Fæðingarorlof

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 12:59:59 (4834)

1997-03-21 12:59:59# 121. lþ. 96.7 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[12:59]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi rétt foreldra til orlofs í veikindum barna þá svaraði ég því áðan í svari til hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur að í Tryggingastofnun er verið að vinna að endurskoðun á málefnum langveikra barna og þetta kemur þar inn í. Auðvitað er þetta líka samningsatriði. Varðandi nefndina sem var leyst upp og það sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir gerði að umtalsefni, að það hefði verið æskilegt að ná niðurstöðu í nefndinni, þá tek ég undir það. Nefndin var auðvitað sett á laggirnar til að ná niðurstöðu. En nefndin náði ekki niðurstöðu. Þrátt fyrir langa og mikla vinnu náðist ekki samkomulag þannig að þetta rann inn í samningana.

Varðandi önnur atriði sem hv. þm. hefur spurt hér um, þ.e. ef barn deyr eftir fæðingu, þá skerðist ekki réttur foreldra. Réttur foreldra er sá sami sem hér hefur verið lagður til í þessu frv.