Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 17:50:52 (124)

1996-10-08 17:50:52# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., JBH
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[17:50]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Í ræðu hæstv. fjmrh. áðan vitnaði hann í blaðaviðtal við sænskan fyrrv. starfsbróður, núv. forsætisráðherra Svía, Göran Persson og þau orð sem hann hafði eftir þessum fyrrum starfsbróður sínum með mikilli velþóknun hljóðuðu svo, með leyfi forseta:

,,Velferð verður að byggjast á framleiðslu fyrirtækja og getu landsmanna til að greiða skatta, ekki á viðskiptavild í bönkum. Við verðum alltaf að spyrja hvort kerfið sé uppbyggt þannig að það hvetji fólk til vinnu, hvort það stuðli að réttlátri tekjudreifingu, hvort það standist bæði hallæri og góðæri, hvernig jafnvægið er milli eigin framlags manna og þess sem kemur úr opinberum sjóðum.``

Mér heyrðist hæstv. fjmrh. gera þessi orð að sínum og vitnaði í þau með nokkurri velþóknun og ég get tekið undir það með honum. Hér er nefnilega hreyft spurningum sem varða umræðuefnið í dag, sem er efnahagsstefna ríkisstjórnar og það hvernig fjárlagafrv. er úr garði gert til að bera þá efnahagsstefnu fram. 1. umr. um fjárlög á að vera um efnahagsstefnuna en ekki um einstaka stofnanir eða einstaka fjárveitingar til einstakra verkefna. Það er allt haustið til þess að ræða þau mál í nefnd og síðar.

Úr því hæstv. fjmrh. vitnar með slíkri velþóknun í þessi orð hlýtur hann að hafa spurt sjálfan sig meðan vinnan stóð yfir að setja fjárlagafrv. saman, við gerbreytt efnahagsskilyrði eftir að góðærið var gengið í garð, spurninga eins og þessara: Er hann að leggja til að fram sé haldið með skattkerfi sem hvetur fólk til vinnu? Er skattkerfið okkar vinnuhvetjandi? Eða er það kannski orðið svo gallað að það hafi færst úr lagi á samdráttarskeiðinu, hvort sem það var af illri nauðsyn eða ekki, að það sé orðið stórlega vinnuletjandi? Er það ekki mjög alvarlegt mál ef svo er? Var ekki öll umræðan fyrir síðustu kosningar sú, að allir stjórnmálaflokkar lofuðu að draga úr jaðaráhrifum annars vegar tekjuskattskerfisins og hins vegar bótagreiðslna og það væri forgangsmál að breyta því? Mig minnir það. Hvernig stendur á því að hæstv. fjmrh., sem bráðum hefur setið á stól fjmrh. lengst flestra manna og haft nægan tíma til að móta stefnu, leggur enn úr vör með nýtt fjárlagafrv. fyrir árið 1997 við gerbreyttar efnahagslegar forsendur? Hann er enn með þetta kosningaloforð á smíðaborðinu. Það er enn verið að segja að unnið sé að þessu. Hefði ekki verið æskilegt að hæstv. fjmrh. hefði boðað ákveðið og kynnt, um leið og hann lagði þetta fram, að á vandamálinu yrði tekið? Það er knýjandi nauðsyn vegna breyttra ytri aðstæðna og við vitum að samdráttarskeið hefur snúist í góðæri. Það er aukin eftirspurn í þjóðfélaginu. Stórkostlegar framkvæmdir og fjárfestingar eru fram undan og mun reyna á að þessi gildra launþega sem þeir eru læstir inni í, jaðaráhrif tekjuskattskerfisins, kemur í veg fyrir að þeir geti í raun og veru --- til að orða þetta réttilega, þeir eru lattir en ekki hvattir til að leggja fram aukið vinnuframlag.

Hæstv. fjmrh. hlýtur að hafa spurt sig að því hvort fjárlagafrv. og stuðningsfrv. þess stuðli að réttlátri tekjudreifingu. Sérstaklega hlýtur það að hafa verið honum ofarlega í huga þegar þess er gætt að fram undan eru kjarasamningar, líka við gerbreyttar aðstæður. Á undanförnum þrengingaárum hefur kaupmáttur launa dregist mjög saman. Stuðst var við þau rök að hart væri í ári. Þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur drógust saman. Nú hefur það snúist gersamlega við. Við erum með mestan hagvöxt innan OECD-ríkja, fyrir utan eitt, á þessu ári og hagvaxtarhorfur tiltölulega vænlegar og jafnvel meira en það ef fjárfestingaráform í orkuvinnslu, orkusölu og stóriðju upp á 40 milljarða ganga eftir.

Verkalýðshreyfingin er að undirbúa kröfugerð. Örlög fjárlagafrv. og efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar munu að verulegu leyti ráðast af því hvernig tekst til um samkomulag stjórnvalda og verkalýðshreyfingarinnar um skiptikjörin, þ.e. um hina réttlátu tekjudreifingu. Hvað er það sem hæstv. fjmrh. leggur til að sé gert til að koma til móts við launþega í góðærinu og stuðla að réttlátari tekjudreifingu?

Þriðja atriðið sem Göran Persson nefndi sem mælikvarða á það hvort efnahagsstefnan væri haldbær eða ekki var það: Stenst hún í hallæri og góðæri? Hæstv. fjmrh. fór miklum viðurkenningarorðum í ræðu sinni um þann árangur sem hefði náðst í tíð fyrri ríkisstjórna á samdráttarskeiðum og öfugt við hæstv. forsrh., sem yfirleitt getur ekki tekið sér í munn ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar frá 1988--1991 öðruvísi en að hallmæla henni eða gera lítið úr verkum hennar, tek ég það svo að hæstv. fjmrh. sé í þeim texta að viðurkenna þá staðreynd að það var í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem þjóðarsáttarsamningar tókust og það var í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem tókst að koma verðbólgu á Íslandi niður í eins stafs tölu frá því sem hún hafði verið ein aðalmeinsemd í efnahagslífi okkar áratugum saman. Hæstv. ráðherra komst að orði á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Batnandi afkoma þjóðarbúsins nú er um margt frábrugðin fyrri uppsveiflum í íslensku efnahagslífi, þar sem hún verður ekki rakin sérstaklega til sjávarútvegs.``

Í þessari tilvitnun verður náttúrlega sannleiksgildið að rúmast í orðinu ,,sérstaklega`` því að að sjálfsögðu er góðærið núna að verulegu leyti borið uppi af uppsveiflu í sjávarútvegi en ég tek undir það að vísu að það er ekki einhlít skýring. Samt sem áður er það hluti af skýringunni og að vissu leyti nokkur hætta á að þetta geti endað í dæmigerðri, hefðbundinni uppsveiflu sem alltaf hefur endað í kollsteypu hingað til í efnahagssögu okkar á lýðveldistímanum. Svo ég vitni áfram í orð hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

,,Allt frá miðjum síðasta áratug hefur íslenskt efnahagslíf gengið í gegnum miklar skipulagsbreytingar. Lykilatriðið í þessari þróun er aukið frelsi í viðskiptum jafnt með vörur, þjónustu og fjármagn. Á flestum sviðum hefur hömlum verið aflétt og höftum, boðum og bönnum verið ýtt út af borðinu. Auk þess hefur af hálfu stjórnvalda verið gripið til ýmissa aðgerða til þess að laga rekstrarskilyrði atvinnulífsins að því sem best gerist í helstu samkeppnislöndum. Auknu frelsi fylgir vaxandi samkeppni inn á við og út á við. Fyrirtækin hafa því þurft að taka sér tak, hagræða og endurskipuleggja rekstur. Þessar breytingar ásamt stöðugleika í efnahagslífinu hafa lagt grunninn að öflugara atvinnulífi. Árangur aðgerðanna er nú smám saman að koma í ljós.``

Þetta er góður vitnisburður þegar við lítum til baka að þrátt fyrir allt hafi tekist óvenjulega vel með hagstjórn á Íslandi á lengsta krepputímabili okkar á lýðveldistímanum, þ.e. eftir stríð, frá haustmánuðum 1987 og fram til þessa dags eða fram á þetta ár. Það má að sjálfsögðu mörgu bæta við lýsinguna á þeim aðgerðum en ég er sammála hæstv. fjmrh. um að tekið hafi verið á vandanum með þeim hætti að árangur náðist, traustur árangur sem má byggja á til framtíðar öfugt við það sem áður hefur gerst á svipuðum samdráttarskeiðum fyrr. Og hvað var það sem skiptir máli? Það voru algerlega ný vinnubrögð og ný hugsun í samskiptum stjórnvalda og verkalýðshreyfingar með þjóðarsáttasamningunum, það er rétt. Það var lagður grundvöllur þá að því að kippa verðbólgunni niður og reyna heldur að byggja upp kaupmátt smám saman á grundvelli samkeppnishæfs atvinnulífs.

[18:00]

Það var mikið gert til þess að bæta skilyrði fyrirtækjanna sem Göran Persson nefndi til sögunnar og fjmrh. vitnaði til. Við byggjum ekki velferðarríki og velferðarþjónustu nema því aðeins að við byggjum á framleiðslu fyrirtækja og þau fyrirtæki verða að vera samkeppnishæf. Hvernig var það gert? Það var t.d. gert með því að standa þannig að gengisskráningu að raungengi væri hagstætt, að fyrirtæki í útflutningsgreinum og samkeppnisgreinum væru samkeppnisfær. Það var gert með því að lækka stórlega skatta á fyrirtækjum. Það var gert með því að leggja af aðstöðugjaldið á sínum tíma sem var skattur af því tagi að hann tók ekki tillit til afkomu heldur veltu. Það var gert með því að lækka tekjuskatta fyrirtækja. Þetta var mjög óvinsæl ráðstöfun á sínum tíma en hún var gerð til þess að byggja upp traust atvinnulíf á samdráttarskeiðum.

Það er komið á daginn að þessi efnahagsstefna hefur skilað árangri því að um leið og úr rættist fóru fyrirtækin að skila umtalsverðum hagnaði og niðurstöðutölur frá aðalfundum fyrirtækjanna núna á undanförnum missirum sýna að það hafa orðið stórkostleg umskipti til hins betra í afkomu fyrirtækja. Þau voru knúin til þess að mörgu leyti að laga sig að því á erfiðleikatímabilinu að geta ekki byggt framtíð sína eingöngu á því að stóri bróðir, ríkisvaldið, sem hafði ekkert aflögu kæmi þeim til hjálpar. Það hefur orðið mikil hagræðing, það hefur orðið mikil endurskipulagning o.s.frv.

Og það er annað. EES-samningurinn, eins og mun koma á daginn þegar menn líta á það mál úr nokkurri sögulegri fjarlægð, skipti sköpum um að stuðla að aðlögun íslensks þjóðfélags frá verðbólgusamfélagi yfir í nokkurn veginn normalt samkeppnishæft þjóðfélag. Hann var ekki bara samningur um bætt viðskiptakjör og bættan markaðsaðgang fyrir sjávarútveginn. Hann var í raun miklu víðtækari samningur. Hann varðar ekki bara vöruviðskipti, þjónustuviðskipti, fjármagnsviðskipti heldur einnig vinnumarkað, samkeppnisreglur. Í kjölfar hans hafa orðið þvílíkar breytingar á íslenskri löggjöf, þar með talið hin merka löggjöf um samkeppnismál og Samkeppnisstofnun sem af því leiddi, þannig að hann hefur haft víðtæk áhrif í þá átt að draga úr einokun og fákeppni í íslensku þjóðfélagi, að gefa íslensku atvinnulífi kost á að starfa á grundvelli samræmdra samkeppnisreglna. Samningurinn er dínamískur, síbreytilegur og hann hefur þessi áhrif enn. Hann hefur þessi áhrif líka á félagsmálasviðinu og mun gera í vaxandi mæli.

Á sama tíma var það einkum að frumkvæði ráðherra Alþfl. í þessum ríkisstjórnum og þá ekki síst þeirra sem sátu í viðskrn. að vinna að grundvallarbreytingum í þá átt að stuðla að auknu frelsi og aukinni samkeppni í viðskiptum. Það var gert með endurskipulagningu að hluta til á íslensku bankakerfi með uppbyggingu á nýjum fjármagnsmörkuðum og í samræmi við þessa stefnu og athyglisvert að það er ekki í fyrsta sinn sem það gerist að það er að frumkvæði Alþfl., Jafnaðarmannaflokksins, sem slíkar breytingar eru gerðar á atvinnulífinu. Því miður náðu þær breytingar, svo róttækar sem þær voru, ekki nægilega langt vegna þess að enn í dag er það svo að íslenskt efnahagslíf og íslenskt þjóðfélag ber í allt of ríkum mæli einkenni þess að vera hneppt í viðjar einokunar, fákeppni, forréttinda hinna fáu, ekki hvað síst og þar á meðal ríkisforsjár og ríkisstuðnings í atvinnulífinu, ekki síst að því er varðar ýmsar grundvallarstærðir atvinnulífsins. Það á að sjálfsögðu við landbúnaðarkerfið. Það á því miður í vaxandi mæli við um grundvallarstærðir, höfuðauðsuppsprettu og aðalatvinnuvegar þjóðarinnar í sjávarútvegi sem lýtur í allt of miklum mæli skömmtunarvaldsstjórn ríkisins. Það á við í orkubúskap okkar, það á við að verulegu leyti í ríkisbanka- og sjóðakerfi, að við búum við ónóga samkeppni, of mikla ríkisforsjá, of mikla einokun og erum að því leyti með annars konar þjóðfélagsgerð en samkeppnisþjóðir okkar. Það er athyglisvert að ekki hefur náðst nægur árangur í að breyta þessu. Það tókst ekki þrátt fyrir góðan vilja okkar jafnaðarmanna í seinustu ríkisstjórn, einfaldlega vegna þess að ofurvald sérhagsmuna sem eru tengdir þessum atvinnuvegahagsmunum eru svo ríkir í Sjálfstfl. og þeir eru náttúrlega líka mjög ríkir í samstarfsflokki þeirra nú enda er komið á daginn að það hefur lítið sem ekki miðað í breytingaátt í núverandi stjórnarsamstarfi.

Ég nefni þessi grundvallaratriði vegna þess að hæstv. fjmrh. vakti sjálfur máls á því að mælikvarðinn á það hvort stefnt er í rétta átt er einmitt þessi. Er verið að búa til skattumhverfi sem hvetur fólk til vinnu, til þess að leggja sig fram um verðmætasköpun og tekjuöflun? Svarið við því er nei. Því miður er svo komið að það eru höfuðeinkenni og helsti galli á íslenska skattkerfinu að það er orðið vinnuletjandi, það hefur nánast þær afleiðingar að fólki eru bjargir bannaðar, einkum lág- og millitekjufólki, einkum barnafjölskyldum sem eru skuldugar og hafa hátt útgjaldastig. Þeim er ekki gert greiðlegt að vinna sig út úr skuldum beinlínis vegna þess hvernig þær eru meðhöndlaðar í jaðaráhrifum skattkerfisins.

Tekjudreifingin í þjóðfélaginu er ekki nægilega réttlát og það eru staðreyndir að hlutur fjármagnsins hefur verið að aukast, hlutur launþega í landinu hefur verið að minnka og launamismunurinn hefur verið að vaxa. Þau jaðaráhrif sem nefnd hafa verið til sögunnar stuðla beinlínis að því vegna þess að sá hluti vinnuaflsins, sem á mesta möguleika á vinnumarkaðinum gagnvart vinnuveitendum sínum, getur beinlínis gert kröfu um það að aukið vinnuframlag verði þeim einnig bætt, þ.e. hærri skatta sem leiða af auknu vinnuframlagi séu bætt í launum og fyrirtækin ganga að því og greiða raunverulega hærri skatta í formi hærri launa, taka á sig þann kostnað ef um er að ræða eftirsótt fólk á vinnumarkaði. Jafnvel þetta atriði stuðlar að auknum launamun á sama tíma og lífskjarasamanburðurinn hefur leitt í ljós á sl. vetri með allri þeirri umræðu sem þá varð að taxtalaun og dagvinnulaun Íslendinga eru orðin með þeim hætti að þau hrökkva ekki til framfærslu fjölskyldu og að láglaunafólkið á Íslandi er orðið dæmt til þess í þessu kerfi, í þessu launakerfi og þessu skattkerfi að reyna að ná endum saman með vinnutíma sem er allt að þremur mánuðum lengri á ári en gerist meðal grannþjóða okkar þannig að tekjudreifingin á Íslandi er ekki réttlát. Hún stefnir ekki í rétta átt og í þessu fjárlagafrv. sakna ég þess að hæstv. fjmrh. er ekki að leggja fram tillögur og úrræði eða boða stefnu sem tekur á þessum málum. Það finnst mér satt að segja glæfralegt vegna þess að úr því að það er ekki gert einmitt nú þegar við stöndum frammi fyrir allsherjarkjarasamningum við gerbreytt skilyrði eftir samdráttarskeiðið og í nýju góðæri er það fyrsta skilyrðið til þess að stjórnvöld geti náð árangri að þau leggi fram efnahagsstefnu, fjárlagafrv., skattafrv. sem eru þess eðlis að þau sannfæri ekki bara forustumenn launþega heldur launþega í landinu um að hugur fylgi máli, að það sé alvara í því af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnvalda að gera hvort tveggja, að breyta skattkerfinu í þá átt að það verði vinnuhvetjandi en ekki letjandi, að vinna gegn óréttlátri tekjudreifingu, að stuðla að réttlátari tekjudreifingu og að sýna fram á að þessi efnahagsstefna verði haldbær, ekki aðeins eins og hún reyndist vera í hallærinu, heldur að hún þoli líka góðærið.

Jafnvel um þann punkt hvort hún þolir góðærið eru miklar efasemdir uppi í þjóðfélaginu. Ég vildi gjarnan að ég gæti staðið í þessum ræðustól og óskað hæstv. fjmrh. til hamingju með það að hann hafi með þessu frv. valdið kaflaskiptum í stjórn ríkisfjármála vegna þess að hann hefur í fyrsta sinn í áratug lagt fram frv. um rúmlegan milljarð í tekjuafgang. Satt að segja var fyrir löngu kominn tími til að það gerðist og reyndar minni ég á að við seinustu fjárlagaafgreiðslu lögðum við jafnaðarmenn fram tillögur um það að við ættum að gera það þá þegar. En því miður er þetta sennilega of gott til þess að vera satt, einfaldlega vegna þess að þetta hvílir á of veikum forsendum.

Hvað er það sem skýrir tekjuafganginn? Jú það er að aukin umsvif, aukin velta, aukin einkaneysla, aukinn innflutningur, aukinn halli á viðskiptum við útlönd þar sem umsnúningurinn er mjög mikill, á annan tug milljarða á skömmum tíma, skapar ríkissjóði tekjur sem gerir hæstv. fjmrh. kleift að segja: Hér er einn milljarður og rúmlega það í tekjuafgang en það er tekjuafgangur sem beinlínis er innheimtur af þenslunni. Jafnframt er meginmarkmið hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnarinnar að draga úr þessari þenslu. Takist honum að draga úr þenslunni er þessi tekjuafgangur fyrir bí. Í því er þversögnin fólgin vegna þess að þenslan skilar tekjuafganginum.

Hæstv. fjmrh. sagði í ræðu sinni áðan í þessum merka kafla um árangur efnahagsstefnunnar að efnahagsstefnan hefði stuðlað að lækkun vaxta. Það var svo á tímabili en því miður ekki lengur vegna þess að það var einfaldlega mat Seðlabankans að þensluáhrifin væru orðin það mikil að gripið var til vaxtahækkunar og vaxtamunurinn hér á landi á skammtímalánum er orðinn 3% í samanburði við viðskiptalönd sem er gríðarlegur munur. Skilaboðin frá Seðlabankanum voru þau að þessi vaxtahækkun væri nauðsynleg m.a. vegna þeirrar óvissu sem ríkti um það hvort ríkisfjármálastefnan héldi og vonir manna um lækkun vaxta eru því bundnar að fjárfestar og aðrir hafi trú á forsendum þessa fjárlagafrv. Ég er því miður hræddur um að trú manna á því að hér séu einhver kaflaskipti sé svo veik að vonin um vaxtalækkun í kjölfar fjárlagafrv. vegna aukins aðhalds í ríkisfjármálum sé hvorki hér né þar. Ég lýsi þess vegna vonbrigðum mínum með það og ég tel að fjárlagafrv. sé raunverulega á svo veikum forsendum annars vegar á þessu leyti og svo hins vegar að því leyti að það vanmetur innbyggðan útgjaldaauka í ýmsum kerfum, sannanlega í heilbrigðiskerfinu. Ég held því að þetta sé fremur sýnd veiði en gefin og þykir miður.

Ég ætla ekki að halda því fram að ekki hafi náðst talsverður árangur að mörgu leyti í stjórn ríkisfjármála á undanförnum árum og þar á meðal í tíð hæstv. fjmrh. Það væri fjarstæða að halda því fram. Á löngum tíma hefur margt gerst sem horfir til bóta. Ég tek eftir því að stuttbuxnadeildin hjá íhaldinu sem nú er tekin við slagorði hæstv. fjmrh. sem hann hefur skilið eftir, þ.e. ,,Báknið burt``, er öðru hverju að stríða hæstv. fjmrh., kalla hann í Kringluna með heilan kassa af gerviseðlum til þess að minna hann á uppsafnaðan hallarekstur ríkissjóðs úr fjármálaráðherratíð hans, þ.e. þessa 100 milljarða eða svo ef við lítum áratug til baka. Ég geri svo sem ekki mikið með þessa stríðni. Ég geri ráð fyrir því að ef hæstv. fjmrh. væri svona 30 árum yngri en hann er hefði hann gert þetta sjálfur. Að minnsta kosti var hann holdgervingur á sínum tíma slagorðsins um báknið burt en situr nú yfir þessu bákni og hefur setið í fimm ár með þessum árangri. Hallarekstur, ekki bara á hans tíð heldur á ártugnum, 100 milljarðar og vaxtagreiðslur, vaxtaskattur til útlendinga er næsthæsti útgjaldaliður fjárlaga.

[18:15]

Það verður samt sem áður að segjast eins og er að það voru uppi háværar kröfur á samdráttartímanum um það að ríkisfjármálum yrði beitt til þess að reyna að stuðla að því að halda uppi atvinnu og það er í samræmi við ágætar sósíaldemókratískar hagfræðikenningar, sem ég hef enn í heiðri þótt frjálshyggjuhagfræðingar geri það ekki, að það sé réttlætanlegt á samdráttarskeiði að sætta sig við hallarekstur og lántökur til þess að fleyta sér yfir erfiðleika. Það er að vísu sá galli á að við höfum fallið í þá freistni að leita mest á erlenda markaði, m.a. vegna þess að það hafa einfaldlega verið til skamms tíma betri kjör á erlendum lánum. Það þýðir að þegar að góðærinu kemur, þegar kemur að endurgreiðslunni, rennur vaxtaskattur í kistu lánardrottna okkar í útlöndum en hann er ekki greiddur til lánardrottna innan lands og á því er auðvitað reginmunur. Þótt árangur í ríkisfjármálum á Íslandi á krepputímanum hafi að sumu leyti í alþjóðlegum samanburði verið býsna góður, þá er þetta mesti veikleikinn, að við erum dæmd til þess á næstu árum að greiða af góðærinu kúfinn í skatt til útlendinga, vaxtaskattinn, en ef við hefðum getað fjármagnað þennan hallarekstur innan lands, þá hefði hann a.m.k. haldið áfram í okkar hagkerfi og á því er auðvitað mikill munur.

Herra forseti. Ég spurði áðan og spyr með Persson: Er sú stefna sem hér er verið að boða líkleg til þess að verða haldbær í góðæri? Sérstaklega vegna þess að nú er það meginverkefni hæstv. fjmrh. að byggja upp traust almennings í landinu, og launþegahreyfingarinnar sérstaklega, á því að svo sé. Kjarasamningarnir fara fram með eftirfarandi sem forsendur: Launþegar eru búnir að ganga í gegnum langt erfiðleika- og þrengingaskeið. Það hefur reynst vera svo eins og hagfræðingar mundu orða það, að sveigjanleikinn í launakerfinu íslenska hefur verið mikill vegna þess að kaupmáttarfallið varð strax mjög mikið með samdrætti þjóðarframleiðslu og þjóðartekna. Nú er góðærið á öðru ári og verið að setja Evrópumet í hagvexti og vel má vera að sá hagvöxtur haldi áfram ef hinar miklu fjárfestingar upp á 38--40 milljarða verða að veruleika. Hættan á þenslunni er mikil eins og sést á því hversu snögg umskiptin eru yfir í gríðarlegan viðskiptahalla eftir þriggja ára jákvæðan viðskiptajöfnuð, en sínum augum lítur hver á silfrið. Batnandi afkoma fyrirtækjanna, allt sem búið er að gera fyrir fyrirtækin í bættum rekstrarskilyrðum, samkeppnishæfni, lækkun skatta o.s.frv. og síðan hins vegar sú staðreynd sem eftir stendur af umræðu sl. árs að því er varðar kjör launþega á Íslandi, að þeir eru orðnir hluti af láglaunahagkerfi þar sem framfærslan byggir raunverulega á vinnuþrældómi og þeir eru læstir inn í það kerfi með óréttlátu skattkerfi. Hér er komin ríkisstjórn sem er enn með gömlu klisjuna um að framhaldið byggist á því að þessir hinir sömu aðilar ástundi sjálfsgagnrýni, spenni beltin, stilli kröfum sínum í hóf o.s.frv. þar sem aftur á móti menn segja: Það er kominn tími til að taka á þessum vandamálum, ekki með neinum kollsteypum eða tillögum sem fela í sér stökkbreytingar, en það er kominn tími til í góðærinu að fá að sjá það af hálfu stjórnvalda hvernig þau ætla að tryggja að góðærið haldi, fari ekki yfir í óðaverðbólgu. Og hvernig ætla þau að tryggja það að nú þegar meira er til skiptanna þá verði það gert sem gera þarf til þess að stuðla að réttlátari tekjuskiptingu? Ef menn ekki gera það þá er næsta víst að launþegahreyfingin á Íslandi eigi ekki aðra útgönguleið en beita afli samtaka sinna til þess að taka það sem henni er neitað um af ósanngirni þegar þannig er á málum haldið.

Það var ekki traustvekjandi hjá núv. hæstv. ríkisstjórn hvernig hún stóð að málum varðandi fjármagnstekjuskattinn. Fjármagnstekjuskattur var réttlætismál og fjármagnstekjuskattur átti líka að vera til þess að stuðla að aukinni tekjujöfnun og auknu réttlæti í tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu. Útfærsla ríkisstjórnarinnar gekk þvert á þessar grundvallarreglur. Ég veit alveg hvert svar hæstv. fjmrh. er. Það er hið sama og hann nefndi hér áðan: Ja, ég gerði ekkert í þessu, þetta var skrifað af fyrrv. forseta ASÍ, Ásmundi Stefánssyni, með stuðningi verkalýðsforustunnar. Mér var bara rétt þetta sisvona.

Staðreyndin er hins vegar sú og það er best að segja hverja sögu eins og hún er: Sennilega er það rétt að verkalýðsforustan á Íslandi var véluð og blekkt í þessu máli. Á sínum tíma féllst hún nefnilega á þessa útfærslu með 10% flatan skatt, en hún var þá ekki meðvituð um það að hún ætti að kaupa það því verði að það yrði massíf lækkun á sköttum á arði og söluhagnaði þessara 10% ríkustu aðila þjóðfélagsins sem eiga helminginn af öllum sparnaði í þjóðfélaginu. Niðurstaðan er sú hin sama hvernig sem þetta var tilkomið. Þetta er ekki gott útspil í aðdraganda nýrra kjarasamninga í góðæri þar sem menn spyrja: Er verið að stíga skref fram á við í átt til aukins réttlætis í tekjuskiptingu?

Það er ekki traustvekjandi heldur að hæstv. fjmrh. skuli ekki nú --- hann hefur haft nógan tíma til þess að undirbúa það --- koma fram með frv. þar sem hann sýnir fram á það hvernig hann ætlar að leysa lág- og millitekjuhópana, skuldugu barnafjölskyldurnar út úr vítahring jaðarskattaáhrifanna sem letur þá frá vinnu og kemur í veg fyrir að þessar fjölskyldur geti með auknu vinnuframlagi sótt sér aukinn hlut í góðærinu. Það er ekki traustvekjandi að ekkert skuli vera gert á þessum sviðum í framhaldi af öllum þeim umræðum sem urðu um skýrslu forsrh. um tekjusamanburðinn milli Íslands og annarra Norðurlanda.

Herra forseti. Ég vék að því hvað gert var á samdráttartímanum til þess að létta undir með fyrirtækjunum. Þá var brugðist við. Skattar lækkaðir mjög verulega, gengið skráð þannig að samkeppnishæfni þeirra var stórbætt. Það hefur skilað árangri. En þá spyr ég: Var ekki kominn tími til, hæstv. fjmrh., þegar umskiptin eru orðin og árangurinn liggur nú fyrir, að líta svolítið betur á það hvað skattgreiðendur á Íslandi eru að gera í þágu atvinnulífs sem á að standa á eigin fótum, sem á að vera samkeppnisfært, sem skilar nú umtalsverðum hagnaði? Hefði ekki mátt líta svolítið á þær umtalsverðu fjárhæðir sem lagt er til að halda áfram í fjárlagafrv. til þess að létta undir með fyrirtækjunum í landinu? Hvað er ég að tala um? Ég er ekki bara að tala um þá staðeynd að við erum enn að verja 6 milljörðum kr. til þess að halda uppi ekki bara landbúnaðinum á Íslandi heldur stoðdeildarkerfinu í kringum landbúnaðinn sem er ekkert annað en byrði á þeirri atvinnugrein, en engu að síður byrði á skattgreiðendum. Var ekki kominn tími til þess í ljósi batnandi afkomu útgerðarinnar í landinu, stórbatnandi afkomu sem m.a. byggist á því að hún fær skammtað af ríkissjóði réttinn til þess að hirða fiskveiðiarðinn af auðlindanýtingunni, var ekki kominn tími til að draga svolítið úr þeim milljörðum kr. sem skattgreiðendur borga fyrir þær þjónustustofnanir sem eru að þjónusta sjávarútveginn? Hefði ekki mátt taka eitthvað af þessum fjárhæðum til þess með sýnilegum og ábyrgum hætti að sannfæra launþega á Íslandi um að það væri verið að nota fjárlagafrv., fjárlagatækið til að stuðla að þessum markmiðum sem Göran Persson er að lýsa og hæstv. fjmrh. tók undir með, ekki aðeins að kerfið skuli vera vinnuhvetjandi heldur stuðla að réttlátari tekjudreifingu og sýna fram á það að kerfið sé haldbært í góðæri ekkert síður en hallæri? Vegna þess að aðgerðum af slíku tagi hefði vissulega verið vel tekið af hálfu launþega. Þær hefðu verið sýnilegt tákn um vilja til þess, alveg eins og að létt var undir fyrirtækjunum í hallærinu, að gera eitthvað til þess að viðurkenna rétt þeirra sem verst hafa farið út úr þrengingaskeiðinu um að nú sé kominn tími til af hálfu ríkisvaldsins í gegnum skattkerfið og í gegnum tilfærslurnar að létta undir með þeim. Ef þetta hefði verið gert eða öllu heldur af því að það er ekki búið að afgreiða þetta frv., ef hv. Alþingi ber gæfu til að halda þannig á málum að slíkir hlutir verði gerðir, þá er allt annað fyrir fulltrúa ríkisvaldsins að setjast að samningaborði með fulltrúum launþega en að óbreyttu.

Það er alltaf svo við umræður um fjárlög að ríkisstjórn, stjórnarmeirihluti segir: Það þarf stundum að gera ýmislegt fleira en gott þykir. Ytri kringumstæður hafa neytt okkur til þess að draga saman seglin, draga úr útgjöldum, beita aðhaldssemi, sparnaði. Stjórnarandstaðan stendur síðan upp og leikur sína rullu um að það sé verið að rífa niður velferðarkerfið og rífa niður menntakerfið eða eitthvað svona. Orðaleppar án merkingar og innihalds. Þannig hefur umræðan löngum verið hér fram og aftur, því miður. Staðreyndirnar eru auðvitað þær að umræðan snýst ekki um þetta. Það er ekki verið að rífa niður velferðarkerfið á Íslandi út af fyrir sig. Það hefur ekki verið að gera það á undanförnum árum. Tölurnar tala sínu máli um það að við verjum í stórum dráttum gríðarlegum fjárhæðum í velferðarkerfið. Og ég nota ekki þau orð að það sé verið að rífa niður menntakerfið, jafnvel núna, þótt ég sé ósammála mörgum af þeim tillögum sem hér er verið að flytja á því sviði. Umræðan á ekki að vera á þessum nótum.

Ef menn spyrja: Hvað er það sem ég er svona óánægður með að því er varðar þetta fjárlagafrv. og þá stefnu sem það boðar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar? Þá segi ég: Þetta frv. er þess eðlis að það stuðlar ekki að réttlátari tekjuskiptingu. Það þýðir að þetta frv. er ekki líklegt til þess að greiða fyrir samkomulagi um réttláta skiptingu þjóðartekna í kjarasamningum. Þetta frv. er þess vegna líklegt að óbreyttu til þess að auka hættuna á því að við verðum fórnarlömb ofþenslu og töpum þeim árangri sem byggður var upp með erfiðismunum á samdráttarárunum. Og þetta frv. er þannig úr garði gert að ég hef ekki trú á því að það standist góðærið eins og við þó náðum allgóðum árangri í hallærinu. Það er vegna þess að látið er undir höfuð leggjast að taka á nauðsynlegum kerfisbreytingum. Þetta frv. er með öðrum orðum metnaðarlítið og felur í sér allt of litlar breytingar í ljósi þess hve mikil umskipti og breytingar hafa átt sér stað í okkar þjóðfélagi. Það er ekki lengur hægt að bera því við að hæstv. fjmrh. hafi ekki haft nægan tíma til þess. Menn verða að umbera hann fram á næsta ár, þar næsta ár, áform hans séu góð. Hann vilji út af fyrir sig hugleiða margar þessar breytingar eftir því sem fram líða stundir. Hann hefur bara haft nógan tíma. Staðreyndin er nefnilega sú að það er innbyggt í núverandi stjórnarflokka að ítök þess fámenna en fjárhagslega gríðarlega öfluga hóps, sem í vaxandi mæli er búinn að tryggja sér undirstöðuítök í öllum höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar --- þessir hagsmunahópar, þessir tiltölulega fámennu sérhagsmunahópar sem hafa makað krókinn að undanförnu og hætta er á að geri það enn fremur í góðærinu hafa svo sterk ítök í þessum flokkum að það er ekki pólitískur vilji til fyrir því að gera þær breytingar sem þarf að gera til þess að stuðla að þjóðarsátt um réttlæti í tekjuskiptingunni.

Það er nákvæmlega þetta sem menn eiga við þegar þeir vísa til þeirrar sögulegu reynslu að það versta sem getur hent Íslendinga sé það þegar þessir tveir flokkar ná saman í ríkisstjórn. Það er rangt sem hefur verið haldið fram að eftir hrun SÍS-veldisins sé þetta nú með allt öðrum hætti. Það er heldur ekki rétt að það hafi orðið slíkar breytingar, aðallega að frumkvæði okkar jafnaðarmanna, að nú sé orðið svo mikið frelsi og samkeppni í þjóðfélaginu að þetta sé hættulaust, eins og t.d. forsrh. hefur reynt að tína til sjálfum sér til málsbóta áður en hann gengur á landsfund Sjálfstfl. til að verja þessa framsóknarstjórn.

Því miður vantar hugmyndir, það vantar kjark og það vantar pólitískan vilja í þetta fjárlagafrv. til þess að gera þær breytingar sem gera þarf til þess að stuðla að réttlæti í tekjuskiptingu, til þess að gera kerfisbreytingar varðandi undirstöðuatvinnuvegina, til þess að draga úr einokun, fákeppni og forréttindum hinna fáu, til þess að stuðla að aukinni samkeppni sem er að sjálfsögðu sú leið sem við eigum að fara í framtíðinni ef við ætlum að halda til jafns við aðrar þjóðir. Þetta er í höfuðatriðum mín gagnrýni á fjárlagafrv. og það má kannski segja að lokum að ég hef lúmskan grun um að hæstv. fjmrh. sé mér að mörgu leyti sammála. Ég minni t.d. á að hann hefur oftar en einu sinni reynt að beita sér fyrir því að viðurkennd yrði sú grundvallarregla, kostunarreglan svokallaða, að fyrirtækin í landinu, atvinnuvegirnir, leggi fram og kosti þá þjónustu sem almannavaldið, skattgreiðendur, lætur þeim í té, a.m.k. við eðlilegar kringumstæður þegar vel árar. Það mundi þýða t.d. að því er varðar sjávarútveginn að hann kostaði sjálfur í formi veiðileyfagjalds eða með öðrum hætti að mínu mati 2,5 milljarða kr. Hæstv. fjmrh. hefur engan stuðning í flokki sínum fyrir þessu af því að sérhagsmunavaldið hefur þar öll tögl og hagldir, því miður.