Ferill 13. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 13 . mál.


13. Beiðni um skýrslu



frá sjávarútvegsráðherra um stöðu og þróun bolfiskfrystingar í landi.

Frá Hjörleifi Guttormssyni, Bryndísi Hlöðversdóttur, Kristni H. Gunnarssyni,


Margréti Frímannsdóttur, Ragnari Arnalds, Sigríði Jóhannesdóttur,


Steingrími J. Sigfússyni, Svavari Gestssyni og Ögmundi Jónassyni.



    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að sjávarútvegsráðherra flytji Alþingi skýrslu um stöðu og horfur í úrvinnslu bolfisks í frystihúsum í landi. Í skýrslunni komi m.a. fram upplýsingar um eftirfarandi atriði:
    Hver er nú efnahagsleg afkoma bolfiskfrystingar í landi og til hvaða aðgerða hyggst ríkisstjórnin grípa á næstunni til að treysta rekstrarstöðu hennar?
    Er afkoman mismunandi eftir landshlutum (kjördæmum) og ef svo er, hverjar eru þá ástæður þess?
    Hversu margir hafa haft atvinnu við hefðbundna frystingu á bolfiski í landi undanfarin fimm ár í heild og flokkað eftir kjördæmum?
    Hvaða breyting hefur orðið á fjölda starfa við hefðbundna frystingu bolfisks það sem af er árinu 1996 og hverjar eru horfurnar á komandi vetri (1996–97) á landinu í heild og í helstu sjávarplássum?
    Hvaða þróun hefur orðið í frystingu bolfisks um borð í frystiskipum sl. tíu ár reiknað sem hlutfall bolfiskafla af heimamiðum og hvernig hafa starfsskilyrði frystingar í landi breyst á þessu tímabili samanborið við frystingu um borð í skipum?
    Hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar af hálfu stjórnvalda til að ýta undir aukna verðmætasköpun í úrvinnslu bolfisks í landi og búa fiskvinnslufólki viðunandi atvinnuöryggi?
    Þess er óskað að skýrslan verði tekin til umræðu á Alþingi þegar henni hefur verið dreift meðal þingmanna.

Greinargerð.


    Fram hefur komið af hálfu atvinnurekenda í fiskvinnslu að undanförnu að lélegur eða enginn rekstrargrundvöllur er fyrir hefðbundinni frystingu bolfisks í landi. Á nokkrum stöðum hefur fiskvinnslufólki verið sagt upp störfum og jafnvel boðað að ekki verði um endurráðningu þess að ræða. Á stöðum þar sem unnt er að hagnýta afla uppsjávarfiska einbeita fyrirtæki sér að úrvinnslu hans og mikið er um fjárfestingar í því skyni. Önnur svæði, t.d. Vestfirðir, hafa litla möguleika á hlutdeild í slíkri vinnslu. Í flestum sjávarplássum hefur frysting á bolfiski verið kjölfesta í atvinnulífi staðanna, ekki síst fyrir konur. Nú þegar hætta er á að slík starfsemi leggist af í frystihúsum víða um land getur afleiðingin orðið vaxandi atvinnuleysi og aukið óöryggi fjölda fólks sem byggt hefur afkomu sína á vinnu í frystihúsum.


Prentað upp.

    Brýnt er að fá yfirlit yfir stöðu þessara mála og þróunarhorfur varðandi frystingu bolfisks í landi. Ríkisstjórn og Alþingi hljóta að láta sig þessi mál varða og geta með ýmsum hætti beint og óbeint haft áhrif á rekstrarskilyrði og þróun þessarar mikilvægu greinar. Því óskar þingflokkur Alþýðubandalagsins eftir að sjávarútvegsráðherra afli gagna um málið og geri grein fyrir afstöðu ríkisstjórnarinnar í skýrslu til þingsins. Æskilegt er að slík skýrsla liggi sem fyrst fyrir og verði síðan rædd á Alþingi.