Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 22:55:40 (2192)

1996-12-13 22:55:40# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[22:55]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykn. beindi þeirri spurningu til mín hvernig þetta fjárlagafrv. mætti þörfum þeirra sem minna mega sín í samfélaginu eða þeirra sem lægst hafa launin. Þetta fjárlagafrv. gerir ráð fyrir því að ríkissjóður sé rekinn hallalaus eða jafnvel með nokkrum hagnaði. Það hefur þrennt í för með sér: Það skapar skilyrði fyrir lága verðbólgu. Það hamlar gegn hækkun vaxta. Það skapar skilyrði fyrir atvinnufyrirtækin í landinu til að þau geti greitt hærri laun. Og ég veit ekki hvað er í þágu þeirra lægst launuðu ef það eru ekki þessi markmið sem fjárlagafrv. hefur.

Hér hefur verið minnst á jaðarskatta og hneykslast dálítið á því að ekki sé búið að kippa því máli í lag. Ég minni á að eftir fjögurra ára valdatíma Alþfl. og setu í Stjórnarráðinu þá stöndum við uppi með það að barnafólkið í landinu er að sligast undan jaðarsköttum. Það er verið að vinna í því máli og því verður kippt í lag þó að ekki sé búið að því. En menn skyldu þó minnast hvernig þessir jaðarskattar eru til komnir, hverjir komu þeim á.