1996-12-14 01:37:20# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[25:37]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Hér liggur til 2. umr. frv. til fjárlaga fyrir árið 1997 sem hljóðar upp á rúmlega 126 milljarða kr. Það blasir við við yfirlestur þessa frv. að fjármunir þeir sem ríkið hefur til að útdeila til brýnna verkefna um land allt eru of naumir. Það er reyndar viðurkennd staðreynd að skattsvik eru hér á landi mikil. Vísir menn segja að ríkið verði af tekjum upp á 10--15 milljarða á ári vegna undandráttar í skattkerfinu en á móti kemur að álögur á almenna launamenn eru allt of háar. Það hafa þó ekki verið breytingar á skattkerfinu til hagsbóta fyrir hinn almenna launamann sem ríkisstjórnin hæstv. hefur haft mestan áhuga á að koma í gegnum hið háa Alþingi á undanförnum vikum og ekki heldur tillögur um aðgerðir gegn skattsvikum. En þó hefur aðeins verið lífsmark því hér hafa verið samþykkt lög frá Alþingi sem létta sköttum af fyrirtækjum í landinu og hefðu nú ýmsir talið að það væri ekki þar sem skórinn kreppti mest í skattamálunum hér á landi.

Ríkisstjórnin fer ekkert í grafgötur um hverra hagsmuna hún gætir á Alþingi. Hún hefur jú stuðning þjóðarinnar til að stjórna með þessum hætti og þá gerir hún það að sjálfsögðu. Um leið og vinnu við forgangsröðun í ríkiskerfinu yrði hraðað á auðvitað að reyna af alvöru að finna leiðir til að koma í veg fyrir skattsvik og fá þannig til ríkisins það sem ríkinu ber. Ég tel einnig brýnt að fyrirtækin í landinu séu látin bera byrðar þær sem þau þola þegar vel árar en séu ekki endalaust í aðstöðu til að nýta sér gamalt tap, jafnvel aðkeypt þegar þau eru í bullandi gróða, til að sleppa við að greiða til samfélagsins. Það er óþolandi að brýn sameiginleg verkefni þjóðfélagsins þurfi að líða fyrir slíkt auk þess sem ýmsar fleiri glufur og smugur í lögum um framtal fyrirtækja gera þeim sem mest leggja sig fram í undandrætti kleift með aðstoð sérsveita sérhæfðra endurskoðenda að lækka þær upphæðir sem þeir greiða til samfélagsins umtalsvert.

Ég verð að viðurkenna það hér og nú að hv. fjárln., sem sat uppi með að skipta áðurnefndum 125 milljörðum kr. niður á verkefni sem við blasti að þörfnuðust sum mun meiri fjármuna, var ærinn vandi á höndum. En það fer ekki hjá því að ýmsar ákvarðanir nefndarinnar séu umdeildar svo ekki sé fastar að orði kveðið. Einkum er þar auðvitað um að ræða hefðbundinn pólitískan ágreining um áherslu á hin ýmsu svið mannlífsins sem alltaf hefur verið fyrir hendi nema þá helst fyrir kosningar. En athygli vekur að stórlega hefur dregið úr áhuga stjórnarflokkanna til að styrkja félagsmál og menntamál frá því að þeir settu fram sínar áherslur fyrir síðustu kosningar. Er þó svokallað góðæri í landinu svo að nú ætti að vera lag.

Það er t.d. umhugsunarefni nú að Háskóli Íslands er áfram hafður í fjársvelti þó í þeirri stofnun séu laun kennara og prófessora með því lægsta sem þekkist í Vestur-Evrópu. Er þar mikil fjárvöntun á flestum sviðum og deildir treysta sér ekki til að taka inn þjóðhagslega mjög hagkvæmt nám eins og nám iðjuþjálfa sem samþykkt hafði þó verið á Alþingi að hafið skyldi og öll undirbúningsvinna hafði farið fram í vegna þess að aðeins voru fjárveitingar fyrir 70% af þeirri kennslu sem áður hafði verið lögbundin og þegar fór fram í deildinni, þ.e. í sjúkraþjálfun og hjúkrunarfræði. Það er bráðnauðsynlegt að reynt verði að finna þær 5 millj. kr. sem áætlað var að kennsla mundi kosta í iðjuþjálfun fyrsta árið. Þetta nám er óumdeilanlega eitt af því sem gæti leitt til mikils sparnaðar í þjóðfélaginu innan fárra ára ef af yrði því góð og markviss iðjuþjálfun sem gerir fólki sem orðið hefur fyrir áföllum í lífinu kleift að lifa lífinu utan stofnana. Það er mikil skammsýni ef ekki verður reynt að finna peninga til að stofna þessa námsbraut eins og gert hafði verið ráð fyrir.

Eftir allar yfirlýsingar stjórnarliða í sambandi við samþykkt frv. um framhaldsskóla sem átti að stórefla alla menntun á þessu stigi í landinu með sérstakri áherslu þó á verkmenntun og nám á stuttum starfsbrautum, sem auðvitað var augljóst að mundi kosta mikið í útfærslu, vekur athygli að enn á að skera niður framlög til framhaldsskóla í landinu í heild. Í áliti sínu til fjárln. vakti menntmn. sérstaka athygli á stöðu nokkurra lítilla framhaldsskóla sem ekki varð annað séð af frv. eins og það leit út við 1. umr., en að ætlunin væri að leggja af. Það ber að fagna því að nú er gert ráð fyrir því við 2. umr. að lítils háttar aukið fjármagn mun koma til þessara skóla. Þeir hafa mjög sérstaka stöðu þar sem þeir starfa á fámennum svæðum og halda uppi almennu framhaldsskólanámi sem hlýtur alltaf að vera dýrara við slíkar aðstæður en menntaskólanám þar sem það kallar á aukinn fjölda námshópa þar sem nemendur eru á mjög mismunandi stigi. En allir eru þeir samt að læra sér til gagns og það vekur auðvitað spurningar þegar nú verið er að þrengja mjög að námi í áfangaskólum, sem er sú nýbreytni í skólastarfi á Íslandi sem vakið hefur athygli langt út fyrir landsteinana, hvernig á að koma við þeirri auknu áherslu á verknám og styttri námsbrautir sem hefur þó verið boðuð af yfirvöldum menntamála. Á sá valkostur ef til vill aðeins að vera fyrir hendi á þeim stöðum þar sem þéttbýlið er mest? Það er spurning hvort sú stefna verður ekki til að auka enn á ójafnvægi það í byggð landsins sem er þó í öðru orðinu verið að berjast gegn.

Ég vil einnig benda á þá miklu sérstöðu sem Framhaldsskólinn á Laugum hefur í íslenska framhaldsskólakerfinu sem eini heimavistarskólinn til sveita sem býður upp á almennt framhaldsskólanám, þó einnig hafi verið hægt að ljúka þar námi til stúdentsprófs. Þar er mjög hæft kennaralið og skólinn hefur náð góðum árangri og athygli hefur vakið hve góður andi ríkir meðal nemenda skólans. Jafnvel þeir nemendur sem hafa átt í erfiðleikum áður en þeir komu þangað til náms, blómstra á Laugum.

Ég tel mikils virði að slíkur valkostur verði áfram í framhaldsskólakerfinu og að ekki eigi að sníða fjárveitingar til skóla af þeirri þröngsýni að draga verði stórlega úr starfsemi þess eina hreina heimavistarskóla á framhaldsskólastigi sem býður upp á almennar námsbrautir.

[25:45]

Einnig fagna ég því að tekið hefur verið vel í ábendingar menntmn. varðandi hækkun á framlögum til Stofnunar Árna Magnússonar svo og að sérstök fjárveiting verður til ritakaupasjóðs háskólans og einnig veitt sérstakri upphæð til að efla fjarnám við Kennaraháskóla Íslands, en fjarnám er orðinn mjög veigamikill þáttur í kennaramenntun á Íslandi. Það gefur fólki sem býr á þeim svæðum sem líða fyrir kennaraskort möguleika á að afla sér staðgóðrar kennaramenntunar gegnum internetið. Ég hef sjálf átt þess kost að fylgjast með námi nokkurra sem hafa stundað kennaranám á þennan hátt og ég er þess fullviss að þar er í engu slegið af kröfum nema síður sé og tel ég að þetta sé mjög vænlegur kostur fyrir þá sem ekki geta stundað nám fjarri heimabyggð, t.d. af fjölskylduástæðum. En ég er jafnframt sannfærð um að slíkt nám sé aðeins á færi bestu námsmanna. Þar þarf svo sannarlega mikinn sjálfsaga og skipulag á hlutunum til að allt gangi fram samkvæmt áætlun.

En þó ég fagni að sjálfsögðu þeim atriðum sem fjárln. hefur komið til móts við ábendingar menntmn., þá verð ég þó að harma að ekki var tekið tillit til athugasemda minna, Svanfríðar Jónasdóttur og Guðnýjar Guðbjörnsdóttur um sérstaka gjaldtöku á nemendur framhaldsskóla vegna endurtekningar prófa. Ég undrast mjög þær hugmyndir hæstv. menntmrh. að hægt sé með slíkri gjaldtöku að ala nemendur upp þannig að færri hverfi frá námi en nú er án þess að klára sín próf. Brotthvarf nemenda í framhaldsskólum frá námi er vissulega mikið áhyggjuefni en ég tel fallskatt síst til þess líklegan að draga úr því. Þvert á móti er líklegt að þeir sem illa gengur í námi gefist fyrr upp ef þeir þurfa að fara að borga fyrir þau próf sem þeir falla á til viðbótar við þá niðurlægingu sem er því samfara að falla. Auk þess hafa verið lögfest skólagjöld í framhaldsskólum illu heilli svo hér er orðið umtalsverð útgjöld að ræða sem foreldrar þurfa oft á tíðum að reiða fram og fjárhagsstaða heimila er í mörgum tilfellum afar erfið eins og dæmin sanna.

Samkvæmt fjárlögum telja stjórnarliðar að fall muni verða mikið og almennt um land allt, eitt allsherjar bomsaraboms því þeir ætla að hafa út úr þessum lið tekjur upp á 32 millj. kr. Enn þá er þó mjög óljóst hvernig á að standa að þessari innheimtu og hafa ýmsir þungar áhyggjur af þessari skattheimtu og er ég í þeim hópi.

Mikil umræða fer fram þessa dagana vegna upplýsinga sem komu fram á Alþingi um beingreiðslur til bænda og fara ýmsir mikinn og sýnist að þarna sé hið argasta óréttlæti á ferð. Mér sýnist að í þessari gagnrýni sé oft lítt af setningi slegið og ekki tekið með inn í myndina að framlög til landbúnaðar hafa í raun farið lækkandi á undanförnum árum og munu samkvæmt búvörusamningi enn fara lækkandi. Það er ríkisstyrktur landbúnaður í einhverri mynd í öllum nálægum ríkjum og ekki óeðlilegt þar sem það er þjóðhagslega hagkvæmt að búa sem mest að sínu. Auðvitað hlýtur það að leiða til ófarnaðar ef við förum að flytja inn landbúnaðarvörur í miklum mæli og senda það fólk sem nú vinnur við þá atvinnugrein í stórum stíl á mölina, þá væntanlega á bætur af einhverju tagi. Mér finnst við yfirlestur þeirrar greinar í fjárlagafrv. sem fjallar um landbúnaðarmál vera ýmislegt sem þyrfti að styðja betur við ef eðlileg og þjóðhagslega hagstæð framþróun ætti að eiga sér stað. Vil ég þar nefna sérstaklega kornrækt, en ég tel að umtalsverður virðisauki í íslenskum landbúnaði liggi í því að bændum verði gert kleift að rækta fóðurkorn sjálfir, einkum nú þegar ræktað hefur verið nýtt íslenskt afbrigði sem þolir afburða vel íslenska veðráttu og ætti að vera hægt að rækta víða um land. Það mætti hugsa sér að styrkja samvinnufélög bænda til að kaupa sérhæfð tæki til akuryrkju sem mundi gera fleiri bændum mögulegt að lækka tilkostnað búanna og þar með vöruverð til muna. Einnig er nauðsynlegt að styrkja meira en gert hefur verið undanfarið endurræktun á túnum og athugandi væri hvort ríkisvaldið á ekki að styðja betur við þá bændur sem eru nú að reyna að aðlaga sig að kröfum sem gerðar eru til framleiðenda svonefndra lífrænna afurða. Það er dýrt átak sem nokkrir bændur eru að gera að eigin frumkvæði. Eftirspurn eftir slíkum vörum hefur farið mjög vaxandi í hinum vestræna heimi á undanförnum árum og fæst allt að 30% hærra verð fyrir afurðir sem þannig eru til komnar.

Í landbúnaðarkafla fjárlagafrv. kemur fram að framlag til Bændasamtakanna á að lækka um 20 millj. milli ára og áfram er nær lofað að draga úr stuðningi á næstu árum. Í þessari tölu felast einnig framlög til nautgripasæðinga sem hin ýmsu búnaðarsambönd hafa á sinni könnu og einnig búfjárræktarframlög sem hafa verið mönnum hvatning til að halda afurðaskýrslur um búfé sitt, en nú virðist eina framlagið til búfjárræktar vera 30 millj. kr. í stofnkostnað. Fróðlegt væri að vita í hvað sá peningur fer. Lækkun þessara liða er líkleg til að koma þar niður sem veikust er vörnin, þ.e. hjá búnaðarsamböndum sem standa þegar höllum fæti og svo að sjálfsögðu hjá bændunum á þeim sömu svæðum. Einnig kemur mér í hug að ákveðin svæði séu ekki sérlega vel í stakk búin til að mæta kröfum um samkeppni milli dýralækna sem boðað er að upp verði tekin. Ég tel að viss svæði á landinu verði seint eftirsótt fyrir sjálfstætt starfandi dýralækna.

Hv. félmn. skilaði tveimur álitum vegna þessa fjárlagafrv. og kom þar skýrt í ljós mismunandi lífsviðhorf þeirra sem eru þar félagshyggjumenn og hinna. Alþb., Alþfl. og Kvennalisti skiluðu séráliti og var þar gagnrýnd harðlega sú ráðstöfun að skerða framlög til Framkvæmdasjóðs fatlaðra þannig að ekki er lengur gert ráð fyrir að tekjur erfðafjársjóðs renni óskiptar til sjóðsins eins og lög gera ráð fyrir. Að vísu er ýmsum rekstrarliðum sem áður hafði verið komið yfir á sjóðinn létt af honum, en í staðinn er settur á hann sérstakur hattur við 165 millj. kr. og afgangurinn, 255 millj., látinn renna beint inn í ríkissjóð. Ég tel mjög varhugavert að þessi málaflokkur sé sviptur því að hafa sérmerktan tekjustofn. Með þessu móti liggur hann mun betur við hnífnum ef meiningin er að spara í ríkisútgjöldum. Þetta er viðkvæmur málaflokkur sem snertir oft það fólk sem stendur höllustum fæti í þjóðfélaginu og mikilvægt er að hann verði ekki skertur eftir stundarhagsmunum stjórnvalda.

Í áliti minni hlutans var einnig varað mjög við mikilli skerðingu ríkisins til Byggingarsjóðs verkamanna. Alvarleg staða blasir nú við þessum sjóði sem fer með félagslega hluta húsnæðiskerfisins og nýlegir útreikningar benda til að í sjóðinn vanti 4--5 milljarða kr. til að standa undir skuldbindingum og miðað við að útlánum sjóðsins yrði hætt yrði eigið fé sjóðsins uppurið um aldamót. Minni hluti félmn. mótmælti einnig harðlega þeim fyrirætlunum að flytja tvö verkefni, starfsmenntun í atvinnulífinu og atvinnumál kvenna yfir á Atvinnuleysistryggingasjóð sem fela í sér að nú á atvinnulífið að standa undir þessum verkefnum í stað þess að ríkisvaldið veiti styrki til menntunar og nýsköpunar. Þarna er verið að blanda saman alls óskyldum málum. Almenn starfsmenntun í atvinnulífinu er endurmenntun og símenntun fyrir vinnandi fólk. Það er rökleysa að flytja það verkefni yfir á stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs sem valinn er til að gegna óskyldu hlutverki.

Einnig vekur minni hluti félmn. athygli á að 20 millj. kr. framlag sem átti að vera til sambýlis fyrir geðfatlaða og var umsamið fimm ára átak virðist ekki vera inni í fjárlögunum, virðist hreinlega hafa gufað upp og er þar höggvið er hlífa skyldi því ekki standa neinir jafnhöllum fæti varðandi möguleika á vistun á sambýlum og geðfatlaðir og held ég að allir hljóti að viðurkenna það.

Þegar ég litast um í mínu kjördæmi finnst mér nokkuð fátt um fína drætti varðandi fjárveitinga til verkefna sem við blasir að eru mjög brýn. Má þar nefna að aðeins er veitt um 112 millj. kr. til hafnamála í kjördæminu og raunar eingöngu til að greiða gamlar skuldir. Ekki er veitt neinu fé til nýframkvæmda samkvæmt áætluninni og verður þó að telja að ýmis verkefni, eins og t.d. ný innsigling til Grindavíkur, geti ekki beðið öllu lengur áður en byggðin þar fer að bera skaða af því að nokkrir bátar í eigu Grindvíkinga, sem auðvitað fylgja þróuninni í stærð fiskiskipa, eru þegar hættir að geta landað í byggðarlaginu.

Það hefur verið mikið glaðst yfir samningi, þeim nýjasta, um byggingu D-álmu við Sjúkrahús Suðurnesja, en ekki er gert ráð fyrir að rekstrarfé sjúkrahússins sé aukið sem neinu nemur þó það sé skoðun hvers rekstrarráðgjafans á fætur öðrum sem ráðuneytið hefur sent til að rannsaka rekstur sjúkrahússins að það sé mjög skynsamlega rekið og farið hafi verið eftir öllum þeim tillögum til hagræðingar sem gerðar hafa verið. Eftir allar þær úttektir sem farið hafa fram hefði maður haldið að ráðuneytið sæi sóma sinn í að veita til sjúkrahússins því fé sem stæði undir þeirri þjónustu sem nú er veitt og hefur ekki annað heyrst en meiningin sé að veita áfram.

Einnig má minna á að miklir erfiðleikar voru í rekstri ýmissa dvalarheimila aldraðra í Reykjaneskjördæmi á liðnu ári þó allt hafi verið gert til að spara þar í rekstrinum og má nefna að hluta ársins þurfti að loka hjúkrunarplássum við Sunnuhlíð vegna mikils rekstrarvanda þó þörfin fyrir sjúkrarými væri vissulega mikil og er spurning hvort sú aukning um 5 millj. kr. sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. handa Sunnuhlíð muni duga til að vinna bug á þeim vanda.

Að lokum má benda á að allt of litlu fé er varið til heilsugæslunnar í Reykjaneskjördæmi sem og annars staðar víðast og má minna á að í nálægum löndum er efling heilsugæslu og heimilislækninga talinn lykillinn að sparnaði í heilbrigðiskerfinu. Hér á landi hafa menn ekki uppgötvað þau sannindi að því er virðist. Einnig má minna á viðbyggingu við Sólvang í Hafnarfirði sem er mjög brýnt að verði byrjað á sem fyrst. Þar er stoðþjónusta fyrir hendi og ýmsar dýrar einingar sem nýtast nýbyggingunni hafa þegar verið byggðar, svo sem lyftur, og fjöldi manns er á biðlista í mjög knýjandi þörf fyrir hjúkrunarpláss.

Að lokum vil ég minna á að aðkallandi er að leysa úr vandamálum daggjaldastofnunarinnar Reykjalundar sem eðli málsins samkvæmt er ekki inni á þessum fjárlögum sem sértakur liður, en það er þjóðfélaginu til háborinnar skammar hvernig sú stofnun hefur verið látin líða fyrir fjárskort árum saman. Þar er þó unnið eitt merkasta starf varðandi endurhæfingu sjúkra á landinu.