1996-12-14 02:29:43# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[26:29]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að bæta miklu við þessa umræðu. Erindi mitt var í fyrsta lagi að þakka fyrir mjög góðar og málefnalegar umræður sem hafa verið um fjárlagafrv. í dag og það sem liðið er af nóttinni. Ég tel að hún hafi verið gagnleg og gagnleg fyrir okkur fjárlaganefndarmenn sem eigum eftir að vinna áfram við frv. þangað til það kemur til 3. umr. Ég vil aðeins drepa á örfá atriði sem hafa komið fram í umræðunni.

Hv. 9. þm. Reykv., Ásta Þorsteinsdóttir, talaði um fullyrðingar um sjálfvirka útgjaldaaukningu í heilbrigðismálum. Ég vil taka það fram að það er kannski svolítill ruglingur í umræðunni um þetta atriði að sjálfvirk útgjaldaaukning í heilbrigðismálum er ekki svo mjög mikil. Það er skilsmunur á heilbrigðis- og tryggingamálum að þessu leyti. Hins vegar er sú stefnumörkun uppi í sjúkrahúsarekstrinum af hálfu stjórnvalda að reyna að ná eins miklu út úr samvinnu sjúkrahúsanna í Reykjavík og einföldun í yfirstjórn og hægt er til þess að tryggja þjónustu þeirra til frambúðar.

Ég vil í öðru lagi þakka þeim fulltrúum Alþb. í umræðunni sem hafa talað um landbúnaðarmál. Mér þóttu það skynsamlegar ræður. Það er ljóst að það þarf eitthvað að samræma sjónarmiðin í landbúnaðarmálum í hinum nýja jafnaðarmannaflokki ef hann verður að veruleika. Ég hallast frekar að þeim ræðumönnum Alþb. sem hafa talað hér en ræðumönnum Alþfl. sem hafa tjáð sig í þessari umræðu. Ég verð að segja það.

Það var einnig minnst á barnaspítala og heimildir í 6. gr. um barnaspítala. Ég vil geta þess vegna umræðna sem hafa verið um þetta mál að fyrir fjárln. liggur að fjalla um 6. gr. fyrir 3. umr. og þar á meðal tillögur í þessu efni og taka þær til meðferðar hver sem niðurstaðan verður. Það á eftir að ljúka afgreiðslu þeirra mála í nefndinni. Ég vil undirstrika það við þessa umræðu.

Hv. 8. þm. Reykv. sagði að hér væri dauflynd embættismannastjórn við völd og hagvöxturinn leysti vandamálin. Ég er ekki að gera lítið úr því að það er mikilvægt að hér er hagvöxtur á ný og það auðvitað léttir róðurinn í ýmsum málum. En það hefur áður verið hagvöxtur hér á landi og hann leysti ekki öll vandamál heldur leiddi hagvöxturinn stundum til verðbólgu og skapaði vandamál síðar og það er grundvallaratriði að koma í veg fyrir að svo fari nú. En mér heyrist á þessari umræðu að þrátt fyrir allt og þrátt fyrir misjafnar áherslur um ýmis málefni eins og gengur, þá sé hér nokkuð góð samstaða um það að halda jafnvægi í ríkisfjármálum. Ég tek undir að það er hófsamlega mikið af breytingartillögum sem stjórnarandstaðan hefur flutt og það virðist vera víðtækara samkomulag um meginmarkmiðin en oft áður og það er vel. Hins vegar greinir menn á um áherslur, um t.d. hvaða áherslur á að leggja í erlendri fjárfestingu. Ég tel að við verðum að laða erlenda fjárfestingu til landsins ef við eigum að halda uppi lífskjörum og samkeppni í þeim samkeppnisheimi sem við lifum í, en auðvitað eru misjafnar áherslur í þessu efni.

Ég vil einnig taka fram, eins og hefur komið fram áður í umræðunni, að það á eftir að taka afstöðu til málefna sjúkrahúsanna, bæði í Reykjavík og úti á landsbyggðinni og auðvitað kunna þær niðurstöður að leiða til einhverra útgjalda. Ég vil ekkert segja um það á þessu stigi hve háar þær tölur verða, en það á eftir að strika undir það dæmi og við munum kappkosta í fjárln. að skyggnast sem best ofan í þau mál.

Hvað varðar lánasjóðinn, þá er ég ekki tilbúinn með endanleg svör við því hver fjárþörfin er. Það er mat ríkisstjórnarinnar að það samkomulag sem er í sjónmáli kalli á 100 millj. kr. fjárþörf til lánasjóðsins. Ég vil ekki segja um það á þessu stigi hvað lánasjóðurinn sjálfur getur borið af auknum útgjöldum, en þessi hækkun er tákn um að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir ætla sér að taka á þessum málum og leiða breytingar um reglur lánasjóðsins til lykta.

Hv. 8. þm. Reykv. ræddi um útfærslur á lækkun útgjalda í heilbrrn. og lyfjaútgjöldum sérstaklega í því sambandi. Það er alveg rétt að sparnaðaráform hafa ekki gengið eftir á undanförnum árum í því efni og það hefur verið viðvarandi vandamál. Kostnaðurinn fer mjög mikið upp einmitt í þessum málaflokki, í lyfjaútgjöldunum, m.a. vegna nýrra lyfja. Það er ein ástæðan. Hv. 8. þm. Reykv. efaðist um að þessi sparnaðaráform gengju eftir. Ég vona svo sannarlega að þau gangi eftir. Hins vegar vildi ég hlusta á alla sem kunna óbrigðul ráð til sparnaðar í þessum málaflokki. Ef menn kunna þau ráð sem alveg örugglega ganga eftir í öllum atriðum, þá vildi ég gjarnan hlusta á þau vegna þess að aukinn lyfjakostnaður er eitt af stærstu útgjaldavandamálum ríkissjóðs og hefur verið mörg undanfarin ár. Það þekkjum við sem höfum verið í þessari fjárlagavinnu um nokkurra ára skeið.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu öllu meira. Ég endurtek þakkir fyrir málefnalega og góða umræðu um þann hluta fjárlagavinnunnar sem lokið er. Fjárlaganefnd mun taka til óspilltra málanna að ljúka málum fyrir 3. umr. sem þarf að fara fram í næstu viku.