Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 22:01:18 (2188)

1996-12-13 22:01:18# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[22:01]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka sérstaklega fyrir svarið. Gott og vel, við skulum þá geyma þetta með sjúkrahúsin til 3. umr. og í trausti þess að það standi að það liggi þá skýrt fyrir hvað eigi að gera þá bíðum við með umræðuna til þess.

Í öðru lagi varðandi framhaldsskóla þá er það út af fyrir sig ljóst að þessi pottur er staðfesting á því að stjórnarliðið hefur vonda samvisku út af þessari framkomu við framhaldsskólana á landsbyggðinni. Það er alveg ljóst. En aðferðafræðin er leiðinleg, hún er hundleiðinleg, herra forseti, að skera menn niður við trog, búa svo til einhvern pott, einhverja dúsu og mæta svo til samninga við menn um hlutina þegar búið er setja þá í þessar stellingar að þeir eru komnir niður á hnén. Það er hundleiðinleg aðferð. Þetta var prófað dálítið í heilbrigðismálunum á síðasta kjörtímabili. Menn voru með alls konar potta og þetta var svona sambland af þvingunar- og mútuaðferðum. Mönnum var hótað og þeim gerð gylliboð á víxl --- ef þið verðið góðir og gerið þetta og hitt og sameinist eða sundrist, þá fáið þið kannski eitthvað. Þetta er leiðinda aðferðafræði. Auðvitað á að taka einhverjar hreinar heiðarlegar pólitískar ákvarðanir um þessa hluti og menn eiga að vera menn til þess að standa fyrir þeim.

Og því nefndi ég Háskólann á Akureyri, herra forseti, að ég tók hann sem dæmi um að hæstv. ríkisstjórn hefði þar haft alveg tilvalið tækifæri til þess að hafa þó ekki væri nema einn fána á lofti gagnvart því að það væri einhvers staðar verið að gera eitthvað sem vísaði til framtíðar og upp á við fyrir landsbyggðina. Á sama tíma og verið er að byggja risastóran skóla, Borgarholtsskóla eða hvað hann nú heitir og allt gott og blessað með það, það er full þörf fyrir hann í nýju hverfi, þá finnst manni dálítið skrýtið að ekki skuli vera hægt að standa a.m.k. jafnmyndarlega að breyttu breytanda hlutfallslega að uppbyggingunni á Akureyri. En eitt það brýnasta sem Háskólinn á Akureyri hefur farið fram á er að fá lagfæringu á sinni stöðu hvað varðar möguleika til að sinna rannsóknum og verða þannig að raunverulegri akademíu. Á það er ekki hlustað og það gagnrýni ég.