markmið í sjálfu sér að stefna að því að fólk innriti sig síður í skóla ef ríkisstjórnin á annað borð vill auka veg menntunar. Svona vinnubrögð eru fráleitt til þess fallin að gefa sem flestum tækifæri til að mennta sig og enn á ný sýnir ríkisstjórnin að hún vill veg almennrar menntunar í landinu, ég ítreka almennrar menntunar í landinu, ekki mikinn. Niðurskurður til framhaldsskólanna ber þess merki enda lýsti hæstv. forsrh. því í stefnuræðu sinni um daginn að nú væri komið að framhaldsskólunum, þar væri eitthvað að hafa í niðurskurði og auknum álögum.

Framlög til sérkennslu lækka um 6,1 millj. kr. en skýringin í frv. er sögð vera tilfærsla framlaga á tiltekna skóla. Því miður hefur mér ekki gefist ráðrúm til að skoða þetta frekar og fá útskýringar á þessu enda skammur tími frá því að frv. var lagt fram. Ég lýsi hér með eftir skýringum á þessu atriði ef viðstaddir hæstv. ráðherrar gætu útskýrt nánar í hverju þetta felst.

[15:15]

Þá væri enn fremur áhugavert að vita hvar endurskoðun á lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna stendur en eftir því sem best er vitað hefur nefnd starfað að þeim málum ansi lengi eða á annað ár. Mér er sagt að nefndin hafi ekki komið saman í þrjá mánuði og skýringin sem helst er gefin í þeim efnum er sú að Sjálfstfl. hafi ekki lagt fram svör sín við tillögum framsóknarmanna í nefndinni um endurgreiðslubyrðina og um samtímagreiðslurnar sem er mál málanna í endurskoðun laganna um Lánasjóð ísl. námsmanna. Eftir því sem ég best veit lögðu framsóknarmenn fram sínar tillögur í þeim efnum í vor.

Það er eðlilegt að nefndin hafi lítið að tala um ef ekki eru þessi grundvallaratriði um endurskoðunina. Ég vil því óska eftir að hæstv. menntmrh. geri grein fyrir hugmyndum sínum um framhald nefndarstarfsins. Er litið svo á að nefndin hafi lokið starfi sínu? Er hún búin eða er meiningin að hún verði látin ljúka störfum með einhverri alvöruendurskoðun á þessum lögum? Getum við átt þess von að það verði einhverjar breytingar á lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna og þá fyrst og fremst hvort breytinga sé að vænta varðandi endurgreiðslubyrðina og samtímagreiðslurnar? Telur ráðherrann það þjóna markmiðum um jafna möguleika allra til náms, án tillits til búsetu og efnahags sem lagt var upp með í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að endurgreiðslubyrðin sé sú sem hún er í dag eða um 10--13% af ráðstöfunartekjum meðalnámsmanns með meðallán eftir þeim upplýsingum sem ég hef? Að þeir sem eru með námslán á bakinu þurfi að hafa 30% hærri tekjur til að geta staðið undir húsnæðiskaupum af sambærilegri íbúð eins og samtök námsmanna og reyndar Húsnæðisstofnun hefur bent á? Er það kannski skoðun hæstv. menntmrh. að námsmenn eigi að sníða sér stakk eftir vexti eins og hann sagði um háskólann í sumar og frægt er orðið? En á meðan ráðherrann og Sjálfstfl. gerir upp við sig stefnuna í þessum málum bíða námsmenn í óvissu um framtíð sjóðsins og þar með um sína eigin framtíð.

Ég vil víkja aðeins að málefnum Þjóðarbókhlöðunnar. Hún er opin milli kl. 8.15 og 19.00 virka daga aðra en föstudaga en þá er henni lokað kl. 17.00. Á laugardögum er opið milli kl. 10.00 og 17.00. Hún er hins vegar lokuð á sunnudögum. Námsmenn nota gjarnan helgar og kvöld til að lesa og fletta upp í heimildarritum, enda veitir ekkert af að nýta tímann, utan hins hefðbundna vinnutíma, til að ná þokkalegum árangri einkum ef um krefjandi nám er að ræða eins og yfirleitt er, alla vega varðandi háskólanám. Er gert ráð fyrir því að mögulegt sé að hafa Þjóðarbókhlöðuna opna á þeim tíma sem námsmenn þurfa á að halda, þ.e. um kvöldin og um helgar, eða er kannski reiknað með því að stúdentar haldi áfram dósasöfnun til að standa undir opnunartíma stofnunarinnar? Eftir því sem mér sýnist í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir auknum sértekjum vegna gjaldtöku fyrir ákveðna þætti í þjónustu safnsins svo sem heimlán, ljósritun og tölvunotkun og nú þegar hefur kostnaðinum verið vísað á nemendur. Það verður að segjast eins og er að einkar hjákátlegt er að ekki skuli vera unnt að hafa þetta stolt þjóðarinnar og þetta mikla þarfaþing, sem Þjóðarbókhlaðan er, opið á þeim tímum sem þörfin er mest.

Þá er það háskólinn. Í fjárlagafrv. er viðurkennt og er það í sjálfu sér stefnubreyting af hálfu ríkisstjórnarinnar að fjárveitingar þurfi að stýrast af fjölda námsmanna við skólann og ég vil fagna því og taka fram að ég tel þá stefnubreytingu sem hefur orðið varðandi háskólann jákvæða. Framlögin til Háskóla Íslands virðast dekka það nauðsynlegasta sem á vantaði þannig að ekki þurfi að skera niður til kennslu og námskeiða. Það er mjög ánægjulegt og rétt að fagna því að hæstv. menntmrh. skuli hafa snúið af þeirri braut að telja það einkamál Háskóla Íslands að hann geti ekki haldið sér innan þess ramma sem honum er settur eins og skilja mátti af máli hans í sumar þegar fjárhagsvandi Háskóla Íslands var ræddur.

Ég vil víkja aðeins að húsnæðismálum. Í fjárlagafrv. segir að ríkisstjórnin hafi markað þá stefnu að sveitarfélögin taki alfarið að sér fjármögnun húsaleigubótakerfisins gegn því að ríkið taki yfir önnur verkefni sem ríki og sveitarfélög hafa kostað sameiginlega hingað til. Því miður býr fólk við mjög misjafnan kost að þessu leyti eftir því hvar á landinu það býr og efast ég stórlega um að þessi leið sé hin rétta. Hún virðist aðeins auka á mismuninn milli byggðarlaga og er því alls ekki í takt við það sem ríkisstjórnin lofaði í upphafi stjórnarsamstarfsins --- að stuðla að aukinni samheldni þjóðarinnar og samvinnu milli þéttbýlis og dreifbýlis. Nýverið samþykkti borgarráð Reykjavíkur fyrir sitt leyti að greiðslum vegna húsaleigubóta yrði haldið óbreyttum frá því sem nú er vegna ársins 1997. Jafnframt var lögð áhersla á það á fundi borgarráðs að stjórnvöld framlengi gildistíma húsaleigubótanna um eitt ár þannig að framtíð bótanna sé tryggð á meðan lögin verða endurskoðuð frá grunni. Þá segir um þetta í fréttatilkynningu frá borgarráði í Morgunblaðinu í dag, með leyfi forseta:

,,Félagsmálaráð Reykjavíkurborgar telur óásættanlegt að ríkisstjórnin hafi áform um að sveitarfélögin taki yfir húsaleigubótakerfið án þess að fyrir liggi útreikningur á kostnaði hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, af húsnæðiskerfinu í landinu. Útreikningurinn sé alger forsenda þess að hægt sé að ná samkomulagi um að leggja núverandi kerfi niður og semja um nauðsynlega tekjustofna til sveitarfélaga komi til yfirtöku.``

Eftir því sem ég hef komist næst hefur þetta samkomulag ekki verið gert að efni til en ég vil biðja hæstv. fjmrh. að gera grein fyrir á hvaða stigum sú vinna er. Liggur eitthvað fyrir í þeim efnum og hver er ætlun ríkisstjórnarinnar?

Skuldabyrði heimilanna í landinu eykst samkvæmt þeim upplýsingum sem í fjárlagafrv. eru gefnar og hafa verið staðfestar annars staðar frá. Ríkisstjórnin virðist helst kenna þar um óhóflegri eyðslu. Mjög víða í ráðherrakaflanum er vitnað í það að þjóðin sé að eyða um efni fram og sé mjög slæmt og svona megi ekki gera. En er þetta svo einfalt að íslenska þjóðin sé óforbetranleg í fjármálum? Að hún kunni ekki að fara með peninga? Getur ekki verið að nú sé einfaldlega nóg komið? Að ekki verði lengur gengið á almennt launafólk sem hefur hert sultarólina of mikið á undanförnum árum í nafni stöðugleika? Þjóðin hefur nefnilega sýnt mikla ábyrgð á undanförnum árum. Hún hefur haldið aftur af kaupkröfum og verkalýðshreyfingin hefur unnið í þeim anda. En þessi ríkisstjórn ætlaði að laga skuldastöðu heimilanna og eitt af úrræðunum, sem hæstv. ríkisstjórn taldi vera í þá veru að lagfæra greiðslustöðu heimilanna, var að setja lög um fjárhagslega aðstoð vegna nauðasamninga. Þetta var harðlega gagnrýnt af stjórnarandstöðunni í fyrra sem raunhæft úrræði og ekki síst á þeirri forsendu að þarna væri aðeins gert ráð fyrir því að aðstoða fólk við að greiða skiptakostnað, þ.e. að fjármagnið rynni beint til lögmanna en ekki til fólksins sjálfs sem þyrfti á aðstoðinni að halda.

Skipuð hefur verið nefnd til að meta umsóknir um réttaraðstoðina og fjárveiting vegna þessa er samkvæmt fjárlagafrv. áætluð um 10 millj. kr. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann viti hversu margar umsóknir hafa borist á grundvelli þessa úrræðis. Getur hann staðfest af eða á hvort þarna hafi verið um úrræði að ræða sem virkilega eru til hagsbóta fyrir fólk sem á í greiðsluerfiðleikum? Sækir fólk virkilega í þetta úrræði? Ég leyfi mér að halda, alla vega þangað til afsannað hefur verið, að ekki hafi margar umsóknir borist því ég tel þetta úrræði ekki raunhæfan kost í þeim vanda sem fólk á við varðandi greiðslustöðu heimilanna.

Fjármagnstekjutenging lífeyristrygginga er annað umdeilt atriði sem hæstv. ríkisstjórn hefur afrekað að koma í gegn. Samkvæmt frv. skila þessar aðgerðir 140 millj. kr. viðbótarsparnaði við það sem áætlað var eða um 80 millj. en alls gerir þetta um 220 millj. kr. sem hæstv. ríkisstjórn hefur nú haft af lífeyrisþegum og bótaþegum eftir því sem ég kemst næst samkvæmt frv. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið frá fjmrn. og frv. virðist staðfesta, er meiningin að hækka lífeyristryggingarnar um 2% vegna verðlagsbreytinga en eins og kunnugt er var ákveðið í fyrra að afnema tengingu við almennar launahækkanir á ýmsum bótagreiðslum og fór víst ekki fram hjá neinum í umræðunni um fjárlögin síðustu.

Nú sýnist manni að gert sé ráð fyrir 3,5% svigrúmi til launahækkana en eins og hæstv. fjmrh. benti á er ekki tekin ákvörðun um það í fjárlagafrv. og ég held að enginn hafi haldið því fram að ákvörðun væri tekin um það hversu launahækkanir ættu að vera miklar í fjárlagafrv. en þetta er það svigrúm sem ríkisstjórnin telur að rúmist innan eðlilegra marka öðruvísi en hér verði um einhverja kollsteypu að ræða eftir því sem manni skilst. Eftir þessu sýnist mér að skerðingin fyrir bótaþegana sé nú þegar áætluð 1,5%, eftir því sem ég best fæ séð og ég vil enn og aftur biðja hæstv. fjmrh. að leiðrétta ef þetta er einhver misskilningur en mér sýnist þetta vera svona eftir því sem frv. gerir ráð fyrir.

Það er af ýmsu fleiru að taka í frv. sem ekki verður komið við nú enda gefst tækifæri til þess síðar. Ég vil aðeins í lokin gera efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar að umtalsefni eða öllu heldur mat hæstv. ríkisstjórnar á efnahagsstefnunni og hvernig til hafi tekist. Sjálfumgleðin er þar alls ráðandi og menn hreykja sér mikið af efnahagsbatanum. Það er líka mjög mikilvægt að reyna að tryggja afkomu ríkissjóðs. Sennilega eru allir sammála um það en menn greinir kannski á um leiðir að því marki. Stundum talar ríkisstjórnin eins og hún sé boðberi nútímalegra vinnubragða og horfi til framtíðar á meðan stjórnarandstaðan hugsi aðeins um að eyða og hafi engin úrræði til að skapa efnahagslegar forsendur fyrir velferðarþjóðfélagið. Þessu hefur verið mótmælt en ríkisstjórnin heldur áfram og nú síðast í utandagskrárumræðunum um lífskjörin og fjölskylduna sem Alþb. og óháðir stóðu fyrir í gær.

Ég vil af þessu tilefni benda á að í nýútkominni skýrslu sem Útflutningsráð hefur gefið út í tilefni af væntanlegu málþingi er vitnað aðeins í stefnuskrá eins stjórnmálaflokks og það er Alþb. Það er ekki vitnað í stefnuskrá hins nútímalega, hins nýnútímalega öllu heldur, Sjálfstfl. eða Framsfl. en báðir telja sig boðbera nútímalegra vinnubragða og hinna réttu lausna í málefnum ríkisins.

[15:30]

Ritið sem ég er að vitna til ber yfirskriftina ,,Útflutningur --- hvað er fémætt í framtíðinni?`` og er ætlað sem umræðugrundvöllur að málþingi sem Útflutningsráð stendur fyrir á næstunni. Þar er vitnað í fjölda rita um hagstjórn en aðeins eina pólitíska stefnuskrá sem er útflutningsleið Alþb. og reyndar er vitnað í hana á fleiri stöðum en einum. Þar er vitnað til þess vanda sem stjórnvöld standa frammi fyrir af því að viðskiptajöfnuður er nú aftur orðinn óhagstæður og velt er vöngum yfir hlutverki stjórnmála í því skyni að auka útflutning. Í ritinu er bent á mikilvægi heildarstefnu varðandi útflutning og að minnkun viðskiptahalla og breyting hans í jákvæðan viðskiptajöfnuð með auknum útflutningi sé meðal brýnustu verkefna í hagstjórn Íslendinga á næstu árum. Á þann hátt má skapa tekjuafgang í viðskiptum við útlönd sem nota mætti til að greiða niður erlendar skuldir. Lögð er áhersla á mikilvægi menntunar til að auka samkeppnishæfi þjóðarinnar í samanburði við aðrar þjóðir og ítrekað að niðurskurður ríkisútgjalda veiki ekki þær undirstöður sem nauðsynlegar eru til útflutningsaukningar framtíðarinnar eins og menntun og nýsköpun. Í þessu riti segir einnig, með leyfi forseta:

,,Flatur niðurskurður hefur tíðkast af hálfu ríkisins á undanförnum árum í samdrætti ríkisumsvifa. Engri forgangsröðun hefur verið beitt og ekkert hugsað um hvar skera megi niður og hvar ekki. Dæmi um þetta er niðurskurðurinn í skólakerfinu þar sem flati niðurskurðurinn bitnar mest á verknámi þar sem í raun þyrfti að auka fjárframlög því að verknámið er hlutfallslega dýrara en annað nám.``

Ég get tekið undir ýmislegt af því sem kemur fram í þessum ágæta umræðugrundvelli sem Útflutningsráð hefur gefið út og reyndar er margan fróðleiksmolann að finna í bókinni, ekki aðeins úr útflutningsleið Alþb. heldur er þar sótt víðar fanga. Það er nefnilega rétt að ítreka að það eru vaxtarbroddar víða í íslensku atvinnulífi og vil ég þar taka eitt dæmi. Árið 1990 var útflutningur á íslenskum hugbúnaði nánast enginn. Síðan eða á síðustu sex árum tæpum hefur hann vaxið hröðum skrefum og var nú árið 1996 tæpur milljarður kr. Með sama áframhaldi gæti verið um einhvern mesta vaxtarbrodd til framtíðar í íslensku atvinnulífi að ræða. Í hugbúnaði er enginn kvóti. Þar er efniskostnaður óverulegur og verðmætasköpun mikil ef vel tekst til. Lykillinn er hins vegar menntun og aftur menntun og þar hefur ríkisstjórnin stórlega brugðist íslensku þjóðinni. Framtíð hennar verður ekki tryggð án þess að menntun sé verulega þungur áhersluþáttur í samfélagslegum verkefnum.

Að lokum, herra forseti. Í frv. til fjárlaga hefur margoft verið varað við kollsteypu í tengslum við komandi kjarasamninga og ég vil reyndar taka dýpra í árinni en að tala um viðvaranir. Mér finnst nánast stundum vera um að ræða hótanir til láglaunafólks um að fari verðbólgan á skrið verði þeir verst úti sem minnst mega sín og þessi orð ítrekaði hæstv. fjmrh. í ræðu sinni en þetta kemur líka fram í efnahagskafla frv. Áætlað er að 3,5% launahækkun rúmist innan þeirra marka sem ríkisstjórnin telur möguleg án þess að um kollsteypu verði að ræða en það gefur líka auga leið að það verður að leiðrétta lægstu launin. Það hlýtur hver heilvita maður að sjá. Hæstv. fjmrh. er væntanlega sammála því að 49 þús. kr. laun eru ekki til þess að lifa af og 3,5% hækkun á slík laun eru smáaurar.

Nú er þetta er vissulega viðfangsefni aðila vinnumarkaðarins. Það er viðfangsefni samtaka launafólks að setja fram kaupkröfur í þessum efnum og þætti mér fróðlegt að heyra hvort hæstv. ríkisstjórn sjái fyrir endann á þessari stöðu láglaunafólks. Telja menn svigrúmið geta skapast á næstu árum eða næstu áratugum? Með öðrum orðum, hvenær getur fólk farið að krefjast mannsæmandi launa á Íslandi?