1996-12-14 02:12:29# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[26:12]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því í lok þessarar umræðu að hún hefur auðvitað staðið þó nokkurn tíma og hefur margt fróðlegt komið fram. Ég tók eftir því í fréttum Ríkisútvarpsins í dag að talað var um að í raun hafi verið óvenjulítill ágreiningur í þessari umræðu. Ég fór að velta því fyrir mér hvort eitthvað gæti verið til í þessu. Og ég held að það sé eitthvað til í þessu. Ég held að ástæðan sé fyrst og fremst sú að við höfum, eins og sakir standa, á mörgum sviðum og að ýmsu leyti tiltölulega meinlausa embættismannastjórn, tiltölulega hugmyndasnauða að flestu leyti, sem betur fer. Menn eru því að reka þetta frá degi til dags með tiltölulega hæverskum hætti má segja og hafa auk þess með sér þann mikla byr sem felst í hagvextinum þannig að það þarf ósköp lítið að gera mundu einhverjir orða það, vegna þess að hagvöxturinn leysir svo stóran hluta af þeim vandamálum sem eru uppi.

Nú er hins vegar hafin heilmikil umræða og kemur í ljós í tengslum við fjárlagafrv. að hér sé að bresta á mikil þensla og menn fara með stöðugleikabænina, eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson kallaði það fyrr í dag. Þenslan sé að verða nokkuð mikil, skuggalega mikil og menn bera fyrir sig þessar fyrirhuguðu framkvæmdir, m.a. á vegum Columbia Ventures. Ég tók eftir því í ræðu hv. formanns fjárln. að hann segir að líkur hafi aukist á því að það fyrirtæki komi hér. Ég kannast ekki við að þær hafi aukist. Ég tel að þær séu það sem kallað er á vondri nútímaíslensku ,,fifty-fifty`` og nokkuð óljóst sé hvorum megin hryggjar það mál lendir en það er í eðlilegri athugun þrátt fyrir ýmsar uppákomur eins og gengur. Þá fara menn út í það sem eðlilegt er að velta því fyrir sér. Hvað má til varnar verða vorum sóma í sambandi við alla þessa þenslu? Til hvaða ráða á að grípa í þeim efnum?

[26:15]

Ég var svo heppinn að ég þurfti að leysa hv. 4. þm. Norðurl. e. af í efh.- og viðskn. fyrir nokkrum dögum og þar var mikið verið að ræða þessa þenslu. Þar voru átta hagfræðingar. Þegar ég byrjaði í þinginu fyrr á öldinni voru yfirleitt allt of margir lögfræðingar á fundum, það var enginn lögfræðingur á þessum fundi og er nú komið svo að ég sakna þeirra af og til, en aftur á móti voru þarna mjög margir hagfræðingar, alveg ótrúlega margir hagfræðingar. Þeir voru komnir þarna frá ASÍ, VSÍ, Þjóðhagsstofnun og Seðlabanka og til viðbótar voru svo menn úr nefndinni sem eru hver öðrum sprenglærðari á þessum sviðum. Verður nú að segja eins og er að það fer um þá sem hafa kannski lítið lagt fyrir sig annað en það að hafa tekið allgott próf í máladeildarstærðfræði þegar þeir hitta þessa óskaplega lærðu menn.

Þeir ræddu mikið um þensluna og komust að þeirri niðurstöðu, tók ég eftir, að það mundu vera í grófum dráttum fjórar leiðir til að glíma við þessa ófreskju til að reyna að hafa hana undir. Fyrsta leiðin er sú að hækka vexti. Það gera þeir uppi í Seðlabanka víst. Önnur leiðin er sú að breyta genginu. Það er líka hægt að gera það. Þriðja leiðin er sú að hækka skatta og auka t.d. afganginn hjá ríkissjóði verulega og taka þannig inn peninga og það eru viss rök sem mæla með því að á svona tímum sé ríkissjóður rekinn með dálitlum afgangi. Það er alveg tvímælalaust þannig. Í fjórða lagi er það svo það sem kallað er varanlegur sparnaður af ýmsu tagi sem hægt er að grípa til. Þar eru menn með ýmsar hugmyndir, t.d. í fjárfestingum, en menn eru líka með hugmyndir eins og þær að taka á nýjan leik upp þessa svokölluðu húsnæðissparnaðarreikninga, sem ég tek eftir að flestallir þingmenn Sjálfstfl. ef ekki allir hafa flutt hérna frv. um og eru fínar tillögur að mínu mati. Ég teldi líka að menn ættu að velta fyrir sér í svona aðstæðum að búa til svipaða hugsun fyrir það sem ég kalla lífeyrissparnaðarreikninga til viðbótar við hinn bundna sparnað sem er í lífeyrissjóðunum og menn eru að tala um að hækka núna mjög verulega. Ég tel að allt þetta komi til greina. Í rauninni sé það þannig að til að hafa undir þessa skepnu, þessa þenslu, þá sé best að grípa til fjölþættra aðgerða og helst allra þeirra sem hér hafa verið nefndar með mismunandi hætti eftir því sem aðstæður leyfa.

Síðan koma upp þær hugmyndir að það þurfi sennilega að taka á þessu með því að skera niður, sem er partur af hinum hugmyndunum að nokkru leyti, t.d hugmyndinni um það að skila ríkissjóði með afgangi, hún er að nokkru leyti framkvæmd með því að skera niður. Þá náttúrlega er spurning alltaf sú: Hvar á að skera niður? Ég tek eftir því að þar eru menn helst uppi með það sem er verið að framkvæma. Það er svo sem ekkert verið að framkvæma í landinu, því miður. Það er alveg hætt að byggja heilbrigðisstofnanir, má heita, en það er verið að leggja eitthvað af vegarspottum enn þá og það er verið að byggja skóla. Það er það eina sem verið er að gera í landinu og ef á að spara eitthvað eða skera niður, þá er ekkert annað að skera niður heldur en vegi og skóla að því er framkvæmdir varðar. Og hvað eru nú vegir og skólar? Þeir eru framtíðin. Það segja nefnilega þessir hagvaxtarsérfræðingar líka allir átta og fleiri sennilega, að það sé nefnilega framtíðin að fjárfesta í menntun, rannsóknum og samgöngum til þess að byggja upp hagvöxt framtíðarinnar. En menn segja á móti: Það er svo voðalegt að fá þessa þenslu yfir sig að það getur borgað sig að fórna þessu um skeið vegna þess hve þenslan gæti verið erfið fyrir okkur og þess vegna geti verið réttlætanlegt að skera þessa hluti niður, þ.e. vegina og skólana.

En mönnum dettur aldrei í hug hinn möguleikinn sem er sá að velta því fyrir sér hvort það er endilega skynsamlegt að taka við fyrirtækjum eins og Columbia Ventures Corporation í aðstæðum eins og eru núna. Menn eru algerlega hættir að velta fyrir sér þeim möguleika að það geti verið skynsamlegt að forgangsraða stóriðjufjárfestingum. En svo gæfusöm erum við um þessar mundir, ef gæfu skyldi kalla, sumir kalla það gæfu, að ýmsir koma hér og segja: Við viljum stofna fyrirtæki. Eitt heitir Columbia Ventures. Eitt eru hugmyndir um stækkun verksmiðjunnar á Grundartanga. Eitt eru hugmyndir um magnesíumverksmiðju. Eitt eru hugmyndir t.d. um þetta Atlantal-verkefni og hvað eina. Það er augljóst mál að hagkerfið hjá okkur þolir ekki allt þetta nema með alveg sérstökum ráðstöfunum og hvaða ráðstöfunum? Það eru þær ráðstafanir að það yrði þá, ef í þessi verkefni yrði farið, að taka þessi verkefni út fyrir hagkerfið á meðan væri verið að framkvæma þau, þ.e. með því að flytja hingað inn fólk í stórum stíl til að vinna verkið. Það er það sem hinum vísu mönnum dettur í hug að gera þegar slíkt kæmi upp.

Ég held með öðrum orðum að þegar menn eru að tala um að skera niður vegi og skóla andspænis minni háttar fyrirtæki eins og Columbia Ventures er í raun og veru, þá séu menn kannski ofurlítið skammsýnir. Það er spurning hvort það er ekki tilraunarinnar virði að reyna að reikna þetta dæmi á fjögurra, fimm eða sex ára grundvelli en ekki bara eins fjárlagaárs. Þetta segi ég í fullri alvöru og mér finnst satt að segja að ýmsir þeir sem hafa komið að þessum málum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar hafi í raun og veru hugsað sem svo að þessi þensluhiti sem greip um sig um skeið hafi kannski náð því stigi að menn séu alveg með fullri meðvitund þó að hitinn sé dálítill og þess vegna vilji menn horfa á þetta í lengra samhengi.

Þetta var það almenna, hæstv. forseti, af því að það er nóg nóttin og hægt að tala mikið um það, en ég ætla ekki að tala meira um það að sinni því að það er út af fyrir sig ekki góður siður að halda mjög langa ræðu svona um hánótt þó að umræður séu oft góðar hér á nóttunni.

Ég ætla þá í öðru lagi, hæstv. forseti, að víkja að því að mér sýnist að það séu allmörg atriði sem vantar svör við í fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir núna. Það sem ég hef áhyggjur af og finnst óþægilegt í frv. og ég mundi hafa öðruvísi ef ég réði einhverju, eru t.d. eftirfarandi fjögur atriði:

Í fyrsta lagi ætla ég að nefna málefni fatlaðra. Ég met það mikils að ég sé að það á að taka í notkun sýnist mér þrjú eða fjögur sambýli fatlaðra á næsta ári. Það er skynsamlegt, en ég tel að niðurskurðurinn á Framkvæmdasjóði fatlaðra sé allt of mikill. Ég held að þetta sé ekki skynsamlegt. Ég held að þarna séu menn að skera niður þannig að það muni koma okkur í koll síðar.

Í öðru lagi er það alveg öruggt mál að sjúkrahúsin í Reykjavík eru ekki nægilega afgreidd í fjárlagafrv. eins og það lítur út, það er alveg öruggt mál. Ég held líka, hæstv. forseti, að það hafi ekki verið teknar viðeigandi og nauðsynlegar og óhjákvæmilegar og óþægilegar ákvarðanir sem þarf til þess að ná niður kostnaði á landsbyggðarsjúkrahúsunum um 160 millj. Ég held að það sé ekki raunhæft að gera ráð fyrir því að menn geti náð því niður með þeim hætti sem gert er ráð fyrir að því er varðar landsbyggðarsjúkrahúsin. Við því vil ég vara að menn fari aftur inn í nýtt fjárlagaár með þessi mál í uppnámi því að það er vont að skera í heilbrigðismálum en það versta er óvissan, bæði fyrir fólkið og stofnanirnar og það þekkjum við frá undanförnum árum.

Þriðja atriðið sem mér finnst óljóst í dæminu enn þá er Lánasjóður ísl. námsmanna. Það er alveg augljóst mál að 100 millj. duga ekki til að taka upp samtímagreiðslur vegna þess að samtímagreiðslur þýða tilflutning á fjármunum. Þess vegna hlýtur að verða meiri hækkun en þetta á fjárlögum á rekstrargrunni ef það á að takast að afgreiða Lánasjóð ísl. námsmanna með þeim hætti sem maður hefur heyrt að eigi að gera. Við þessu hef ég ekki fengið viðhlítandi svör þó að það hafi verið ágæt svör í sjálfu sér sem ég fékk í dag um þetta mál hjá hv. 2. þm. Vesturl.

Í fjórða lagi er það slæmt mál að mínu mati í fjárlagafrv. tengingin á bótum almannatrygginga og atvinnuleysisbótum við verðlag. Ég hefði viljað hafa það inni. Þar er auðvitað um að ræða pólitískan ágreining. Ég held að það sé rétt að líta þannig á, en þar er ég sem sagt í grundvallaratriðum ósammála hæstv. ríkisstjórn og hv. meiri hluta.

Að lokum ætla ég svo að segja það í sambandi við frv. eins og það lítur út að mér líst ekki á hugmyndir um lagfæringar á heilbrrn. Ég held að þetta sé sama biksið og stundum áður. Ég las með athygli það sem segir í ræðu hv. formanns fjárln. um það mál, bæði um lækkun lyfjaútgjaldanna, tilfærslu álagningarinnar og svo tilfærslu af fjárlagaliðnum Sjúkratryggingar yfir á nýjan fjárlagalið 207, 970 millj., það eigi að taka upp verktakagreiðslur og annað eftir því. Ég næ satt að segja ekki utan um þetta. Ég hef enga trú á þessu eins og það er. Það var aftur og aftur þannig á síðasta kjörtímabili hjá þáv. heilbrrh. að það var alltaf verið með einhverjar æfingar af þessu tagi. Ef menn lesa saman fjárlagafrv. og ríkisreikninginn frá 1991, þá munu menn sjá að þetta sull eins og það hefur verið sett upp hefur alltaf mistekist. Þarna er að vísu gert ráð fyrir því, sem er mjög ljót tillaga, að hækka hlut sjúklinga í lyfjum upp í 40% sýnist mér frá því sem það er núna. Ég er alveg viss um að ef það verður gert, þá mun það út af fyrir sig skila fjármunum vegna þess að almenningur neyðist til að borga. En hinar breytingarnar sem þarna á að gera hef ég enga trú á að skili sér. Þess vegna held ég að fjárlagafrv. eins og það er núna sé með talsverðu gati, það sé talsvert óljóst hvernig það lendir, það séu nokkuð mörg spurningarmerki í dæminu enn þá. Út af fyrir sig er það ekkert óeðlilegt miðað við stöðu málsins vegna þess að það er eftir að fá endanlega tekjuspá fyrir árið 1997 eins og ég skil þetta. Mér skilst að fjárlagafrv. sé miðað við um 2,5% í hagvexti eða breytingum á milli áranna 1996 og 1997. Menn eru að tala um að milli áranna 1997 og 1998 verði hagvöxturinn 4,4%. Ef það ætti við um árið 1997, þá þýðir það náttúrlega aukningu á þjóðarframleiðslu um 2% sem eru hvorki meira né minna en 9 milljarðar króna. Ríkið fær af 9 milljörðum 2,7 milljarða kr. ef ég kann að reikna rétt. Ég reikna þess vegna fastlega með því að það verði eitthvað bætt í tekjuspána þegar kemur að því að hún verður sýnd við 3. umr. Þar á móti kemur að menn eiga eftir að leysa ákveðin vandamál sem ég sé ekki betur en allir fjárlaganefndarmenn meiri hlutans viðurkenni og það eru t.d. sjúkrahúsin og ýmsir fleiri rekstrarliðir.

Ég ætla síðan ekki, hæstv. forseti, að fara mörgum orðum um þær tillögur sem við flytjum hérna. Við flytjum ekki mikið af tillögum, satt að segja óvenjulítið af tillögum. Ég hygg að tillögur okkar, þingflokks Alþb., séu óvenjulitlar. Við gerum það fyrst og fremst vegna þess að við tökum undir það sjónarmið að ríkissjóður á að vera í jafnvægi. Við teljum að vísu að það sé úrslitamál að ríkissjóður sinni því fólki sem honum er ætlað að sinna, t.d. öldruðum, öyrkjum, sjúklingum og námsmönnum, það er forgangsmál, en jafnframt leggjum við á það áherslu og teljum það ekki óyfirstíganlegt að ná þessum markmiðum samtímis því að ríkissjóður sé rekinn með jafnvægi. Það teljum við mjög mikilvægt atriði upp á framtíðina að menn hætti að safna skuldum eins og gert hefur verið á undanförnum árum.