Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 19:18:15 (130)

1996-10-08 19:18:15# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[19:18]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einkum tvennt sem mig langar til þess að veita andsvar við. Það er í fyrsta lagi tekjur af virðisaukaskatti og ef tími gefst til nokkur orð um jaðaráhrif tekjuskattskerfisins.

Á bls. 265 og 266 í greinargerð þess frv. sem hér er til umræðu er rætt um virðisaukaskattinn. Ef menn lesa þennan texta og skoða töflur á bls. 266 kemur í ljós að virðisaukaskatturinn hefur á yfirstandandi ári ekki skilað þeim tekjum sem menn héldu. Menn hafa leitað skýringa og skýringarnar eru nefndar efst á bls. 266 en þær virðast liggja í því að fjárfestingar hafi orðið meiri en gert var ráð fyrir í frv. yfirstandandi árs. Það hefur leitt til þess þegar fjárfestingar verða meiri að frádrátturinn í virðisaukaskattinum verður meiri og tekjurnar urðu minni á yfirstandandi ári en efni standa til. Við teljum að hér sé um töf að ræða sem ætti að skila sér á næsta ári í auknum mæli vegna þess að þá ættu fjárfestingarnar að skila meiru af sér og ef ekki verður sami vöxtur í fjárfestingum á næsta ári eins og yfirstandandi ári ættu virðisaukaskattstekjurnar að vaxa meira en aðrar tekjur almennt á næsta ári. Þetta er skýringin, engin önnur. Þetta kemur mjög glögglega fram í frv. og vonandi skilur hv. þm. þetta því að ég veit að hann er glöggur mjög.

Spáð er að vöxtur einkaneyslunnar á næsta ári verði 3,5%. Það kemur fram. Það eru forsendur sem þetta byggir á þannig að það byggir ekki á einhverri gífurlegri einkaneyslu umfram það sem þar kemur fram.

Varðandi jaðaráhrifin minni ég á að þrátt fyrir það að ekki sé hægt að lesa út úr frv. einhverjar breytingar á skattalögunum er hægt að gera slíkar breytingar og þær að taka gildi þótt niðurstöður teknanna séu þær sömu og koma fram í frv.