Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 20:31:44 (138)

1996-10-08 20:31:44# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[20:31]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Fjárlagafrv. 1997 markar söguleg kaflaskil. Það eru söguleg kaflaskil vegna þess að fjárlögum er nú skilað hallalausum. Það eru ekki söguleg kaflaskil vegna þess að slíkt hafi ekki gerst áður, heldur af þeirri ástæðu að þessi árangur er ekki tilviljanakenndur heldur byggir hann á styrkri og traustri fjármálastjórn ríkisstjórnarinnar þó svo sannarlega skuli viðurkennt að gott árferði hjálpi þar verulega til. Við getum þess vegna vænst þess að þessi árangur í ríkisfjármálum sé ekki árangur eins árs heldur sé hér fyrsta ár af mörgum sem munu leiða af sér svipaða niðurstöðu, hallalaus fjárlög og þar með svigrúm til margra þeirra verka sem við viljum helst og best vinna í íslensku þjóðfélagi. Með aðhaldi í ríkisrekstri hefur þetta markmið náðst auk þess sem margvíslegri hagræðingu hefur verið beitt í ríkiskerfinu og stöðugleika haldið í peningamálum á hverju sem hefur gengið. Slíkt mun ekki aðeins skila sér hjá íslenskum atvinnuvegum, heldur mun það einnig skila sér í aukinni sókn og vilja erlendra aðila til þess að koma hingað með fjárfestingu. Og um leið og við fögnum því, þá hljótum við líka að fagna því að íslenskir aðilar, íslenskt athafnalíf, íslensk fyrirtæki munu standa betur og eru tilbúnari til þess að eiga í samkeppni við erlenda aðila eða taka þátt í samstarfi við þá með góðum árangri fyrir land og þjóð.

Það er augljóst mál og þýðir ekki annað en viðurkenna það að þessi árangur hefur að sjálfsögðu ekki náðst án þess að færa fórnir. Þau eru fjölmörg málin sem við hefðum gjarnan viljað leysa en ekki er hægt að verða við að svo stöddu, ef því markmiði átti að ná að skila hallalausum fjárlögum. En traust efnahagslíf íslensku þjóðarinnar er að sjálfsögðu forsenda þess að við náum slíkum árangri þegar lengra er litið. Traustur fjárhagur mun án efa koma í veg fyrir skuldasöfnun og veðsetningu komandi kynslóða og traustur fjárhagur mun sömuleiðis verða til þess að við getum viðhaldið því velferðarkerfi sem við viljum. Það er afdráttarlaus afstaða mín að ég vil ekki taka þátt í því á uppgangstímum að skila tapi á ríkissjóði. Með slíku framhaldi verður ekki aðeins um gjaldþrota efnahagsstefnu og háska fyrir sjálfstæði þjóðarinnar að ræða, heldur yrði það velferðarkerfi gjaldþrota sem við öll viljum svo gjarnan verja og við gætum ekki orðið við öllum þeim góðu óskum sem fram eru settar og náð markmiðum okkar á því sviði. Það er grundvallaratriði í afstöðu minni til fjárlagagerðar á þessu kjörtímabili sem ég sit að hægt verði þegar fram í sækir að skila árangri í ríkisfjármálunum til lausnar á mörgum góðum viðfangsefnum.

En jafnvel á aðhaldstímum hljótum við að spyrja grundvallarspurninga. Við hljótum að spyrja grundvallarspurninga um þau atriði sem við ekki viljum raska og hvar við viljum ekki skera niður, jafnvel þó svo við viljum beita aðhaldi. Ég vil nefna tvennt sem mér er í huga.

Annars vegar eru það þeir sem allra verst eru settir og minnst mega sín í okkar samfélagi. Það er svo sannarlega til fólk á Íslandi sem er sjúkt og fátækt og á mjög erfitt með að bjarga sér. Þetta fólk á sömuleiðis mjög erfitt með að bera hðnd fyrir höfuð sér. Því á að hlífa. Við höfum efni á að hlífa þessu fólki. Við eigum að taka fé annars staðar en hjá því og ekki þrengja kost þess.

Hitt atriðið sem ég vildi nefna er menntun. Þegar við horfum til heimila okkar, okkar sjálfra og barnanna okkar finnum við að menntunin er eitt það atriði sem við viljum síst taka frá þeim. Allt viljum við fremur láta frá okkur heldur en að skerða rétt barna okkar til náms. Ég hef verið talsmaður þess að stilla niðurskurði í menntamálum í hóf og raunar hefðum við mátt hugsa það að skera þar ekki niður, heldur leita fanga annars staðar í ríkisfjármálunum.

Ég ætla ekki að flytja hér neina hátíðarræðu eða sunnudagsræðu, en minna þó á það sem öllum er ljóst að menntunin er grundvallaratriði í framtíð okkar. Hún er lykilatriði í sjálfstæðisbaráttu landsmanna, sjálfstæðisbaráttunni síðari þar sem tekist verður ekki aðeins á um efnahagslegt sjálfstæði, sjálfsákvörðunarrétt eða annað sem tekist var á um í sjálfstæðisbaráttunni fyrri. Hún snýst um fólk. Ef við höfum ekki vel menntað fólk og tækifæri fyrir það í landinu okkar þá munum við glata þessu fólki og það mun þess vegna leiða til mikils ófarnaðar. Þessari sjálfstæðisbaráttu lýkur seint eða aldrei vegna þess að við þurfum og höfum ákveðið að standa í nánum samskiptum og samkeppni við aðrar þjóðir. Þess vegna verðum við að taka þátt í því af fullri getu og glata ekki fólkinu okkar um leið og við metum hvað er okkur mikils virði, hverju við viljum halda og hverju við viljum deila með öðrum þjóðum. Við þekkjum öll svar gömlu ævintýranna hvað þessi mál snertir. Þegar ungir menn fóru að heiman og vildu leita gæfunnar eða jafnvel Búkollu sjálfrar, merkasta grips í kotinu, þá spurðu þeir: Hvar á ég að leita? Þá var sagt við þá: Það verður þú að segja þér sjálfur. En það var eitt sem ekkert kot neitaði sonum sínum um og það var nesti og nýir skór. Við skulum ekki svipta okkar unga fólk nesti og nýjum skóm og senda það þannig út í þann fjölþjóðlega heim sem það á í vændum. Við skulum búa því hinar bestu aðstæður í menntamálunum. En ungt fólk á að sjálfsögðu að axla sína ábyrgð í þeim efnum. Það er ekki hægt að setja stöðugt kröfur til þjóðfélagsins og óska eftir því að þar fáist allt, heldur verður ungt fólk að leggja sitt af mörkum á móti og taka þar með ábyrgð á lífi sínu, hamingju og menntun.

Svo sannarlega hefur náðst góður árangur í ríkisfjármálunum og það má segja að með honum höfum við komist upp á brekkubrúnina. En hver sá sem stendur á brekkubrún kemst að því að bekkan er að baki en fjallið er fram undan. Og hvert er það fjall sem við höfum nú fram undan þegar brekkan er að baki? Fjallið er að sjálfsögðu það að standa við þau fyrirheit sem menn vænta í velferðarmálum og menntamálum. Stuðningur við aðhald í ríkisfjármálum og árangur í efnahagslegum ávinningi hlýtur að mótast af þeirri grundvallarafstöðu að við getum orðið við þeim sjálfsögðu kröfum sem uppi eru í þjóðfélagi okkar í velferðar- og menntamálum.

Það kom fram í ræðu hv. þm. Sturlu Böðvarssonar, varaformanns fjárln., að þau eru mörg verkefnin sem við viljum skoða. Ég vil eins og hann beina örfáum orðum til fjárln. og óska eftir því að hún skoði þau efni í vinnu sinni. Þar vil ég nefna menntamálin eins og hv. þm. gerði og þær aðhaldsaðgerðir sem nú koma fram í framhaldsskólunum og bitna mjög á skólum á landsbyggðinni. Hér er gengið nokkuð ákveðið að skólunum og vil ég að það sé skoðað mjög rækilega hvort ekki megi ná árangri með aðhaldi í menntamálum öðruvísi en með þeim tillögum sem þar hafa komið fram.

Ég hef bent á að hugsanlega mættu einhverjar opinberar framkvæmdir hvort sem það væri þá í menntamálum eða annars staðar en læt fjárln. bíða eftir að skoða þau efni eftir mínum ábendingum eða annarra sem væru tilbúnir til slíks starfs.

Í ágætri ræðu hv. þm. Sturlu Böðvarssonar gat hann um jafnvægi milli landshlutanna og benti á að mikil þensla er á suðvesturhorninu og framkvæmdir af ýmsu tagi sem gætu gert það að verkum að aðrir landshlutar sætu við lakara borð í þeim efnum. Ég vil á sama hátt einnig benda á að hér í Reykjavík eru margvísleg verkefni sem ekki eru síður umhugsunarefni. Sérstaklega vil ég af þessari ástæðu benda á úrbætur í málefnum fatlaðra sem svo sannarlega hafa orðið að bíða um alllangt skeið í Reykjavík. Fram til 1980 hagaði svo til að þjónusta í málefnum fatlaðra var fyrst og fremst veitt svo að gagni væri á Akureyri, í Reykjavík og á Sólheimum í Grímsnesi. En frá 1980 hefur uppbyggingin verið mjög öflug víða úti um land enda var kominn tími til. Án þess að ég vilji nefna einstök verkefni vil ég vekja athygli fjárln. á því að verulega þarf úr að bæta á höfuðborgarsvæðinu og að í fjárlagafrv. nú er ætlað að um 25% af fjárframlögum ríkisins komi til Reykjavíkur. Það eru 372 millj. og til Styrktarfélags vangefinna 218 millj., samtals 590 millj. af 2 milljörðum og 314 millj. þannig að um 25% af fjárframlögum ríkisins fara til Reykjavíkur. Þó vitum við að þar eru 40% landsmanna.

Meginatriðið er þó ekki það að bítast um milli landshluta eða málaflokka. Meginatriðið er að við erum að ná sögulegum árangri með eflingu á traustum fjárhag ríkisins, hallalausum fjárlögum, hagkvæmum rekstri og fyrirhyggju. Stuðningur við þessar aðgerðir tengist þeirri von að árangurinn skili sér á margvíslegan hátt í góðum verkum á sviði velferðar- og menntamála jafnhliða því sem við treystum atvinnulíf okkar til lengri framtíðar.