Ferill 22. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 22 . mál.


22. Beiðni um skýrslu



frá forsætisráðherra um samanburð á lífskjörum hérlendis og í Danmörku.

Frá Rannveigu Guðmundsdóttur, Svanfríði Jónasdóttur, Jóni Baldvini Hannibalssyni,


Jóhönnu Sigurðardóttur, Ágústi Einarssyni, Ástu R. Jóhannesdóttur,


Gísla S. Einarssyni, Guðmundi Árna Stefánssyni, Lúðvík Bergvinssyni,


Sighvati Björgvinssyni og Össuri Skarphéðinssyni.



    Með vísun til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að forsætisráðherra flytji Alþingi viðbótarskýrslu um samanburð á þróun ýmissa þátta lífskjara, skiptingu þjóðartekna og fleira.
    Í skýrslunni komi m.a. fram:
—    ítarlegri samanburður á verði matvara hérlendis og í Danmörku,
—    samanburður á samningsbundnum réttindum hér og í Danmörku,
—    ítarlegri samanburður á kostnaðarþáttum í heilsugæslu, svo sem lyfjakostnaði,
—    samanburður á skiptingu þjóðartekna til nokkurra ára annars vegar og skiptingu innbyrðis milli einstakra hópa launafólks hins vegar á Íslandi og í Danmörku,
—    hver er ástæða þess að danskir vinnuveitendur geta greitt hærri laun en íslenskir vinnuveitendur? Rétt er að athuga bæði framleiðni vinnu og nýtingu fjármagns í atvinnustarfseminni, þar með talið skilvirkni og kostnað íslenska og danska fjármagnsmarkaðarins fyrir atvinnulífið.

Greinargerð.


    Á síðasta löggjafarþingi lagði forsætisráðherra fram skýrslu um laun og lífskjör á Íslandi, í Danmörku og víðar. Þar komu fram fróðlegar upplýsingar um helstu þætti lífskjara hérlendis og gerð var tilraun til að varpa ljósi á sömu þætti í Danmörku. Samanburður þessara þátta gaf nokkra mynd af mismunandi lífskjörum í löndunum án þess að reynt væri að kafa dýpra í málið.
    Við þær umræður sem urðu er skýrslan var birt tilkynnti formaður þingflokks Alþýðuflokksins að farið yrði fram á viðbótarskýrslu frá forsætisráðherra um þetta mál strax við upphaf þinghalds nú í haust.
    Þótt skýrsla forsætisráðherra hafi á ýmsan hátt verið fróðleg og ítarlegar upplýsingar gefnar skorti tilfinnanlega á að reynt væri að finna orsakir þess mismunar lífskjara í löndunum sem greint er frá. Til þess að sú mikla vinna sem lögð var í skýrsluna komi að fullum notum er nauðsynlegt að þoka umræðunni úr hreinum samanburði yfir í greiningu á orsökum.
    Ljóst er að sumir liðir beiðninnar voru reifaðir lauslega í fyrrnefndri skýrslu, þótt umfjöllun um einstaka þætti hafi ekki verið fullnægjandi. Hér er því í nokkrum tilfellum verið að biðja um fyllri mynd fremur en nýjar upplýsingar. Gagnasöfnun ætti nú að vera mun auðveldari og byggja má að nokkru á gögnum sem þá var aflað. Kostnaður við skýrsluna ætti því ekki að vera óhóflegur.
    Óskað er eftir að skýrslugerðinni verði hraðað eftir föngum þannig að niðurstöður geti legið fyrir um næstkomandi áramót.