1996-12-14 01:57:59# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[25:57]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Umræðan er orðin löng og hefur hér brugðið fyrir góðum sprettum um landsins gagn og nauðsynjar, stundum farið á flugaskeiði en síðan farið fetið á köflum og allt þar á milli. Mörg sjónarmið koma fram eins og gengur. Margar óskir og kröfur eru gerðar og þannig hefur það verið undanfarna mánuði á vettvangi fjárln. sem hefur skoðað ótal erindi, vegið og metið. Niðurstaðan liggur nú fyrir og eru þó nokkur vandasöm málefni geymd til 3. umr. í næstu viku.

Í mörgu hefðum við viljað vera örlátari en það er gömul saga og ný þegar aðhalds þarf að gæta. Margt er það af góðum málum sem verðugt væri að styðja en ekki er hægt að taka.

Fjárlög hvers komandi árs eru afar mikilvæg þjóðinni. Bak við hverja tölu í fjárlögunum eru verðmæti og mestu verðmætin bak við tölurnar, upphæðirnar, er auðvitað fólkið sjálft. Þar eru lífshagsmunir, þar eru einnig óskir og vonir og þar eru einnig tilfinningar. Því er ekki hægt að líta svo á að vinna við fjárlagagerð sé þurr eða daufleg, öðru nær. En með breyttu vinnufyrirkomulagi mætti auka umræðu um tilgang og áherslur í þjóðfélaginu og ég hygg að það kunni að verða eitt brýnasta viðfangsefni okkar í þinginu þegar við ræðum um störf og starfshætti hins háa Alþingis. Alþingi og starf þess á að vera nærri fólkinu í landinu og beint samband á milli. Þar þarf líka að vera rúm fyrir skoðanaskipti í milli og tilfinningar eins og hv. þm. Ásta Þorsteinsdóttir lýsti hér eftir og fann ekki stað nema að einhverju verulega litlu leyti.

[26:00]

Ég vil annars gera að sérstöku umtalsefni orð hv. þm. Jóns Kristjánssonar, formanns fjárln., um skipulag og verklag hins háa Alþingis við fjárlagagerðina.

Í framsöguræðu við 2. umr. í morgun lýsti hann skoðun sinni og ég skildi orð formannsins svo að hann vildi virkja allt þingið fyrr og betur að fjárlagagerðinni þannig að allar fagnefndir þingsins fjölluðu um fjárlögin á fyrri stigum og þar með þær áherslur sem vera skulu eða vera skyldu í þjóðfélagsuppbyggingunni. Þannig mundi Alþingi allt fjalla um útgjaldaramma ríkisstjórnarinnar, fjárlaganefnd færi síðan yfir rammana og þá vinnu, rammarnir samþykktir af þinginu, svo kæmi að fagnefndunum að fylla þar inn í samkvæmt þeim forskriftum og takmörkunum sem fjárhagur ríkissjóðs og efnahagshorfurnar settu. Það mætti þannig gera áætlanir til lengri tíma og marka skýrari línur um það hvert við viljum að þjóðfélagið stefni og hafa meiri og vitsmunalegri áhrif þar á. Þetta tel ég afar mikilvægt og tel satt að segja að umræðan í þinginu mundi við slíkt færast á svolítið hærra plan. Fagnefndirnar hafa lagt fram sín álit og fylgt þeim eftir við fjárlaganefnd nú í haust. Við höfum fengið þaðan góðar ábendingar og tillögur sem að sjálfsögðu hafa fengið málefnalega umfjöllun í fjárln. Reynslan er góð og sjálfsagt að fela fagnefndum meira verkefni og hlutverk við þessa mikilvægu og jafnvel mikilvægustu vinnu þingsins. Eftir því sem ég kemst næst þyrfti þó að breyta þingsköpum Alþingis til að stíga þetta skref. Skýra yrði hlutverk og umboð fagnefndanna betur en hv. fjárln. yrði að sjálfsögðu að halda utan um þetta starf eftir sem áður.

Í þessu sambandi má nefna að líkast til verða fjárlögin fyrir árið 1998 bæði á greiðslu- og rekstrargrunni í stað eingöngu greiðslugrunni áður. Með því verða fleiri stofnanir í fjárlögunum, ekki síst lánastofnanir og er því ljóst að verkefni fjárlaganefndarinnar koma til með að aukast verulega. Þessi væntanlega breyting á verksviði fjárln. leiðir til þess að menn verða að skoða breytta verkaskiptingu þingnefndanna.

Herra forseti. Fjárlögin spegla að verulegu leyti áherslur ríkisins og vissulega er engin stórbreyting nú á milli ára. Við erum að fjalla um stórar tölur og litlar tölur og hefur vinna nefndarinnar verið háttbundin á þessu haustmissiri. Í umræðunni í dag hefur byggða- og búsetuþróun verið ofarlega í mörgum hv. þingmönnum og ég fagna því. Undanfarna áratugi hefur byggðaþróunin verið mjög á sama veg, eindregin. Reykjavík og nágrannabyggðir hafa tekið á móti verulegum hluta fólksfjölgunarinnar í landinu þótt einstaka þéttbýlisstaðir úti um landið hafi vissulega einnig vaxið. En þetta hefur kallað á skjót viðbrögð í uppbyggingu húsnæðis, aðstöðu og hvers kyns þjónustu í nýjum hverfum í ört vaxandi samfélögum. Sú þjónusta þarf að vera mikil og raunar væri nauðsynlegt að leggja meira fé til hennar en gert er og líka að gefa henni meiri og betri gaum. Þótt þokkalega hafi til tekist hafa aukaverkanir og vaxtarverkir fylgt svo skjótri uppbyggingu. Rótleysi hefur orðið, tómarúm sem fyllt hefur verið upp, því miður, með ýmissi óhollustu. Það þarf sterk bein til að þola góða daga, sagði gamla fólkið og það máltæki er í fullu gildi.

Herra forseti. Búsetuþróun í landinu er okkur hugleikin. Jöfn og stöðug þróun hlýtur að koma öllum best og að því þurfum við að stuðla og alveg sérstaklega að ýta ekki undir byggðaröskun með neinum aðgerðum í ríkisfjármálum. Í þessu efni þarf að bregðast meðvitað við. Byggðaþróun þarf að ganga fram samkvæmt vilja þjóðarinnar. Og hún þarf að gera upp við sig sinn vilja og þingið sérstaklega.

Ég hrökk svolítið við um daginn þegar ég áttaði mig á því að nýjasta hverfið í Reykjavík, Grafarvogurinn, er orðið jafnfjölmennt og allt Norðurl. v. Nú er það því miður svo að þjónusta er að minnka og skerðast víða á landsbyggðinni og það svo að ég tel að við séum komin niður að þeim mörkum að taka þurfi það mál til sérstakrar umræðu og yfirvegunar. Nú hljóta að verða skil, nú þarf að horfa á hlutina með opnum augum og huga. Þegar fólk ákveður búsetu sína er það atvinnan, heilsugæslan, menntunarkostirnir og félagsþjónustan sem allt hefur mikil áhrif. Ég yrði ekki hissa á því þótt sú umræða kæmi upp að tekið yrði tillit til þessa í skattheimtu ríkisins hvern kost fólk hefur á að nýta sér hina opinberu þjónustu. Á sá að borga jafnmikið fyrir sameiginlega þjónustu sem nýtur hennar í minna mæli og/eða verður að sækja hana í aðra landshluta? Þegar dregið er úr þjónustu á landsbyggð þarf fólk að sækja hana suður með verulegum tilkostnaði. Við því verður að bregðast í framtíðinni. Sá sem fær minni þjónustu á að borga minna. Það mætti skoða út frá hækkuðum þjónustugjöldum eða með því að jafna þannig að þeir sem hafa þjónustuna hjá sér borgi meira í formi tekjuskatts. Þetta eða áþekkt fyrirkomulag, ég hef ekki útfærsluna nákvæmlega hjá mér, er þekkt t.d. í Noregi þar sem þjóðin tók ákvörðun um að halda Norður-Noregi í byggð. Þar í landi hafa menn tekið upp sérstakar aðgerðir til þessa. Og ég tek undir með hv. þm. Guðmundi Lárussyni sem sagði eitthvað á þá leið áðan að það að blanda saman byggðastefnu og sauðfjárrækt væri í raun og veru tímaskekkja. Engin þjóð vill skaða sinn landbúnað og það getur ekki verið að það sé heldur vilji Íslendinga að flytja inn niðurgreiddar vörur frá öðrum þjóðum og styrkja þeirra landbúnað með því. Við verðum að hefja upp byggðaumræðuna með nýjum hætti allra landsmanna vegna. Fólksflutningur af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins blasir við á næstu árum í meira mæli en verið hefur nokkru sinni ef ekkert sérstakt kemur til. Hver er atvinnuuppbyggingin á landsbyggð? Hvar verða vaxtarbroddar atvinnulífsins, atvinnutækifærin á næstu árum? Stóriðjukostirnir sem eru fyrirhugaðir eru allir suðvestan lands. Stækkun álversins í Straumsvík er að verða lokið. Fram undan er að ljúka samningum við Columbia Ventures Corporation sem í umræðunni í dag var talað um að væri víst Mr. Kenneth Peterson, ef ég man nafnið rétt, allur og einn saman. Þá er möguleiki á stækkun Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, álveri Atlantal-samsteypunnar, jafnvel tveimur, og hugsanleg magnesíumverksmiðja á Reykjanesi. Allt hljómar þetta vafalaust sem fagnaðarerindi fyrir hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni.

Kostir þessir geta allir verið orðnir að veruleika um og upp úr aldamótum. Því er óhætt að segja að ekki sé kyrrstaða fram undan velji menn þessa leið og ef áfram er haldið og þess gætt að ganga vel og rétt frá öllum hlutum og öllum hnútum. Þar þarf líka að horfa til þess að virkjunarkostirnir verði endurmetnir enda er það raunar nauðsynlegt eftir að útilokað er að virkja frekar í Bjarnarflagi. Í virkjunarmálum þarf öryggi og hagkvæmni að ráða ferðinni og þar um hef ég ýmsar skoðanir sem ég gjarnan vildi viðra en geri við annað tækifæri en hér um miðja nótt. Um leið þarf að verða ákveðnari umræða um hvernig við viljum byggja landið og hvort við viljum byggja allt landið. Á það þarf að horfa með betur vakandi huga og með meiri meðvitund en hingað til hefur viljað bregða og bera við.

Herra forseti. Hagstjórnin á að fela í sér stöðugt og hátt atvinnustig, hallalaus fjárlög og jákvæðan viðskiptajöfnuð. Náist þessi markmið þarf varla nokkrar sértækar aðgerðir heldur verður mögulegt að láta framkvæmdirnar koma, gerast víða um landið. Hvers vegna var t.d. vöxtum stjórnað fyrir allnokkrum árum alltaf með handafli og alveg þangað til fyrir fáum árum? Það var vegna þess að hagstjórnin var ekki í lagi. Það var fjárlagahalli, (Gripið fram í.) það var viðskiptahalli, það var mikil lántaka ríkissjóðs á innlendum markaði og fleira mætti telja sem ég er viss um að gamlir þingmenn, eins og hv. þm. sem rak upp bofs, væri tilbúinn að segja frá og vitna um og jafnvel iðrast upp á síðkastið ef sá gállinn væri á honum. Öryggi og sígandi lukka er best, sífellt bættur hagur. Allar stórar sveiflur eru slæmar. Mikil byggðaröskun er líka slæm fyrir alla landsmenn. Ríkisreksturinn þarf að taka mið af því.