1996-10-09 00:37:42# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[24:37]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef áhyggjur af þessari nefnd um jaðarskatta, ekki vegna þess að stjórnarandstaðan sé ekki þar með. Það er kannski miður vegna þess að stjórnarandstaðan gæti lagt eitthvað til mála, en það skiptir ekki öllu máli. Stjórnarandstaðan hefur tekið þetta mál upp á sína arma. Ég bendi á frv. sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur þegar lagt fram. Þingflokkur jafnaðarmanna er að vinna í þessum málaflokki líka. Þetta er brýnt mál. Ég hef hins vegar áhyggjur af því þegar aðilar vinnumarkaðarins setjast niður með stjórnvöldum á hverjum tíma rétt fyrir kjarasamninga og eru að fjalla um þessi mál. Við höfum séð það gerast aftur og aftur að það er gerð sameiginleg atlaga verkalýðshreyfingarinnar á almennum markaði og vinnuveitenda að ríkissjóði til að kosta kjarasamninga. Ég legg áherslu á að þessi leið verði ekki farin. Ég er vinur ríkissjóðs, ég hef sagt það oft, þó að ég sé ekki ánægður með þetta fjárlagafrv. en mér er annt um að fjárreiður og fjármál ríkisins séu í góðu lagi. Ég tel að þetta frv. í sjálfu sér geri ekki neitt sérstakt í þeim efnum og ég vil grípa á lofti það sem fjmrh. sagði í lokin um framleiðniaukningu til að standa undir lífskjörum framtíðarinnar. Það var það sama og ég sagði í minni ræðu. En því miður er þetta fjárlagafrv. ekki því marki brennt að stuðlað sé að því. Til þess vantar áherslur í þætti sem við höfum farið vel yfir, m.a. á sviði menntamála. Það er eitt af því sem líka vantar algjörlega inn í þetta frv., þ.e. framtíðarsýnina, hvernig eigi að bæta framleiðni og þar með lífskjör framtíðarinnar.