Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 15:46:36 (109)

1996-10-08 15:46:36# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[15:46]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Herra forseti. Það er aðeins örstutt. Varðandi kaupmátt láglaunafólksins held ég að af þessu tilefni sé kannski athyglisverðast að beina sjónum sínum að því hvað er að gerast í verkalýðshreyfingunni. Ég er sannfærður um það að á meðan samflot átti sér stað var það besta tryggingin fyrir því að þeir sem voru með lægstu launin fengju meira en hinir. Þetta gerðist í samningum að undanförnu með svokölluðum eingreiðslum og ég óttast það nú að þeir sem betur mega sín, hafa sterkari aðstöðu, muni nú nota tækifærið til þess að vinna það upp sem þeir telja að þeir hafi tapað og það muni því miður geta gerst á kostnað þeirra verst settu nema fullt samráð sé verkalýðsmegin eins og atvinnurekendamegin.

Þetta svar á kannski einnig við um bótaþegana vegna þess að á undanförnum árum hefur það varðað bótaþegana miklu hvernig samið var um eingreiðslur fyrir þá sem lægst höfðu launin. Við verðum að bíða og sjá, a.m.k. fram í desember, hverju fram vindur og taka þá endanlega á þessum málum, en í frv. er þetta núllstillt, þ.e. það er stillt á verðbólguna, bótagreiðslurnar eru stilltar þannig að kaupmátturinn er sá sami á næsta ári og þessu ári á liðunum um bætur.

Varðandi skatta skal ég vera stuttorður. Eins og ég hef margoft sagt tel ég að aðalmálið á næstunni í skattalagabreytingunum sé að koma til móts við þarfir láglauna- og millilaunafólks sem er að berjast við það að ala upp börn, koma sér upp húsnæði, greiða námsskuldir og þarf að auki að leggja til hliðar til þess að eiga eitthvað þegar að ævikvöldi kemur. Það verður best gert eð því að draga úr jaðaráhrifum skattkerfisins.

Af því að ég á þrjár sekúndur eftir skal ég svara spurningu sem áður kom fram um nauðasamningana: Umsóknir sem hafa borist munu vera átta. Sex eru óafgreiddar, ein er afgreidd jákvætt og ein neikvætt.