Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 22:23:16 (1022)

1996-11-07 22:23:16# 121. lþ. 20.16 fundur 26. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (endurbætur og viðhald á eigin húsnæði) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[22:23]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég ætla að láta frv. um virðisaukaskatt bíða. Ég held að öllum hljóti að vera ljóst að ákvæðið sem þar er um að lækka enn þessar endurgreiðslur er hið versta mál og auðvitað kolröng pólitík því að ganga þarf í þá átt að hvetja til þess að fólk fái afslátt fyrir viðgerðir á húsnæði. Ég vil taka undir efni þessa frv. sem hér er til umræðu. Ég held að bæði markmiðin séu mjög góð, annars vegar að auðvelda fólki og hvetja til viðhalds húsa, einkum það og ekki síður að reyna að grípa til einhverra ráða til að ná tökum á svarta markaðinum hér á landi sem við vitum að er mjög umfangsmikill, ekki síst á þessu sviði. Það er þjóðarskömm hversu margir taka þátt í því að stunda nótulaus viðskipti. Flestir sem koma nálægt slíkum viðgerðum vita að fólki er boðið upp á þetta í stórum stíl. Þarna er verið að svíkja fé undan skatti. En ég held einmitt að það að ríkisvaldið hefur meira og minna afnumið allan slíkan frádrátt einstaklinga og hefur verið að lækka endurgreiðslur til iðnaðarmanna, gangi alveg þvert á þau markmið sem verið er að setja hér

Ein spurning vaknaði í mínum huga vegna þessa frv. og það er varðandi þessi 10%. ,,100 þúsund af milljón``, segir hv. flm.. Ég er einfaldlega að velta því fyrir mér hvernig þessi tala er fundin. Telur hv. þm. Tómas Ingi Olrich að þessi tala sé nógu hvetjandi? Ég velti því fyrir mér: Er þetta nóg til þess að vera hvetjandi, til þess að fólk gefi upp þessar viðgerðir sem þar með gefur skattayfirvöldum færi á að fylgjast með hvort viðkomandi verk sé gefið upp á öðrum stað? Þetta er óskaplega mikið mat og erfitt að átta sig á þessu.

Loks það sem fram kom í máli hv. 1. flm., varðandi það að húseigendur vanmeti viðhaldsþörf, þá svona skaut því upp í huga mínum hvort við búum enn þá við einhvern arf frá bændasamfélaginu eða frá þeim tíma er Íslendingar bjuggu í torfbæjum þar sem var þörf á miklu viðhaldi, að menn hafi haldið að þeir hefðu himin höndum tekið þegar þeir fluttu í steinhúsin og álitið að þau yrðu eilíf og þyrftu ekkert viðhald. Einhver lenska er þetta hér á landi að halda að steinhús þurfi ekki viðhald og í rauninni kallar það á skýringar hvernig á þessu stendur.