Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 14:31:20 (2633)

1996-12-20 14:31:20# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[14:31]

Frsm. minni hluta fjárln. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Það má nú margt um þetta frv. segja. Fyrst kannski það sem ég hóf mitt mál á við 2. umr., þ.e. að mér finnst að það eigi að vera skylda hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar að vera við umræðuna. Þeir þurfa ekki endilega að vera við til að hlusta á mig en þegar talsmenn meiri og minni hluta flytja sitt mál þá finnst mér eðlileg krafa að hæstv. ráðherrar séu við. En ég ítreka að ég geri ekki sérstaka kröfu um að þeir séu hér til að hlusta á mál mitt nú. Þeir ráða því.

Herra forseti. Það má margt segja um þetta frv. til fjárlaga fyrir árið 1997 sem hér er til umræðu. Ef til vill er það fyrst að þetta er hálfgert gabb, að minnsta kosti að sumu leyti. Vegáætlunin er ófrágengin. Hún verður til afgreiðslu í febrúar, mars. Flugáætlun er ófrágengin. Hún verður til afgreiðslu í febrúar, mars.

Andþensluaðgerðir ríkisstjórnar hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar eru vægast sagt hlægilegar. Þær eru ekki einu sinni ægilegar. Þær eru bara hlægilegar. Hvaða áhrif halda menn að það hafi á þenslu að hætta við framkvæmdir í nágrenni Reykjavíkur upp á heilar 69 millj. kr. vegna vegtæknilegra aðgerða við Mosfellsbæ? Það getur verið að það hvarfli að manni að það sé kannski tengt því að Sjálfstfl. missti meiri hluta sinn á þeim bæ.

Frestun framkvæmda í Ártúnsbrekku upp á 108 millj. kr. Ætli hæstv. forsrh. hefði ekki brölt eitthvað í búri sínu hefði hann verið borgarstjóri í Reykjavík og til slíkra aðgerða hefði verið gripið á þeim tíma. Ég er þess fullviss að allt stuttbuxnaliðið hefði verið komið í herferð við þær aðstæður til að fá fram framkvæmdirnar.

Ég er hræddur um að menn hafi ekki velt því fyrir sér að tjón í umferðinni, þ.e. manntjón og eignatjón er talið nema 14--16 milljörðum kr. Hvaða áhrif skyldi svo gífurlegt tjón hafa á þensluna í landinu? Hafa menn leitt hugann að því? Ætli það sé ekki óhætt að meta það svo að tjón vegna vegtæknilegra galla í og við Reykjavík nemi að minnsta kosti 3--4 milljörðum kr.? Hvað segir það okkur? Ég segi að mitt mat er það að þessi frestun framkvæmda er afspyrnuvitlaus. Mín ályktun er sú að frestun framkvæmda leiði til þenslu vegna tjóna. Ég hygg að tryggingafræðilegt mat þurfi að liggja fyrir til að unnt sé að sanna þessa kenningu sem ég set hér fram. Það er reyndar undarlegt að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, hæstv. forsrh., skuli vera að baslast við þenslu sem engin verður miðað við forsendur sem hæstv. ríkisstjórn gengur út frá.

Herra forseti. Vinnubrögð fjárln. hafa verið góð að mínu mati. En það er öfugt við það sem má segja um hæstv. ríkisstjórn. Ríkisstjórnin hæstv. vaknaði klukkan kortér fyrir tólf og vildi þá færa klukkuna aftur á bak og hefja störf við það sem þeir áttu ljúka við og vinna í september. Staðreyndin er reyndar sú að þeir segja að ekkert hafi breyst varðandi forsendur fjárlaga frá þeim tíma en það kemur margsinnis fram í gögnum sem ríkisstjórnin notar sem forsendu, að hvorki er tekið tillit til þess að líkur eru á byggingu álvers á Grundartanga og né líkur á stækkun Járnblendiverksmiðjunnar.

Herra forseti. Þótt formlegur ágreiningur milli meiri og minni hluta sé áberandi í málaflokkum sem lúta að menntamálum, heilbrigðismálum og málefnum fatlaðra þá hefur samvinnan verið góð. Ég vil ítreka þær þakkir sem ég viðhafði við 2. umr. til meiri hluta nefndarinnar, til þeirra sem unnu með mér í minni hlutanum og síðan til alls þess fjölda sem kom og lagði hönd á plóginn við vinnuna.

Ég sé enn ástæðu til að ítreka þá skoðun mína að ég tel að unnt sé að setja fram skýrari fjárlagatillögur, aðgengilegri og skilvirkari. Ég legg áherslu á að framkvæmd fjárlaga, þ.e. ráðstöfun ráðuneyta samkvæmt samþykktu frv. þarf að vera gagnsæ og í einföldu kerfi þannig að hægt sé að yfirfara og skoða fjárráðstöfun svo oft sem menn vilja.

Ég er að tala um að hvert ráðuneyti þarf að vera rekið eins og ein eining eða eitt fyrirtæki með opnu kerfi sem veitir aðhald við ráðstöfun úthlutaðra fjármuna. Það verður að vera þannig að það sé aðgengi fyrir framkvæmdastjórann, þá á ég við hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. á hverjum tíma, til að fylgjast með ef það á að nást árangur við að reka fyrirtækið Ísland. Aðhaldsleysi birtist í nýlegri könnun um vitund starfsmanna ríkisins fyrir rekstri fyrirtækisins eða ,,ráðuneytisins hf``. Skortur á ábyrgðartilfinningu og aga er frá stjórnendum kominn og eftir höfðinu dansa limirnir.

Herra forseti. Tekjudreifing í þjóðfélaginu er ekki réttlát. Það er staðreynd að hlutur fjármagnsins hefur verið að aukast. Hlutur launþega í landinu hefur verið að minnka og launamismunurinn hefur verið að vaxa. Það er ótrúlegt, herra forseti, að fátækt fjölmargra á Íslandi einmitt núna á þessum tíma, um jólin, hefur leitt til þess að fjölmargir þurfa að leita matargjafa. Það eru meira að segja þúsundir Íslendinga sem þurfa að leita matargjafa á þessum tíma samkvæmt upplýsingum hjálparstofnana og ýmissa líknaraðila. Það hefur sífellt þurft að auka hjálparstarf vegna bágs ástands. Félagsleg hjálp sveitarfélaganna er orðin svo mikil að þeir fjármunir sem ætlaðir voru til slíkrar aðstoðar eru uppurnir hjá flestum sveitarfélögum. Herra forseti. Það er dapurlegt ástand.

Ég rifja það upp að á síðasta ári voru veittir 1,2 milljarðar kr. til beinnar félagslegrar hjálpar. Af hverju, herra forseti? Jú, vegna þess að það er fátækt í landinu. Það hefur ekki tekist að knýja fram hækkun lægstu launa. Ég er þeirrar skoðunar að hv. Alþingi beri að grípa inn í þessi mál með lagasetningu. Ég hef flutt frv. um 80 þús. kr. lágmarkslaun og ég held mig við það og ég miða það við að skattleysismörk ættu að vera 77.800 kr. í dag framreiknað frá 1984 ef sama viðmiðunartala væri notuð í dag og var þá. Þess vegna er flutt frv. til laga um 80 þús. kr. lágmarkslaun. Ísland er því miður eftirbátur viðmiðunarlandanna. Það hefur ekki tekist að knýja fram hækkun launa og það hefur komið berlega í ljós að lágmarkslaun á Íslandi eru verulega lægri en í nágrannalöndum okkar. Það hafa verið lagðar fram á Alþingi fyrirspurnir og tillögur sem ganga allar í þá átt að fá upplýsingar um stöðu fjölskyldunnar í samanburði við nágrannalöndin. Og það hefur verið spurt hversu miklum upphæðum er varið hjá einstaka sveitarfélögum til aðstoðar vegna afkomuvanda fjölskyldna. Ég sé mér ekki fært annað en að nota þetta tækifæri til að skora á aðila vinnumarkaðarins, til að skora á ríkisstjórn Íslands að ganga nú frá samningum út frá þeim forsendum sem ég hef verið að ræða um. Þá þarf ekki að grípa til þeirra neyðarráðstafana sem hér er rætt um, þá þarf fjöldi manna ekki að koma og biðja sér matargjafa eins og verið hefur.

Við athugun á fjárlögum 1984 --- það ár var síðast afgangur á rekstri ríkissjóðs --- kom í ljós að til heilbrigðis- og tryggingamála var varið 37% af útgjöldum fjárlaga. Í samanburði við fjárlagfrv. næsta árs, 1997, er þar fjárhlutfallið 41,6%. Þetta er ekki meiri aukning en búast má við og það kemur í rauninni á óvart hve lítil aukningin er á þessum tólf árum þegar þess er gætt að hluti af henni eða ef til vill öll aukningin er vegna félagslega þáttarins. Það munar rúmlega 4 milljörðum sem útgjöldin eru hærri samkvæmt frv. 1997 en ef miðað væri við hlutfallið í fjárlögum árið 1984. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 1996 voru tekjur ríkissjóðs áætlaðar 120,9 milljarðar kr. Endurskoðuð tekjuáætlun gerir ráð fyrir að tekjurnar verði 127,2 milljarðar kr. Tekjur umfram áætlun nema rúmum 6,3 milljörðum kr. Frá árinu 1995 hafa tekjurnar aukist um tæpa 12,8 milljarða. Það er ljóst að þjóðhagsforsendur fyrir árið 1996 hafa reynst fjarri lagi. Fjárfestingin hefur aukist um 7,7 prósentustig umfram þjóðhagsforsendur fjárlaganna og einkaneyslan um 2,8 prósentustig. Þá er það reyndar staðreynd að ráðstöfunartekjur einstaklinga hafa aukist meira en áætlað var. Miðað við umsvif og væntingar sem hafa verið uppi í efnahagslífinu að undanförnu og með hliðsjón af því vanmati sem iðulega hefur verið í þjóðhagsforsendum fjárlaga samanber liðið ár eins og ég var hér að fara yfir, þá erum við sammála um það í minni hluta fjárln. að tekjur ríkissjóðs muni ekki þróast eins og gert er ráð fyrir í frv. og endurskoðaðri tekjuspá.

Minni hlutinn benti á og lagði fram rök fyrir því, studdi það með rökum, að tekjur ríkissjóðs vegna ársins 1997 væru vantaldar um 1,5--2 milljarða kr. Þrátt fyrir að endurskoðuð tekjuáætlun hafi hækkað tekjur um 600 millj. kr. þá telur minni hlutinn að það vanti enn að minnsta kosti 1,2 milljarða inn á tekjuhlið frv. En auðvitað, herra forseti, er gott að eiga borð fyrir báru. Ég tek undir það. En menn verða að gæta að sér þegar þeir eru að reikna út frá einhverjum gefnum forsendum. Þá á ég fyrst og fremst við veltuskatta og þá er ég að tala um innflutnings- og vörugjöld og virðisaukaskatt sem hlýtur að skila meiri tekjum á árinu 1997 en árið 1996 vegna þess að á árinu 1996 er um svo mikinn innskatt að ræða vegna bygginga loðnuverksmiðja og fiskiðnaðarfyrirtækja í kringum landið. Árið 1997 mun verulega skilast inn virðisaukaskattur á móti.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara mjög mikið inn á það sem félagar mínir, hv. þm. Kristín Halldórsdóttir og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, hafa verið að ræða hér í morgun. Það er einungis til að tefja tímann og teygja á og ég sé ekki ástæðu til að vera að rekja þau mál. Mig langar þó aðeins að geta örfárra staðreynda sem liggja fyrir og varða sjúkrahúsin í Reykjavík og þenslustöðvunina sem menn hafa verið að velta fyrir sér. Það helsta sem gerðist í umfjöllun á milli umræðna var að Sjúkrahús Reykjavíkur fékk viðbótarúthlutun upp á 120 millj. kr. á fjárlögum. Sjúkrahús Reykjavíkur er með skuld upp á 190 millj. kr. frá fyrra ári. Rekstrarvandinn árið 1997 verður um 150 kr. Skuldir í árslok hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur verða um 341 millj. kr. Ríkisspítalarnir fá 84 millj. kr. í viðbótarframlag vegna fjárlaganna fyrir árið 1997 en skuld Ríkisspítalanna er upp á 260 millj. Rekstrarvandi Ríkisspítalanna er upp á 227 millj. Skuldin í árslok verður upp á 487 millj. Heildarskuldir þessara stofnana sem ég hef verið hér að ræða um munu verða upp á 828 millj. kr. Hvers vegna er ekki gert ráð fyrir að að minnsta kosti 500 millj. kr. af þessari upphæð sé ráðstafað til þessara stofnana á árinu? Þeim er gert að draga á eftir sér 300 millj. kr. hala og þau hafa kannski getu til þess í ljósi þess hve veltan er mikil, en ég held að vaxtavandinn sem þessar stofnanir muni búa við sé allt of mikill. Ég hef verið að tala um 1--1,3 milljarða sem vandinn í heilbrigðiskerfinu verður á árinu 1997. Ég er margbúinn að rekja þær staðreyndir og þau gögn sem ég legg fram. Þetta eru einungis gögn sem lögð hafa verið fyrir hv. fjárln. og ég styðst einvörðungu við þau. Þess vegna, herra forseti, vil ég ítreka að það sem ég sagði við 1. umr. fjárlaga í byrjun október er allt hárrétt. Það hefur ekki eitt einasta atriði brugðist. Það eina sem kannski má segja er að þær eru heldur ljótari hallatölur en ég þorði að fullyrða í upphafi.

Ég fór að nokkru yfir vegaframkvæmdamálin eða minnkun framkvæmda í Ártúnsbrekku upp á 108 millj. kr., í Mosfellsbæ upp á 69 millj. og vegna viðhalds Reykjanesbrautar upp á 10 millj. kr. og nokkur önnur atriði. Ég fullyrði að þessar aðgerðir eru mjög vafasamar. Þetta getur leitt til meiri þenslu vegna aukins kostnaðar við slys og tjón. Það er líka varhugavert.

Herra forseti. Ég á eftir að ræða um einn þátt sem ég tel að sé mjög alvarlegur í þessu fjárlagafrv. sem við höfum verið að ræða í dag. Það er varðandi notkun 6. greinar heimilda í fjárlögum. Ég tel orðið vafasamt hvernig þessi heimild er notuð. Menn eru farnir að gefa heimild til þess að fara með stórar fjárhæðir, eign ríkisins í hlutabréfum, til að stofna ja, önnur fyrirtæki og það aðeins í gegnum 6. greinar heimildir. Það er verið að óska eftir heimild til sölu á 25% í Sementsverksmiðjunni hf. svo dæmi sé nefnt. Ég tel, herra forseti, að ástæða sé til að skoða alvarlega hvernig menn nýta þessa grein og það sem mér finnst vera enn alvarlegra er að hvergi eru alveg klár fyrirmæli um hvernig á að nota 6. gr. Hvar eru takmarkanirnar? Það virðast ekki vera nein mörk, hvorki upp eða niður um hvað það er sem má fara inn á þessa grein. Það væri nærri því hægt að segja að stór hluti útgjalda fjárlagaársins gæti markast inn á 6. gr. Það tel ég að sé óeðlilegt. Ég tel að svona stór mál eins og þegar hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að selja Sementsverksmiðjuna að hluta, þá eigi það að gerast með frv. Ég tel að svo stór mál eins og þau sem ég nefndi áðan, þ.e. að færa til eignir ríkisins í fyrirtækjum, eigi að gerast með sérstöku frv. Og að almennt allar stórframkvæmdir eigi að fá þinglega meðferð, þá á ég við með sérstöku frv. í hverju tilviki. Ég tel að Alþingi verði að gæta að sjálfstæði sínu gagnvart framkvæmdarvaldinu í þessu máli. Það er t.d. ekki gert ráð fyrir að hafa samráð við fjárln. eða að afla samþykkis hennar um ýmsar svona ákvarðanir. Ég tel að það sé vafasamt að taka slíkar ákvarðanir í gegnum 6. gr. fjárlaga þar sem m.a. er verið að skuldbinda ríkissjóð til lengri tíma en sem nemur fjárlagaárinu.

Herra forseti. Þá er ég komin að máli sem mig langar gjarnan að víkja nokkrum orðum að. Það eru einkavæðingaráform hæstv. ríkisstjórnar, einkavæðingaráform Framsfl. og Sjálfstfl. Þá er ég að tala um og vík einmitt að þessari heimild í 6. gr. um að selja 25% í Sementsverksmiðjunni hf. Það er ástæða, herra forseti, að líta nokkur ár aftur í tímann. Árið 1993 var Sementsverksmiðjan ,,háeffuð`` eins og þekktur þingmaður hefur kallað það þegar fyrirtæki eru gerð að hlutafélagi. Það er hollt að minnast þess hvernig menn hugsuðu og töluðu þá og ég vil með leyfi virðulegs forseta vitna í ræðu hæstv. núv. félmrh., Páls Péturssonar. Hann sagði:

,,Það er ógæfa Sementsverksmiðjunnar, ógæfa starfsmanna Sementsverksmiðjunnar, ógæfa viðskiptamanna Sem\-ents\-verkmsiðjunnar og Akraneskaupstaðar að verksmiðjan hefur orðið fórnarlamb í trúarbragðakrossferð einkavæðingarmanna.``

Hæstv. félmrh., Páll Pétursson, sagði þessi orð og það var eðlilegt að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hrykki við. Þetta sagði Páll Pétursson á þessum tíma og svo í framhaldi af þessu með leyfi forseta:

,,Hver eru svo rökin fyrir því að einkavæða þessa blessaða Sementsverksmiðju? Að vísu verður að játa það að framtíð hennar er nokkuð óviss. Ef við verðum aðilar að Evrópsku efnahagssvæði þá kann að verða þungt fyrir fæti fyrir verksmiðjuna.``

Það er rétt, herra forseti, að leiða aðeins hugann að því hvað hefur gerst. Fyrirtækið var gert að sjálfstæðu hlutafélagi í eigu ríkisins. Og hvernig hefur fyrirtækið spjarað sig í öllum samdrættinum? Jú, fyrirtækið er að skila hagnaði ár eftir ár. Vissulega hefur verið tekið á í hagræðingu og sparnaði. En fyrirtækið er að skila örlitlum hagnaði og það er vel og þrátt fyrir það að við séum í Evrópska efnahagssvæðinu. Ég held áfram með leyfi forseta. Orð hæstv. félmrh., Páls Péturssonar, eru svohljóðandi:

,,Ég sé ekki betur en þeir sem hafa stjórnað verksmiðjunni, stjórn verksmiðjunnar, framkvæmdastjóri og starfsmenn eigi allt gott skilið.``

Þarna finnst honum óhæfa að vera með eitthvart skítkast í stjórn verksmiðjunnar og fyrrverandi stjórnir fyrir það að þar hafi verið einhverjir aumingjar og ekki stjórnað fyrirtækinu eðlilega. Hæstv. félmrh. segir:

,,Því er haldið fram að stjórnarformið verði eitthvað betra með því að breyta fyrirtækinu í hlutafélag. Ég tel að verið sé að ráðast á menn eins og vin okkar Friðjón Þórðarson, fyrrv. þingmann, sem sat lengi í stjórn fyrirtækisins. Ég tel að verið sé að ráðast á fyrrv. stjórnarmenn og reyndar núverandi stjórnarmenn fyrirtækisins og draga hæfileika þeirra í efa.``

Ég velti fyrir mér hvernig hæstv. félmrh. ætlar að greiða því atkvæði að selja þetta fyrirtæki, þetta hlutafélag á almennum markaði eða með forkaupsrétti starfsmanna upp að 25% og ég tala nú ekki um það mat sem menn ganga út frá, herra forseti. Það mat sem menn ganga út frá er mat upp á 740 millj. kr. Fyrirtæki sem veltir a.m.k. 700 millj. kr. á ári er metið eins og hálfur skuttogari. Og hvað ætlar svo hæstv. ríkisstjórn að fá út úr málunum? 140--170 millj. kr. ætlar hún að fá í kassann. Þetta eru smámunir. Skiptir engu máli. Þetta eru bara trúarbrögð. Ég vil, með leyfi forseta, vitna enn í ræðu hæstv. félmrh., Páls Péturssonar:

,,Einkavæðingarflipp ríkisstjórnarinnar gengur fyrst og fremst út á það að afhenda kolkrabbanum það sem fémætt er í eigu ríkisins eftir því sem menn geta komið því við fyrir lítið fé. Hér er um að ræða markaðsráðandi fyrirtæki sem má nánast kalla einokunarfyrirtæki og hefur skilað arði og hefur þjónað landsmönnum vel. Ég ansa því ekki að um sé að ræða einhverja skipulagsbreytingu til bóta að gera þetta fyrirtæki að hlutafélagi.``

Þar er ég hræddur um að hæstv. félmrh. hafi skjöplast alvarlega. Það eina sem hæstv. núv. félmrh. sagði þá til viðbótar var, með leyfi forseta:

,,Það eina sem gerist meðan hlutaféð er í eigu ríkisins er að það lýtur ekki þingkjörinni stjórn heldur verður ráðherra á hverjum tíma allsráðandi um hvernig stjórnin er skipuð. Ég geri ráð fyrir því að ef þetta frv. verður að lögum þá skipi hæstv. iðnrh. nýja stjórn, skipaða krötum og sjálfstæðismönnum. Ég reikna með því að hann taki einhverja sjálfstæðismenn í stjórnina en ég sé ekki að stjórnin batni við það, síður en svo.``

Það er gaman að vekja athygli á því hvernig stjórnin er skipuð og hvernig stjórnin var skipuð. Þetta var ekki svona, herra forseti.

Ég sé ástæðu til að vitna í fleiri ræður frá þessum tíma. Hæstv. iðnrh., forgöngumaðurinn í því að selja hluta úr þessu fyrirtæki, sagði á þessum tíma, með leyfi forseta, og var þá að tala fyrir hönd framsóknarmanna:

,,Við erum á móti því að það verði gert. [Þ.e. að selja fyrirtækið eða breyta því í hlutafélag.] Það getur vel komið til greina af okkar hálfu að breyta fyrirtækinu í hlutafélag en það einkavæðingaræði sem er á þessari ríkisstjórn verður til þess að það er ekki hægt að greiða atkvæði með frv. heldur verður að greiða atkvæði gegn því verði frávísunartillagan ekki samþykkt.``

Svona var nú Framsfl. þá. En það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan 1993. Nú er Framsfl. og hæstv. iðnrh. í forustuliðinu um að selja þetta fyrirtæki sem árið 1993 mátti ekki einu sinni gera að hlutafélagi sem hefur reynst vel að mínu mati þótt ég væri fullur efasemda. Ég studdi þessa aðgerð en var fullur efasemda og fékk þá fram hjá þáv. hv. formanni iðnn. loforð um að hann mundi aldrei standa að sölu hlutabréfa í þessu fyrirtæki. Sá maður er hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Hann gaf þá yfirlýsingu á fundi með starfsmönnum Sementsverksmiðjunnar að hann mundi aldrei standa að sölu hlutabréfa í þessu fyrirtæki.

Herra forseti. Ég má til með að vitna í ræðu hæstv. núv. heilbrrh. frá þessum tíma en hún segir, með leyfi forseta:

,,Ég tel hugmyndir um sölu þessa ágæta fyrirtækis algjöra tímaskekkju þar sem Sementsverksmiðjan er í eðli sínu einokunarfyrirtæki.``

Ég tek þessi orð bókstaflega. Þegar atkvæði verða greidd hér í kvöld eða á morgun um þetta frv. sem ber með sér í 6. gr. heimild til þess að selja 25% úr fyrirtækinu þá trúi ég því ekki að hæstv. heilbrrh. greiði því atkvæði sitt. Ég trúi því ekki og ég mun óska eftir nafnakalli og þá mun koma í ljós hverjir styðja þessi einkavæðingaráform þó ég noti ekki stærri orð en þau. Hæstv. heilbrrh. sagði á þessum tíma, með leyfi forseta:

,,Ég sé ekki almennilega kosti einkavæðingar þegar Sementsverksmiðjan er annars vegar.``

Hæstv. núv. heilbrrh. sagði einnig á þessum tíma, með leyfi forseta:

,,Ég vil geta þess í lokin að bæjarstjórn Akraness hefur margsinnis ályktað um þetta mál og telur eðlilegt að Sementsverksmiðja ríkisins sé rekin sem hlutafélag svo framarlega sem allt hlutafé er í eigu ríkissjóðs. Nú er deginum ljósara að aðalatriðið er að selja þetta fyrirtæki og þar af leiðandi er því miður ekki hægt að samþykkja þetta frv. um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins.``

Hver skyldi verða niðurstaðan úr atkvæðagreiðslu í kvöld þegar greidd verða atkvæði á hinu háa Alþingi um sölu hlutabréfa úr Sementsverksmiðjunni? Það verður fróðlegt, herra forseti, að sjá þá niðurstöðu.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til þess að fara miklu meira í þetta mál. Það hefur verið farið yfir helstu atriði úr minnihlutaáliti ásamt og með ýmsum athugasemdum sem fram hafa komið. Ég hef farið yfir 6. greinar heimildir sem ég tel að séu allt of rúmar og ég tel að það þurfi að setja mjög sterkar skorður við þessari notkun á þessum heimildum. Ég vil geta þess að ef svo fer að samþykkt verði á hinu háa Alþingi að selja þessa hluta þá mun ég leita eftir því með beiðni til hæstv. iðnrh. að þeir fjármunir sem þá komi inn renni til fyrirtækisins þannig að hægt sé að auka uppbyggingu í kringum þetta fyrirtæki, Sementsverksmiðjuna hf., eða þá ef þess er ekki kostur að þeir verði notaðir til uppbyggingar á Akranesi þar sem það er sannanlegt að Akraneskaupstaður hefur lagt til gífurlega fjármuni varðandi þetta fyrirtæki. Og það er ástæða til þess að velta því fyrir sér hvort það væri þá ekki sanngjarnt ef svo fer að farið verði að selja hluta úr fyrirtækinu að það renni þá til uppbyggingar einhvers konar atvinnustarfsemi sem ég tel að ætti að vera í tengslum við rekstur Sementsverksmiðjunnar hf.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu. Ég hef ekki haft uppi mikla gagnrýni aðra en þá að ég tel að tekjuforsendur séu rangar. Það mun þá koma í ljós á næsta ári hvort ég hef rétt fyrir mér eða minni hluti fjárln. varðandi þetta mál. Ég vona svo sannarlega að það verði borð fyrir báru. Ég vona svo sannarlega að ekki verði eytt um efni fram en ég vil samt að það sé hreint sjáanlegt. Það sem menn sjá fyrir það eiga þeir að nota. Það eiga þeir að setja inn. Ég er að benda á það sama og varðandi sjúkrahúsin hér í Reykjavík. Umfram þessar 300 milljónir sem þessir spítalar eiga að bera með sér þá er fyrirsjáanlegur halli upp á um það bil 530 milljónir og það tel ég að hefði átt að vera inni. Og það er borð fyrir báru, herra forseti, miðað við þær tekjuforsendur sem minni hlutinn hefur sýnt fram á og ekki hefur verið hrakið að er rétt.