1996-12-14 01:32:54# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., GL (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[25:32]

Guðmundur Lárusson (andsvar):

Herra forseti. Ekki bjóst ég nú við því að ég gæti snúið skoðun þingflokks jafnaðarmanna í landbúnaðarmálum með ræðu minni. Það er sérkennileg þráhyggja að geta ekki horft á það að þessi atvinnuvegur sem veltir tugum milljarða og skaffar þúsundum manna atvinnu skuli ekki fá að eiga sér sóknartækifæri --- landbúnaður er atvinnuvegur sem liggur sífellt undir ámæli um að hann sé staðnaður og að þar þurfi breytinga við --- en í raun og veru banna okkur þær bjargir sem við höfum til að breyta landbúnaðinum í átt til þess sem við þurfum að breyta honum. Við þurfum að gera íslenskan landbúnað að framtíðaratvinnuvegi sem byggir á þekkingu, rannsóknum og tilraunum og framsækinni markaðssetningu á nýja markaði. Til þess þurfum við fjármuni. Þeir fjármunir eru til staðar í Framleiðnisjóði og þess vegna get ég engan veginn skilið þetta sjónarmið sem kom fram í máli hv. þm.