Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 20:46:20 (139)

1996-10-08 20:46:20# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[20:46]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Góður árangur efnahagsstefnunnar kemur betur og betur í ljós. Við umræðuna hefur komið fram að stefnan hefur skilað traustari stöðu atvinnulífsins í landinu og almennt bættum kjörum. Dæmið var reiknað rétt og sameiginlegt átak landsmanna að reka verðbólguna af höndum sér og treysta stöðugleika í verðlags- og gengismálum hefur gjörbreytt stöðunni til hins betra. Fyrirtækin hafa náð sér allvel á strik. Þau hafa bætt skuldastöðu sína, þ.e. greiða niður skuldir og sama gildir á þessu ári um sveitarfélögin. Staða þeirra fer yfirleitt einnig batnandi með minnkandi skuldum og um leið nokkuð auknu svigrúmi til fjárfestinga. Kaupmáttur hefur vaxið. Hann hefur aukist um tæp 10% á þessu og síðasta ári. Þó að staða heimilanna hafi ekki lagast að sama skapi er ástæðan sú að einkaneyslan vex langt umfram kaupmáttaraukninguna og er það vissulega áhyggjuefni. Við tölum í þessu sambandi um hag heimila, hag heimila sem grunneininga þjóðfélagsins og sem þarf að styrkja og hlúa að. Neyslan hefur aukist hratt og neyslugjöldin vaxa hröðum skrefum. Afleiðingin er sú að jákvæður viðskiptajöfnuður undanfarinna þriggja ára hefur snúist í halla á seinni hluta þessa árs. Erlendar skuldir þjóðarbúsins fara því aftur vaxandi. Fólki er að sjálfsögðu heimilt að ráðstafa fjármunum sínum eins og það kýs en í þessu fer þó saman, og það ber að hafa hugfast, hagur heimila og hagur þjóðarheimilisins. Skynsemi þarf að ráða í fjárreiðum á báðum sviðum. Við verðum að hugsa um þjóðarhag af ábyrgð eins og væri um okkar beinu hagsmuni að ræða. Eftir langvarandi aðhald eygir fólk batnandi tíð og bjartari tíma en varlega þarf að fara eigi það ekki að verða villuljós. Ef skuldir heimila vaxa að einhverju ráði er afar hætt við því að kaupmáttaraukningin fari öll í vexti og allur almenningur standi í þeim sporum að efnahagsbatinn skili sér ekki vegna skuldabyrða. Menn verða sérstaklega að huga að þessu.

Herra forseti. Vert er að undirstrika að árangur undanfarinna ára í efnahagsstjórn hefur skilað sér í bættum lánakjörum erlendis. Í fjárlagafrv. kemur fram, og einnig í ræðu hæstv. fjmrh., að tvö af virtustu fjármálafyrirtækjum heims, sem meta lánshæfi þjóða, ákváðu á árinu að hækka lánshæfieinkunn Íslands. Þau rökstyðja ákvörðun sína með því að traust og ábyrg hagstjórn hafi tekið við á Íslandi. Þetta er gífurlega mikilvægt atriði og skilar sér til allra. Ríkissjóður nýtur betri lánskjara. Mörg af lánunum sem tekin hafa verið á undanförnum áratugum eru með breytilega vexti og þeir hafa sem sagt lækkað upp á síðkastið. Verðbótaþáttur skuldanna fer mjög lækkandi. Þetta er einmitt árangurinn sem ekki sést í fljótu bragði af þeirri styrku efnahagsstjórn sem hefur tekið við. Byrðin af erlendu lánunum léttist þar sem efnahagsstjórnin er traust og trúverðug í augum umheimsins. Því má segja að styrk efnahagsstjórn færi okkur tvöfaldan ávinning, aukinn kaupmátt og betri kjör á lánum okkar erlendis. Til marks um stórbætta efnahagsstöðu Íslands í samningaviðræðunum um nýtt álver er reiknað með því að fyrirtæki, sem nú er sérstaklega í umræðunni, komi inn á almennum forsendum um starfsskilyrði að verulegu leyti, einnig hvað varðar skattalega meðferð. Talsverð breyting hefur orðið á þessu frá fyrri tíma.

Herra forseti. Þótt gott sé að horfa stundarkorn á það sem áunnist hefur og hugsa til þess að þjóðarhagur fari batnandi er margt ógert. Fram undan er að endurskoða og lækka jaðarskattana, tekjutenginguna og allt það sem hefur virkað sem hemill á dugnað og einstaklingsframtak. Margt fólk er í þeirri stöðu að geta ekki bætt við sig vinnu sem skili því einhverju í aðra hönd. Tekjutengingin og jaðarskattar hafa vinnuletjandi áhrif. Það svarar ekki kostnaði að leggja á sig aukna vinnu og er það nýtt á Íslandi og þarf að hverfa út aftur. Allt of margir eru í þessari stöðu.

Jaðaráhrif tekjuskattskerfisins eru alvarlegur galli á skattalögunum og þola ekki mikla bið eftir leiðréttingu. Ég tek undir með þeim sem hafa látið orð falla um málið og hvet til skjótra lagfæringa á skattkerfinu. Við erum sammála um það, flest eða öll, að afkoma þjóðarbúsins fer batnandi vegna sameiginlegs átaks fólksins í landinu. Gerður hefur verið traustur grunnur, jarðvegur sem hagvöxtur sprettur upp af. Yfir því hljóta allir að geta glaðst enda þarf sífellt meira fé til velferðarkerfisins. Aldursskiptingin breytist, aldurinn hækkar hlutfallslega og velferðarkerfið tekur meira til sín. Það er líka staðreynd að velferðarkerfið fær meira til ráðstöfunar ár frá ári þótt annað sé stundum látið í veðri vaka. Flestar vestrænar þjóðir hafa átt í meiri erfiðleikum en við Íslendingar með að verja sín velferðarkerfi. Flest löndin hafa orðið að lækka framlög til heilbrigðiskerfisins hlutfallslega og til velferðarmála yfirleitt. Hitt vegur einnig þungt að aldursskiptingin hjá þeim er óhagstæðari mörgum hverjum með tilliti til fólks á vinnumarkaði. Við höfum hins vegar haldið í horfinu og vel það, hækkað framlögin en höfum reynt að sporna gegn útþenslu kerfisins.

Herra forseti. Fram undan er mikil vinna í meðferð fjárlaganefndar á frv. Þjóðin mun vonandi fylgjast með framgangi frumvarpsins og það er vel. Jafnframt þarf í sífellu að endurmeta velferðarkerfið, skoða það í kjölinn og grunninn og gerð þjóðfélagsins, hvernig við byggjum það upp, hvernig við viljum byggja það upp og hvert við viljum að það stefni. Þar eru margar brennandi spurningar sem ekki mega vera langt undan í starfi þjóðþingsins. Spurningar um uppbyggingu atvinnuveganna, endurnýjun þeirra í sjávarútvegi, landbúnaði, iðnaði og þjónustu. Jafnframt þarf að huga að þeim spurningum meðan verið er að vinna við frumvörpin. Hvernig er hægt að njóta t.d. þekkingar og reynslu eftirlaunaþega lengur en nú er í stað þess að starfsævin styttist og fólki finnist það vera afgangs þegar það eldist, ekki lengur þörf fyrir reynsluna, þekkinguna, kraftana. Og hvernig er hægt að styrkja ungt fólk til virkari þátttöku en þróunin er þ.e. að störfin sem ungu fólki yfirleitt bjóðast eru minni háttar en áður voru. Minnkandi ábyrgð sem ungt fólk fær að axla í störfum sínum og það er vissulega atriði sem þarf að hyggja að. Virk þátttaka, vitund um það að allir eru jafnmikilvægir og þörf er fyrir krafta allra, sameinaðan vilja og kraft landsmanna til að bæta þjóðfélag okkar á öllum sviðum. Þetta þurfum við að hafa hugfast.

Herra forseti. Ég flyt þessi orð almennt við upphaf umræðu um fjárlagafrv. Ég vil taka undir orð hv. þingmanna um mikilvægi menntunar, að vel þurfi að skoða þróun framhaldsskólanna og hvort þær fjárhæðir sem til þeirra er varið dugi. Ég hef áhyggjur af því að menn hafa ýmist talað um dreifbýlið eða þéttbýlið. Menntun þarf að vera hvarvetna þannig að fólk sitji við sama borð eða eigi þess kost að komast að sama borði. Í því efni dettur mér í hug að nauðsynlegt sé að hækka framlag til jöfnunar á námskostnaði ekki síst ef framhaldsskólum fækkar eða að lengra verði á milli þeirra. Ég hef einnig áhyggjur af húsnæðisþörf sumra skólanna og mér er ofarlega í huga heimavistarhúsnæði fyrir Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki þar sem vandræðaástand hefur skapast. Um tillögur á fjáraukalögum sem gerðar eru um framlag til Byggðastofnunar er ekkert nema gott eitt að segja. Þau framlög eru nauðsynleg, að mínum dómi. Í framhaldinu þarf að spyrja hvað frekar sé hægt að gera og hvaða stuðningi beita til að treysta atvinnulífið í hinum dreifðari byggðum landsins og einhvern tímann í náinni framtíð verður þing og þjóð að taka skýrar stefnumarkandi ákvarðanir um hvernig byggðin eigi eða skuli þróast í landinu og hver sé vilji þjóðarinnar í því efni. Beinir styrkir til framleiðslu búvara verða sjálfsagt ekki í framtíðinni grundvöllur byggðastefnu enda tel ég það óeðlilegt og svo er einnig um aðrar undirstöðuatvinnugreinar. Því þarf ný tök á byggðamálum í náinni framtíð.

Herra forseti. Ég vona að frv. til fjárlaga fyrir árið 1997 verði afgreitt í fyllingu tímans sem ásættanleg niðurstaða.