Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 17:27:07 (2169)

1996-12-13 17:27:07# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[17:27]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það var ekki ofmælt hjá hv. síðasta ræðumanni að það þýðir ekkert fyrir ríkið að vera að gera samninga við sveitarfélögin sem ríkið ætlar ekki að standa við. Ég held að við séum í þeim sporum núna að ríkið komi til með að standa við sína samninga við sveitarfélögin við þessa fjárlagagerð. Það er betur að verki staðið heldur en stundum hefur verið áður á undanförnum árum.

Herra forseti. Ég verð að fara fram á það að hv. þm. Gísli S. Einarsson verði kallaður í salinn. Hv. þm. margkallaði á mig í morgun. --- Ég er mjög ánægður yfir að hv. þm. er kominn og býð hann velkominn í salinn. Það er algjörlega óforsvaranlegt að foringi stjórnarandstöðunnar í fjárln. leggi spurningar fyrir þingbræður sína og sinni svo ekki umræðunni og sitji ekki yfir umræðunni. Ég býð hann velkominn í salinn.

Hv. þm. spurði mig um skuldir heimilanna. Ég er alveg sammála hv. þm. um það að skuldir heimilanna eru ógnvekjandi. Það hefur að vísu talsvert verið gert til að reyna að laga sérstaklega fyrir þeim sem eru verst settir. Húsbréfakerfinu hefur verið breytt. Nú er sveigjanlegur lánstími, lögfest hefur verið meðferð á greiðsluerfiðleikalánum o.s.frv. Það hefur verið opnuð Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna og var sannarlega ekki vanþörf á því. Starfsemi hennar hefur orðið allmörgum til verulegrar aðstoðar við að ná tökum á fjármálum sínum. Það hafa verið samþykkt lög um réttaraðstoð til einstaklinga. Einstaklingar eiga rétt á því að fá 250 þús. kr. hver úr ríkissjóði til þess að undirbúa nauðasamninga. Það hefur verið gerður niðurfellanlegur með lögum höfuðstóll meðlagsskulda og jafnframt skattaskuldir aðrar en vörsluskattar.

[17:30]

Í áfangaskýrslu Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna sem tekin var saman í haust hefur fengist reynsla af nokkrum hópi illa skuldsettra einstaklinga. Þar kemur fram að orsakir greiðsluerfiðleika umsækjenda eru margs konar og oft samband fleiri þátta. Helstu þættir eru lántaka umfram greiðslugetu, tekjulækkun, veikindi, atvinnuleysi, óráðsía og ábyrgðarskuldbindingar. Reynslan af starfsemi Ráðgjafarstofunnar gefur ótvírætt til kynna nauðsyn á breyttu viðhorfi og verklagi í lánamálum. Lántakan er oft ekki í samræmi við tekjur og lánveitingar með ábyrgð þriðja aðila ganga langt úr hófi í okkar þjóðfélagi. Það eru fjölmörg dæmi um að umsamdar afborganir lána nemi meira en 100% af ráðstöfunartekjunum. Starfsemi Ráðgjafarstofunnar hefur leitt í ljós að það þurfi að fara varlega í skuldbreytingar og sérstaklega frestun á greiðslum þeirra sem eru í verulegum vanskilum. Reynslan hefur nefnilega kennt okkur það að lán getur verið ólán og margur hefur bara farið verr á því að fá skuldbreytingu og það hefur einungis lengt í hengingarólinni.

Rétt er að rifja það upp að heildarskuldir 317 fyrstu viðskiptamanna Ráðgjafarstofunnar voru rúmlega 2,1 milljarður en meðalráðstöfunartekjurnar voru 146 þús. kr. þannig að það er ekki einungis um lágtekjufólk að ræða í þessum hópi. Raunar er það undravert hve lítið af þessu fólki er atvinnuleysingjar eða fólk með mjög lágar tekjur. Meðalfjölskyldan er ekki ýkja stór, það eru 3,1 í fjölskyldu og það er ekki fyrst og fremst barnafólk sem lendir í þessum erfiðleikum. Meðalvanskil þessa hóps er 1,5 millj. kr. Og það fannst mér líka mjög athyglisvert að mest eru vanskilin hjá umsækjendum sem fæddir eru á árunum 1940--1949. Til þess geta legið tvenns konar orsakir. Menn hafa verið að safna skuldum á löngum tíma, farið í gegnum skuldbreytingar, fengið greiðsluerfiðleikalán og fengið þau svo í hausinn aftur og eitthvað af þessu eru skuldir sem fallið hafa á fólk vegna ábyrgðarskuldbindinga fyrir þriðja aðila. Það er líka athyglisvert að nær fjórði hver umsækjandi er eigandi félagslegrar eignaríbúðar. En þessir umsækjendur hjá Ráðgjafarstofunni eru ekki einsleitur hópur heldur einstaklingar sem koma úr öllum starfsstéttum og tekjuhópum samfélagsins.

Stjórn Ráðgjafarstofunnar hefur sett fram ýmsar tillögur sem mér finnst athyglisverðar og er að vinna að þeim. T.d. leggur hún til að tekin verði upp ný vinnubrögð við lánveitingar og stuðlað að nýrri hugsun hvað varðar lántökur einstaklinga bæði hjá lánastofnunum og lántakendum og að forsenda lánveitinga verði greiðslumat byggt á neysluviðmiðun. Það er nýmæli sem ég held við þurfum að koma á. Eins og greiðslumatið hefur verið framkvæmt þá er það prósent af tekjum, 18% ef menn ætla að fá húsbréf eða upp í 30% ef menn eru í félagslega kerfinu eða í greiðsluerfiðleikalánum. Ég held að miklu skynsamlegra sé að finna út einhverja neysluviðmiðun, þ.e. hvað fjölskylda af þessari stærð þurfi sér til brýnasta lífsframfæris. Og það sem er fram yfir brýnasta lífsframfæri viðkomandi fjölskyldu geti þá farið til húsnæðiskaupa eða húsnæðiskostnaðar eða annarrar eyðslu.

Ég tel að það sé líka mikilvægt að koma á upplýsingamiðstöð lánastofnana þar sem einstaklingar og lánastofnanir, með samþykki viðskiptavinar, geta fengið rétt yfirlit um skuldastöðu og viðskiptasögu lánsumsækjenda. Ég hugsa mér það að reyna að koma á samstarfi lánastofnana þannig að þar liggi fyrir á einum stað hvað hver og einn skuldar, síðan geti viðkomandi farið og sótt vottorð frá þessari stofnun, sótt það sjálfur, og farið með það í lánastofnun og þá metur lánastofnunin hvort hún telur sig þurfa ábyrgðarmenn á skuldina. Þá er lánað út á greiðslugetu viðkomandi og hann getur sannað greiðslugetu sína. Og einnig ef lánastofnun telji sig þurfa ábyrgðarmenn þá er það lágmarkið að kanna fjárhag ábyrgðarmannanna og líka að ábyrgðarmönnunum sé ljós fjárhagsstaða þess sem þeir eru að skrifa upp á fyrir.

Það er einnig mikilvægt að auka fræðslu um fjármál heimila í grunnskólum og framhaldsskólum og ég hef hlutast til um það og óskað eftir því að þessi fræðsla verði aukin. Ég held að líka sé mikilvægt að endurskoða reglur um útgreiðslu vaxtabóta sem er ein af tillögum Ráðgjafarstofunnar, og forsendurnar fyrir kaupum á félagslegum íbúðum. Það er líka mikilvægt, held ég, að reyna að koma á einhverjum sparnaðarhvata hjá ungu fólki. Í því sambandi vil ég minna á athyglisverða tillögu sem liggur fyrir í þinginu. Ég var því miður ekki viðstaddur 1. umr. en þetta var um að koma á húsnæðissparnaðarreikningum. (Gripið fram í: Samþykkja hana fyrir jól.) Ég tel að það sé athyglisverð tillaga sem þarfnist nákvæmrar skoðunar og ég held að það hafi verð afturför að vissu leyti þegar við hættum þeim sparnaðarhugmyndum sem voru uppi fyrir nokkrum áratugum.

En það dugir ekki til þó að þetta allt saman kæmi til og þó að þetta gengi nú allt saman upp þá dugir það ekki til því auk eyðslu um efni fram þá hækka skuldir hjá fólki án þess að það fái við það ráðið. Það er m.a. vegna þess að vaxtastig hefur lengi verið hér of hátt. Það má minna á að vaxtahækkun Seðlabankans fyrir skemmstu var talin hafa aukið skuldir heimilanna um 260 milljónir, bara sú eina ákvörðun Seðlabankans.

Ég held það þurfi líka að reyna að komast út úr þessari hringavitleysu með lánskjaravísitöluna. Ég var í mörg ár, þing eftir þing, meðflutningsmaður að tillögu sem Eggert Haukdal flutti um afnám lánskjaravísitölunnar en sú tillaga náði aldrei fram að ganga. En hæstv. viðskrh. hefur sett í gang ferli um að reyna að komast út úr verðtryggingu og það er stefnt að því að verðtrygging verði óheimil á skuldabréfum til skemmri tíma en sjö ára árið 2000. Þetta finnst mér vera of seinfarin leið og við þurfum að reyna að finna fljótvirkari leið til þess að komast út úr þessum vandræðum og Framsfl. ályktaði þar um á síðasta flokksþingi. Ég held að það þurfi líka að reyna að lækka lántökukostnaðinn, skuldbreytingarkostnaðinn þegar hann á við og síðast en ekki síst að setja þak á innheimtukostnað lögfræðinga.

Hv. þm. spurði líka um húsnæðismál. Hann spurði um Byggingarsjóð verkamanna og þá stöðu sem hann er í. Nú held ég að menn geri of mikið úr því að Byggingarsjóður verkamanna sé í bráðri hættu en ég tel að heppilegasta leiðin væri sú að sameina Byggingarsjóð verkamanna og Byggingarsjóð ríkisins. Þetta eru sjóðir sem sinna hliðstæðum verkefnum. Annar þeirra er með mjög sterka eiginfjárstöðu og ég sé ekki að Byggingarsjóði ríkisins stafi nein hætta af því þó að Byggingarsjóður verkamanna verði sameinaður honum, en hann er að sjálfsögðu með talverðar skuldbindingar. Mér finnst sú leið betri en að fara að stórhækka vextina á lánum Byggingarsjóðs verkamanna. Þar sem við erum með ábyrga stjórn ríkisfjármála eða viljum vera og þarfirnar eru margar þá held ég að ekki sé við því að búast að á fjárlögum verði ausið fé í stórum stíl í Byggingarsjóð verkamanna. Raunar hefur verið unnið nokkuð að því á undanförnum árum að rétta byggingarsjóðinn af þó það hafi ekki náðst fullkomlega eins og að var stefnt. Ég held að það verði að endurskipuleggja Húsnæðisstofnun. Það verður að breyta félagslega kerfinu og ég vænti þess að geta komið með frv. þar að lútandi eftir jólahlé.

Hér hefur verið minnst á Framkvæmdasjóð fatlaðra og það var nú reyndar ekki hv. þm. Gísli Einarsson sem hóf máls á honum, ef ég man rétt. Það var hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir. --- Jú, reyndar mun hv. þm. hafa minnst á Framkvæmdasjóð fatlaðra, að rekstrarverkefnum hefur verið létt af framkvæmdasjóðnum og nú fer hann til framkvæmda. Að vísu er þarna tiltölulega lítil upphæð sem fer í stjórnarkostnað og sérstaka liðveislu enn þá, en 152 millj. kr. fara beint til framkvæmda og þær verða ekki skertar til neins annars. Á þessu ári sem nú er að líða hafa risið og verið tekin í notkun fjögur sambýli fyrir fatlaða, þar af tvö vegna útskrifta af Kópavogshæli og á næsta ári er áformað að taka í notkun a.m.k. fimm sambýli og það passar innan þessa fjárlagaramma. Hugsanlega gætu þau orðið einu fleiri en það verður eitthvað meira sem við getum á næsta ári heldur en við gátum á þessu ári.

Hv. þm. spurði um áformin 1998. Þau eru ekki mótuð í smáatriðum, herra forseti. Það þarf að eiga sér stað mikil uppbygging áður en sveitarfélögin yfirtaka, það er alveg ljóst. Það er verið að ljúka úttekt á málaflokknum í Reykjavík og hliðstæð úttekt á þjónustuþörfinni þarf að fara fram í öllum kjördæmum landsins. Það þarf að endurskoða lögin um málefni fatlaðra og fella þau saman við lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga áður en sveitarfélögin taka við þessum málaflokki.

Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir flutti langa ræðu. Ég held að flestu af því sem fram kom í ræðunni hafi ég svarað við 1. umr. svoleiðis að ég ætla að spara mér það, herra forseti, aðeins að minnast á það að varðandi atvinnuleysisbæturnar er heimild til félmrh. um að hækka þær um 3%, ef ég man rétt, ef launabreytingar verða. Ég held ég verði líka að treysta því að 1. júlí nk., þegar ný lög um atvinnuleysistryggingar taka gildi, eða ætlast er til að ný lög um atvinnuleysistryggingar taki gildi, verði grunnkaup orðið hærra en atvinnuleysisbæturnar sem tilgreindar eru í frv.

Varðandi starfsfræðsluna vil ég láta það koma fram að hún fær sömu krónutölu til verkefna eins og á þessu ári, þ.e. 47 milljónir. Atvinnumál kvenna fá 20 milljónir sem er sama upphæð og í fyrra.

Í félmrn. er reynt að viðhafa ráðdeild og allflestir málaflokkar eru með sömu upphæð á næsta ári og þeir voru á þessu ári. Það er einungis einn málaflokkur sem hefur forgang í ráðuneytingu, þ.e. málefni fatlaðra, en til þeirra verður varið á næsta ári 190 millj. kr. hærri upphæð en var á fjárlögum þessa árs.

Varðandi unga fólkið sem hv. þm. gerði líka að umtalsefni þá, eins og hér hefur komið fram, eru lögin um Lánasjóð íslenskra námsmanna í endurskoðun og ákveðin hefur verið 100 millj. kr. hækkun til lánasjóðsins.

Menn hafa kvartað yfir því að við, framsóknarmenn séum ekki enn búnir að koma í verk því kosningaloforði okkar að lækka jaðarskattana. Það var aldrei meining okkar að byrja á því að lækka jaðarskattana. Fyrsta skrefið varð að vera að ná tökum á ríkisfjármálunum og afgreiða ríkissjóð hallalausan. Þegar því er lokið, þ.e. ef svo fer fram sem horfir, þá afgreiðum við hann með ofurlitlum tekjuafgangi á þessu ári og getum síðan á næsta ári farið í það verkefni að lækka jaðarskattana meira, reyndar hafa þeir lækkað nokkuð að undanförnu. En vinnumál verða í svipuðu formi á næsta ári og þau hafa verið á þessu ári.

Herra forseti. Ég held að fleira hafi ekki komið til mín af beinum spurningum og ég læt máli mínu lokið.