Ferill 33. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 33 . mál.


33. Tillaga til þingsályktunar



um aðgerðir til að afnema launamisrétti kynjanna.

Flm.: Kristín Ástgeirsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir,


Kristín Halldórsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa þegar í stað til aðgerða til að afnema launamisrétti kynjanna. Jafnframt verði gerð áætlun um ráðstafanir til að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði sem komi til framkvæmda í áföngum á næstu fjórum árum. Gripið verði til eftirfarandi aðgerða:
    Framfærslukostnaður einstaklinga verði skilgreindur.
    Lægstu laun verði hækkuð í áföngum og miðað við skilgreindan framfærslukostnað.
    Á grundvelli starfs þess hóps, sem lagt hefur fram tillögur um nýtt starfsmat, fari að loknu tilraunaverkefni fram nýtt og breytt starfsmat hjá ríki og sveitarfélögum sem tekur tillit til starfsreynslu og menntunar og mismunar ekki kynjunum.
    Í næstu kjarasamningum verði samið um að leggja til hliðar ákveðna upphæð, t.d. 1 milljarð kr., sem verði varið til að bæta lægstu laun hjá stéttum þar sem konur eru yfir 75% starfsmanna og starfsmat sýnir að um vanmat á störfum þeirra sé að ræða. Þessi aðgerð nái jafnt til almenna vinnumarkaðarins sem ríkis og sveitarfélaga.
    Launakerfi ríkisins verði stokkað upp í því skyni að afnema launamisrétti sem m.a. er falið í ýmiss konar aukagreiðslum, einfaldað og gert gagnsætt.
    Ákvæðum 3. gr. jafnréttislaganna verði fylgt eftir en hún kveður á um tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna.
    Fæðingarorlof verði lengt í tólf mánuði í áföngum og feðrum tryggður sjálfstæður réttur til þriggja mánaða orlofs.
    Vinnulöggjöfin og vinnuverndarlögin verði endurskoðuð, einkum með tilliti til réttinda og stöðu kvenna á vinnumarkaði.
    Viðurlög við brotum á jafnréttislöggjöfinni verði stórlega hert, svo og eftirlit með að henni sé framfylgt.
    Tryggingakerfið og lífeyris- og skattamál verði endurskoðuð til að jafna stöðu kynjanna.
    Komið verði á einsetnum skóla, skóladagur lengdur og sveitarfélögum tryggðir tekjustofnar til að grunnskólar geti starfað samkvæmt lögum.
    Áætlun verði gerð til tíu ára um að fullnægja eftirspurn eftir leikskólaplássum í samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga verði nýttur til aðstoðar þeim sveitarfélögum sem erfitt eiga með að standa við áætlunina.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var lögð fram á 120. löggjafarþingi en varð ekki útrædd.
    Fyrir síðustu kosningar tókst að koma launamálum kvenna á dagskrá og lýstu allir stjórnmálaflokkar yfir vilja sínum til að afnema það himinhrópandi launamisrétti kynjanna sem viðgengst hér á landi og var afhjúpað enn einu sinni í rannsókn sem gerð var fyrir Jafnréttisráð. Niðurstaða hennar var sú að launamunur milli kynjanna er verulegur og eykst því meiri menntun sem fólk hefur. Launamunur kynjanna hefur aukist frá árinu 1980 eins og fram kemur í bæklingi Hagstofunnar Konur og karlar (1994), svo og í skýrslu þeirri sem tekin var saman í tilefni af kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Beijing haustið 1995. Þessi þróun er ekki í samræmi við það sem gerst hefur meðal þeirra þjóða sem við berum okkur saman við þótt þar sé einnig verulegur launamunur milli kynja. Bent hefur verið á af hálfu nefndar Sameinuðu þjóðanna að launamisrétti kynjanna hér á landi jaðri við mannréttindabrot. Í ábendingum frá nefnd Sameinuðu þjóðanna sem fylgist með framkvæmd sáttmálans um afnám allrar mismununar gagnvart konum kemur fram hvatning til íslenskra stjórnvalda um „að halda áfram skilgreindum aðgerðum sínum varðandi launajöfnuð kynjanna“. (Sjá svar félagsmálaráðherra við fyrirspurn Kristínar Ástgeirsdóttur, þskj. 617 á 120. löggjafarþingi.) Þá kemur fram í athugasemdum nefndar Sameinuðu þjóðanna um framkvæmd Íslendinga á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, 24. lið: „Nefndin leggur til að viðeigandi ráðstafanir verði gerðar til að vinna gegn launamisrétti á milli karla og kvenna þar sem slíkt getur skaðað hagsmuni barna, einkum á heimilum sem einstæðar mæður veita forstöðu.“ (Sjá þskj. 617.) Jafnframt blasir við okkur sú staðreynd að laun fjölmennra kvennastétta, sem vinna mjög ábyrgðarmikil störf, eru skammarlega lág, enda ber mikið á óánægju þessara stétta svo sem sést hefur í verkföllum og vinnudeilum undanfarinna ára.
    Nú þegar betur árar í íslensku efnahagslífi er tækifæri til að taka á því óréttlæti sem í launamisréttinu felst og jafnframt að grípa til aðgerða sem bætt geta stöðu kvenna á vinnumarkaði og þar með fjölskyldnanna í landinu.
    Fyrst þarf að skilgreina framfærslukostnað einstaklinga þannig að ljóst sé hver lágmarkslaun verða að vera. Engin slík viðmiðun er til og mjög mismunandi við hvað er miðað þegar verið er að reikna fólki t.d. námslán, atvinnuleysisbætur eða semja um lægstu taxta.
    Lánasjóður íslenskra námsmanna skilgreinir framfærslukostnað einstaklinga í leiguhúsnæði 54.600 kr. á mánuði. Eigi námsmaðurinn eitt barn hækkar framfærslan í 79.170 kr. Atvinnuleysisbætur einstaklings á fullum bótum eru 52.728 kr. á mánuði. Ellilífeyrir og tekjutrygging nema 37.978 kr. á mánuði. Sextán ára Sóknarstúlka, sem hefur störf í eldhúsi á Landspítalanum, fær nú í byrjunarlaun 53.596 kr. Þrítug kona, sem vinnur við umönnun og hefur sótt eitt námskeið, fær í grunnlaun 64.226 kr. samkvæmt Sóknartaxta. Fyrir síðustu kosningar lét Kvennalistinn reikna út framfærslukostnað einstaklings eftir tilbúnu dæmi og varð niðurstaðan sú að hann yrði að hafa um 94.000 kr. á mánuði til ráðstöfunar eða um 121.500 kr. í tekjur á mánuði. Hver er framfærslukostnaður í raun? Skilgreina þarf hver hann er og niðurstaðan verður að liggja fyrir áður en gengið er í það verk að hækka lægstu laun og gera nauðsynlegar breytingar í skatta- og tryggingakerfinu.
    Næsta skref á að vera nýtt og breytt starfsmat sem aðrar þjóðir hafa beitt með góðum árangri til að draga úr launamisrétti og bæta kjör kvenna. Fyrrverandi félagsmálaráðherra, Rannveig Guðmundsdóttir, skipaði hóp sem falið var það hlutverk að safna upplýsingum um starfsmat og leggja fram tillögur um hvernig nýta mætti það til að draga úr launamisrétti. Núverandi launakerfi hjá ríki og sveitarfélögum byggjast á gömlu og úreltu starfsmati sem metur umönnun, uppeldi, þjónustu og ábyrgð á fólki mun minna en umsjón peninga og steinsteypu eins og sjá má á launum fjölmennra kvennastétta. Nú liggja tillögur hópsins fyrir og stendur til að gera tilraun hjá nokkrum stofnunum og fyrirtækjum, en að þeim loknum hlýtur að fara fram nýtt starfsmat hjá ríki og sveitarfélögum. Líklegt er að slík aðgerð hefði mikil áhrif á almennan vinnumarkað, en þar þarf ekki síður að taka til hendi.
    Mjög mikilvægt er að fylgja jafnréttislögunum eftir og tryggja að vinnuveitendur, hvort sem er á almennum vinnumarkaði eða hjá opinberum aðilum, framfylgi lögunum. Nýta þarf 3. gr. jafnréttislaganna markvisst og í mun ríkari mæli en nú er gert, en hún kveður á um tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna. Þá þarf að stórherða viðurlög við brotum á jafnréttislögunum en þau eru nú þverbrotin. Í löndum eins og Bandaríkjunum er fylgst grannt með því að stofnanir og fyrirtæki virði lög um jafnan rétt þegnanna, eftirlitsmenn eru sendir á vettvang og fyrirtæki lögsótt ef þau brjóta jafnréttislög.
    Til að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði þarf einnig að grípa til félagslegra aðgerða, svo sem lengingar fæðingarorlofs, endurskoðunar á tryggingakerfinu, svo og að taka á skatta- og lífeyrismálum í þeim tilgangi að jafna stöðu kynjanna. Því miður virðast allar hugmyndir stjórnvalda stefna í þveröfuga átt í sparnaðarskyni, en réttindamissi verður ekki tekið þegjandi og hljóðalaust. Kvennalistinn hefur lagt fram tillögur til breytinga á lögum um fæðingarorlof og eru þær samhljóða þessum tillögum. Þá þarf að vinna að endurbótum á skólakerfinu þannig að skólinn taki jafnt mið af þörfum barna sem vinnutíma foreldra þannig að börn fái fyrsta flokks menntun og umönnun. Fullnægja þarf eftirspurn eftir leikskólaplássum og tryggja að öll sveitarfélög geti boðið slíka þjónustu. Loks þarf að endurskoða alla vinnulöggjöfina með sérstöku tilliti til réttinda og stöðu kvenna á vinnumarkaði. Sú endurskoðun þarf að eiga sér stað í samvinnu við samtök launafólks og atvinnurekendur og tryggja verður að allar breytingar taki mið af þörfum kvenna ekki síður en karla.
    Afnám launamisréttis kynjanna er mannréttinda- og réttlætismál sem krefst tafarlausra aðgerða. Því er þessi tillaga flutt.