Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 12:04:55 (2140)

1996-12-13 12:04:55# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., Frsm. minni hluta GE
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[12:04]

Frsm. minni hluta fjárln. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta fjárln. vegna fjárlaga 1997. Þær breytingar sem hafa orðið í meðförum fjárln. á frv. eru upp á 710,9 millj. kr. til hækkunar sem er u.þ.b. 0,6%, breytingarnar eru sem sagt vel innan við prósent á þessum hluta fjárlagagerðarinnar og að mörgum þeim tillögum sem fyrir liggja mun minni hlutinn standa, að öðru leyti sitja hjá.

Hv. formaður fjárln. endaði ræðu sína með því að segja að ríkissjóður ætti í rauninni fáa vini og vitnaði þar til samlíkingar við Jón Grindvíking Halldórs Laxness. Ég fullyrði að það séu fleiri vinir ríkissjóðs heldur en hann kannski vildi vera láta. Og ég fullyrði að þeir sem starfa í minni hluta fjárln. hafa fullan skilning á þeim aðgerðum sem þarf að gera og ég vænti þess að það muni koma fram í okkar máli.

Herra forseti. Ég tel ástæðu til þess að hafa orð á því að þegar umræðan hófst í morgun þá fylltust áhorfendabekkirnir af kornungu fólki sem gekk hér um sali sérlega prúðmannlega og kurteislega og sendi okkur þingmönnum falleg bros. Ég tel ástæðu til að hafa orð á þessu og vil þakka þessum hópi fyrir heimsóknina hingað í morgun þó stutt væri.

Ég vil hefja ræðu mína með því að þakka fyrir mjög gott samstarf við meiri hluta fjárln. og þó sérstaklega við minni hluta nefndarinnar. Þar hefur verið um að ræða samstarf að vinnu við nál. sem að mínu mati hefur verið alveg sérstaklega gott. Ég vil einnig þakka þeim sem hafa verið í vinnu með okkur, þeim Bentínu Haraldsdóttur, Ragnheiði Sumarliðadóttur, Sigurði Rúnari Sigurjónssyni, ritara fjárln., og starfsmönnum Ríkisendurskoðunar, sem hafa veitt aðstoð við vinnuna, fyrir sérstaklega ánægjuleg samskipti.

Vinnubrögð fjárln. hafa að mínu mati verið þannig að oft og tíðum hefur verið örðugt að skilja á milli meiri hluta og minni hluta fjárln. þó svo að formlegur ágreiningur milli meiri og minni hluta sé áberandi í ákveðnum málaflokkum sem lúta að menntamálum, heilbrigðismálum og málefnum fatlaðra. Auk þess leggur hver stjórnarandstöðuflokkur áherslu á einstök mál með tillögum sem fram eru settar sérstaklega. Rammar fjárlaga eru skapaðir við ríkisstjórnarborð og þeim hlítt við framkvæmd fjárlaga og vinnuna af hálfu meiri hlutans hvort sem einstakir meirihlutamenn eru ánægðir eða ekki.

Herra forseti. Ég held að ástæða sé til þess að hafa orð á því að ég óskaði eftir að hér yrðu fimm hæstv. ráðherrar við umræðuna og ég mæti af skilningi þeirri beiðni sem virðulegur forseti hefur beint til mín að reyna að haga ræðu minni þannig að beina fyrirspurn til ráðherra sem eru viðstaddir nú í húsinu. En þrátt fyrir það að ég verði við þessum tilmælum þá tel ég nánast ókurteisi af hæstv. ríkisstjórn að vera ekki viðstödd 2. umr. fjárlaga þar sem svo mjög mikilvæg mál eru á ferðinni sem hér getur um og eru raunar vinna sem komin er af borðum ríkisstjórnar og fjárln. hefur lagt nánast að segja nótt við dag undanfarna daga eftir að hæstv. ríkisstjórn skilaði inn þeim tillögum sem þegar eru komnar þó að það vanti mjög mikið á.

Það er ástæða til að þakka samstarf við fleiri, við ýmsa starfsmenn ráðuneyta, sérstaklega þó fjmrn. sem af skiljanlegum ástæðum vinna náið með fjárln. Ég vil einnig þakka fyrir þá viðleitni sem fjmrn. sýnir við að ná samstöðu um fjárreiður ríkisins. Hún hefur birst í því að nefnd sem vinnur að framkvæmd svo sem uppsetningu einstakra hluta fjárreiðnanna, þ.e. frv. til fjárlaga, reikninga ríkisins og verkefnavísum, hefur leitað eftir áliti um uppbyggingu einstakra þátta.

Herra forseti. Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð spáðu ýmsir því að störf hennar mundu einkennast af því að mál yrðu sett í bið. Þetta var einkum talið gilda um stóru málin í íslenskum stjórnmálum. Það eru mál sem snerta eignarhald og nýtingu hálendis, fiskveiðistjórnun og veiðileyfagjald, Evrópumál og innflutning matvæla. Öll þessi mál eru nánast í biðstöðu og verða það sjálfsagt meðan núv. ríkisstjórn er við völd. Biðstaða merkir að þeim lögum sem snúa að þessum stóru málum verður ekki breytt í neinum aðalatriðum á kjörtímabilinu. Það eru einkenni ríkisstjórna Sjálfstfl. og Framsfl. að þær virðast hafa tilverugrundvöll með því að halda í horfinu. Láta það standa sem gert var á undan og hafa ekki frumkvæði að endurnýjun í samfélaginu hvað þá að vísa veginn fram á við, setja þjóðinni ný markmið að stefna að. Biðin þýðir jafnframt að tækifæri sem bjóðast eru látin líða hjá.

Við lifum á miklum breytingatímum og miklu breytingaskeiði þegar heilar heimsálfur og samfélög eru að ganga í gegnum örar breytingar. Flest þjóðþing Evrópu, ef það breska er undanskilið, virðast gera sér grein fyrir því að þessar utanaðkomandi breytingar leiða til þess að menn verða að stokka spilin upp á nýtt og gefa aftur. Alheimsvæðing efnahagslífsins og tækninnar minna sérhverja þjóð eftirminnilega á það að afstaða hennar og afkoma þegnanna er fjarri því að vera sjálfgefinn hlutur og að velferðarþjóðirnar sérstaklega þurfa að hafa sig allar við til að halda þeirri stöðu. Við lifum ekki á tímum sem taka tillit til þeirra sem ganga of seint til verks. Tækifærin bíða ekki eins og mey í festum.

Herra forseti. Tekjudreifing í þjóðfélaginu er ekki réttlát. Og það er staðreynd að hlutur fjármagnsins hefur verið að aukast. Hlutur launþega í landinu hefur verið að minnka og launamismunurinn hefur verið að vaxa. Þau jaðaráhrif sem nefnd hafa verið til sögunnar stuðla beinlínis að því að sá hluti vinnuafls sem á mesta möguleika á vinnumarkaði gagnvart vinnuveitendum sínum getur beinlínis gert kröfu um það að aukið framlag verði þeim einnig bætt. Þetta þýðir að hærri skatta sem leiða af auknu vinnuframlagi sé bætt í launum og fyrirtækin ganga að því að greiða raunverulega hærri skatta í formi hærri launa og taka á sig þann kostnað ef um er að ræða eftirsótt fólk á vinnumarkaði. Jafnvel þetta atriði stuðlar að auknum launamun á sama tíma og lífskjarasamanburðurinn hefur leitt í ljós, með allri þeirri umræðu sem varð á síðasta vetri, að almenn taxtalaun og dagvinnulaun Íslendinga eru orðin slík að þau hrökkva ekki til framfærslu fjölskyldnanna.

Ef við skoðum þróun útgjalda með því að líta aftur til ársins 1984, en það ár var síðast afgangur af rekstri ríkissjóðs, þá kemur í ljós að til heilbr.- og trmrn. það ár var varið 37% af útgjöldum fjárlaga samanborið við fjárlagafrv. næsta árs þar sem gert er ráð fyrir að fjárhlutfallið verði 41,6%. Þetta er í raun ekki meiri aukning en við er að búast og það má segja að það komi e.t.v. á óvart hve lítil auking er á þessum 12 árum þegar þess er gætt að hluti aukningarinnar, og e.t.v. öll, er vegna félagslega þáttarins. Þarna munar rúmum 4 milljörðum kr. sem útgjöldin eru hærri samkvæmt frv. fyrir 1997 miðað við hlutfall í fjárlögum 1984.

[12:15]

Það er vissulega ljóst að auknar greiðslur einstaklinga vegna ýmissa læknisverka hafa aukist og létta því ákveðnum hluta af auknum kostnaði við heilbrigðiskerfið í heild fyrir ríkissjóð en það breytir því ekki að hlutur ríkissjóðs hefur ekki aukist umtalsvert á síðustu 16 árum. Rúmlega 4 milljarða kr. hækkun er minna en ætla má miðað við þá umræðu sem hefur verið á undanförnum árum um þensluna og sjálfvirka aukningu í heilbrigðiskerfinu.

Ég ætla að fara nokkrum orðum um vaxtaþróun og aðgerðaleysi. En það mun koma að því að ég beini fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. en auk hennar óskaði ég eftir því að hæstv. fjmrh. yrði við umræðuna og einnig hæstv. forsrh., hæstv. félmrh. og hæstv. sjútvrh. --- ég viðurkenni að hæstv. sjútvrh. getur ekki verið hér við umræðuna þar sem hann er veikur en ég vænti þess að hæstv. forsrh. muni þá taka við þeim spurningum sem ég legg fram. Ég get ekki krafist þess að hæstv. ráðherrar komi hér í ræðustól og svari spurningum mínum en ég hlýt að krefjast þess að hæstv. ráðherrar séu viðstaddir umræðuna. Og ég vil þakka sérstaklega þeim ráðherrum sem ég sé að eru hér í salnum fyrir að vera viðstaddir.

Í fyrsta lagi hafa vaxtagreiðslur ríkissjóðs vaxið gífurlega á umræddu tímabili sem ég gat um áðan. Frá árinu 1984 fóru 4,6% af útgjöldum ríkissjóðs til vaxtagreiðslna. Nú er áætlað að þessi liður verði hvorki meira né minna en 11%. Skuldir þjóðarbúsins verður að lækka. Það að nærri 14 milljarðar fari í vaxtagreiðslur er óviðunandi staðreynd sem þjóðin verður að taka höndum saman um að lækka. Þar verður ríkisstjórnin að hafa manndóm til að sýna fordæmi með endurskipulagningu ríkisrekstrarins. Ég spyr: Hvar eru áformin um sameiningu ráðuneyta? Hvar er að finna ávinning af hagræðingu hjá ráðuneytunum? --- Spyr sá sem ekki veit. Ef menn sýna ekki fordæmi þar þá er ekki von til að breytingar verði. Helstu áform hæstv. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar eru að taka til skoðunar á næsta ári rekstur sjúkrahúsa, framhaldsskóla, rannsóknastofnana, sýslumannsembætta og skattstofa samkvæmt fjárlagafrv. Allt er þetta góðra gjalda vert. En það kemur í ljós að þetta hafa menn einmitt verið að kjást við undanfarið. Það sem á vantar hjá ríkisstjórninni er ákveðin stefnumótun. Ríkisstjórnin verður að taka sér tak. Við verðum að stjórna Íslandi eins og stóru fyrirtæki sem verður að stefna að öruggum þjóðarhag og lífsgæðum fyrir þegnana. Það vantar almennt að leggja aukna áherslu á rannsóknir og menntun. Það er það sem mun skilum tekjum og þekkingu innan stofnananna sem ríkið rekur og þar með gefa svigrúm til hagræðis.

Herra forseti. Eins og ég lofaði áðan mun ég reyna að haga orðum mínum þannig að beina fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. úr því hún er hér á staðnum og reyna þá að lengja örlítið tímann því það hefur orðið að samkomulagi að skipta ræðu minni þegar svo er komið að hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. er óskað hér í salinn.

Fjárlög eru stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og ein mikilvægasta efnahagslega ákvörðunin sem tekin er í landinu ár hvert. Vegna stærðar og umfangs fjárlaganna hafa þau víðtæk áhrif á íslenskt efnahagslíf. Þau ráða lífsafkomu fjölda fólks og afkomu byggðarlaga. Fjárlagafrumvarpið er ekki bara upptalning á einstökum útgjaldaliðum og tekjupóstum. Það segir ekki aðeins til um hvað skattar eru áætlaðir háir á fjárlagaárinu eða hvað heilbrigðisþjónusta landsmanna muni væntanlega kosta.

Ég mun halda, herra forseti, áfram frá þessum hugleiðingum þegar atkvæðagreiðslu hefur verið lokið í dag en vík þá að heilbrigðismálaþættinum.

Velferðarkerfi þjóðarinnar er einn mikilvægasti hlekkur samfélagsins. Það á að stuðla að jöfnuði meðal fólks og tryggja lágmarksafkomu þeirra fjölskyldna og einstaklinga sem lent hafa í sérstökum erfiðleikum. Í þessu fjárlagafrv. er á mörgum sviðum þrengt að velferðarkerfinu og getu þess til að sinna skyldum sínum. Framlög til sjóða eru skorin niður, atvinnuleysisbætur skertar og sjúkrahúsin látin búa við vaxandi rekstrarvanda. Jákvæðar, uppbyggjandi aðgerðir skortir.

Útgjöld til heilbrigðismála hafa árlega verið helsti skotspónn sparnaðaraðgerða. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt því að til þess málaflokks fara um 41,6% af útgjöldum íslenska ríkisins, eða 52 milljarðar kr. í fjárlagafrv. Gæta þarf aðhalds og huga af kostgæfni að því hvernig þessum fjárhæðum er varið. Ráðdeild og sparnaður í þessum mikilvæga málaflokki er stöðugt verkefni. Á hinn bóginn verður að standa vörð um rétt landsmanna til bestu fáanlegrar þjónustu.

Það er gagnrýni vert að meiri hluti fjárln. hafi ekki getað afgreitt rekstur sjúkrastofnana frá nefndinni fyrir 2. umr. fjárlaga. En af hverju er það? Það er vegna þess að ekki eru komnar tillögur um rekstrartölur sjúkrahúsanna. Tillögur um niðurskurð vegna rannsókna og röntgengreininga sem nemur 100 millj. kr. hafa lauslega verið kynntar í nefndinni. Það er engin kynning á útfærslu framkvæmdarinnar. Það er helst að skilja að menn hafi gloprað þessum 100 milljónum út úr höndunum í einhverju aðgæsluleysi til þeirra sem þjónustan hefur verð keypt af. Það er helst að skilja af því sem fram er sett í fjárlagafrv. Ekki virðist vilji til sértækra aðgerða til að stytta biðlista vegna bæklunaraðgerða þar sem 1.400--1.500 manns bíða aðgerða. Alls bíða yfir 3.000 manns eftir mismunandi aðgerðum samkvæmt upplýsingum landlæknis. Halli allra sjúkrahúsanna í landinu frá fyrri árum nemur að minnsta kosti 800 millj. kr. og samkvæmt framlögðum gögnum vantar að minnsta kosti 1--1,5 milljarða kr. til að mæta þeirri þörf sem stjórnendur telja fyrir hendi. Ég vil því spyrja hæstv. heilbrrh.: Eru þessar upplýsingar og tilvitnanir sem ég hef hér getið um réttar eða eru þær rangar?

Minni hlutinn telur brýna nauðsyn á nýrri stefnumörkun í heilbrigðismálum í stað handahófskennds niðurskurðar við fjárlagagerð á hverju ári. Minni hlutinn telur að ekki verði lengra gengið á þessari braut. Minni hlutinn lýsir andstöðu við aukna gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu og telur að ekki megi víkja frá þeim meginþætti í heilbrigðislöggjöf okkar að fólki skuli ekki mismunað eftir efnahag.

Herra forseti. Málum er þannig háttað að nú fer hæstv. ráðherra að verða vant, hæstv. forsrh., hæstv. fjmrh. Ef hæstv. félmrh. er í húsinu þá get ég enn reynt að haga orðum mínum þannig að hann heyri spurningarnar, en ef ekki þá held ég að komið sé að því að doka við og sjá til hvort þessum hæstv. ráðherrum gefst ekki tími til þá eftir atkvæðagreiðslurnar að vera við.