Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 20:31:46 (2183)

1996-12-13 20:31:46# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[20:31]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka það sem áður hefur komið fram í umræðunni um gott samstarf í fjárln. og er það mjög til fyrirmyndar og hefur orðið til þess að við höfum getað skilað tillögum eins snemma og raun ber vitni. Hv. formaður fjárln. og hv. varaformaður fjárln. hafa farið yfir áhersluatriði meiri hlutans, m.a. margnefndan stöðugleika. Það eru aðeins örfá atriði sem ég vil hlaupa á og mun ekki lengja umræðuna mikið.

Við fjárlagavinnuna fór fram mikil skoðun og umræða um gildistölur við útreikning á fjárframlögum til framhaldsskólanna vegna lækkunar á gildistölum nú í haust, sérstaklega til litlu framhaldsskólanna. Það er vilji fjárln. að hagræðingarkröfur komi ekki af svo miklu afli á skólana að skaði starf þeirra. Í vetur mun fara fram gagnger umræða og skoðun á þeim þáttum sem stjórna útgjöldum skólanna og unnið verður að gerð reiknilíkans þar sem tekið verður tillit til allra rekstrarþátta.

Til þess að tryggja að starfsemin haldist óbreytt í vetur þar sem búið er að skipuleggja skólastarf, þá hækkaði fjárln. liðinn Framhaldsskólar, almennt um 30 millj. kr. Er það von okkar að þetta geti orðið til að starfið haldist og unnið verði að málum framhaldsskólanna í vetur. Þessar lækkanir koma einkum fram á framhaldsskólunum á Laugum, Húsavík og Austur-Skaftafellssýslu og einnig Skógaskóla og Framhaldsskóla Vestfjarða. Einnig hafa komið fram ýmis vandkvæði vegna sameiningar Menntaskólans á Egilsstöðum og Eiðum og mun væntanlega vera hægt að leiðrétta ýmislegt þar með framlögum af þessum lið. Hæstv. menntmrh. hefur gefið yfirlýsingar um þau efni og væntanlega koma niðurstöður nægilega snemma til að skólastarf truflist ekki.

Annað atriði sem ég vildi nefna er að lögð hefur verið til hækkun á framlagi til Hússtjórnarskólans á Hallormsstað, þ.e. að það hækki um 4 millj. kr. Með þessu er tryggt að ekki verði lagt niður það merkilega skólastarf sem þar fer fram. Það mátti skilja á fjárlagafrv., eins og það var sett fram, að ætlunin væri að leggja niður starfsemina á Hallormsstað. Geysilega sterk viðbrögð komu fram víða að af landinu, mikil og góð umræða um skólann átti sér stað, bæði hjá heimamönnum og í stjórnkerfinu og ég veit að sú umræða var af hinu góða og dró enn betur fram í vitund fólks styrk skólans og gildi hans í starfsmenntun í landinu. Í skólanum fer fram mjög sérstakt og menningarlegt skólastarf þar sem starfsmenntir í bland við siðmenntir eru hafðar í hávegum.

Það hefur komið fram í umræðunni að nemendur í skólanum eru alls staðar að af landinu og eftirspurn er mikil eftir þessari tegund náms þannig að nú eru komnir biðlistar fyrir næstu önn. Það er mikill vilji til þess að skólinn haldi sjálfstæði sínu og við skoðun á rekstri hans bendir margt til að það geti orðið hagkvæmari kostur.

Ég dreg fram þessi atriði um skólastarfið vegna þess hversu mikla þýðingu þau hafa í byggðamálum. Ég get ekki látið hjá líða að minnast á þær áhyggjur sem ég hef af þróun byggðamála. Auðvitað er margt sem hefur áhrif á þá þróun en ríkisreksturinn hefur þar mjög mikil áhrif. Því miður boðar fjárlagafrv. og þær breytingar, sem við fjárlaganefndarfólk gerðum við 2. umr. ekki neina bót á þessari þróun sem við horfum upp á þessa dagana. Þvert á móti eru þær breytingar sem gerðar eru allar meira og minna á þann veg að verið er að lagfæra fyrir stofnunum og stjórnsýslu á höfuðborgarsvæðinu. Tillögur minni hlutans bera þess sama merki. Þær hækkanir sem minnihlutafólk kemur með eru einnig framlög til að styrkja stjórnsýsluna á höfuðborgarsvæðinu. En þar sem tillögur koma til lækkunar, þá eru það tillögur sem bitna á starfseminni á landsbyggðinni. Ég er mjög uggandi yfir þessu en það er nú einu sinni svo að mjög einfalt er að flytja rök fyrir hagkvæmni stærðarinnar í einstökum þáttum ríkisrekstrarins. Ég óttast hins vegar að það gleymist að líta yfir allt sviðið og meta hvaða áhrif einn og einn kubbur sem týnist úr púsluspilinu hafi á heildarmyndina. Á endanum eru svo mörg púsl týnd og horfin úr þeirri byggðarmynd sem við viljum sjá að myndin hrynur.

Öll höfum við áhyggjur af þessari þróun og við vitum að nauðsynlegt er að landið sé allt byggt til að íslenska þjóðin geti lifað af auðlindum þess. Þrátt fyrir það eigum við alltaf erfitt með að sjá heildarmunstrið af því að við erum alltaf að glíma við einstakar litlar einingar. Ég vil nefna dæmi sem ég tel að sýni þessa þróun. Í fjárlagafrv. eins og það kom fram í haust var í grg. svofelldur texti, með leyfi forseta:

,,Í fjmrn. er nú til athugunar hvort auka megi skilvirkni skattkerfisins með því að endurskoða skipulag starfseminnar. Ýmsar forsendur hafa breyst frá því núverandi skipan skattstofa og meginverkefni þeirra voru ákveðin með lögum. Búseta í landinu hefur breyst frá því að þjónustuumdæmi skattstofa voru ákveðin upp úr 1960 og allar samgöngur innan og milli landsvæða eru orðnar mun betri en áður. Þá hefur aukin áhersla verið lögð á að samræma meðferð skattyfirvalda á málefnum og að efla skatteftirlit. Einnig má nefna að nýrri tækni hefur fleygt fram við úrvinnslu skattagagna. Fjmrh. hefur ákveðið að starfsemi stofnana skattkerfisins verði athuguð í ljósi þessarar framvindu. Því er fyrirhugað að leggja fram breytingartillögur um fjárveitingar til þessara liða við afgreiðslu frv.``

Við skulum taka eftir að í þessum texta er minnst bæði á bættar samgöngur og nýja tækni og við skulum þá reikna með að betri samgöngur og hin nýja tækni geti virkað í báðar áttir, bæði til höfuðborgarsvæðisins og frá því aftur. En við fengum tillögur í fjárln. frá fjmrn. þar sem þessar tillögur sem boðaðar voru í frv. eru með svofelldum rökstuðningi, með leyfi forseta:

,,Áfangi í þessu starfi hefur nú náðst með því að fjmrh. hefur ákveðið að sameina skatteftirlit sem framkvæmt hefur verið á skattstofum úti á landi, embætti ríkisskattstjóra og stofna við embættið nýtt viðfangsefni sem heitir Skatteftirlit. Ákveðið hefur verið að 33 millj. kr. fari á þetta viðfangsefni. Fjármögnun þess verður með þeim hætti að fjárveiting sú sem skattstofur hafa fengið til að standa straum af skatteftirliti verður færð til ríkisskattstjóra.`` Og ríkisskattstjóri er staðsettur einhvers staðar á höfuðborgarsvæðinu.

Þegar fjárhagsstaðan í þessu er skoðuð sést að 9,5 millj. kr. eru færðar frá skattstofum úti á landi og það þýðir að a.m.k. fimm störf eru flutt þaðan og hingað til höfuðborgarsvæðisins. Einnig er gert ráð fyrir hagræðingu sem stafar af hinni nýju tækni og eru frá skattstofum færðar 9,7 millj. kr. til þessa sama embættis. Skattstjórinn á Egilsstöðum hefur reyndar sagt mér að sá tími sem sparast með nýrri tækni hjá starfsfólki sé notaður til samtímaskatteftirlits. Ég hefði nú haldið að væri heldur af hinu góða, að hafa þetta tiltölulega skilvirkt og að menn reyni að bregðast við sem skjótast þegar þeir sjá eitthvað óeðlilegt, þ.e. í þeim skattstofum sem staðsettar eru úti um landið þar sem menn eru nálægt vettvangi og þekkja til staðhátta.

Ég veit líka að rök fjmrn. eru þau, og nokkuð er til í því, að ekki hefur tekist að manna þessar stöður. Það virðist vera jafnerfitt að fá skatteftirlitsmenn og fiskvinnslufólk til starfa á landsbyggðinni. En í samtali mínu við skattstjórann á Egilsstöðum kom fram að hann teldi að meðan ekki væri hægt að manna þessar stöður væru þær betur komnar hjá ríkisskattstjóra en lagði ríka áherslu á að um leið og tækist að manna þessar stöður yrðu þessi störf flutt aftur út til skattumdæmanna. Hann vitnaði einnig til skattrannsóknarstjóra, sem er einnig þessarar skoðunar. Ég vil leggja ríka áherslu á þau sömu rök að þegar fólk fæst til þessara starfa verði þeim dreift út til skattumdæmanna því að þegar menn eru nálægt og á starfsvettvangi sjá menn oft betur en þegar verið er eingöngu að skoða skýrslur í fjarlægð og menn vita ekki um hvað starfsemin snýst. Þau rök, rökin um hagkvæmni stærðarinnar, geta oft verið vandmeðfarin.

Á bls. 334 í grg. með fjárlagafrv. er einnig línurit sem sýnir að rekstrargjöld skattstofa í krónum á íbúa eru tiltölulega jöfn nema á Reykjanesi. Þar kostar greinilega mun minna á íbúa að framkvæma þá starfsemi sem fer fram á skattstofunum. Ég sá að þarna voru náttúrlega komin afskaplega góð rök, með þessa hagkvæmni stærðarinnar í huga, því að það er einu sinni svo að skattstofan á Reykjanesi er næststærsta skattstofan. Reyndar virðist þessi hagkvæmni stærðarinnar því miður ekki koma fram í skattstofunni í Reykjavík sem er með u.þ.b. það sama og skattstofurnar á Norðurlandi eystra, Suðurlandi og Austurlandi. En í tillögum fjmrn. til fjárln. hafa þessi rök greinilega ekki gengið upp því þar er svofelldur texti, með leyfi forseta:

[20:45]

,,Að lokum hefur verið ákveðið að hækka framlag til skattstofunnar á Reykjanesi til að fjárveiting til hennar verði sambærileg við aðrar skattstofur miðað við íbúafjölda.``

Þarna virðast þessi rök ekki ganga upp og ég vil þá halda því fram að það að sameina allar skattstofur og hafa skatteftirlit á einum stað séu ekki rök til þess að miklir peningar sparist, fyrst þetta skiptist á þennan hátt.

Ég hef nefnt þetta dæmi um embætti skattstjóranna. Ég vil nefna annað dæmi og það er þær sparnaðarkröfur sem gerðar eru til sjúkrahúsanna á landsbyggðinni. Fram hefur komið í umræðunni að tillögur eru ekki komnar fram um hvernig þessar sparnaðarkröfur verða en í mínum huga get ég ekki séð að þær komi til með að þýða nema eitt og það er skerðing á þjónustu og fækkun starfa. Ég er ekki að segja að ekki megi einhvers staðar hagræða betur og starfsemin megi fara fram á hagkvæmari hátt. Það er víða sem það á við en í heild sinni mun þetta þýða að draga á saman í þjónustunni við landsbyggðarfólkið.

Ég veit ekki hvort ég á að nefna það af því að það kom fram í umræðunni áðan að lengi hefur staðið til að endurbyggja og lagfæra merkilegt hús sem hýsir skrifstofu sýslumannsins á Seyðisfirði og fór fram ágæt umræða um það áðan. Eins og þar kom fram hafa heimamenn lengi haft áhyggjur af því að ekki skuli vera þarna lagfært og eru búnir að koma með mörg erindi um þær áhyggjur til stjórnsýslunnar.

Einn sjóður er til sem hefur gengið undir nafninu Endurbótasjóður menningarbygginga. Við höfum haldið því fram sum hver að þarna væri um menningarbyggingu að ræða en þær menningarbyggingar sem nefndar eru undir þessum sjóð eru flestar á höfuðborgarsvæðinu og eru alls góðs maklegar og vonandi tekst að lagfæra þær með þessum sjóði á sem stystum tíma. En það er eins og sumt gangi þar hraðar inn heldur en annað og vil ég nefna framlag til Listasafns Íslands sem á að ganga til þess að gera upp Næpuna svokölluðu, Landshöfðingjahúsið, sem á að hýsa skrifstofur Listasafnsins. Þetta er mjög gott málefni og ég vona að skrifstofur Listasafnsins megi eiga þar góða daga. En það sem velkist aðeins fyrir mér er hvers vegna gengur svona hratt að koma því á framfæri og koma inn í verkefnaröð, að gera upp þessar skrifstofur frekar en skrifstofur fyrir sýslumanninn á Seyðisfirði og starfsfólk hans en það hefur verið með slíkum harmkvælum sem raun ber vitni.

Þessi dæmi nefni ég til að sýna fram á að þegar eitthvað er nefnt sem tilheyrir landsbyggðinni virðist það alltaf vera dálítið erfiðara að draga fram fullnægjandi rök til að menn geti réttlætt starfsemina eða framkvæmdirnar eða það sem við er átt en þegar um er að ræða starfsemi og framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Þá virðist vera einhver ákveðin sjálfvirkni í gangi.

Ég ætla ekki að dvelja lengur við þetta en eingöngu að hafa uppi þessi viðvörunarorð að við hugsum þetta mál vandlega og reynum að horfa á heildarmyndina.

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að nefna það góðæri sem er að bresta á, eins og margir hafa nefnt, og vitna í orð forstjóra Þjóðhagsstofnunar sem hann viðhafði á ráðstefnu um fjármál sveitarfélaganna, en þar sagði hann, með leyfi forseta:

,,Mönnum er því nokkur vandi á höndum við áætlanagerð fyrir árið 1997, ekki síst þeim sem ber ábyrgð á að viðunandi jafnvægi ríki áfram í þjóðarbúskapnum. Ef af álversframkvæmdum verður er ljóst að hið opinbera verður að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir þenslu. Í því skyni er skynsamlegast að færa til opinberar framkvæmdir eftir því sem við verður komið, þ.e. að draga úr þeim á árunum 1997 og 1998 og auka þær í staðinn 1999 og 2000. Slík endurröðun framkvæmda getur ráðið úrslitum um hversu vel tekst að nýta aukna atvinnuvegafjárfestingu til að efla hagkerfið og treysta lífskjör til frambúðar.``

Svo virðist sem þetta hafi verið orð í tíma töluð, sem betur fer, en ég vil leggja áherslu á að komi til endurröðunar og jafnvel niðurskurðar á opinberum framkvæmdum, þá verði það gert á framkvæmdasvæði virkjunarframkvæmda og nýs álvers, þ.e. á suðvesturhorninu. Hæstv. forsrh. hefur þegar lagt þessar áherslur og vil ég ítreka þá skoðun mína að við framkvæmdaröðun verði þetta fyrsta atriði sem haft verður í huga.