Fjármál Sjúkrahúss Reykjavíkur

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 15:13:26 (263)

1996-10-14 15:13:26# 121. lþ. 7.95 fundur 44#B fjármál Sjúkrahúss Reykjavíkur# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:13]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Herra forseti. Fjárhagsörðugleikar Sjúkrahúss Reykjavíkur hafa verið til umræðu allt þetta ár. Með samkomulagi heilbrrh., fjmrh. og borgarstjóra Reykjavíkur sem undirritað var hinn 28. ágúst sl. fékk sjúkrahúsið aukafjárveitingu að fjárhæð 230 millj. kr. til að rétta fjárhagsstöðu spítalans auk þess sem hann fékk framkvæmdafé að fjárhæð 147 millj. kr. Með þessu samkomulagi var gert ráð fyrir óbreyttri þjónustu við sjúklinga út þetta ár en með töluverðum skipulagsbreytingum sem flestar koma til framkvæmda um og eftir næstu áramót og endanlega á samræmingin, sem unnið er að, að vera komin til framkvæmda á fyrstu þremur mánuðum næsta árs. Vegna umfangs fjárhagsvanda sjúkrahússins er nauðsynlegt að það komi fram að við gerð samkomulagsins lá fyrir að rekstrarvandi spítalans um áramót yrði viðráðanlegur. Þremur vikum eftir að samkomulag var gert kom í ljós að þær áætlanir sem lagðar voru til grundvallar af hálfu sjúkrahússins mundu ekki standast og rekstur sjúkrahússins stefndi u.þ.b. 150 millj. kr. fram úr þeirri áætlun sem lá fyrir í lok ágúst. Þær tillögur sem stjórnendur sjúkrahússins hafa gripið til miða að almennum aðhaldsaðgerðum þar sem einstökum sviðum spítalans er falið að spara sem samsvarar ákveðinni krónutölu og það eru samtals um 40 millj. kr. Þá á að draga úr viðhaldi um 40 millj. kr. en sumarið hefur verið notað til verulegra viðhaldsframkvæmda.

[15:15]

Það sem veldur heilbrrn. miklum áhyggjum er að samkomulag sem er niðurnjörfað um þjónustu og byggir alfarið á upplýsingum frá sjúkrahúsinu sjálfu skuli ekki vera í samræmi við raunveruleikann þegar upp er staðið. Rétt er að taka fram að ekki er við bókhaldsdeild sjúkrahússins að sakast í þeim efnum. Hins vegar virðist sem stjórnendum innan sjúkrahússins hafi ekki tekist að nýta upplýsingar úr bókhaldinu sem stýritæki til að halda rekstrinum innan áætlunar.

Eins og ég sagði áðan er vandinn sem Sjúkrahús Reykjavíkur stendur nú frammi fyrir sá að því hefur ekki tekist að halda rekstri einstakra eininga innan ramma áætlunar. Í þessu sambandi er hollt fyrir okkur stjórnmálamenn að horfa mjög til þess með hvaða hætti við bregðumst við þegar slíkt gerist. Sumar deildir og svið innan Sjúkrahúss Reykjavíkur halda sínar áætlanir og standa sig með ágætum, öðrum hefur gengið verr.

Ég hlýt að velta fyrir mér hver tilgangurinn er með utandagskrárumræðu sem þessari. Ekki vil ég trúa því að stjórnarandstaðan geri það að tillögu sinni að vandamál sem þetta séu leyst með síendurteknum aukafjárveitingum, enda yrðu slíkar umræður aðeins túlkaðar sem skilaboð til þeirra sem vel hafa staðið sig að slíkt sé lítils metið og borgi sig ekki.

Forsendur samkomulagsins milli heilbrrh., fjmrh. og borgarstjóra varðandi rekstur stóru sjúkrahúsanna var að koma í veg fyrir niðurskurð á þjónustu, ekki síst við endurhæfingarsjúklinga, geðsjúka og aldraða. En slíkar hugmyndir höfðu verið til umræðu. Allt bendir til þess að samkomulagið muni ná fram að ganga og tryggja aukna og bætta þjónustu við sjúklinga. Í þessu sambandi er rétt að minnast sérstaklega á að stofna á kjarnahóp í bæklunarlækningum sem ætlað er að stuðla að auknu samstarfi sjúkrahúsanna. Tilgangurinn er að auka og bæta þjónustu á sviði bæklunarlækninga en þar hafa vandamál vegna biðlista verið hvað mest. Sams konar fyrirkomulag er fyrirhugað á sviði lýtalækninga.

Það er afar mikilvægt að okkur takist að uppfylla ákvæði samkomulagsins frá 28. ágúst sl. og því mikil ábyrgð sett á stjórnendur Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítala. Þegar ég tala um stjórnendur í þessu máli á ég ekki einungis við stjórn, forstjóra og framkvæmdastjóra, heldur einnig stjórnendur einstakra sviða og deilda, sem allir verða að leggjast á eitt og hjálpast að við að ná þessu marki.

Þetta samkomulag markar að mínu mati ákveðin tímamót í starfsemi sjúkrahúsanna þar sem miðað er við að þjónustan sé samræmd þannig að verkaskipting verði skýrari og að samvinna spítalanna aukist ekki síst með nánu samstarfi og samvinnu fagfólks.

Virðulegi forseti. Hv. málshefjandi bar í ræðu sinni fram þrjár spurningar sem ég tel mig hafa svarað hér á undan en mun nú í stuttu máli draga svörin saman.

Svarið við fyrstu spurningunni er: Nei.

Svarið við annarri spurningunni er þetta: Samkvæmt áætlun Sjúkrahúss Reykjavíkur og eftir að stofnunin hefur fengið 230 millj. kr. aukafjárveitingu var áætlað að sjúkrahúsið hefði um 100 millj. kr. útistandandi um næstu áramót, sem er innan eðlilegra marka í 5 milljarða kr. rekstri. (Forseti hringir.) Ég er alveg að ljúka máli mínu, virðulegi forseti. Þá á eftir að leiða til lykta umræðu um hækkandi launakostnað á árinu 1996 en að öðru leyti átti rekstur sjúkrahússins að vera innan eðlilegra marka. Með þeim árangri sem samkomulagið á að skila í aukinni samræmingu og verkaskiptingu milli sjúkrahúsanna á rekstur sjúkrahússins á næsta ári að vera í jafnvægi.

Svarið við þriðju spurningu er eftirfarandi: Samkomulagið frá 28. ágúst var gert til þess að tryggja skynsamlegan rekstur og starfsgrundvöll Sjúkrahúss Reykjavíkur og og Ríkisspítalanna á næsta ári.

(Forseti (GÁS): Þarna var hæstv. ráðherra á rauðu ljósi.)