Stefnumörkun í heilbrigðismálum

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 19:03:08 (1681)

1996-12-02 19:03:08# 121. lþ. 32.4 fundur 114. mál: #A stefnumörkun í heilbrigðismálum# þál., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[19:03]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að ég tel rétt að þessi tillaga fari til umfjöllunar í nefnd sem er að fjalla um heilbrigðisáætlun. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði að því hvenær sú nefnd ætti að ljúka störfum. Gert er ráð fyrir því að hún ljúki störfum fyrri part næsta árs.

Það var rætt um öldrunarþjónustu og að rétt væri að hún væri á einni hendi, þ.e. það sé ekki gott að heimaþjónusta sé ekki á sömu hendi og heimahjúkrun og ég er alveg sammála því. En hv. þm. sem var ráðherra félagsmála kom þessu ekki undir einn hatt og ég hef heldur ekki enn þá komið þessu undir einn hatt. Við erum þó sammála um að það er rétt að reyna það því að það er miklu hagkvæmara og býður upp á miklu samfelldari þjónustu.

Varðandi það hvort sveitarfélögin eigi að taka öldrunarþjónustuna á sínar herðar, þá er staða sveitarfélaganna mjög mismunandi til að gera það. Mér finnst mjög athugandi að eftir þá reynslu sem kemur út úr þeim tveim reynslusveitarfélögum sem eru með öldrunarþjónustu og heilsugæslu, þ.e. Akureyri og Höfn í Hornafirði, þá munum við skoða mjög alvarlega hvort það sé rétt leið.

Áðan var minnst á nefnd um stefnumótun um málefni geðsjúkra og var samþykkt 10. október að fara af stað með stefnumótun. Ég tel að það vanti vissa samhæfingu í málum geðsjúkra hér á landi og þess vegna ákvað ég að hleypa af stokkunum þessu nefndarstarfi sem bæði sjúklingasamtökin koma að og sérfræðingar. Ég tel að geðsjúkdómar séu allra erfiðustu súkdómar sem menn glíma við, bæði aðstandendur og sá er þolir þennan erfiða sjúkdóm.

Um það hvort eitthvert sérstakt fjármagn sé eyrnamerkt vegna þessa nefndarstarfs, þá er svo ekki í fjárlögum, ekkert sérstakt eyrnamerkt framlag. En við höfum opin augun fyrir því að komi fram eitthvað í þessari stefnumótun um þjónustuna sem við teljum brýnt að bæta, þá verður það sérstaklega tekið fyrir. Og ég vil benda á að einmitt nú um þessar mundir stendur Geðhjálp fyrir námskeiði fyrir aðstandendur geðsjúkra sem heilbrrn. styrkir.

Þá eru það málefni Barnaspítala Hringsins. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. að meðan sá sem situr nú í forsetastól, hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson og hæstv. forseti, sat í stóli heilbrrh. sýndi hann mikinn áhuga á uppbyggingu Barnaspítala Hringsins. En framkvæmdum var ekki hrint af stað vegna þess að ekki var fjármagn fyrir hendi. Þess vegna höfum við unnið að því að selja eignir til þess að geta komið þessum framkvæmdum af stað og um leið og við komum þeim af stað, verða næstu skref ákveðin hvenær við ljúkum þessum framkvæmdum.

Hér hefur verið talað um réttindi sjúklinga og hér hefur verið talað um að það ætti að vera skýr lagarammi um hvaðeina. Ég tel að lög eigi að vera skýr. En þau eiga að vera þannig að við getum staðið við þau og undir þeim væntingum sem lögin setja. Ég tel óraunhæft að festa í lög hve biðtími eftir aðgerðum eigi að vera langur. Þetta eru mismunandi áríðandi aðgerðir og ég veit að það er róið að því öllum árum inni á stóru sjúkrahúsunum sem gera þessar aðgerðir að hafa biðtímann sem allra stystan. Kem ég þá að fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur varðandi þann flýti sem á að gera varðandi beinaaðgerðir og hvort til þess komi aukaframlag úr ríkissjóði. Þá minni ég enn og aftur á þann hálfa milljarð sem sjúkrahúsin á Reykjavíkursvæðinu fengu sem aukaframlag núna um mánaðamótin ágúst/september.

Um menntun heilbrigðisstarfsmanna á Íslandi, fullyrði ég að við erum með best menntaða starfsfólk í heilbrigðisþjónustu jafnvel í heimi. Það er fyrst og fremst vegna þess að hér hafa menn menntað sig víða í heiminum og fróðleikur kemur víða utan úr heimi á einn stað og hér er mikil símenntun. Bæði læknar og hjúkrunarfræðingar fá til þess sérstakan styrk að endurmennta sig og fleiri heilbrigðisstarfsmenn þannig að ég tel að menntun starfsmanna í heilbrigðisþjónustunni sé með því besta sem gerist í heiminum.