Ferill 8. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 8 . mál.


8. Beiðni um skýrslu



frá dómsmálaráðherra um gjaldtöku við innheimtu vanskilaskulda.

Frá Sigríði Jóhannesdóttur, Bryndísi Hlöðversdóttur, Hjörleifi Guttormssyni,


Kristni H. Gunnarssyni, Margréti Frímannsdóttur, Ragnari Arnalds,


Steingrími J. Sigfússyni, Svavari Gestssyni og Ögmundi Jónassyni.



    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að dómsmálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um gjaldtöku lögmanna við innheimtu vanskilaskulda og tengdar aðfararaðgerðir hér á landi. Í skýrslunni komi fram samanburður á þessum þáttum hér og annars staðar á Norðurlöndum. Fram komi m.a. eftirfarandi:
    Er munur á því milli landa á hvaða stigi málsins innheimtustofnanir eins og bankar senda innheimtumál til lögfræðiskrifstofu?
    Er munur á gjaldtöku fyrir slíka innheimtu milli landa?
    Hefur þegar á heildina er litið orðið hækkun á þessari þjónustu lögmanna umfram almenna verðlagsþróun síðan bannað var að gefa út samræmda gjaldskrá?

Greinargerð.


    Á undanförnum árum hafa fjölmargir Íslendingar sem annars hafa reynt að standa í skilum með skuldbindingar sínar lent í vanskilum við innheimtustofnanir hreinlega vegna þess að skuldabyrðarnar uxu þeim yfir höfuð samfara breyttu atvinnuástandi. Oft endar þetta með því að lán „lenda í lögfræðingi“, eins og það er kallað, og bætist þá við skuldina með vöxtum og vaxtavöxtum óhæfilegur lögfræðikostnaður þar sem hvert bréf sem skrifað er, hvert nýtt stig í aðfararferlinu, leiðir til aukins kostnaðar. Almennum launamanni, sem hafði þó fyrir átt erfitt með að greiða skuldina, er þannig gert gersamlega ókleift að borga hana.
    Flutningsmenn beiðninnar hafa haft spurnir af mjög alvarlegum málum af þessu tagi og þætti fróðlegt að vita hvort þessi mikla gjaldtaka sem hér viðgengst tíðkast í sama mæli í öðrum löndum og hvort ef til vill er þar um eitthvert millistig að ræða í innheimtuaðgerðum af þessu tagi. Reyna t.d. sérstakar lögfræðideildir banka að aðstoða fólk við að koma málum í lag áður en til aðfarar að lögum kemur? Lögð er áhersla á að skýrslan verði rædd sem fyrst.