1996-12-21 01:04:17# 121. lþ. 55.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., RG (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[25:04]

Rannveig Guðmundsdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við í þingflokki jafnaðarmanna styðjum byggingu barnaspítala og þess vegna höfum við flutt tillögu þar að lútandi við þessa fjárlagaafgreiðslu. Við höfum flutt brtt. við 4. gr. um að þar komi nýr liður til byggingar barnaspítala og ákveðin fjárhæð yrði sett þar inn. Sú tillaga hefur verið felld. Við 6. gr. var að finna ákvæði um að selja land í eigu Vífilsstaða. Við fluttum tillögu um að til viðbótar kæmi yfirlýsing um að andvirði sölu landsins yrði varið til byggingar barnaspítala. Nú hefur meiri hluti fjárln. sett fram ítarlegan texta um að selja hluta úr landi Vífilsstaðaspítala og verja andvirði sölunnar til uppbyggingar barnaspítala á Landspítalalóð. Það er nákvæmlega það sem við viljum að gerist og þess vegna dreg ég þá tillögu sem við höfum flutt til baka. Við munum styðja tillögu meiri hlutans og treysta því að nú verði farið í gang af krafti og að það muni ekki koma að sök þótt þann fjárlagalið sem við hefðum viljað sjá þarna inni sé ekki að finna í fjárlögum.