Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 18:32:21 (125)

1996-10-08 18:32:21# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[18:32]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. flutti hér ágæta og skörulega ræðu eins og fyrrv. fjmrh. sæmir og ég get tekið undir það sem hann sagði, um margt var ég sammála honum, þó ekki allt. Sumt verður að geymast til síðari tíma. En það eru tvö atriði sem ég vil nefna í andsvari. Annars vegar er hin réttláta tekjuskipting og skattbreytingar, hitt atriðið snýr að þenslu sem bjargar fjárlagahallanum og býr til afgang.

Varðandi tekjuskiptinguna og skattbreytingar þá stendur það í stjórnarsáttmálanum --- og það er vinna í gangi sem verður skilað nú um áramótin og hún gengur út á það að koma í veg fyrir verstu jaðaráhrifin í skattkerfinu. Og af hverju eru þessi áhrif svona mikil? Það er vegna þess að við höfum á undanförnum árum og áratugum verið að setja tekjutengingar inn í skattkerfið yfirleitt alltaf í nafni félagslegs réttlætis. Nú er þetta félagslega réttlæti orðið að gildru sem við verðum að losa okkur út úr og ég er sammála hv. þm. um það.

Það stendur hins vegar eftir sem áður gagnstætt því sem mátti skilja á hv. þm. að tekjudreifingin hér þegar allt er meðtalið er allt öðruvísi og miklu jafnari en við sjáum alls staðar annars staðar. Hann getur ekki nefnt mér eitt einasta land þar sem tekjudreifingin er jafnari en hér.

Í öðru lagi um þensluna og hverju hún bjargar. Leyfið mér að rifja aðeins upp. Ég ætla að nefna tvö ártöl, árin 1988 og 1989. Ég vel þau með vilja. Í fjárlögum 1988 var gert ráð fyrir afgangi, það er ekki lengra síðan. Hver var hallinn? 7 milljarðar. Árið 1989: Afgangur 1.200 millj. Hallinn 6 milljarðar. Árið 1988 var viðskiptahallinn meiri en í ár og gert er ráð fyrir á næsta ári. Samt sem áður tókst ekki betur til.

Ég rifja þessi dæmi upp vegna þess að hér talaði maður sem þá var fjmrh. en segir nú að það vanti hugmyndir, kjark og pólitískan vilja. Ég staðhæfi: Árangurinn nú verður meiri en þá.