Réttindi sjúklinga

Mánudaginn 10. febrúar 1997, kl. 18:54:20 (3262)

1997-02-10 18:54:20# 121. lþ. 65.6 fundur 260. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[18:54]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessari umræðu verður nú frestað innan tíðar og ég á eftir að svara allmörgum þingmönnum sem hér hafa flutt mjög gott mál. Hér erum við að tala um réttarbætur fyrir sjúklinga og það er mikilvægt að menn ræði þær af mikilli einlægni, sem menn hafa gert, og bæti við það sem þeim finnst á vanta. Við erum að tala um rammalöggjöf, það er mikilvægt að menn átti sig á því.

Fram kom í máli hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur að það væri verið að vinna að málefnum geðsjúkra sérstaklega. Það er rétt að þann 10. október sl. var ákveðið að setja saman hóp heilbrigðisstarfsmanna, aðstandenda og geðsjúkra, til að bæta réttindi þeirra sérstaklega. Í því framhaldi spurði hv. þm.: Hvað með fanga? Í dag er það þannig að fangar eru ekki sjúkratryggðir. En það er unnið að því að allir fangar verði sjúkratryggðir áður en árið er liðið. Ég tel það mjög mikilvæga réttarbót fyrir fanga að vera sjúkratryggðir eins og aðrir Íslendingar.

Það kom líka fram í máli hv. þm. að inn í frv. vantaði ýmsa heilbrigðisstarfsmenn. Hún talaði um sálfræðinga, félagsráðgjafa, iðjuþjálfa o.fl. Þegar talað er um heilbrigðisstarfsmenn er t.d. átt við félagsráðgjafa sem starfa inni á heilbrigðisstofnunum. Og það er verið að auka félagsráðgjöf, sérstaklega fyrir börn. Það er mjög mikilvægt að það sé gert og þegar hefur verið veitt leyfi til þess.

Það er líka rétt sem kom fram í máli hv. þm. að ekki er nóg að setja reglur, það þarf líka að vera fjármagn. Þess vegna er unnið að því að byggja upp nýjan barnaspítala til að við getum fullnægt þeim kvöðum sem við erum hér að ákveða að setja.

Varðandi þá siðfræðilegu spurningu sem hv. þm. lagði fyrir mig, hvað er að deyja með reisn? Ég vil svara því í stuttu máli á þannig að allt sem í mannlegu valdi stendur sé gert til að sjúklinginum fái að líða sem best í því umhverfi sem hann óskar helst að vera í.

Ég verð, virðulegi forseti, að svara annarri spurningu um þá ábyrgð sem oft er sett á herðar aðstandendum varðandi það hvort halda eigi áfram meðferð. Það er ekki hægt að setja þá ábyrgð á herðar aðstandendum nema þeir fái allar þær upplýsingar sem þarf að gefa. Annars er ekki hægt að ætlast til þess að aðstandandi beri ábyrgð.