Ferill 35. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 35 . mál.


35. Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun á lögum um þjóðsöng Íslendinga.

Flm.: Unnur Stefánsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Magnús Stefánsson,


Lúðvík Bergvinsson, Kristín Ástgeirsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að endurskoða lög um þjóðsöng Íslendinga, nr. 7/1983. Meðal annars verði tekið til athugunar hvort rétt sé að taka upp annan þjóðsöng við hlið núverandi þjóðsöngs sem væri aðgengilegri í flutningi og hentaði betur til almennrar notkunar, svo sem í skólum, á íþróttakappleikjum og við önnur svipuð tækifæri.

Greinargerð.


    Lofsöngurinn „Ó, Guð vors lands“ var fyrst fluttur við hátíðarguðsþjónustu í Dómkirkjunni í Reykjavík 2. ágúst 1874 í minningu þúsund ára byggðar á Íslandi. Matthías Jochumsson orti ljóðið þegar hann dvaldist í Edinborg og London haustið og veturinn áður og Sveinbjörn Sveinbjörnsson samdi lagið síðla vetrar 1874. Það mun ekki hafa verið í huga höfundanna að þeir væru að semja þjóðsöng handa Íslendingum og það tók langan tíma fyrir „Ó, Guð vors lands“ að vinna sér sess sem þjóðsöngur.
    Á síðari hluta 19. aldar og fram á þessa öld litu margir á ljóð Bjarna Thorarensen við lag enska þjóðsöngsins, „Eldgamla Ísafold“, sem eins konar þjóðsöng Íslendinga. Þegar leið á 20. öldina þótti hins vegar ekki við hæfi að nota lag við þjóðsöng annars ríkis í slíkum tilgangi. „Ó, Guð vors lands“ vann sér með árunum sess í huga þjóðarinnar sem eitt helsta tákn íslensks þjóðernis.
    Íslenska ríkið eignaðist höfundarrétt að laginu við þjóðsönginn árið 1948 og að ljóðinu árið 1949. Alþingi samþykkti síðan árið 1983 lög um þjóðsöng Íslendinga þar sem segir í 1. gr.: „Þjóðsöngur Íslendinga er „Ó, Guð vors lands“, ljóð eftir Matthías Jochumsson og lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar.“
    Tæpast er nokkur ágreiningur um tign og fegurð íslenska þjóðsöngsins. Hitt er annað mál hvort „Ó, Guð vors lands“, sem er lofsöngur trúarlegs eðlis eins og nafnið ber með sér, getur að öllu leyti þjónað hlutverki þjóðsöngs við þær fjölbreytilegu aðstæður sem skapast geta á okkar tímum. Tilgangurinn með flutningi þessarar þingsályktunartillögu er ekki sá að „Ó, Guð vors lands“ verði aflagður sem þjóðsöngur Íslendinga heldur sá að athugað verði hvort rétt sé að taka upp við hlið núverandi þjóðsöngs annan söng sem betur hentar við ýmis minna hátíðleg tækifæri. Að margra dómi er það misnotkun á „Ó, Guð vors lands“ að flytja hann á íþróttakappleikjum og útisamkomum, oft af takmarkaðri getu og við ýmiss konar aðstæður. Heppilegra væri að nota við slíkar aðstæður söng sem aðgengilegri væri í flutningi en vísaði jafnframt til þjóðernisvitundar fólks. Til eru margir íslenskir söngvar sem gætu þjónað slíku hlutverki vel og hafa unnið sér sess í huga þjóðarinnar sem slíkir. Einnig kæmi til greina að hafa samkeppni á meðal ljóðskálda og tónskálda þjóðarinnar um nýjan þjóðsöng. Vel væri við hæfi að „vígja“ slíkan söng á aldamótaárinu 2000. Eftir sem áður mundi „Ó, Guð vors lands“ þjóna hlutverki sínu sem þjóðsöngur við hátíðlegustu tækifæri, trúarlegs og veraldlegs eðlis.
    Annað sem vert er að hafa í huga í þessu sambandi er að þjóðsöngurinn „Ó, Guð vors lands“ hefur þrátt fyrir háan aldur ekki orðið þjóðareign í þeim skilningi að fólk taki almennt undir þar sem hann er fluttur eða syngi hann við hátíðleg tækifæri og annars staðar þar sem menn vilja stilla saman strengi sína og skerpa þjóðernisvitundina líkt og tíðkast meðal annarra þjóða, t.d. frænda okkar annars staðar á Norðurlöndum. Til þess er lagið of erfitt í flutningi fyrir ósöngvant fólk. Til dæmis mun fátítt að skólabörn hér á landi syngi þjóðsönginn í almennum söng. Því þarf að gæta þess við val á nýjum þjóðsöng að hann geti orðið slík þjóðareign.