Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 15:38:03 (105)

1996-10-08 15:38:03# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[15:38]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin og skýrðist ýmslegt í svari hans. Ég vildi þó sérstaklega gera athugasemd við það sem snýr að Þjóðarbókhlöðunni. Rétta framlagið hækkar og mér var fullkunnugt um það en eftir því sem mér sýnist á skýringum í fjárlagafrv. hækkar það fyrst og fremst vegna meiri rekstrarkostnaðar við húsið en áætlað var. Spurning mín sneri að því, þ.e. felst að einhverju leyti í þessu að það standi til að húsið geti verið opið á kvöldin og um helgar eða er þessi rekstrarkostnaður, sem þarna var gert ráð fyrir, vegna einhverra annarra hluta? Ég get ekki séð að gert sé ráð fyrir lengri afgreiðslutíma og það var fyrst og fremst það sem ég hafði áhuga á að vita. En mér sýnast vera aðrar skýringar í frv. um þetta.

Hæstv. menntmrh. segir að nefndin um endurskoðun á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna sé enn að störfum. Ég hafði heyrt að hún hefði ekki komið saman í þrjá mánuði. Ég ítreka spurningu mína um það hvort það sé rétt eða er eitthvað að gerast í þessum málum sem bendir til þess að það geti komið niðurstaða á næstunni? Ég veit að námsmenn eru margir orðnir mjög langeygir eftir niðurstöðu í þessu mjög svo viðamikla máli.