1996-10-09 00:33:34# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[24:33]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil benda hæstv. fjmrh. á það að vextir eru hér miklu hærri en í nágrannalöndunum. Það er ekki einungis vegna lítils sparnaðar heldur miklu frekar vegna steinrunnins bankakerfis og fákeppni í íslensku atvinnulífi sem er eitt mesta vandamál sem við eigum að glíma við, það er fákeppni stórfyrirtækjanna. Það hefur ekki komið nógu skýrt fram í umræðunni.

Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir upplýsingar hans um lífeyrismálin. Það verður áhugavert þegar niðurstaða liggur fyrir um það efni og sömuleiðis þegar hann talar um að leggja betra mat á fjárfestingar. Ég held að það sé nauðsynlegt. Hann svaraði engu um jaðarskattanefndina, af hverju stjórnarandstaðan var ekki kölluð þar til. Ég legg áherslu á það að vinnuveitendur á almennum markaði eiga að greiða sjálfir fyrir kjarabætur launafólks. Ríkið á ekki að gera það fyrir þá í þetta sinn eins og oft áður. Vitaskuld er ríkið síðan aðili að kjarasamningum við sína starfsmenn.

Þó að það sé ýmislegt jákvætt í fjárlögunum þá er fleira neikvætt eins og ég fór yfir í minni ræðu. Mér finnst slæmt að fjárlögin skuli ekki vera sett upp til lengri tíma, tveggja til fjögurra ára. Þetta er allt hægt með nútímaáætlanagerð og endurbótum í ríkisrekstri. Það er ekkert tekið á þeim málum. Þessi fjárlög eru skammtímafjárlög. Það er ekki jákvæð framtíðarsýn í þessum fjárlögum. Það er kannski meginatriðið eða meginágreiningur okkar stjórnarandstæðinga við þetta fjárlagafrv. hvað það raunverulega leysir lítið af vandamálum framtíðarinnar. Þó að ýmislegt sé jákvætt í fjárlögunum þá vantar því miður gjörsamlega í þau þá meginþætti sem eiga að horfa til framtíðar.